25.02.1982
Sameinað þing: 57. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2673 í B-deild Alþingistíðinda. (2304)

12. mál, smærri hlutafélög

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Sem annar flm. þeirrar þáltill., sem hér er til umr., vil ég aðeins leyfa mér að nota þetta tækifæri til að þakka hv. allshn. fyrir þá vinnu sem hún hefur lagt í athugun á málinu. Það var álit okkar flm., að fyrst og fremst þyrfti að endurskoða sérstöðu þessara smærri hlutafélaga, sem hér eru tilgreind, og að reglur í núverandi hlutafélagalöggjöf séu óþarflega strangar þegar um lítil fyrirtæki er að ræða.

brtt.. sem kemur frá nefndinni, er þannig að við getum vel sætt okkur við hana. Með tilliti til þess, að við viljum fyrst og fremst að staða smærri hlutafélaganna sé athuguð, ætti að vera fullnægjandi að endurskoða lögin með tilliti til þeirra og ekki endilega nauðsynlegt að um ný lög, sem sérstaklega væru fyrir ákveðna stærð hlutafélaga, sé að ræða. Við flm. sættum okkur sem sagt vel við þessa brtt. Ég vona, ef hún verður samþykkt, að ríkisstj. hraði þeirri endurskoðun á hlutafélagalögunum svo að gagni megi koma við eflingu atvinnulífsins.