16.02.1982
Sameinað þing: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2470 í B-deild Alþingistíðinda. (2099)

184. mál, ný samvinnufélagalög

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Ég flyt hér fsp. um hvað líði endurskoðun laga um samvinnufélög og samvinnusambönd, en 29. maí 1980 var samþykki svohljóðandi þál.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta í samráði við samvinnuhreyfinguna hefja undirbúning nýrrar löggjafar um samvinnufélög og samvinnusambönd.“

Ég hafði einhvern tíma áður flutt þáltill. um þetta efni og hún fékkst sem sagt samþykkt í maí 1980. Grg. með þessari þáltill. var örstutt og með leyfi forseta ætla ég að lesa hana hér upp:

„Tillaga þessi til þál. var flutt á síðasta þingi, en varð þá ekki útrædd og er því flutt að nýju. Í grg. með till. var þess getið, að ný hlutafélagalög hefðu verið sett, en síðan segir:

„Með þeirri löggjöf er lagður grunnur að öflugri og heilbrigðri starfrækslu hlutafélaga, en hlutafélagalögin frá 1921 voru að ýmsu leyti ófullkomin, eins og eðlilegt er. Sama er að segja um samvinnufélagalögin. Ef samvinnufélög eiga að dafna er þörf verulegra umbóta, enda gera stjórnendur þeirra margir hverjir sér grein fyrir því. Sama er að segja um Samband ísl. samvinnufélaga.

Meðal þeirra, sem vakið hafa athygli á nauðsynlegri nýbreytni, er Erlendur Einarsson forstjóri SÍS. Í erindi, sem hann flutti á ráðstefnu 2. sept. 1972, sagði hann m. a.:

„Nú langar mig til að varpa fram þeirri spurningu, hvernig þetta gæti litið út h já okkur í dag, ef við færum að gefa út stofnbréf. Við skulum taka Sambandið sem dæmi. Við skulum hugsa okkur, að Sambandið gæfi kaupfélögunum kost á stofnbréfum, og við skulum taka árið í fyrra, 1971. Þegar við litum á efnahagsreikning Sambandsins 31. des. 1971, þá er eigið fé, það sem við köllum eigið fé, um 607 millj. kr. Þar eru ekki meðtaldar aukaafskriftir af eignum, vörubirgðum og öðru, þannig að það mætti bæta við þetta 100 millj. þannig að þetta yrði þá um 700 millj.“

Síðar segir Erlendur Einarsson:

„Ég vil koma að því, — ég gleymdi því alveg áðan, — að til þess að koma þessu í kring, að byggja upp svona almenningsþátttöku, þá verður að sjálfsögðu að breyta lögunum. Það verður að breyta samvinnulögunum og einnig að breyta skattalögunum.

Skattfrelsi sparifjár í innlánsstofnunum hefur að mínu áliti m.a. stuðlað að því, að fjármagn hefur frekar leitað í banka, sparisjóði og innlánsdeildir heldur en ella og kannske komið í veg fyrir það, að við séum að leita að nýjum leiðum til að fá þátttöku almennings til að koma með fjármagn inn í samvinnufélögin. Og þótt skattfrelsið hafi eitthvað hjálpað, þá hefur það í sumum tilfellum orðið bjarnargreiði.

Hér verður því að breyta lögunum og ég veit að Eyjólfur Konráð Jónsson verður mér hjálplegur, ég vona það, þegar að því kemur að fá lagabreytingar um þetta.“

Tímabært er nú að hefja endurskoðun samvinnufélagalaga, og að sjálfsögðu yrði samráð haft við forustumenn samvinnufélaganna og samvinnusambandsins.“

Allt það, sem að framan segir, er enn í fullu gildi og þarf engu við það að bæta.“

Nú er spurt um hvað þessari endurskoðun liði. Hún er vonandi komin vel á veg. Og ég vil geta þess hér, af því að ég vitnaði í Erlend Einarsson, að við héldum þá erindi á ráðstefnu um atvinnumál, ég og hann — og fleiri raunar, og urðum allmikið sammála um sum atriði a.m.k., og það var tilefni þess, að hann vitnar þarna til minna ummæla. En ég bíð svars hæstv. ráðh.