09.03.1982
Sameinað þing: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2910 í B-deild Alþingistíðinda. (2469)

187. mál, framkvæmd orkumálakafla stjórnarsáttmálans

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég skal reyna að veita hv. 5. þm. Vestf. nokkra úrlausn í sambandi við fsp. hans. Fyrirspurnin var einföld og hann ætlast eflaust til að það verði veitt einfalt svar við henni. Ég vil þó minna hv. þm. á það fyrst, að við erum með mismunandi veitufyrirtæki í landinu. Við erum með hitaveitur á vegum sveitarfélaga, við erum með rafveitur á vegum sveitarfélaga fyrir utan fyrirtæki ríkisins og Orkubú Vestfjarða. Þessi fyrirtæki hafa óskað eftir að njóta ákveðins sjálfræðis. Þau eru stofnuð til að hafa frumkvæði og leita hagkvæmra lausna fyrir sína íbúa. Það hefur hins vegar ekki leitt til jöfnunar, ekki jafnræðis, eins og dæmin sanna. Ég kasta þá m.a. til hv. þm., hvort hann telji í rauninni að það sé tímabært að breyta þessu skipulagi og setja eitt allsherjarveitufyrirtæki á laggirnar og koma þar með á sama orkuverði alls staðar, — fyrirtæki sem hefði það að markmiði að hafa nákvæmlega sama orkuverð yfir landið allt.

Ég er ekki talsmaður miðstýringar í þeim mæli. Ég tel í sambandi við raforkuöflun að hún eigi að vera á hendi eins aðila í meginatriðum, og ég vænti þess, að það takist fljótlega að koma þar á einu fyrirtæki sem selji raforku í heildsölu á sama verði til allra landshluta. Ég geri mér hins vegar ljóst að ef veitufyrirtæki á vegum sveitarfélaga, dreifingin, eiga að vera á höndum margra aðila áfram og þar með reyni á frumkvæði sveitarfélaga og annarra sem fyrir þessu standa, þá er ekki hægt að gera ráð fyrir að fullkominni jöfnun verði náð. Það mundi stangast nokkuð á við þá greiningu sem fælist í slíku skipulagi.

Ég tel hins vegar nauðsynlegt að það skapist, sem mest jafnræði á milli þegna landsins í sambandi við þessar grunnþarfir þar sem er orkan, og við eigum að vinna að því. Það er þó tómt mál um að tala að það gerist í einu vetfangi eða slíku jafnræði verði náð með mjög skjótum hætti þegar mismunur er jafnmikill og hann er nú, kannske allt að fimmfaldur, sumir nefna hærri tölu í sambandi við upphitunarkostnað. Ég held að við mættum telja það þokkalegan árangur ef við kæmum þessu niður í hlutfallið 1:3 á ekki löngum tíma og ynnum síðan að enn frekari jöfnun, en við megum ekki heldur afnema hvatann til hagkvæmra lausna. Ég minni enn og aftur á þá leið sem þjóðhagslega er ekki síst mikilvæg: að spara orku, að gera húsnæðið þannig úr garði að við missum ekki orkuna að óþörfu út í umhverfið.