16.02.1982
Sameinað þing: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2451 í B-deild Alþingistíðinda. (2075)

335. mál, rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil vekja sérstaka athygli á orðum hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar sem talaði áðan, formanns þingflokks Alþb., vegna þess að þar kom fram að mínu mati alger stefnubreyting í afstöðu Alþb. til þessara mála. Ég sé ekki betur en að eftir þá ræðu sé mikill meiri hluti hér á Alþingi Íslendinga fyrir því að gerbreyta afurðasölukerfinu og því margsamanreyrða kerfi sem við búum við í sambandi við afurðasölumál hér í landi. Hví þá ekki að drífa í því? Það virðist vera mikill meiri hluti fyrir því hér á þingi.

Hv. þm. Sverrir Hermannsson kemst oft skemmtilega að orði, talar um fávísar konur í ræðum sínum og gætir ekki jafnréttis í þeim efnum. Ég ætla þá að segja það, að hann kunni að hafa talað eins og fávís karl héðan úr stól, einfaldlega vegna þess að sex eða sjö manna nefnd kom ekki auga á það, hvar hægt væri að ná í þessa umræddu peninga til afurðalánanna. En kunni hann ráð við því innan úr Framkvæmdastofnun, þá yrði ég honum þakklátur fyrir að heyra það. Ef hann er í þessum efnum að tala um aukna peningaprentun eða eitthvað af þeim toga spunnið, þá væri gott að heyra það frá hv. þm.