17.03.1982
Efri deild: 56. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3119 í B-deild Alþingistíðinda. (2667)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Forseti (Helgi Seljan):

Þannig lauk umr. um þetta mál á síðasta fundi, að ég hafði um það — að ég taldi — allábyggileg skilaboð, að hæstv. menntmrh. vildi fá umr. frestað til þess að mega tala hér í hv. deild um málið. Nú hefur komið í ljós að þessi skilaboð voru á misskilningi byggð, höfðu misfarist eitthvað í síma. Skilaboðin voru eitthvað á þá leið, að ef nærveru hans væri sérstaklega óskað hér, þá væri því komið til hv. dm. að hæstv. menntmrh. væri fjarverandi úr þinginu.

Ég vil aðeins koma þessu á framfæri vegna þess að ég vissi ekki annað eða hafði það eftir bestu heimildum þá og hefði ekki frestað umr. að öðrum kosti, enda kom fram við það eðlileg athugasemd frá hv. 4. þm. Vestf. Sem sagt, athugasemd mín hér úr forsetastól hefur verið á einhverjum misskilningi byggð, sem ég get ekki kennt sjálfum mér um, nema þá að því takmarkaða leyti að hafa ekki gengið betur úr skugga um það með samtali við hæstv. ráðh. Þar af leiðandi eru ekki fleiri á mælendaskrá.