11.02.1982
Sameinað þing: 52. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2375 í B-deild Alþingistíðinda. (1998)

Umræður utan dagskrár

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. þykir sem hér fari nú fram umr. utan dagskrár af næsta litlu tilefni. Það skyldi þó aldrei vera að honum finnist tilefnið svo lítið vegna þess að nú hefur hann vondan málstað að verja? Hitt ber þó að viðurkenna, að hæstv. forsrh. er býsna lagið að verja vondan málstað. Ég hygg að hér sé þó talað af ærnu tilefni, þegar það gerist að út eru gefin brbl. og þjóðinni ekki um það tilkynnt. Vel má það rétt vera, sem hæstv. sjútvrh. segir hér, að ýmsir hagsmunaaðilar hafi um þetta vitað. Það er bara ekki nóg. Þjóðin á vissulega heimtingu á að vita þegar brbl. eru gefin út. Ég hygg að ég geti talað af nokkurri reynslu af störfum við fjölmiðla, eftir um það bil 16 ára störf við blöð og sjónvarp. Ég minnist þess ekki að út hafi verið gefin brbl. öðruvísi en að fréttatilkynningar hafi verið sendar fjölmiðlum. Og ég minnist þess ekki heldur, að fjölmiðlar hafi stungið slíkum tilkynningum undir stól, eins og hæstv. forsrh. sagði áðan. Það væri svo sem nógu fróðlegt að rannsaka hvort slíkt hafi gerst. Ég hygg að íslenskir fjölmiðlar séu þeirri ábyrgðartilfinningu gæddir að þeir stingi ekki slíkum fréttum undir stól. Hvaða ástæða ætti svo sem til þess að vera? Hér hefur verið staðið að málum með alveg einstæðum hætti og það er vissulega ástæða til að vekja athygli á því og það er vissulega ástæða til að áfellast ríkisstj. með hverjum hætti að þessu var staðið.

Til er nokkuð sem heitir upplýsingaskylda stjórnvalda. Þótt frumvörp um það efni hafi að vísu verið lögð fram hét á þingi og ekki náð fram að ganga er sú skylda auðvitað fyrir hendi í ríkum mæli. Stjórnvöldum ber að upplýsa þjóðina um stjórnvaldsathafnir, ég tala nú ekki um þegar brbl. eru gefin út.

Hæstv. forsrh. sagði áðan að allir fjölmiðlar fengju Stjórnartíðindi. Það má vel satt vera, en þó er ég ekki viss um að það sé algilt, því miður. Hins vegar nær birting í Stjórnartíðindum þótt það sé hin lögformlega birting laga, auðvitað ekki til almennings, og þess vegna eru gefnar út fréttatilkynningar sem fjölmiðlar þá birta. Það er svo sjálfsagður og eðlilegur háttur að um það ætti ekki að þurfa að hafa mörg orð. Almenningur á sinn rétt í þessu máli. Það er rétturinn til að vita hvað réttkjörin stjórnvöld eru að gera. Sá réttur er óvefengjanlegur. Fólk á rétt á að vita þegar ríkisstj. gefur út brbl.

Ríkisstj. hefur því brugðist skyldu sinni í þessu efni. En það sem verra er og mér þykir kannske öllu verst í þessu máli er sá valdhroki sem lýsir sér í því svari sem þingheimur hlýddi á áðan. Það hefði verið mennilegra af hæstv. forsrh. að viðurkenna að mistök hefðu átt sér stað við útgáfu þessara brbl. Þá hefði verið komið hreint fram og viðurkennd sú staðreynd sem fyrir liggur. Nei, það var ekki gert. Þess í stað var reynt að klóra í bakkann, lesið upp úr fréttatilkynningu frá Seðlabankanum sem snerti ekki þá útgáfu brbl. sem hér er verið að deila um.

Ég ítreka að hér hefur rangt verið staðið að málum. Almenningur á heimtingu á að vita þegar út eru gefin brbl., og þeirri vitneskju verður ekki betur komið til almennings með öðrum hætti en með því að gefa út fréttatilkynningar til birtingar í fjölmiðlum. Ég skora á hæstv. forsrh. að upplýsa hvort það hefur gerst, að fjölmiðlar hafi stungið fréttum um brbl. undir stól, ekki birt þær. Í öðru lagi væri fróðlegt að fá svar við því, hvort það hefur nokkurn tíma gerst, að út hafi verið gefin brbl. á s. l. 15–20 árum t. d. án þess að fréttatilkynning hafi jafnframt verið send fjölmiðlum. Ég hygg að þetta sé í fyrsta skipti sem slíkt hefur ekki verið gert.