17.03.1982
Efri deild: 56. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3129 í B-deild Alþingistíðinda. (2684)

90. mál, Hæstiréttur Íslands

Forseti (Helgi Seljan):

Varðandi ummæli hv. 4. þm. Vestf. vil ég taka það fram, að hæstv. dómsmrh. spurði mig að því áðan, hvort menn hefðu óskað eftir því í umr. fyrr að hans nærveru væri sérstaklega óskað. Ég kvað svo ekki vera. Hann sagðist hins vegar vera reiðubúinn að koma inn í þessar umr. ef menn óskuðu eftir því. Þær óskir hafa ekki komið fram fyrr en nú frá hv. 4. þm. Vestf. Mér finnst þetta sjálfsagt, eins og í flestum tilfellum þegar menn óska sérstaklega eftir að hæstv. ráðherrar séu viðstaddir umr. Nú er það langt liðið á fundartíma að þó að við færum að ná í hæstv. dómsmrh. hygg ég að það tæki þó þann tíma að fundartíma væri nokkurn veginn lokið þegar hann kæmi.

En ég skildi hv. 4. þm. Vestf. svo, að hann óskaði eftir frestun nú þegar. Það eru tveir menn á mælendaskrá, hv. 3. þm. Suðurl. og hv. 5. þm. Vesturl., en ég tók það svo að hann óskaði eftir að umr. yrði frestað nú þegar. Ég hefði hins vegar gjarnan viljað að þeir töluðu eða við gætum haldið fundinum áfram allt fram til kl. 4, en umr. yrði að sjálfsögðu frestað þannig að dómsmrh. fengi tækifæri til að koma inn í þessar umr.