11.03.1982
Sameinað þing: 63. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2970 í B-deild Alþingistíðinda. (2543)

149. mál, virkjunarframkvæmdir og orkunýting

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Með lögum nr. 60/ 1981 var veitt heimild til að reisa og reka Blönduvirkjun, Fljótsdalsvirkjun, Villinganesvirkjun og Sultartangavirkjun með samtals allt að 680 mw. afli. Auk þess var veitt heimild til stækkunar Hrauneyjafossvirkjunar í allt að 280 mw., Sigölduvirkjunar í allt að 200 mw. og til að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja rekstur orkuveranna á Þjórsársvæðinu og auka orkuvinnslugetu þeirra, m.a. með Kvíslaveitu sem svo er kölluð, stækkun Þórisvatnsmiðlunar og stíflu við Sultartanga. Þá var einnig heimilað að reisa og reka jarðvarmavirkjanir allt að 50 mw. að stærð og varastöðvar með allt að 50 mw. afli.

Í greinargerð, sem fylgdi lagafrv., var sett fram stefnumótun í virkjunarmálum til langs tíma, þ.e. næstu 10–15 ára. Þar kemur fram að með ofangreindum virkjunum, sem til framkvæmda geta komið á næstu 10–15 árum, yrði um verulegt orkumagn að ræða sem yrði til ráðstöfunar fyrir utan þarfir hins almenna markaðar og núverandi orkufreks iðnaðar. Fram kemur að sú orka geti numið 1300–2400 gwst. á ári á tímabilinu eftir því hversu hratt yrði virkjað.

Til enn lengri tíma litið er vikið að því markmiði að jafna orkureikninginn við útlönd fyrir lok aldarinnar, sumpart með framleiðslu eldsneytis hér innanlands og sumpart með útflutningi orkufrekra afurða. Slík markmið kemur allvel heim við efri mörk orkuspár orkuspárnefndar.

Með lögunum er í fyrsta skipti heimiluð bygging meiri háttar virkjana utan Suðurlands og mörkuð sú stefna að dreifa virkjunum um landið. Forsenda þess er sú uppbygging raforkuflutningskerfis sem átt hefur sér stað á undanförnum árum og nú nær frá virkjunum við Þjórsá og Tungnaá vestur, norður og austur um land, allt til Hornafjarðar. Vantar nú aðeins hlekkinn Hornafjörður-Sigalda til að loka orkuflutningshringnum, en samkv. fyrirliggjandi áætlunum mun þeirri framkvæmd væntanlega verða lokið á næstu tveimur árum. Dreifing virkjana um landið undir þessum kringumstæðum eykur hagkvæmni í orkuvinnslu og orkuflutningi auk þess öryggis sem hún að sjálfsögðu skapar gagnvart línubilunum eða öðrum bilunum af völdum staðbundinna náttúruhamfara.

Í grg. með frv. til I. um raforkuver voru einnig raktar meginlínur í stefnumörkun varðandi orkufrekan nýiðnað sem tengst geti virkjanaframkvæmdunum. Eru þessi atriði helst: Krafan um virk íslensk yfirráð, krafa um arðsemi, nálægð við helstu virkjunarstaði, krafa um umhverfisvernd, um byggðasjónarmið og um staðhætti, þar með talin röskunarhætta á byggð og atvinnustarfsemi sem fyrir er, og krafa um að markaður fyrir afurðir sé tryggður. Í lögunum um raforkuver segir svo í 2. gr.:

„Tillögur um framkvæmdir við nýjar vatnsaflsvirkjanir og virkjunaráfanga, þ. á m. um framkvæmdaröð, skulu lagðar fyrir Alþingi til samþykktar. Skal áður liggja fyrir greinargerð frá Landsvirkjun, Orkustofnun, Rafmagnsveitum ríkisins og öðrum þeim aðilum, sem ríkisstj. kveður til, um þjóðhagslega hagkvæmni virkjunarleiða og þýðingu þeirra fyrir raforkukerfi landsins. Jafnframt leggi ríkisstj. fram greinargerð um þá möguleika sem fyrir liggja um nýtingu orkunnar til orkufreks iðnaðar og sparnaðar á innfluttu eldsneyti.“

Nú liggur fyrir greinargerð Orkustofnunar undir heitinu „Vinnsla og flutningur raforku til aldamóta. Samanburður virkjunarleiða. IV Áhrif aukins orkufreks iðnaðar.“ Er þetta rit Orkustofnunar frá l0. nóv. 1981. Einnig liggur fyrir greinargerð Rafmagnsveitna ríkisins undir heitinu „Virkjunarleiðir. Mat á hagkvæmni og þýðingu fyrir raforkukerfi landsins“, frá okt. 1981, svo og greinargerð Rafmagnsveitna ríkisins undir heitinu raforkukerfi landsins“, frá oki. 1981, svo og greinargerð Landsvirkjunar: „Raforkuöflun í samtengdu landskerfi í framhaldi af Hrauneyjafossvirkjun“, frá nóv. 1981 Þessum greinargerðum var dreift til allra hv. alþm. um leið og þáltill., sem hér er til umr., var lögð fram í des. s.l.

Með þáltill. þeirri, sem hér liggur fyrir, eru lögð fram nokkur fskj.. þ. á. m. bréf Jakobs Björnssonar orkumálastjóra, sem fylgdi greinargerð Orkustofnunar sem áður var um getið, bréf Kristjáns Jónssonar rafmagnsveitustjóra ríkisins, sem fylgdi greinargerð Rafmagnsveitnanna og er dags. 26. okt. 1981, og bréf Jóhannesar Nordals stjórnarformanns Landsvirkjunar, sem fylgdi greinargerð Landsvirkjunar og er dags. 4. des. 1981, ásamt yfirliti og niðurstöðum úr þeirri greinargerð. Einnig er lögð fram sem fskj. greinargerð orkustefnunefndar um möguleika varðandi nýtingu orkunnar til orkufreks iðnaðar og sparnaðar á innfluttu eldsneyti.

Á fundi sínum hinn 27. nóv. 1981 gerði ríkisstj. þá samþykkt varðandi virkjunarframkvæmdir og orkunýtingu sem er efni þessarar þáltill., en till. er svohljóðandi, ég tel rétt að lesa hana hér í heild:

„Alþingi ályktar með vísun til 2. gr. laga nr. 60/1981 um raforkuverð að:

1. Samhliða næstu meiri háttar vatnsaflsvirkjun verði unnið að orkuöflunarframkvæmdum á Þjórsár/Tungnaársvæðinu, sem auki núverandi afkastagetu um allt að 750 gwst. á ári.

2. Blönduvirkjun, samkv. virkjunartilhögun I, verði næsta meiri háttar vatnsaflsvirkjun á eftir Hrauneyjafossvirkjun, enda takist að ná um það samkomulagi við heimamenn.

3. Fljótsdalsvirkjun og Sultartangavirkjun verði næstu meiri háttar vatnsaflsvirkjanir á eftir Blönduvirkjun. Ákveðið er að framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun og Blönduvirkjun skarist og að Sultartangavirkjun verði samhliða Fljótsdalsvirkjun, eftir því sem orkunýting gefur tilefni til.

4. Ráðist verði í orkufrekan iðnað með ótvíræðu íslensku forræði, sem tryggi hagkvæma nýtingu orku frá ofangreindum virkjunum. Skal í því skyni hraða hagkvæmniathugunum á m.a.: kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði, áliðju, stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, trjákvoðuverksmiðju og sjóefnaiðnaði, svo sem natríumklóratvinnslu og magnesíumframleiðslu. Við niðurröðun og staðsetningu slíkra iðjuvera verði tekið mið af þjóðhagslegri hagkvæmni og æskilegri byggðaþróun og í því efni m.a. gert ráð fyrir slíkum iðnaði á Suðurlandi og Norðurlandi.

5. Við tímasetningu virkjunarframkvæmda og byggingu iðjuvera skal leitast við að haga framkvæmdum á þann veg, að mannafla- og vinnuvélaþörf verði sem jöfnust á framkvæmdatímabilinu. Tilgangurinn með þessari tilhögun er að gera íslenskum verktökum kleift að annast þessar framkvæmdir og koma í veg fyrir tímabundin og staðbundin vandamál á vinnumarkaðinum.

6. Verði ekki ráðist í Blönduvirkjun nú komi Fljótsdalsvirkjun í hennar stað sem næsta meiri háttar vatnsaflsvirkjun fyrir landskerfið, enda geti hún hafið orkuframleiðslu fyrir árslok 1987.“

Þetta, herra forseti, er efni þeirrar þáltill. sem hér er til umr. Samþykkt ríkisstj. og þáltill. eru byggðar á niðurstöðum umræddra þriggja sérfræðistofnana: Orkustofnunar, Rafmagnsveitna ríkisins og Landsvirkjunar, svo og stefnu ríkisstj. varðandi orkunýtingu og þeirri vinnu sem fram hefur farið á vegum iðnrn. og orkustefnunefndar þar að lútandi.

Í grg. Orkustofnunar eru bornar saman eftirtaldar fjórar virkjunarleiðir, upptalning virkjananna sýnir tímaröð þeirra: Svokölluð virkjunarleið 1: Blanda, Fljótsdalur, Sultartangi. Virkjunarleið 2: Fljótsdalur, Blanda, Sultartangi. Virkjunarleið 3: Sultartangi, Fljótsdalur, Blanda, og virkjunarleið 4: Blanda, Sultartangi, Fljótsdalur. — Með Sultartanga er hér átt við sjálfa virkjunina, því að stíflan yrði komin áður.

Undanfari þessara virkjana er sameiginlegur í öllum virkjunarleiðunum fjórum sem til athugunar voru, en hann er stífla á ármótum Þjórsár og Tungnaár, svokölluð Sultartangastífla, innrennsli Þórisvatns verði aukið með Kvíslaveitu. stækkuð verði Þórisvatnsmiðlun úr 1000 í 1450 gígalítra og aukið verði afl í Sigöldu- og Hrauneyjarfossvirkjun.

Athugun Orkustofnunar nær allt til næstu aldamóta, sem er lengri tími en þáltill. þessari er ætlað að taka til. Eftir lúkningu þriggja ofangreindra virkjana gerir Orkustofnun í athugun sinni ráð fyrir eftirtöldum þremur virkjunum sem allar eru á Þjórsár/Tungnaársvæðinu. Röð þeirra er hin sama í öllum virkjunarleiðum, sem athugaðar voru, og áhrif þeirra því hin sömu á þær allar, þannig að hún raskar ekki samanburðinum. Virkjanir þessar eru svonefnd Vatnsfellsvirkjun, Hálsvirkjun og Króksvirkjun. Engin afstaða er hér tekin til þeirra hugmynda.

Varðandi orkumarkað er í skýrslu Orkustofnunar gengið út frá spá orkuspárnefndar frá vorinu 1981 um raforkuþörf til almennra þarfa. Þessi spá er rakin í grg. með frv. til l. um raforkuver frá því vorið 1981. Því til viðbótar eru í skýrslu Orkustofnunar teknar til athugunar sex mismunandi forsendur um þróun orkufreks iðnaðar, svonefndar „iðnaðarstefnur“, miðað við þá forsendu að slík iðnfyrirtæki rísi allvíða á landinu á næstu 10–20 árum, en ekki einvörðungu í einum landshluta. Þessum svonefndu „iðnaðarstefnum“ er það einnig sameiginlegt, að fylgt er nokkurn veginn efri mörkum raforkuspárinnar frá 1981. Mismunur þeirra liggur fyrst og fremst í stærð og tímasetningu iðjuvera í einstökum landshlutum. Einnig er athugað það tilvik, að engin aukning verði á orkufrekum iðnaði.

Skýrsla Orkustofnunar byggist á virkjunaráætlunum sem gerðar voru vorið 1981 varðandi þau mannvirki sem hún tekur til athugunar. Niðurstöður af athugunum Orkustofnunar eru þær, að svonefnd virkjunarleið 1, sem byrjar á Blönduvirkjun, þá Fljótsdalsvirkjun og síðan Sultartangavirkjun, sé fjárhagslega hagkvæmust í öllum tilvikum. Aðeins í því tilviki, að orkufrekur iðnaður aukist ekki frá því sem nú er allt fram til aldamóta, er svonefnd virkjunarleið 4, með röðina Blanda, Sultartangi, Fljótsdalur, ívið hagkvæmari en hin. Munurinn er þó svo lítill að.hann er varla marktækur. Í tveimur tilvikum, svonefndri Iðnaðarstefnu og Iðnaðarstefnu 3, er munurinn á virkjunarleiðum 1 og 2 svo lítill, að hann er á mörkum þess að geta talist marktækur.

Í skýrslu Orkustofnunar er samanburður virkjunarleiðanna byggður á núgildi kostnaðar þjóðarbúsins af vinnslu raforku fram til aldamóta og flutningi hennar um meginflutningskerfið. Sú virkjunarleið sem gefur lægst núgildi er talin fjárhagslega hagkvæmust. Núgildisreikningarnir eru gerðir með 8% vöxtum miðað við fast verðlag.

Villinganesvirkjun er ekki tekin með sérstaklega í athuganir Orkustofnunar. Hún er langminnst þeirra vatnsaflsvirkjana sem taldar eru í lögum nr. 60/1981 um raforkuver. Við svo hraða markaðsþróun sem athugunin gerir ráð fyrir fullnýtist hún á um það bil einu ári. Stofnkostnaður á orkueiningu er hærri hjá Villinganesvirkjun en bæði Blöndu og Fljótsdalsvirkjun, en svipaður eða ívið lægri en hjá Sultartangavirkjun. Það, sem sagt er í skýrslu Orkustofnunar um Sultartangavirkjun, gæti því eins átt við ef ráðist yrði í framkvæmdir við Villinganes- og Sultartangavirkjun hvora á eftir annarri. Sökum smæðar er Villinganesvirkjun talin henta vel fyrir raforkukerfið þegar vöxtur raforkunotkunar er mjög hægur og stærri virkjanir eru ekki á dagskrá.

Ég vil þá, herra forseti, víkja aðeins að orkunýtingarþættinum. Í greinargerð orkustefnunefndar er fjallað um möguleika á nýtingu orkunnar til orkufreks iðnaðar og sparnaðar á innfluttu eldsneyti.

Sú virkjanastefna, sem að framan greinir, gæti gert kleift að hafa til ráðstöfunar um 600–700 gwst. á ári til orkunýtingar umfram þarfir hins almenna markaðar fram að árinu 1987, áður en næsta stórvirkjun kemst í gagnið. Meðal þeirra iðnaðarkosta, sem til álita eru taldir koma til að nýta þessa orku, eru kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði, sem nota mundi 325–400 gwst. á ári, þriðji ofn járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, sem nýta mundi 250 gwst., trjákvoðuverksmiðja, sem nýta mundi 375 gwst. eða þar um bil á ári, og natríumklóratverksmiðja, sem nýta mundi 170 gwst. á ári. Steinullarverksmiðja. saltverksmiðja og stálverksmiðja, sem heimilda hefur verið aflað fyrir, mundu samanlagt nota aðeins um 65 gwst. af raforku á ári. Á tímabilinu fram til 1987 væri einnig tæknilega unnt að auka álvinnslu við Straumsvík, t.d. um 40 þús. tonn, en slík vinnsla svarar til um 550 gwst. á ári.

Miðað við að Blönduvirkjun verði næsta meiri háttar vatnsaflsvirkjunin eykst orkuvinnslugeta landskerfisins um 775 gwst. á ári, frá árinu 1988 að telja.

Til þess að hagkvæmni stórvirkjana nýtist hinum almenna markaði er eðlilegt að gera ráð fyrir að hver ný stórvirkjun fullnægi a.m.k. 2–3 ára aukningu á raforkuþörf hins almenna markaðar, en raforkuþörfin vex að meðaltali um 120 gwst. á ári á næstu árum samkv. orkuspá. Af þessu leiðir að með tilkomu Blönduvirkjunar eykst svigrúm til orkunýtingar í iðnaði um allt áð 400–500 gwst. Með tilkomu Fljótsdalsvirkjunar gæti slíkt svigrúm enn aukist um allt að 1000–1100 gwst. á ári og með tilkomu Sultartangavirkjunar um 300–400 gwst. á ári. Ef þessum þremur virkjunum yrði öllum lokið á næstu 12 árum má ætla að unnt væri að auka orkunýtingu í iðnaði samtals um allt að 1700–1800 gwst. á ári á tímabilinu 1987–1993.

Þeir iðnaðarkostir, sem orkustefnunefnd nefnir sérstaklega sem hugsanlega á þessu tímabili (1987–1993), eru íslensk áliðja og magnesíumverksmiðja, auk þeirra kosta sem áður hafa verið taldir en ekki yrði ráðist í fram að þeim tíma. Ekki er ástæða til að spá lengra fram í tímann, en meðal þess, sem fyrr eða síðar gæti komið til greina, er íslensk eldsneytisframleiðsla. Hagkvæmni hennar er m.a. háð þróun olíuverðs, sem enginn getur sagt um nú hver verða muni, en auk þess þarf að taka verulegt tillit til öryggissjónarmiða.

Ég vil þá gera í stuttu máli grein fyrir stöðu undirbúnings- og samningsumleitana varðandi þá virkjun sem mest óvissa hefur verið um í sambandi við framkvæmdaundirbúning, en það er Blönduvirkjun. Um aðdraganda að virkjun Blöndu og áætlað fyrirkomulag þeirrar virkjunar samkv. tilhögun I er fjallað í fskj. 2 með frv. til l. um raforkuver og vísa ég til þess þar að lútandi.

Ráðgjafarnefnd iðnrn. og síðar einnig sérstök samninganefnd Rafmagnsveitna ríkisins sem virkjunaraðila hefur haft með höndum samningaumleitanir við fulltrúa heimamanna um alllangan tíma, en af þeirra hálfu var skipuð samninganefnd um málið með tveim fulltrúum frá hverjum þeirra sex hreppa sem hlut eiga að máli. Þessar samningaumleitanir hafa nú staðið á annað ár. Eftir allmarga samningafundi voru gerð drög að heildarsamkomulagi um virkjun Blöndu milli fulltrúa heimamanna og virkjunaraðila frá 23. sept. 1981. Eru þessi drög prentuð sem fskj. með fyrirliggjandi þáltill. Ég vil geta þess vegna breytinga sem orðið hafa á þessum drögum síðan, að ég mun sjá til þess, að hv. þm. fái í hendur nú í dag þann texta sem fyrir liggur og kynntur hefur verið síðast á heimavettvangi, þ.e. á virkjunarsvæði Blöndu. Þessi samkomulagsdrög frá 23. sept. 1981 voru rækilega kynnt í þeim hreppum sem hlut eiga að máli, og með bréfi, dags. 30. nóv. 1981, kynnti rn. þá afstöðu ríkisstj. að Blönduvirkjun skyldi verða næsta virkjun í landskerfinu á eftir Hrauneyjafossvirkjun, ef samkomulag næðist við heimamenn um virkjunartilhögun I sem lögð var til grundvallar í samkomulagsdrögunum. Í bréfinu var óskað eftir að samninganefnd heimamanna og hlutaðeigandi sveitarstjórnir tækju ótvíræða afstöðu til samkomulagsdraganna. Skömmu fyrir jól 1981 bárust svör hreppsnefndanna. Tvær hreppsnefndir, í Torfalækjar- og Blönduóshreppi, lýstu sig fylgjandi samningsdrögunum, ein hreppsnefnd, hreppsnefnd Bólstaðarhlíðarhrepps, hafnaði ákveðið virkjunarleið I, en þrjár hreppsnefndir, í Svínavatnshreppi, Seyluhreppi og Lýtingsstaðahreppi, lýstu sig að meiri hluta reiðubúnar til frekari viðræðna um Blönduvirkjun, en gerðu athugasemdir við samningsdrögin á mismunandi forsendum.

Í framhaldi af þessum svörum voru haldnir fundir með fulltrúum þeirra hreppsnefnda sem óskað höfðu eftir frekari samningaumleitunum. Að því loknu voru ýmis atriði í upphaflegu samningsdrögunum endurskoðuð á grundvelli virkjunartilhögunar I, án þess að gert væri ráð fyrir teljandi kostnaðarauka eða óhagræði fyrir virkjunina. Dagana 22.–26. jan. s.l. fóru síðan fram viðræður um hin endurskoðuðu samningsdrög, en að þeim loknum voru þau enn yfirfarin og gerðar á þeim nokkrar breytingar á áðurnefndum megingrundvelli.

Með bréfi til hreppsnefndanna á virkjunarsvæði Blöndu. dags. 3. febr. s.l., óskaði rn. eftir að afstaða hreppanna gæti legið fyrir við fyrstu hentugleika. Fljótlega kom í ljós að þrjár hreppsnefndir, þ.e. í hreppunum vestan Blöndu, Torfalækjarhreppi, Blönduóshreppi og Svínavatnshreppi, lýstu sig að meiri hluta til samþykkar hinum nýju drögum, en hreppsnefnd Bólstaðarhlíðarhrepps hefur ítrekað fyrri samþykkt þar sem virkjunartilhögun I er hafnað. Frekari viðræður hafa farið fram að undanförnu við hreppsnefndir Seyluhrepps og Lýtingsstaðahrepps til að leitast við að samræma sjónarmið og ná samkomulagi og er vonast til að afstaða þessara hreppsnefnda geti legið fyrir á næstu dögum. Þegar heildarmynd liggur fyrir af samningastöðunni og afstöðu heimamanna mun iðnrn. leggja málið fyrir ríkisstj. og kynna jafnframt stöðuna fyrir Alþingi. Rétt er að fram komi að rn. og ríkisstj. hafa ætíð lagt áherslu á sem víðtækast samkomulag í þessu viðkvæma deilumáli um virkjunartilhögun við Blöndu. Í lögum nr. 60/1981, 5. gr., eru heimildir til eignarnáms, en engin afstaða hefur verið tekin til að beita þeim heimildum.

Eins og fram kemur í 6. lið þáltill. er ráð fyrir því gert, að verði ekki ráðist í Blönduvirkjun nú komi Fljótsdalsvirkjun í hennar stað sem næsta vatnsaflsvirkjun á eftir Hrauneyjafossvirkjun.

Sú mikla viðleitni stjórnvalda til að ná samkomulagi um virkjun Blöndu, sem enn stendur yfir, ber ljósan vott um vilja til að af virkjun hennar geti orðið nú. En jafn ljóst er að ákveðin takmörk eru fyrir því, hversu langt er unnt að ganga í þessu efni og hvaða áhættu er hægt að taka með tilliti til samstöðu heima fyrir. Um það ber reynslan órækt vitni, hver þörf er á því að hafa gát á í þessum efnum. Það þekkja menn m.a. úr Norðurlandi.

Ég vil þá víkja aðeins að einstökum liðum þáltill. Varðandi 1. liðinn segir svo í grg. með till.: „Með orkuöflunarframkvæmdum á Þjórsár/Tungnaársvæðinu er án við gerð vatnaveitu til Þórisvatns, svonefndrar Kvíslaveitu, gerð stíflu á ármótum Þjórsár og Tungnaár og aukningu á miðlunarrými Þórisvatns. Aðgerðir þessar eru taldar auka á orkuvinnslugetu núverandi landskerfis um allt að 750 gwst. á ári og eru á heildina litið taldar vera ódýrustu og hagkvæmustu orkuöflunaraðgerðir sem völ er á.“

Varðandi lið 2: Blönduvirkjun með tilhögun 1 er talin vera hagkvæmust þeirra vatnsaflsvirkjana sem til greina koma sem næsta meiri háttar virkjun í landskerfinu. Í grg. hér að framan hefur verið lýst stöðu mála varðandi samninga við heimamenn um réttindi sem virkjuninni tengjast.

Að undanförnu hefur áfram verið unnið að tæknilegum undirbúningi Blönduvirkjunar. S.l. sumar var boruð enn ein rannsóknarhola í stöðvarhússtæði, og samið hefur verið við ráðgjafaraðila um verkhönnun virkjunarinnar og liggur hún nú fyrir í meginatriðum.

Til undirbúnings framkvæmda var einnig á árinu 1981 unnið í byggð að styrkingu flutningaleiða til virkjunarsvæðis Blönduvirkjunar. Áætlun gerði ráð fyrir að verja í þessu skyni 3–4 millj. kr. Þá var sumarið 1981 unnið að uppgræðslutilraunum og rannsóknum vegna veiði og fleiri þátta á Blönduvirkjunarsvæðinu.

Fyrirhugað er að ljúka verkhönnun — og er reyndar þegar lokið, eins og ég gat um — varðandi Blöndu og gerð útboðsgagna á árinu 1982, ef samkomulag næst um virkjunartilhögun. Jafnframt verði unnið að tilraunagöngum að stöðvarhússtæði, vegagerð, lagningu vinnurafmagns og síma, uppsetningu vinnubúða og annarri aðstöðusköpun, þannig að vorið 1983 geti vinna við sjálfar framkvæmdirnar hafist af fullum krafti og virkjunin þá komist í gagnið á árinu 1987.

Varðandi 3. lið þáltill. vil ég segja þetta: Það er kveðið á um að Fljótsdalsvirkjun og Sultartangavirkjun verði næstu meiri háttar vatnsaflsvirkjanir á eftir Blönduvirkjun. Hraðinn við þessar virkjunarframkvæmdir, sem og þær sem á undan koma, mun öðru fremur ráðast af þróun markaðar, en ákveðið er að framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun og Blönduvirkjun skarist og einnig að unnið verði að framkvæmdum við Sultartangavirkjun samhliða Fljótsdalsvirkjun, eftir því sem orkunýting gefur tilefni til.

Ef gert er ráð fyrir að raforkusala til orkufreks iðnaðar og vegna sparnaðar á innfluttu eldsneyti rösklega tvöfaldist frá því sem nú er á næstu 10 árum má þannig reikna með að Fljótsdalsvirkjun komist í gagnið um 1990 og Sultartangavirkjun litlu síðar.

Varðandi 4. lið þáltill.: Með ákvæðum þar er áréttuð sú stefnumörkun varðandi íslenska orkustefnu sem fram kom í grg. með frv. til l. um raforkuver. Lögð er sérstök áhersla á ótvírætt íslenskt forræði og hagkvæmni í orkunýtingu, auk þess sem taka skal mið af þjóðhagslegri hagkvæmni og æskilegri byggðaþróun við ákvarðanir um orkufrek iðnfyrirtæki.

Í fskj. 4 með þáltill. er gerð grein fyrir stöðu hagkvæmniathugana á einstökum iðnaðarkostum, en þar er athugun sem fram hafa farið vegna hugsanlegrar stækkunar járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, sem ekki hefur verið talið ráðlegt að hefja framkvæmdir við eins og aðstæðum er nú háttað í tengslum við það fyrirtæki.

Varðandi 5. lið till. er lögð áhersla á að reynt verði að hafa framkvæmdir sem jafnastar að magni, bæði til að nýta sem best sérþjálfaðan mannafla og tækjabúnað og að gera íslenskum verktökum kleift að annast framkvæmdir svo og til að forðast miklar sveiflur á vinnumarkaði.

Við fyrri virkjanir hefur verið lögð vaxandi áhersla á að gera íslenskum verktökum fært að taka að sér sem flesta verkþætti. Við Hrauneyjafossvirkjun var þannig hlutur íslenskra verktaka yfirgnæfandi, þar sem þeir höfðu með höndum nánast alla jarðvinnu og byggingarvinnu. Auk fjárhagslegs og gjaldeyrissparandi hagræðis af þessari tilhögun framkvæmda hafa tímaáætlanir staðist betur en áður og reynslan að öðru leyti verið góð að mati virkjunaraðila. Því mælir flest með því, að haldið verði áfram á þessari braut.

Til viðbótar þarf að koma markviss stefna í þá átt að tengja hin stóru verkefni á sviði virkjana og orkunýtingar innlendri iðnþróun, þannig að innlendur framleiðslu- og þjónustuiðnaður fái vaxandi og sem stærstan hlut á þessum sviðum á eðlilegum samkeppnisgrundvelli. Þannig þarf hin mikla fjárfesting í orkumálum og orkunýtingu, sem fyrirsjáanleg er, að verða til að renna stoðum undir almenna iðnþróun í landinu, ekki síst á sviði rafiðnaðar og málmiðnaðar, svo og varðandi fleiri þætti atvinnustarfsemi í landinu.

Í héraði, þar sem virkjunarframkvæmdir með tilheyrandi umsvifum hafa staðið um nokkurt skeið, er það áhyggjuefni ef allar slíkar framkvæmdir stöðvast skyndilega. Fram hafa komið áhyggjur meðal Sunnlendinga um að slíkt ástand kynni að skapast þar, eftir að framkvæmdum lýkur við Hrauneyjafossvirkjun. Í því efni vill þó svo heppilega til, að allumfangsmiklar og vinnuaflsfrekar framkvæmdir verða á döfinni á Suðurlandi vegna fyrirhugaðra framkvæmda við vatnsveitur og aukna vatnsmiðlun. Á fskj. 7 með þáltill. er sýnd áætlun Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens um mannaflaþörf við virkjunarframkvæmdir á Suðurlandi, miðað við að framkvæmdir við Sultartangavirkjun geti hafist árið 1988. Meðalmannaflaþörf fram til 1989 yrði þannig um 150–200 ársverk og fer aðeins á einu þessara ára undir 100 ársverk. Þannig virðist ekki teflt í sérstaka tvísýnu í þessum landshluta þótt meginframkvæmdir varðandi virkjanir flytjist til annarra landshluta um sinn.

Í 6. og síðasta lið till. er gert ráð fyrir því, að ráðist verði í Fljótsdalsvirkjun ef ekki verður af framkvæmdum við Blönduvirkjun nú. Mikill áfangi náðist í rannsóknum við Fljótsdalsvirkjun á árinu 1980, og á árinu 1981 var unnið áfram að rannsóknum og áætlanagerð um virkjunina. Verkhönnun vegna Fljótsdalsvirkjunar liggur nú fyrir á svipaðan hátt og verkhönnun vegna Blönduvirkjunar. Bráðabirgðaniðurstöður benda til að hagkvæmt sé að hafa virkjunina nokkru minni en áður var fyrirhugað, þannig að uppsett afl hennar verði 250–260 mw. í þrem vélasamstæðum og orkuvinnslugetan yrði þá um 1330 gwst. á ári. Varðandi byggingartíma Fljótsdalsvirkjunar vísast til fskj. 8 með þáltill., sem er bréf Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens, dags. 27. febr. 1981, en samkvæmt því var talið mögulegt að gangsetning virkjunarinnar yrði síðla árs 1986, miðað við að ákvörðun yrði tekin vorið 1981. Á sömu forsendum er gangsetning Fljótsdalsvirkjunar talin möguleg árið 1987, ef ákvörðun um að hefja framkvæmdir við þá virkjun yrði tekin á komandi vori.

Skýrsla um verkhönnun vegna Sultartangavirkjunar var gefin út vorið 1981, en ýmsum rannsóknum fram haldið s.l. sumar. Stofnkostnaður Sultartangavirkjunar miðað við verðlag í desember 1980 var 923 millj. kr. Er þá miðað við virkjun þar sem hagnýtt væri hin svonefnda Sultartangastífla, en framkvæmdir við hana hafa þegar verið heimilaðar og tilboð hafa verið opnuð. Stofnkostnaður Sultartangavirkjunar hefur ekki verið endurmetinn á sama hátt, að ég best veit, en framreiknaður til byggingarvísitölu 909 er hann nálægt 1340 millj. kr.

Verkhönnun Blönduvirkjunar er, eins og ég gat um, að mestu lokið og er gert ráð fyrir að endanleg skýrsla um hana liggi fyrir alveg á næstunni. Nokkrar minni háttar breytingar hafa orðið á tilhögun Blönduvirkjunar frá því sem ráðgert var vorið 1981, þegar síðasta áætlun um stofnkostnað var gerð, og forsendum orkuvinnsluákvörðunar hefur einnig verið breytt nokkuð. Er nú miðað við virkjun eftir Kvíslaveitu og aukið miðlunarrými í Þórisvatni og það þá miðað við Blönduvirkjun sem næstu vatnsaflavirkjun. Stofnkostnaður Blönduvirkjunar er þannig áætlaður 1137.3 millj. kr. miðað við verðlag og gengi í des. 1981 og sömu vísitölu byggingarkostnaðar og hér er lögð til grundvallar í öllum kostnaðarsamanburði, þ.e. 909.

Verkhönnun Fljótsdalsvirkjunar er einnig á lokastigi eða jafnlangt komin og undirbúningur vegna Blönduvirkjunar. Magntölur hafa verið teknar saman og unnið er að frágangi á uppdráttum og skýrslugerð varðandi þá virkjun. Virkjunartilhögunin er í öllum meginatriðum hin sama og í síðustu áætlunum, en forsendur um orkuvinnslugetu breyttar, eins og ég gat um áður. Nú er gert ráð fyrir 252 mw. virkjun í stað 290 mw. í áætlun sem lá fyrir vorið 1981. Orkuvinnslugetan, miðað við virkjun eftir Kvíslaveitu, stækkun Þórisvatnsmiðlunar og miðlun við Sultartanga, er áætluð 1330 gwst. á ári. Miðlun verður 670 gígalítrar, þar af 540 gígalítrar við Eyjabakka, sem er meginmiðlunarlón virkjunarinnar. Fyrir utan nokkra minnkun á uppsettu afli og minnkun Eyjabakkamiðlunar frá fyrri áætlun eru ýmsar minni háttar breytingar vegna nánari mælinga og rannsókna.

Til frekari upplýsinga fylgir með þáltill. allítarleg skrá yfir helstu einkennisstærðir virkjunarinnar. Stofnkostnaður hennar er áætlaður 2313 millj. kr., miðað við verðlag og gengi í des. 1981 og vísitölu byggingarkostnaðar hina sömu, þ.e. 909. Það er sami verðgrunnur og varðandi hinar virkjanirnar. Í áætlunum þessum um stofnkostnað eru hvorki meðtaldar bætur fyrir landspjöll né greiðslur fyrir vatnsréttindi. Enn fremur er kostnaður við vegabætur utan athafnasvæðis virkjunar ótalinn. Þá er í kostnaðaráætlunum gert ráð fyrir að virkjunaraðili verði undanþeginn greiðslu á söluskatti og aðflutningagjöldum af aflvélum og rafbúnaði. Aftur á móti er gerð sérstök staðarleiðrétting, sem svo er kölluð, fyrir Blönduvirkjun og Fljótsdalsvirkjun og er hún innifalin í þessu stofnkostnaðarmati. Þar er tekinn inn í myndina ýmiss konar áætlaður aukakostnaður við byggingu þessara virkjana miðað við virkjanir á Þjórsár/Tungnaársvæðinu, svo sem fjarlægð frá þéttbýli, hæð virkjunarsvæðis yfir sjávarmál, mismunur í veðurfari og aðrir slíkir þættir. Ef til viðbótar er gert ráð fyrir að greiðsla fyrir landspjöll og vatnsréttindi við Blöndu verði allt að 5% af virkjunarkostnaði umfram Fljótsdalsvirkjun og Sultartangavirkjun verður stofnkostnaður Blönduvirkjunar ekki 1137.3 millj. kr., sem er talan sem ég hygg að ég hafi nefnt áðan í ræðu minni, heldur um 1195 millj. kr.

Samanburður þessara þriggja virkjunarkosta, eins og þeir nú liggja fyrir, verður þá þannig og er þá áætlaður með umframkostnaður vegna bóta við Blönduvirkjun: Orkuvinnslugeta Blönduvirkjunar miðað við 765 gwst. á ári, Fljótsdalsvirkjunar 1330 gwst. og sultartangavirkjunar 660 gwst. Aflið í Blönduvirkjun er áætlað 150 mw. í Fljótsdalsvirkjun 252 mw. og í Sultartangavirkjun 120 mw. Tekið skal fram að enn getur orðið breyting á ástimpluðu afli véla þar eð slíkt er ekki ákveðið endanlega fyrr en í ljósi vitneskju um það leyti sem útboð fara fram. Stofnkostnaður á verðlagi í des. s.l., miðað við byggingarvísitölu 909, yrði sem áður greinir fyrir Blönduvirkjun 1195 eða 1.56 kr. á kwst. á ári, fyrir Fljótsdalsvirkjun 1.74 kr. á ári á kwst. og fyrir Sultartangavirkjun 2.03 kr. á ári á kwst.

Hlutfallslegur samanburður á sama kostnaðargrunni miðað við Blönduvirkjun á 100 yrði fyrir Fljótsdalsvirkjun 112 og fyrir Sultartangavirkjun 130, þ.e. framleiðslukostnaður á orkueiningu á ári yrði um 12% hærri frá Fljótsdalsvirkjun en frá Blönduvirkjun og 30% hærri frá Sultartangavirkjun en frá Blönduvirkjun. Er þetta sama röð varðandi hagkvæmniniðurstöður og fyrir liggur úr samanburði mismunandi virkjunarleiða fram til ársins 2000, sem vitnað var til og skýrslur liggja fyrir um, þar sem kostnaður við stofnlinur og heildarrekstur landskerfisins hefur verið tekinn með inn í dæmið. Hins vegar hefur þá ýmsum öðrum þáttum, svo sem öryggissjónarmiðum, ekki verið gefið talnalegt gildi.

Samkvæmt fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1982, sem enn liggur fyrir hv. Alþingi óafgreidd, er gert ráð fyrir að verja 60 millj. kr. til undirbúnings og framkvæmda við næstu stórvirkjun og auk þess 22 millj. kr. í virkjunarrannsóknir og undirbúningsframkvæmdir við þá virkjun er næst yrði í röðinni. Er þar um að ræða Blöndu- og Fljótsdalsvirkjun samkv. fyrirliggjandi þáltill. Auk þess gerir Landsvirkjun ráð fyrir 16 millj. kr. til rannsókna á sínum vegum auk framkvæmda við Sultartangastíflu og Kvíslaveitu. Raunar má geta þess, að Landsvirkjun hefur nú sérstaklega til athugunar að dýpka útfallið úr Þórisvatni við Vatnsfell til þess að geta nýtt Þórisvatnsmiðlun betur en tekist hefur til þessa.

Sem fyrr segir er verkhönnun vegna umræddra þriggja virkjana að heita má lokið. Vegna næstu virkjunar er síðan gert ráð fyrir gerð útboðsgagna nú á þessu ári og að sprengd verði könnunarjarðgöng að stöðvarhúsi þeirrar virkjunar, reistar vinnubúðir og unnið að margháttuðum öðrum undirbúningi, þ. á m. lagningu vega og vegslóða, styrkingu þjóðvega og lagningu vinnurafmagns og síma á virkjunarsvæðið. Slíkt er í senn nauðsynlegt og skynsamlegt miðað við að framkvæmdir við þessar virkjanir skarist að meira eða minna leyti. Jafnframt verður unnt að búa í haginn með undirbúning og eðlilega hlutdeild heimamanna í framkvæmdum. Má leiða að því líkur, að sú hlutdeild geti orðið meiri í virkjun, sem yrði önnur í röðinni, en þeirri sem næst yrði á dagskrá, þar eð meira ráðrúm gefst til umþóftunar heima fyrir við undirbúning. Er ástæða til að leggja áherslu á þetta atriði og að engan veginn er vandalaust að koma af stað, svo að vel fari, stórframkvæmdum eins og umræddum virkjunum á Norður- og Austurlandi þannig að þær hafi ekki um of truflandi áhrif á annan atvinnurekstur. Að þessu er vikið í þáltill. og að þessu þarf að gefa sérstakan gaum. Sama máli gegnir að sjálfsögðu um þau orkufreku fyrirtæki sem í athugun er að reist verði úti í landshlutunum. Skiptir miklu að sem best sé staðið að undirbúningi þeirra, m.a. með tilliti til víðtækari iðnþróunar og annarra atvinnuvega, eins og áhersla er lögð á í 5. lið þáltill.

Í lögum nr. 60/1982, um raforkuver, segir m.a. svo, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. er heimilt að semja víð Landsvirkjun m.a. um að reisa og reka eftirtaldar vatnsaflsvirkjanir. Uns þeir samningar hafa tekist skulu Rafmagnsveitur ríkisins hafa með höndum rannsóknir, hönnun og undirbúningsframkvæmdir í nánu samráði við Landsvirkjun. Virkjun Blöndu í Blöndudal (Blönduvirkjun) með allt að 180 mw. afli. Virkjun Jökulsár í Fljótsdal (Fljótsdalsvirkjun) með allt að 330 mw. afli. Virkjun Héraðsvatna við Villinganes (Villinganesvirkjun) með allt að 40 mw. afli.“

Til að vinna að þessu máli skipaði iðnrn. fjögurra manna nefnd til að standa að málinu fyrir ríkisins hönd og Landsvirkjun tilnefndi af sinni hálfu fjóra stjórnarmenn til viðræðnanna. Nefndir þessar hafa komið saman til allmargra funda og unnið er að undirbúningi samningagerðar. Einkanlega hefur verið til umræðu yfirtaka Landsvirkjunar á byggðalínunum, sem svo eru nefndar, þ.e. 132 kílóvolta tengilínunum, sem á undanförnum árum hafa verið lagðar á vegum ríkisins og Rafmagnsveitur ríkisins hafa staðið fyrir að reisa og standa fyrir rekstri á eftir núverandi skipulagi. Í sambandi við yfirtöku Landsvirkjunar er um að ræða bæði fjárhagsleg og tæknileg atriði sem unnið er að að ná samkomulagi um og leysa. Nefndirnar hafa orðið ásáttar um stofnkostnaðarmat í meginatriðum og fyrir liggur yfirlit um fjárhagslegar skuldbindingar ríkisins vegna linanna, en um yfirtökuverð þeirra hefur ekki verið gengið frá samkomulagi. Það hefur ekki enn tekist, en að þessu máli er unnið og verður væntanlega á næstunni haldið áfram tilraunum til að ná þar samkomulagi.

Tæknileg vandamál varðandi þetta eru einkum tvíþætt: Annars vegar tæknileg úttekt á byggðalínum og hins vegar orku- og aflmælingar sem væntanlega þarf að endurskipuleggja og breyta við yfirtöku Landsvirkjunar. Undirnefnd tæknimanna á vegum Landsvirkjunar og Rafmagnsveitna ríkisins vinnur nú að athugun þeirra mála.

Varðandi yfirtöku á undirbúningi virkjanaframkvæmda virðast út af fyrir sig ekki stór vandamál á döfinni, en eðlilegt verður að teljast að tengja lausn þessara mála í heild sinni saman. Vert er að minna á að einn af undirstöðuþáttum þessa máls varðar verðjöfnun á raforku í heildsölu frá afhendingarstöðum á byggðalínum til dreifingaraðila í öllum landshlutum.

Herra forseti. Það mál, sem hér er til umr., virkjanir og hagnýting orkulindanna á næstu árum og áratugum, er með stórbrotnustu viðfangsefnum sem Alþingi hefur haft til meðferðar um langt skeið og varðar miklu í efnahagslegu tilliti og fyrir öryggi fólks um land allt svo og fyrir byggðaþróun í landinu. Með fyrirhuguðum stórvirkjunum nyrðra og eystra og öflugri samtengingu raforkukerfisins með stofnlínum er brotið blað í orkumálum landsins alls. Það öryggi, sem með því skapast, einnig fyrir þéttbýli hér suðvestanlands, er meira en menn almennt átta sig á, og sú jöfnun orkuverðs og atvinnuuppbygging, sem gerast þarf samhliða, mun í senn jafna lífskjör og renna stoðum undir fjölbreyttara atvinnulíf, ef vel tekst til. Sérstök áhersla er í þessari þáltill. lögð á forræði landsmanna yfir orkulindunum og þeim atvinnurekstri er sækja mundi til þeirra aflgjafa. Þar er lyft svipuðu merki og gerðist í landhelgisbaráttu okkar og snúið frá þeirri orkusölustefnu til erlendra auðfélaga, sem leidd var til öndvegis fyrir 15 árum og átt hefur sér öfluga talsmenn allt til þessa. Við þjóðinni blasir stórbrotið viðfangsefni að hagnýta orkulindirnar til almennra nota og atvinnuuppbyggingar í eigin þágu, og gæta þarf þess, að þetta sóknarskeið í orkumálum nýtist til fjölþættrar eflingar atvinnulífs og byggðar í landinu.

Ég vænti þess, að þáltill. þessi fái góðar viðtökur hér á hv. Alþingi, og legg ríka áherslu á afgreiðslu hennar á yfirstandandi þingi. Þar sem hér er um stórt fjárhagsmál að ræða tel ég við hæfi að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjvn.