18.02.1982
Neðri deild: 42. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2531 í B-deild Alþingistíðinda. (2172)

205. mál, tekjuöflun vegna ráðstafana í efnahagsmálum

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Út af ræðu hv. 12. þm. Reykv. langar mig til að bæta hér nokkrum orðum við það sem ég sagði í ræðu fyrr í dag og vék að þeim vísitöluleik sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur stundað allan þann tíma sem hún hefur verið við völd.

Ég kannast ekki við það, að þær aðferðir, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur notað til að fá breytingu fram á vísitölunni, hafi verið notaðar í tíð þeirrar ríkisstj. sem ég sat í, að undanskildum þeim niðurgreiðslum sem urðu á landbúnaðarafurðum á þeim tíma. Ég vil benda hv. þm. á það, að niðurgreiðslur sem hlutfall af útgjöldum ríkissjóðs fóru töluvert mikið minnkandi í þá tíð. En á útmánuðum 1974 var gripið til þess ráðs af þáv. ríkisstj. að auka mjög niðurgreiðslur vegna vísitölunnar, svo mjög að þar var um að ræða í þá tíð hvorki meira né minna en á þriðja milljarð. Í þau skipti sem niðurgreiðslum var breytt, þær voru auknar í tíð ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar, var það gert undir þeim kringumstæðum að þær voru í nokkru hlutfalli við útsöluverð og heildsöluverð, framleiðsluverð á landbúnaðarafurðum, og komu með þeim hætti að ekki verður hægt að segja að slíkt hafi verið gert til þess að falsa vísitölu, eins og hefur verið gert iðulega af hálfu núv. ríkisstj.

Ég vil þá víkja að opinberum gjaldskrám og benda hv. þm. á það, að 1976 var gert samkomulag við Alþýðusamband Íslands um að hækkanir á opinberum gjaldskrám skyldu gerðar 10 dögum fyrir útreikning vísitölunnar þannig að áhrifa af gjaldskrárhækkununum gætti við útreikning kaupgjaldsvísitölunnar einum mánuði síðar. Hvaða vinnubrögð viðhefur ríkisstj. í dag? Við skulum fara nokkrar vikur aftur í tímann og átta okkur á því, með hvaða hætti tollalækkunin átti sér stað. Ef staðið hefði verið við það samkomulag átti tollalækkunin að eiga sér stað eftir að vísitöluútreikningurinn fór fram. Hvað var gert núna? Það var gert tveimur dögum áður og varð að keyra frv. í gegnum Alþingi á miklu meiri hraða en oftast áður til þess að hægt væri að ná út úr Tollvörugeymslunni nokkrum stykkjum og senda menn til þess að kaupa þau til þess að hagstofustjórinn eða fulltrúar kauplagsnefndar gætu gengið um bæinn og inn í búðirnar og spurt: Hvað kostaði síðasta vélin eða síðasta tækið sem þið selduð? Þá voru þeir búnir að ná því fram. Þar með var lækkunin komin inn í vísitöluna og þar með var búið að falsa hana. Ég held að hv. þm. geti gert samanburð á niðurgreiðslum, sem áttu sér stað í tíð ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar þar sem ég gegndi embætti fjmrh., og þeim niðurgreiðsluaðferðum sem beitt hefur verið síðan sú ríkisstj. fór frá. Þar er ólíku saman að jafna.

Þá vék hv. þm. að kaupmættinum og taldi það núv. ríkisstj. til ágætis að tekist hefði að halda kaupmætti. Ég bendi honum líka á að gera samanburð á kaupmætti á árinu 1978, þegar sú ríkisstj. sat sem ég get um áðan og kaupmætti í tíð núv. ríkisstj. og gera samanburð við vinstri stjórnir frá því á miðju ári 1978 og þangað til í dag. Það er það sem við erum að benda á. Þegar talað er um að ekki hafi komið til atvinnuleysis og það sé núv. ríkisstj. að þakka er vert að hafa í huga að það er ekki liðinn nema einn og hálfur mánuður síðan hér var eiginlega allt komið í strand. Vegna hvers? Vegna þess að atvinnuvegirnir voru með þeim hætti, það var þannig að þeim búið, að þeir gátu ekki meir. Þá voru atvinnulausir menn á Íslandi fleiri en nokkru sinni áður.

Við skulum gera okkur grein fyrir því, að sem betur fer hófum við ekki þurft að horfa upp á atvinnuleysi. En það er ekki vegna aðgerða núv. ríkisstj. Það er vegna þess að áður störfuðu hér ríkisstjórnir sem hugsuðu fyrir framtíðina. Þessi ríkisstj. gerir það ekki. Það er þess vegna sem menn hugsa uggvænlega til framtíðarinnar ef núv. ríkisstj. á að lifa mjög lengi.

Til viðbótar við það, sem ég sagði áðan um vísitöluna og niðurgreiðslur, þá hefur núv. hæstv. ríkisstj. gripið til margvíslegra aðgerða til þess að ná fram fölsun í vísitölunni með einum eða öðrum hætti. Það má benda á það sem stendur í nýútkomnu riti um efnahagsmál á Norðurlöndum þar sem vikið er að þeim aðgerðum sem voru einsdæmi, þ.e. hvernig núv. ríkisstj. notaði Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins í sambandi við lausn á vandamálum sínum á s.l. ári. Þar er m.a. bent á að það hafi verið gert með óskynsamlegum hætti. En þeir, sem standa að þessu, átta sig kannske ekki á því, a.m.k. þeir hinir erlendu, að hér var verið í vísitöluleik, hér var verið að falsa vísitöluna, en það hefur verið nánast eina iðja núv. ríkisstj. frá því að hún tók við.