27.10.1981
Sameinað þing: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í B-deild Alþingistíðinda. (193)

321. mál, húsnæðismál

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að víkja að orðum hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar áðan um „vofu húsnæðisleysisins“ sem vofi yfir fólki, en hann vitnaði þar í nýafstaðna umr. um þau mál, og leiðrétta nokkrar misfærslur í málflutningi þar sem aðallega hefur verið fjallað um húsnæðisástandið í Reykjavík.

Á tímabili í haust var það blásið upp í blöðum bæjarins að hundruð manna, einhvers staðar sá ég töluna 1600 fjölskyldur væru á götunni í Reykjavík. Nú brást borgarstjórn á þann veg við því, að gerð var skyndikönnun á fjölda þess fólks sem væri á götunni eða ætti í miklum húsnæðiserfiðleikum. Sú könnun liggur nú fyrir. Munu 200 aðilar hafa snúið sér til borgarverkfræðingsembættisins. Þar af eru 75 sem segja má að séu í húsnæðisvandræðum. Ég hygg að það sé hvorki meira né minna en verið hefur í Reykjavík alla tíð, vil ég segja, og miklu verra var það auðvitað á árum áður. Þessir 75 aðilar eru þeir sömu og hafa verið á biðlista hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar, og þegar er búið að leysa vanda nokkurra þeirra fjölskyldna.

Það er ósköp eðlilegt að Reykjavík standi frammi fyrir nokkrum húsnæðisvanda þar sem ekki hafa verið byggðar í Reykjavík leiguíbúðir síðan 1973. En nú er verið að leggja drög að 170 leiguíbúðum í Reykjavík og verið er að festa kaup á 20 tilbúnum íbúðum.

Ég vil að þetta komi fram svo að hv. þm. viti staðreyndir þessa máls, en trúi ekki hverju því sem kann að standa í dagblöðum bæjarins.

Varðandi Húsnæðisstofnun ríkisins vil ég segja þetta: Það er brýn nauðsyn, og ég vil beina því til hæstv. félmrh., að flýtt verði gerð reglugerðar um lán til dagvistarstofnana. Það er beðið eftir þeirri reglugerð og hefur verið til baga að hún skuli ekki þegar vera sett. Þá held ég að alveg nauðsynlegt sé að eyða í það fé að stofna stöðu eins til tveggja eftirlitsmanna. Það eru að því mikil brögð, sem við þekkjum mætavel hjá Félagsmálstofnun Reykjavíkurborgar, að íbúðir, sem hafa verið seldar og á að selja aftur, hafa staðið auðar allt of lengi. Margt af því fólki, sem við höfum verið í sem mestum vandræðum með hjá Reykjavíkurborg, er einmitt fólk sem er að biða eftir að fá slíkar íbúðir.

Annað er það sem einnig þarf að hafa eftirlit með og öllum er fullkunnugt um að viðgengst, en það er að þessar íbúðir, sem samfélagið hefur veitt verulega fyrirgreiðslu til byggingar á, eru leigðar út á venjulegum leigumarkaði fyrir okurfé. Það er auðvitað algerlega óviðunandi að það viðgangist.

Ég vildi aðeins koma þessum orðum að og leiðrétta þær fullyrðingar sem hafðar hafa verið í frammi um húsnæðisvandann í Reykjavík.