08.02.1982
Neðri deild: 38. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2273 í B-deild Alþingistíðinda. (1925)

172. mál, olíugjald til fiskiskipa

Frsm.1. minni hl. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Það verður ekki mikið um ræðuhöld af minni hálfu vegna þessa gamla kunningja sem enn kemur á borð okkar alþm. Olíugjaldinu hefur verið breytt oft. Það hafa verið sett svo mörg lög um olíugjald að ég nenni varla að telja þau, en það eru líklega um 10 lög eða svo sem ég er með hérna í höndunum þó að olíugjaldinu hafi verið komið fyrst á 1979, þá að tilhlutan þáv. sjútvrh. Kjartans Jóhannssonar. Síðan hefur olíugjaldið verið hækkað og lækkað til skiptis, eftir því hvort mönnum leist vel á verð á Rotterdam-markaði þann og þann daginn eða hvort það þurfti eitthvað að fikta við það vegna samninga, efnahagsráðstafana eða annarra slíkra vanabundinna verkefna.

Nál. meiri hl. n., sem er aðeins skipað þremur mönnum vegna þess að fáir virðast hafa áhuga á sjávarútvegsmálum í þinginu, er stutt. Það er á þskj. 312 og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin hefur rætt frv. á fundi sínum í dag og samþykkti að standa að afgreiðslu málsins.

Megn óánægja kom fram í nefndinni þar sem nefndarmönnum sýnist þeir standa frammi fyrir orðnum hlut. Matthías Bjarnason mun skila séráliti til að koma sínum áherslum til skila.

Karvel Pálmason, Halldór Blöndal og Sigurlaug Bjarnadóttir voru fjarstödd þegar frv. var afgreitt úr nefndinni.“

Herra forseti. Eins og kemur fram í þessu nál. er þar sagt að nefndin hafi samþykkt að standa að afgreiðslu málsins. Nú kemur það hins vegar á daginn, að nál. birtist hér á þskj. 319 frá 2. minni hl. sjútvn. þar sem segir undir lokin að hann muni ekki taka þátt í afgreiðslu málsins. Kann að vera rétt að þeir hafi ákveðið það þá, en öðruvísi skildi ég þetta og við aðrir nm. og þannig var þetta bókað í fundargerðarbók: láta koma fram hér sín sérálit þrátt fyrir það.

Það er nokkuð ljóst að málið hefur verið afgreitt áður en það er sýnt í Alþingi. Þetta er eitt aðalskilyrðið fyrir því, að það náðist lausn á fiskverðsmálinu nú í janúar. Þetta mál er því í raun og veru frágengið og til þess ætlast að Alþingi afgreiði það eins og það lítur út. Ef við ætlum að breyta þessu er ein aðalforsendan fyrir fiskverðsákvörðun og þar með lausn verkfallsins brostin, og við treystum okkur ekki, áreiðanlega enginn í nefndinni, til að fara að hrófla við því. En það sér auðvitað hver maður á hinu háa Alþingi að þetta er röng aðferð, að mál af þessu tagi skuli vera afgreitt úti í bæ, jafnvel þótt um merka menn kunni að vera að ræða sem þar standa að, eins og þá sem það gerðu. Það þarf ekki að nefna nein sérstök nöfn. Þetta vita allir. Málið var leyst opinberlega í Dagblaðinu og jafnvel í sjónvarpinu og við hv. alþm. vorum ekki spurðir um eitt eða neitt. Ég veit ekki til þess, að þeir hinir háu ráðh. úr ríkisstj. eða þeir aðrir aðilar, sem fjölluðu um þetta mál og afgreiddu áður en til þingsins kom, hafi spurt okkur um nokkurn skapaðan hlut. Ég tel rétt að það komi hér fram og enga ástæðu til að liggja á því. Þetta álít ég rangt. Við eigum ekki að vera hér í hinu háa Alþingi nein afgreiðslustofnun fyrir einhverja aðila úti í bæ, jafnvel þótt merkir væru eða séu, eftir því hvort menn vilja velja.

Sjávarútvegsnefndum á hinu háa Alþingi er auðvitað falið að afgreiða þessi mál og kanna, en við þá aðila var ekkert talað þegar þetta var til meðferðar, jafnvel þó að það sé ljóst að um margnefnt olíugjald til fiskiskipa eru mjög skiptar skoðanir og þessar skiptu skoðanir hafi komið hér fram margsinnis við allar þær umr. sem farið hafa fram vegna þessa máls æ ofan í æ og oft á ári.

Síðast þegar þetta mál var hér til meðferðar talaði hæstv. sjútvrh. fyrir því. Ég á ekki við í þetta skiptið, þegar verið er að breyta úr 7.5% í 7, heldur þegar var verið að hækka olíugjaldið upp í 7.5%. Þá talaði hann fyrir því máli að sjálfsögðu sem ráðh. þessa málaflokks. Enginn held ég að hafi tekið eftir öðru en sjútvrh. hafi þá mælt mjög hart á móti málinu, sem hann var að flytja sjálfur. Þetta er auðvitað staðfest í þingtíðindum. Þetta gerðum við einnig, ekki endilega vegna þess að olíugjald kunni ekki að vera nauðsynlegt, en form þessarar gjaldtöku tel ég rangt og hef alltaf talið.

Það kann að vera eðlilegt, að þegar olíuverð hækkar mjög skyndilega mjög mikið taki allir þátt í að greiða þetta gjald sem þennan atvinnuveg stunda, og það er meiningin með því að taka þetta gjald til skipta að létta undir með útgerðinni við kaup á ofsadýrri olíu. Þetta gátu allir skilið og flestir sættu sig við það í raun. En ég get ekki skilið að það hafi nokkurn tíma verið ætlunin að olíugjaldi yrði hagað þannig, að allmargir útgerðarmenn með viss veiðarfæri, t. d. net, gerðu út á frírri olíu. Fyrr má nú vera stuðningurinn en að menn geri út án þess að kosta nokkurri krónu til olíukaupa. Þetta er auðvitað öfugsnúið og þarf að laga.

Menn hafa krafist þess hér í langan tíma að fá lagfæringu gerða í þessum efnum, forminu yrði breytt, því að það vita allir að aldrei er hægt í svo marglitum og margbreytilegum atvinnuvegi við hinar ýmsu aðstæður að beita sömu prósentureglunni á alla, hvar sem þeir fiska, á hvernig skip sem þeir fiska, með hvernig veiðarfæri sem þeir eru o. s. frv. Sumir eyða ekki nema 5% af aflaverðmæti í olíukostnað eða minna. Aðrir fara upp í 25%. Sama olíugjald er greitt til allra.

Herra forseti. Eins og segir þarna í nál. meiri hl. n. teljum við í meiri hl. n. að við stöndum frammi fyrir orðnum hlut. (Gripið fram í.) Minni, segir skrifarinn. Við vorum fjórir á fundinum. Þrír af þeim skrifuðu undir þetta nál. Þó að ég sé farinn að ryðga svolítið í reikningi átti ég við það í 12 ár að kenna unglingum að reikna svolítið. Ég treysti því að þrír séu enn þá meiri hl. í nefnd sem telur fjóra menn. (Gripið fram í.) Já, þar kom endurskoðandinn upp í hv. 1. þm. Vestf., og er það gott að ég skuli hafa gefið honum tækifæri til að bregða einum brandara á sviðið. Ekki veitir af á síðustu og verstu tímum. Sannleikurinn er sá, að erfitt er að telja sjö menn í sjútvn. oft þegar fundir eru, og því miður vantar oftast allan Framsfl. þar eins og hann leggur sig, sjálfan flokk sjútvrh. En það er annað mál.— Þrír af fjórum, sem áttu þátt í afgreiðslu þessa máls, segja í sínu nál. að þeir líti svo á að málið sé frágengið og við séum með hendurnar bundnar. Við getum vel gert okkur grein fyrir afleiðingum þess ef við förum að hreyfa við þessu máli, og það skiljum við allir í öllum flokkum í nefndinni og þess vegna munum við standa að afgreiðslu málsins.

Ég vil vekja athygli á því, herra forseti, að nú þegar framsöguræðu er lokið, þá loksins kemur hæstv. sjútvrh. (Gripið fram í.) Mig grunar að það sé og verði ekki til góðs í framtíðinni í meðferð sjávarútvegsmála ef sjútvrh. hafa ekki meiri áhuga en þarna kemur fram. Kannske hefur hæstv. ráðh. engan áhuga á því sem Alþingi segir um málið.