25.03.1982
Sameinað þing: 69. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3269 í B-deild Alþingistíðinda. (2907)

201. mál, málefni El Salvador

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Um þessar mundir er mikið rætt og ritað um ástandið í Mið- og Suður-Ameríku. Augu heimsins hafa beinst meira en oftast áður að þessu landssvæði þótt þar séu hryðjuverk og mannréttindabrot ekkert nýnæmi.

Flestar þjóðir Mið- og Suður-Ameríku hafa orðið að búa við einræði og harðstjórn um langan aldur. Byltingar hafa verið daglegt brauð og ríkisstjórnir oftast verið herforingjastjórnir sem troðið hafa á almennum mannréttindum.

till., sem hér er til umr. og snertir ástandið í EI Salvador og afstöðu Bandaríkjanna til þess, er sú fyrsta sinnar tegundar sem kemur fram hér hjá okkur á hv. Alþingi. Mér er ekki kunnugt um að Alþingi Íslendinga hafi nokkurn tíma fyrr ályktað um ástand mála á þessu landssvæði né heldur að slíkar ályktunartillögur hafi verið lagðar fram. Það hlýtur að vera áhorfsmál hvenær íslenska þingið eigi að álykta sérstaklega um atburði í einstökum ríkjum. Meginspurningin er því sú, hvort álykta skuli í þessu máli fremur en öðrum málum sem augu heimsins beinast að á hverjum tíma. Ef álykta á í þessu máli, hví skal ekki álykta um innrásina í Afganistan? Af hverju er ekki rætt hér á Alþingi um deilur Ísraels og Arabaríkja? Ber okkur að fordæma í þál. afskipti og hernaðarbrölt Kúbumanna í Afríku? Áttum við að álykta um Kampútseu og innrás Víetnama í það land? Svo mætti lengi telja. Auðvitað ber okkur að ræða þessi mál og skiptast á skoðunum þegar skýrsla utanrrh. er til umræðu, og það hefur ætíð verið gert.

Mér er nær að halda, enda hefur það komið fram í ræðu hv. frsm. þessarar þáltill., að ályktun Alþingis og ríkisstjórnar Íslands um ástandið í Póllandi í desember s.l. hafi orðið kveikjan að því að nú koma fram á Alþingi þáltill. um ástandið í einstökum ríkjum og áskoranir til íslensku ríkisstjórnarinnar um að beita sér með ákveðnum aðilum til stuðnings vissum málefnum, t.d. því sem allir Íslendingar geta verið sammála um að gera kröfur til hjá öllum þjóðum, en það er að mannréttindasáttmáll Sameinuðu þjóðanna sé haldinn. Um þetta held ég að allir þingmenn allra flokka hér á Alþingi geti verið sammála:

Af minni hyggju var þáltill. um pólland sjálfsögð og nauðsynleg. Til þess liggja ýmsar ástæður, eins og t.d. mikil skipti okkar og Pólverja, ekki aðeins á sviði vörukaupa og vörusölu, heldur einnig vegna menningartengsla, þekkingar okkar á sögu þeirra og list, samúð okkar Íslendinga með baráttu þeirra í gegnum aldirnar fyrir frelsi sínu, og síðast en ekki síst þýðing þróunarinnar í Póllandi fyrir varanlegan frið í Evrópu. Þá ber þess að geta, að áður en Pólverjar komu á herforingjastjórn, settu á herlög og afnámu rétt Samstöðu til athafna og starfa í pólsku þjóðfélagi höfðu, ef ég man rétt, Alþýðusamband Íslands og íslenska þjóðkirkjan ásamt kaþólsku kirkjunni hér á landi ákveðið að efna til samskota meðal íslensku þjóðarinnar til að styðja Pólverja í efnahagslegri neyð þeirra. Auk samþykktar Alþingis sá íslenska ríkisstjórnin ástæðu til að álykta sérstaklega um Póllandsmálið og voru ástæður án efa þær sömu og hjá Alþingi Íslendinga.

Til viðbótar má ég kannske benda á að e.t.v. er ekki sísta ástæðan sá mannlegi eiginleiki að hugsa fyrst til þess sem næst okkur stendur og okkur er skyldast, til okkar eigin fjölskyldu, til nágranna okkar, til landa okkar og svo nágranna okkar í næstu löndum. Það er erfitt fyrir okkur hér uppi á Íslandi oft á tíðum að gera okkur grein fyrir hvað er að gerast í fjarlægum löndum sem við sjálfir höfum afskaplega lítil samskipti við og verðum í flestum tilfellum að byggja skoðanir okkar á upplýsingum fjölmiðla. Við vitum að í þeim upplýsingum eru ákaflega skiptar skoðanir og fer oft eftir því, hvernig viðkomandi fjölmiðlar taka á þessum sömu málum, — fjölmiðlar sem í flestum tilfellum eru bundnir ákveðnum pólitískum skoðunum og stuðningi við ákveðnar þjóðir.

Það hefur því reynst mér hvað best, ef ég hef reynt að setja mig inn í slík mál, að leita upplýsinga hjá þeim sem ég hef trú á að fari með rétt mál og túlki skoðanir sem falli að skoðunum manns sjálfs. Í þessu tilfelli er það hiklaust Amnesty International, kirkjan, þegar hún á í hlut, og hjá mér persónulega enn frekar í sambandi við þetta mál upplýsingar sem ég hef fengið á liðnum árum frá bandarísku verkalýðshreyfingunni, en ég hef nú um nokkurra missera skeið fengið að fylgjast með hvernig Bandaríkjamenn hafa aðstoðað og unnið með innlendum aðilum meðal almennings, meðal fátækra smábænda og landbúnaðarverkafólks í Mið-Ameríku, að því að rétta hag þessa fólks.

Þegar litið er yfir ástandið í EI Salvador í heild má taka undir það sem sagt hefur verið, að síðustu mánuði hefur stríðið í El Salvador verið tvíþætt: annars vegar borgarastríð um völdin í landinu, hins vegar áróðursstríð á alþjóðavettvangi.

Í borgarastríðinu takast á þrír aðilar: Öfgamenn til hægri, fulltrúar gömlu landeigendanna sem farið hafa með öll völd í landinu með stuðningi ólíkra fylkinga í hernum. Ríkisstjórnin, sem upphaflega var mynduð sem miðjuafl, en hefur færst yfir á hægri vænginn vegna þess að hinir vinstrisinnuðu hafa kosið vopnin í stað þess að reyna að feta veg lýðræðisins og taka þátt í stjórn landsins. Öfgamenn til vinstri hafa stofnað skæruliðasveitir sem í engu gefa eftir að grimmd og mannvonsku þeim sveitum sem starfa fyrir öfgalið til hægri. Þær herja á stjórnarhermenn.

Síðan er áróðursstríðið á alþjóðavettvangi. Þar eru helstu þátttakendur Bandaríkin og Sovétríkin og svo að sjálfsögðu fylgifiskar þeirra, allt niður í einstaka þingmenn á þjóðþingum, eins og við verðum átakanlega varir við á Alþingi Íslendinga, svo og fjölmiðlamenn sem allt í einu eru orðnir þátttakendur í slíkum atburðum með sinni afstöðu.

Það er auðvitað engin launung á því, eins og kom fram hjá hv. þm. Kjartani Jóhannssyni, að Bandaríkin styðja þá ríkisstjórn í EI Salvador sem er við völd. Þar eru jafnframt nokkrir tugir bandarískra hernaðarráðgjafa um þessar mundir, að mér er tjáð. Sovétstjórnin hefur hins vegar kosið að fara þær leiðir sem henni eru kærastar í öllum löndum öðrum en Afganistan og Austur-Evrópuríkjunum. Hún leitast við að fela sinn hernaðarlega stuðning við öfgamenn til vinstri sem víða eru að störfum og eru annaðhvort bundnir skipulegum kommúnistaflokkum eða öðrum vinstri öflum. Það er ekki lengur þrætt um það, hvort Sovétmenn og Kúbumenn taki þátt í baráttu með svokölluðum þjóðfrelsisöflum í Afríku, ég endurtek: Afríku, það hefur verið viðurkennt og sannað.

Enn þá láta þessir sömu aðilar svo sem hendur þeirra séu hreinar af blóðbaðinu í El Salvador. Er reyndar sömu sögu að segja um ráðamenn í Nicaragua, nágrannaríki El Salvador. Þar eru komnir til valda skoðanabræður þeirra sem ráða í Sovétríkjunum og Kúbu og þangað er veitt gífurlega miklu fé og afli til þess að koma á fót öflugasta her í Mið-Ameríku. En ég held að samt sem áður sé óhætt að taka undir þá skoðun blaðamanns, sem lét í sér heyra í tímaritinu Newsweek fyrir skömmu, að þrátt fyrir mikinn stuðning bæði Castros og Sandinista, fyrir hönd Sovétríkjanna, við byltingarmenn í EI Salvador sé ekki hægt að telja þá vera ástæðuna fyrir þeim mikla óróa sem nú ríkir í Mið-Ameríku. Við verðum að hafa það í huga, að í gegnum aldirnar hefur fátæktin og kúgunin verið landlæg í þessum löndum og það eru einræðisherrar þessara landa sem hafa átt mestan þátt í því að sá því sæði uppreisnar sem nú fer vaxandi og virðist víða vera að bera ávöxt. Það er ekki Kúba sem er ástæðan fyrir óróleikunum á þessu svæði. Hins vegar hafa stjórnendur Kúbu notað sér út í ystu æsar tækifæri sem þar hefur gefist, er haft eftir einum bandarískum starfsmanni utanríkisráðuneytisins á þessu svæði.

Ég held að skynsömum mönnum, sem líta hlutlaust á málin, sé ljóst að jafnvel þótt Reagan forseti Bandaríkjanna gæti komið í veg fyrir aðgerðir utanaðkomandi afla, eins og þeirra á Kúbu og í Nicaragua, þá er svo mikið af uppsöfnuðum vandræðum og þjóðfélagslegu óréttlæti í mörgum þessara ríkja að þau mundu halda áfram að loga, loga óróleikans og loga byltingar, sem nú geisar ekki aðeins í því landi sem við höfum nú sérstaklega til umræðu í sambandi við þetta mál.

Það er því óhætt að taka fyllilega undir þau orð hæstv. utanrrh. sem hann viðhafði í svari sínu við fsp. hér í Sþ. ekki alls fyrir löngu. Hann sagði orðrétt, með leyfi forseta: „Undirrót þess skelfingarástands, sem ríki hefur í El Salvador, er án alls vafa hið gífurlega þjóðfélagslega óréttlæti, sem þar hefur viðgengist, og það hyldýpi, sem skilur hina fámennu yfirstétt frá öllum landslýð.“

EI Salvador hefur um áratugaskeið haft einhverja hæstu hlutfallstölu eignalausra landbúnaðarverkamanna og leiguliða sem nokkurs staðar finnst í latnesku Ameríku. Bág kjör þeirra í landinu hafa haft mikil áhrif á hina pólitísku stöðu innanlands, átt sinn þátt í sívaxandi ólgu sem hefur leitt til blóðugra átaka. Það sem skeði árið 1980, þegar gengið var í að skipta jarðeignum upp, var mjög mikilvægt í sambandi við alla þróun í átt til lýðræðislegra stjórnarhátta, enda nutu þær aðgerðir mikils stuðnings í landinu.

Það var 6. mars 1980 sem stjórn El Salvador samþykkti þessa jarðeignaskiptingaráætlun. Þegar hún kemst til framkvæmda — sem ég bæði vona og veit að mun verða í framtíðinni vegna þess m.a. að þetta er eina ráðið til þess að leysa vandamálin í þessu landi — þá verður um að ræða eina mestu umbreytingu í landbúnaði í allri sögu Mið- og Suður-Ameríku. Þessi áætlun var í þremur þrepum og ef öll þrjú þrep hennar hefðu náð fram hefði hún flutt eignarrétt á landi til um 225 þús. fjölskyldna af um 300 þús. fjölskyldum landbúnaðarverkamanna í landinu.

Forustusveit þeirra, sem barist hafa fyrir þessu átaki, er samband smábænda eða þrýstihópur þeirra, eins og sumir vilja kalla, sem kallaður hefur verið Union Communal Salvadoriana. Þessi hópur eða samtök voru stofnuð 1966 með aðstoð frá samtökum sem eiga uppruna sinn í stuðningi bandarísku verkalýðshreyfingarinnar, sömu samtökum og hafa aðstoðað við skipulag og þróun í málum fátækra smábænda í Mið- og Suður-Ameríku.

Stjórnendur í El Salvador, sem þar réðu þegar ákveðið var að taka til við þessa breytingu og tilfærslu jarðeigna, leituðu einmitt aðstoðar þessara samtaka við að koma breytingunni á. Vegna þess að samtökin nutu mikils stuðnings í sveitum landsins fékk ríkisstjórnin forseta þessa sambands til að stjórna áætluninni. Báðir aðilarnir voru þess fullvissir, að ef þeir gætu komið af stað borgarastyrjöld í landinu mundi sigurinn verða þeirra. Vitna ég hér til aðilanna, sem lögðust gegn þessu, öfgaaflanna til hægri og vinstri. Það er enginn vafi á því. að árásir beggja þessara aðila og launmorð eru hluti af áformum þeirra um að koma á óstöðugleika í landinu og kollvarpa ríkjandi stjórnvöldum, sem lengi framan af-og maður verður að trúa enn þá taka nokkurt tillit til þeirra réttinda sem áskilin eru í mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, a.m.k. þegar þeir vilja hlusta á skynsamlegar tillögur eins og komið hafa fram nú ekki alls fyrir löngu frá fulltrúum Mexíkó og Frakklands.

Þeir, sem að þessari landbúnaðaráætlun unnu og fylgdust með framvindunni, voru þess fullvissir og eru, að ef borgarastyrjöld nær hámarki í landinu eru öll líkindi til — og þessi tala hefur ekki verið vefengd — að a.m.k. 200 þús. manns muni láta lífið í þessu litla landi sem hefur aðeins 4.5 millj. íbúa. Og það sem kannske verra er: það eru allar líkur á að slík átök mundu leiða til þess, að önnur lönd á svæðinu drægjust inn í þessa baráttu, eins og þegar er komið á daginn, með því að styðja annan hvorn hinna stríðandi aðila.

Það er skoðun margra — og sú skoðun er ekki sótt til Bandaríkjanna — að ef svokölluð vinstri byltingaröfl sigra í landinu muni samanburðurinn við stjórn Pol Pots í Kampútseu ekki verða mjög langsóttur. Þegar er reynsla komin á þetta í einu nágrannaríki EI Salvador, Nicaragua. Það er ekki auðvelt fyrir okkur hér uppi á Íslandi, sem viljum láta ljós okkar skina á vandamál í þessum hluta heimsins eins og annars staðar, að gera okkur grein fyrir af hverju þetta litla land, El Salvador, er í raun fyrsti frambjóðandinn í það hlutverk að teljast jafngildi Kampútseu á vesturhveli jarðar og hvers vegna þessi endurskipulagning eða skipting jarðeigna, sem verið er að reyna að koma í framkvæmd við mjög erfiðar aðstæður, hefur haft slík áhrif á þetta ástand.

Því hefur verið haldið fram af sérfræðingum frá Sameinuðu þjóðunum, að í EI Salvador finnist vandamál sem ríkjandi eru bæði í Asíu og í Mið- og Suður-Ameríku. Landið er lítið og þéttbýlt og þeir, sem kynnt hafa sér ástand þar, segja að íbúafjöldinn skiptist nokkurn veginn á þann hátt sem hér skal greina:

Um 2.4 millj. manna eða í kringum 400 þús. fjölskyldur lifa á þéttbýlissvæðum. Þar eru um 30% þessara manna atvinnulausir eða hafa mjög litla atvinnu. Mikið af þessu fólki hefur flúið til þéttbýlissvæðanna, til borganna úr fátækt dreifbýlisins, aðeins til þess að komast að þeirri ömurlegu staðreynd, að lífið er jafnslæmt þar og ekkert betra en í sveitunum. Þetta er sú ömurlega staðreynd sem fólk úr dreifbýli alls staðar í heiminum, þar sem fátækt ríkir, kemst að, sama hvort það er austur í Indlandi, í Afríku eða í Suður-Ameríku.

Af þeim 2.2 millj. íbúa, sem þá eru eftir, að frátöldum þeim sem í þéttbýlinu búa, eru um það bil 350 þús. fjölskyldur sem lifa enn úti í sveitum landsins. Aðeins lítill hluti þeirra vinnur störf sem ekki teljast til landbúnaðar eða á sinni eigin litlu jörð.

Þá eru eftir um það bil 300 þús. af þessum fjölskyldum, sem lifðu sem landeignalausir verkamenn allt fram að 6. mars 1980 þegar umrædd jarðeignalög voru sett. Stór hluti þessara jarðeignalausu fjölskyldna vann fyrir sér á stórum kaffi-, sykur- og baðmullarekrum í eigu ríkra landeigenda. Einmitt þessi staðreynd mun hafa vakið bandarísku verkalýðshreyfinguna til þess að sinna sömu skyldu og þeir tókust á herðar er þeir skipulögðu sveitir slíks fólks, þúsunda slíkra, tugþúsunda, sem unnu skyld störf í Bandaríkjunum, bæði í Kaliforníu og öðrum suðurríkjum Bandaríkjanna.

Í EI Salvador mun stór hluti þessa fólks hafa aflað sér tekna eftir leiðum sem eru kannske þekktari í Asíu en í Suður- og Mið-Ameríku, sem leiguliðar á litlu ræktuðu svæði sem þeir svo greiddu fyrir með hluta af uppskeru sinni. Það er óhætt að fullyrða að stærsti hluti uppskerunnar af þeim 2–3 ekrum, sem þeir höfðu til umráða, hafi farið til þess að borga landeigandanum leiguna. Á nákvæmlega sama hátt og í Asíu gat landeigandinn í EI Salvador átt t.d. 50 ekrur og leigt þær út til 50 fjölskyldna, verið alveg eins gráðugur og sá landeigandi sem bjó í borg í EI Salvador og átti 10 sinnum stærra land. Þessar 300 þús. jarðeignalausu fjölskyldur eru um 40% af allri íbúatölu landsins.

Þetta hlutfall landbúnaðarverkamanna og leiguliða hefur ekki aðeins skapað vandamál í El Salvador, heldur má benda á fjölmörg lönd sem hafa búið við sama ástand og orðið að ganga í gegnum svipaða þróun. Sagan segir okkur frá Mexíkó og Rússlandi í byrjun aldarinnar, Kína á fjórða og fimmta áratug þessarar aldar, Bólivíu og Kúbu á sjötta áratugnum, Víetnam á þeim sjöunda, Eþíópíu og Nicaragua á áttunda áratugnum. Í öllum þessum löndum höfðu skapast djúpstæð vandamál, sem áttu rót sína að rekja til þess óréttlætis sem fólst í þessu ábúðar- og vinnufyrirkomulagi, og kom niður á stórum hluta af íbúafjölda dreifbýlisins sem nam — eins í El Salvador — allt að 1/3 af heildaríbúafjölda viðkomandi landa. Reyndar var þetta sama hlutfall í þeim löndum, sem ég hef þegar nefnt, og olli þeim stórfelldu átökum sem enduðu með falli þeirra stjórna sem þá voru við völd.

Að vísu þekkjum við önnur lönd þar sem skyld jarðeignavandamál voru leyst án slíkra átaka. Nálægt okkur stendur að sjálfsögðu Danmörk sem leysti sín vandamál á þessu sviði á áttunda tug 19. aldar. Við getum bent á Japan, Suður-Kóreu, Formósu á árunum eftir síðari heimsstyrjöld, og sjálfsagt finnast fleiri sem nefna mætti.

Þrátt fyrir þær skoðanir sem menn almennt hafa á vopnastuðningi Bandaríkjanna við hægri harðstjórnaröflin í El Salvador og víðar, sem ég tek undir, þá mótmælir enginn því, að Bandaríkin hafa víðs vegar um heim veitt mikilsverðan stuðning til að efla efnahag landanna. Þekkjum við Íslendingar góð dæmi þess.

Því hefur verið haldið fram, að sá stuðningur, sem Bandaríkin höfðu veitt El Salvador allt fram á sjötta áratug þessarar aldar, hafi ekki náð tilgangi sínum vegna þess að í þeim stuðningi var lögð áhersla á þróun iðnaðar og byggingu ýmissa risamannvirkja, eins og hafna og þjóðvega. Þeim, sem þar lögðu á ráðin, hafði sést yfir að þau lönd, sem Bandaríkin studdu til þess að koma á breytingum í sínum landbúnaði, voru löndin sem komust hjá bændabyltingu, eins og átti sér stað á Kúbu og í Víetnam, og þessar aðgerðir urðu ekki aðeins til þess að komist var hjá blóðugum innanlandsátökum, heldur til þess að efnahagur þessara landa og alls almennings tók stórstígum framförum, langt fram yfir það sem gerðist hjá nágrönnum þeirra í Asíu. Og það er alls ekkert erfitt að finna ástæðuna. Bændur, sem eiga landið, framleiða miklu meira á landi sínu en annarra. Lönd, sem að meginhluta eru landbúnaðarlönd, þar sem bændur eiga sitt land, eru þess umkomin að framleiða svo að umframbirgðir verða. Þetta verður til þess að fjármunir komast á hendur fjölda fólks sem eru hinir eiginlegu neytendur. Síðan færist fjármagnið aftur í gegnum margs konar þjónustu til bygginga og enn frekari þjónustu, til iðnaðar og til fjárfestingar í landbúnaði. Og ég leyfi mér að fullyrða að það eru engir aðrir en Bandaríkjamenn sem þekkja þetta mál hvað best. Þeir hafa gengið í gegnum slíka þróun í sínum landbúnaði sjálfir og má rekja það til svokallaðra Homestead-laga sem sett voru árið 1862. Með þeim var það einmitt fjölskyldulandeignin sem varð grundvöllur að framleiðslueiningunni í amerískum landbúnaði mið- og vesturríkjum Bandaríkjanna. Auðvitað má til viðbótar benda á þá staðreynd, sem enginn getur mælt á móti, hvað varðar undirstöðufæðutegundir þessa fólks í Mið- og Suður-Ameríku og reyndar í Asíu líka, maís, hrísgrjón og hveiti, að alls staðar er það litli jarðeigandinn, sem vinnur á eigin jörð, sem framleiðir ekki aðeins meira en gert var með gamla fyrirkomulaginu, leiguliðakerfinu, heldur líka meira en svokallað samvinnukerfi sem við þekkjum frá löndum sósíalismans hér í Vestur-Evrópu. Er nærtæk dæmi og lýsingar um það að finna frá póllandi frá síðustu árum.

Það er ávallt spurning hvernig Íslendingar eða öllu heldur fulltrúar þeirra á alþjóðavettvangi eigi að taka á ýmsum þeim deilumálum sem uppi eru á hverjum tíma. Mér finnst að sjálfsögðu eðlilegt að tekin sé afstaða til þeirra mála út frá þeim meginsjónarmiðum sem við teljum að liggja eigi til grundvallar í samskiptum ríkja, þar sem tekið er tillit til sjálfsforræðis þeirra fyrst og fremst. Umfram allt hljóta þó Íslendingar að skipta sér af mannréttindamálum og vera í hópi þeirra ríkja sem harðast berjast fyrir því. að almenn mannréttindi séu virt í öllum ríkjum heims.

Á alþjóðavettvangi hafa Íslendingar unnið að þessum málum, og á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hafa Íslendingar ávallt stutt þær ályktanir sem leitt geta til þess, að mannréttindi séu í heiðri höfð. Eins og fram kemur í skýrslu fastanefndar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum voru mannréttindi í El Salvador til umræðu á 36. Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Mexíkó, Danmörk, Svíþjóð og nokkur önnur lönd báru fram tillögu um ástand í mannréttindamálum í EI Salvador. Eins og fram kemur í skýrslu um þátttöku Íslands í Allsherjarþinginu, var þetta umdeildasta tillagan í þriðju nefnd á 36. Allsherjarþinginu, enda var tillagan borin upp í óþökk stjórnvalda í EI Salvador sem töldu að efni tillögunnar væri verulega vilhallt stjórnarandstæðingum og innihéldi ósannar og óstaðfestar ásakanir. Margar tilraunir voru gerðar til að fá flytjendur til að milda orðalagið, en það tókst ekki.

Í skýrslunni segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Í tillögunni er lýst þungum áhyggjum yfir alvarlegu ástandi í mannréttindamálum í El Salvador og afleiðingum þess fyrir fólkið í landinu. Þá er harmað að ekki hafi tekist að ná samkomulagi stjórnmálaflokka þar um að efna til lýðræðislegra kosninga og stjórnarmyndunar án ofbeldis og ofsókna. Harmað er ofbeldisástand og mannréttindabrot, sérstaklega af völdum vopnaðra sveita á vegum stjórnvalda í landinu, er beri enga virðingu fyrir lífi og réttindum borgaranna. Skorað er á öll ríki að skipta sér ekki af innanríkismálum landsins og hætta allri hernaðaraðstoð við aðila þar, þannig að stjórnmálaöfl í landinu geti komið á friði, lögum og reglu. Þá er skorað á stjórnvöld að tryggja mannréttindi þjóðarinnar og stefna með því að friðsamlegri pólitískri lausn vandamála landsins.

Mannréttindanefndinni er falið að fjalla um málið á næsta fundi á grundvelli skýrslu sérstaks ráðunauts um ástandið. Loks er ákveðið að fjalla um málið á 37. Allsherjarþinginu.“

Gengið var til atkvæða um tillöguna í nefnd og þingi og var hún samþykkt með 68 atkv. gegn 22, og ég held að 53 hafi setið hjá. Þessi ályktun var nr. 36 á þessu þingi. Norðurlönd greiddu öfl tillögunni atkvæði ásamt Austurríki, Belgíu, Frakklandi, Grikklandi, Hollandi, Írlandi, Ítalíu, Lúxembúrg og Vestur-Þýskalandi af Vesturlöndum. Hjá sátu m.a. Ástralía, Bretland, Japan, Kanada, Portúgal og Spánn. Á móti voru m.a. Bandaríkin og Ísrael. Þessar upplýsingar eru úr skýrslu utamnrrn. um störf fastanefndar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum.

Það kemur jafnframt fram í þessari skýrslu, sem dreift hefur verið til allra hv. þm., að ýmsar fleiri ályktanir um mannréttindamál voru.samþykktar á þinginu, þ. á m. um mannréttindi í Guatemala og auk þess stofnun mannréttindasjóðs til styrktar þeim er mannréttindi hafa verið brotin á í Chile með fangelsun eða frelsissviptingu eða þeir neyddir til að flýja land. Norðurlandaþjóðirnar fluttu þá tillögu og var Ísland í hópi flutningsaðila. Er það gott dæmi um störf íslenskra sendinefnda á alþjóðavettvangi að málefnum um mannréttindi.

Þá má geta þess, að á fundum Alþjóðaþingmannasambandsins, sem Alþingi Íslendinga er aðili að, hefur þetta mál verið á dagskrá og í sept. s.I. var samþykkt ályktun um mannréttindi í EI Salvador á fundi Alþjóðaþingmannasambandsins sem haldinn var í Havana. Sú tillaga er efnislega eins og tillögur sem samþykktar hafa verið ávegum Sameinuðu þjóðanna, að öðru leyti en því, að þar er lýst yfir áhuga á sameiginlegri yfirlýsingu Mexíkó og Frakklands um ástandið í EI Salvador. Sú yfirlýsing var gefin út eftir að Mitterand Frakklandsforseti hafði hitt Portillo, forseta Mexíkó, og þeir rætt þessi mál.

Í þessari sameiginlegu yfirlýsingu, sem gefin var út af utanríkisráðherrum landanna, er lagt til að samtökin FMLN og FDR verði viðurkennd sem lögmætir pólitískir aðilar og samið við þá um framtíða landsins og auk þess verði hafin uppbygging og þróun í lýðræðisátt undir eftirliti Sameinuðu þjóðanna.

Meginágreiningurinn snýst þess vegna um það, hvort taka eigi mark á fyrirhuguðum kosningum í El Salvador, sem fram fara 28. mars s.l., eða hvort ekki séu forsendur fyrir þeim kosningum fyrr en samið hefur verið um framtíð landsins við foringja skæruliðahópanna í landinu.

Það er ljóst að FMLN og FDK bjóða ekki fram í þessum kosningum og telja kosningarnar hina mestu markleysu, en sjö flokkar, sem nú teljast til stjórnarandstöðu í EI Salvador, munu taka þátt í kosningabaráttunni og hafa boðið fram. Óneitanlega læðist að manni sá grunur, að þeir aðilar svokallaðra byltingarafla, sem afneita þátttöku í kosningum þessum á þann hátt sem lýðræðisríki og þing þekkja, en boða hana í staðinn með bensínsprengjum, séu sjálfir ekki á hraðri leið til aukins lýðræðis né í átt til þess, að allir þegnarnir njóti einföldustu mannréttinda, eins og þátttöku í kosningum.

Það er auðvitað áhorfsmál hvort ræða eigi efnislega um ástandið í EI Salvador, enda blandast þá inn í málið ástandið í heild á þessu heimssvæði. Umræður um það. sem er að gerast í EI Salvador, taka að sjálfsögðu mið af þeirri þróun sem átt hefur sér stað í nágrannaríkjunum, einkum í Nicaragua, þar sem Sandinistar hafa tekið völdin, í Hondúras, Guatemala og jafnvel í Costa Rica, þótt þar hafi verið kyrrt að undanförnu.

Það hefur verið mikið rætt og ritað um þessi mál í erlend blöð og innlend að undanförnu og framsögumaður vitnaði m.a. í nokkur slík skrif. M.a. hefur þetta verið gert vegna nýrrar stjórnar í Hondúras, vegna gervikosninga og harðstjórnar í Guatemala vegna afnáms mannréttinda þar, — ég tek þó fram að getur verið breytt frá því að ég samdi þessa ræðu, því að mér skilst að annaðhvort í gær eða fyrradag hafi verið gerð bylting í Guatemala, — vegna afnáms mannréttinda og ógnarstjórnar gagnvart frumbyggjum í Nicaragua, svokölluðum Miskito-indíánum, vegna afskipta Kúbumanna í Mið-Ameríku og á Karabíska svæðinu, en Kúbumenn hafa yfir að ráða einum best búna her í heimi, og loks vegna afskipta Bandaríkjamanna á þessu svæði, sem reyndar eru ekki ný af nálinni.

Að sjálfsögðu mætti um þessi atriði ein sér eða öll sameiginlega flytja margar langar ræður. Ég held þó að aðalatriði þess máls, sem hér er til umr., sé að gera sér grein fyrir þeim ágreiningi sem ríkir á milli þjóða um ástand og horfur í EI Salvador, ágreiningi sem hefur verið fluttur hér inn á Alþingi. Annars vegar er afstaða Bandaríkjanna og langflestra Mið- og Suður-Ameríkuríkjanna, sem lýsir sér í því, að fyrst þurfi að efna til kosninga í landinu og í framhaldi af þeim verði teknir upp samningar við skæruliðahópana, þess vegna þurfi að koma í veg fyrir að skæruliðum takist að eyðileggja kosningarnar sem þar fara fram á sunnudaginn kemur. Hins vegar er afstaða Mexíkó og örfárra annarra Suður- Ameríkuríkja, sem studd er af Kúbu og Frakklandi, eins og áður er minnst á.

Mexíkóstjórn leggur áherslu á að fyrst verði samið við skæruliða og að Sameinuðu þjóðirnar skerist í leikinn nú þegar. Þá er vitað að viðræður, bæði opinberar og leynilegar, hafa farið fram milli forráðamanna þessara ríkja. Alexander Haig hefur rætt við Castaneda utanrrh. Mexíkó og Claude Cheysson utanrrh. Frakklands. Þá hefur Alexander Haig átt fund 23. nóv. s.l. með Rafael Carlos Rodrigues, sem er þriðji æðsti maður Kúbu.

Afstaða utanrrh., sem fer með þessi mál af hálfu ríkisstj. á alþjóðavettvangi, hefur verið skýr, eins og fram hefur komið í ályktunum sem Ísland hefur greitt atkv. með á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, bæði á 35. og 36. Allsherjarþinginu.

Þar sem ég tel að hugsanlegar yfirlýsingar Alþingis eigi fyrst og fremst að beinast að mannréttindamálum vil ég vekja athygli á því sem segir á bls. 186 í áðurnefndri skýrslu fastanefndar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. Þar segir svo um mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna orðrétt, með leyfi forseta.

„Undanfarin fjögur ár hafa verið bornar fram á allsherjarþingum tillögur um stofnun embættis mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna, í líkingu við embætti flóttamannafulltrúa samtakanna, en vegna mjög harðrar andstöðu Austur-Evrópulandanna og fylgiríkja þeirra hafa tillögurnar ekki náð fram að ganga og mátinu jafnan verið vísað til mannréttindanefndarinnar til athugunar.

Costa Rica, Danmörk, Noregur og Svíþjóð og 16 önnur lönd báru fram tillögu, þar sem gert var ráð fyrir að fela mannréttindanefndinni að veita málinu forgang á næsta fundi sínum og leggja raunhæfar niðurstöður um það hér fyrir næsta fund efnahags- og félagsmálaráðsins. Því næst skyldi málið lagt fyrir 37. Allsherjarþingið með það fyrir augum að taka ákvörðun um stofnun embættisins. Eins og undanfarin ár fluttu Alsír, Indland, Júgóslavía og Kúba breytingartillögur sem drógu úr öllum styrk upphaflegu tillögunnar og hefðu í reynd komið í veg fyrir efnislega meðferð málsins.

Eftir langt málþóf og margar breytingartillögur flutningsmanna og ofangreindra fjögurra landa náðist loks samkomulag um texta, þar sem mannréttindanefndinni er falið að fjalla aftur um málið og leggja skýrslu um niðurstöður sínar fyrir efnahags- og félagsmálaráðið og 37. Allsherjarþingið. Var sú tillaga samþykkt samhljóða í nefnd og á þingi, ályktun nr. 36.“

Ég held að við Íslendingar gátum hjálpað mikið til með því að stuðla að því, að embætti eins og þarna var verið að lýsa verði sett á stofn á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Í skýrslu þeirri, sem Ólafur Jóhannesson, hæstv. utanrrh., hefur lagt fram hér á Alþingi og rædd verður síðar, kemur í ljós stefna íslensku ríkisstj. í málefnum El Salvador. Get ég tekið undir hana í einu og öllu. Sömu skoðanir komu fram í svari hans við áðurnefndri fyrirspurn, og þær skoðanir studdu þeir sjálfstæðismenn sem voru hér viðstaddir er sú umr. fór fram. Í skýrslu hæstv. utanrrh. segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Í skýrslu minni á s.I. ári vék ég nokkuð að málefnum EI Salvador. hví fer fjarri að ástandið hafi batnað á þeim tíma sem síðan er liðinn. Ógnaröldin er alls ráðandi og ýmsar fylkingar til hægri og vinstri keppast um að myrða andstæðingana, en allur almenningur í landinu líður mest, eins og oftast vill verða. Það yrði of langt mál að reyna hér að skilgreina ástandið í El Salvador og benda á líklegustu lausnirnar. Almennar kosningar standa fyrir dyrum, en vandséð er að þær geti leyst mikið eins og í pottinn er búið. Ýmsir vinstri flokkar fá ekki að taka þátt í kosningunum eða vilja það ekki, og framboð eða jafnvel aðeins þátttaka í atkvæðagreiðslu getur jafngilt dauðadómi frá einhverjum þeirra fylkinga sem berjast um völdin. Núverandi ríkisstjórn í landinu er blanda af herforingjastjórn og borgaralegri stjórn, lítilsmegnug og sjálfri sér sundurþykk. Hún hefur reynt að skipta stórum jarðeignum milli smábænda til að draga úr þjóðfélagsmisréttinu, en árangur af því starfi er enn óviss vegna upplausnarástandsins í landinu. Bandaríkjamenn hafa veitt stjórninni hernaðaraðstoð til að berjast við skæruliðafylkingu vinstri manna sem þeir segja studda af ýmsum kommúnistaríkjum, og jafnframt veita Bandaríkjamenn stjórninni nokkra efnahagsaðstoð í von um að hún styrki stöðu kristilegra demókrata Duartes í kosningunum og þar með aðstöðu miðjumanna í stjórnmálum EI Salvador.

Sameinuðu þjóðirnar hafa tvívegis ályktað um ástandið í EI Salvador. Þar hafa aðilar verið víttir fyrir framferði sitt og skorað á þá að taka upp viðræður til að leysa málin á friðsamlegan hátt. Ísland hefur greitt þessum tillögum atkvæði sitt, en því miður bendir enn ekkert til að friðsamleg lausn sé í sjónmáli. Sumir þeirra hópa, sem berjast við ríkisstjórnina, hafa gefið til kynna að þeir kunni að vera reiðubúnir til samningaviðræðna, en stjórnin er því andvíg og vísar m.a. til kosninganna sem fram eiga að fara.

Ástandið í sumum öðrum Mið-Ameríkuríkjum, einkum Guatemala, er í sjálfu sér ekki miklu betra en í EI Salvador. Mesta ógnunin við frið og stöðugleika í þessum ríkjum er fátækt, félagslegt óréttlæti og alræðisvald fámennisstjórna. Aðeins með auknu jafnræði, aukinni almennri menntun og efnahagslegri uppbyggingu verður hægt að stuðla að lýðræðisþróun og forða því að sterkir öfgahópar steypi þessum ríkjum út í alræðisvald kommúnismans. Þegar svo er komið gefast ekki tækifæri til að skoða hug sinn að nýju og hyggja að því, hvort aðrar leiðir væru ekki gæfulegri. Næg eru dæmin til að sanna það.“ — Þetta er orðrétt tilvitnun úr skýrslu utanrrh. sem hér liggur fyrir hv. Alþingi til umræðu einhvern tíma á næstunni.

Þegar við lítum til þeirrar stöðu sem nú er á alþjóðavettvangi og reyndar ekki síst hér í Vestur-Evrópu, finnst mér allt of einfalt að draga mörk á milli Bandaríkjamanna og Sovétmanna. Sumum hefur að vísu þótt merkilegt að þeir, sem hafa barist hvað mest, best og drengilegast gegn einræðisstjórnarfari Sovétmanna, eru nú orðnir baráttumenn vinstri skæruliða í EI Salvador, sem eru sumir afsprengi þeirra einræðisafla sem náð hafa völdum í Nicaragua og eru í sjálfu sér ekki hótinu betri en öfgasinnuð harðstjórnaröfl sem ríkjandi eru í Guatemala.

Ég get ekki látið hjá líða, áður en ég kem að mínum lokaorðum, að minnast á þátt kaþólsku kirkjunnar í þeirri borgarastyrjöld sem nú er í EI Salvador, en því nafni má nefna þessi átök. Þar hafa þeir sem þjóna kirkjunni, eins og því miður víða annars staðar, bæði biskupar, nunnur og prestar, fallið fyrir vopnum launmorðingja og orðið að þola ill örlög. Hefur mátt sjá á liðnum misserum að kaþólska kirkjan hefur verið á mörkum þess að teljast liðsmaður vinstrisinnaðra stjórnarandstæðinga í EI Salvador. Og þótt margir kirkjunnar þjónar hafi verið andstæðir þeim kosningum sem fram undan eru í landinu, þá hafa þeir snúist nær einhuga með þeim í dag. Er það ekki síst að þakka þeirri afstöðu sem biskupar landsins og páfi hafa tekið.

Reyndar mætti ala langt mál um kosningarnar, sem eiga að fara fram 28. mars n.k., og afstöðu manna til þeirra, ráðandi manna í ýmsum löndum heims. Ég gæti t.d., ef tími hefði gefist til, sagt hv. þm. frá umræðum sem áttu sér stað í stjórnmálanefnd Evrópuráðsins aðeins fyrir nokkrum dögum um þetta mál, en þar var samþykkt að senda til EI Salvador fulltrúa Evrópuráðsins, stjórnmálanefndarinnar, til að fylgjast með þessum kosningum. Hins vegar kom það fram á síðustu stundu hjá formanni nefndarinnar, verkamannaflokksþingmanninum Úrin frá Englandi, að það væri líklega ekki hægt vegna þess að ekki væru til peningar til þess að senda hann þangað. Þar voru sem sagt annars vegar mannréttindin og hins vegar peningarnir á vogarskálunum.

Vinstri menn í EI Salvador, eins og hér hefur reyndar komið fram í fyrri ræðu, telja þessar kosningar marklausar og vilja að sem fæstir kjósendur láti álit sitt í ljós. Stjórnarskrám, sem hið nýja þing eigi að semja, verði aðeins eitt tæki til að tryggja völd hersins, landeigenda og yfirstéttar.

Eitt og annað bendir þó til þess, að þessi aðför byltingarmanna að kosningunum njóti ekki almennra vinsælda í EI Salvador og það sé ekki í þessu skyni sem almenningur hafi stutt skæruliða, eins og ég hef áður komið inn á. En það er enginn vafi á því — og það held ég að sé nokkuð sem megi undirstrika- að bændur eru stuðningsmenn áðurnefndrar áætlunar ríkisstjórnarinnar um að skipta landeignum stórjarðeigenda, sem ég hef hér eytt nokkrum tíma í að lýsa.

Eins og ég sagði er afstaða páfans til þessara kosninga til komin vegna áskorana biskupanna í EI Salvador. Í þeirri áskorun kemur þetta m.a. fram, með leyfi hæstv. forseta:

„Við teljum að deila, sem á sér innlendar orsakir, hafi verið færð inn á alþjóðavettvang þannig að það sé ekki lengur á valdi EI Salvador-manna sjálfra að leysa deiluna. Staðreynd er að Sovétmenn leggja sitt af mörkum til að viðhalda ágreiningnum.“

Páfi tók einnig, í ræðu sem hann flutti, undir þá hvatningu biskupanna, að sem flestir tækju þátt í kosningunum sem eiga að fara fram á sunnudaginn kemur. Orð þeirra verða ekki skilin á annan veg en þann, að þeir telji áróðursstríð á alþjóðavettvangi spilla fyrir friði í EI Salvador. Þetta er alvarleg áminning til allra þeirra sem telja það sér t.d. til pólitísks framdráttar í heimalandi sínu að vera að hampa borgarastyrjöldinni í EI Salvador. Við leiðum að sjálfsögðu ekki til lykta borgarstyrjöldina í EI Salvador með því að ræða hana á stjórnmálavettvangi hér á Íslandi, þó ég telji sjálfsagt að ræða það. En við verðum að mínu mati að gjalda nokkurn varhug í ályktunum okkar um þessi sömu mál. Ég held að við getum sameinast um það að taka undir með kirkjunnar mönnum í El Salvador þegar þeir biðja þess, að þjóðinni sjálfri takist að leysa deilur sínar á friðsaman hátt og til þess hafi íbúarnir frelsi bæði í orði og verki.

Ég tel að til þess að svo megi verða þurfi að koma til aðstoð og hjálp Sameinuðu þjóðanna og vinsamlegra þjóða sem hafa og halda í heiðri mannréttindastefnuskrá Sameinuðu þjóðanna. Og vegna þess að ég vitnaði í upphafi ræðu minnar til þeirra skoðana og aðgerða sem bandaríska verkalýðshreyfingin hefur haft í frammi í sambandi við þetta mál í EI Salvador, þá vil ég nú í lok ræðu minnar vitna til niðurstöðu sem þeir komust að og gerðu að sinni seint á síðasta ári og hafa látið fara frá sér til Alþjóðasambands frjálsra verkalýðsfélaga, sem verkalýðsfélög eiga aðild að alls staðar að úr heiminum. Þeir segja í þessum ályktunum sínum að það sé álit þeirra og einnig verkalýðshreyfingarinnar í EI Salvador, að ef sigur vinnist, ef þeir hægri menn, sem ráða og hafa ráðið í landinu El Salvador, sigruðu í þessari styrjöld sinni, þá verði það til að skapa örvæntingu og hörmungar fyrir alla launþega í þessu hrjáða landi. Og þeir segja enn fremur — og það er niðurlag ályktunarinnar að þeir fordæmi allan tilflutning vopna frá Sovétríkjunum til skæruliðanna í El Salvador, alveg eins og þeir, bandaríska verkalýðshreyfingin, fordæmi að bandarísk vopn séu notuð af hægri öflum í El Salvador í innanlandsátökum. Þeir fordæma það alveg eins. Og þeir ljúka þessari ályktun sinni með þessum orðum: Ef ekki verður áþreifanleg framþróun í sambandi við jarðeignaskiptinguna, í sambandi við frjálsar kosningar, í sambandi við mannréttindi og í því að uppræta og útiloka hinar hræðilegu dauðasveitir sem þar eru að verki, þá verður ekki komið á því þjóðskipulagi í þessu hrjáða, fátæka landi sem verkalýðshreyfingin um allan heim vill stuðla að.

Herra forseti. Ég vil láta þessum orðum mínum lokið um þetta mál. Að sjálfsögðu tek ég undir það með hv. flm. þeirrar till. sem hér er til umr., að hún fari til athugunar hjá utanrmn. Mín skoðun er sú, að það þurfi að breyta orðalagi í till. ef það verður ofan á hjá utanrmn. og hv. þm. að Alþingi eigi að álykta um þetta mál. Ég tel nauðsynlegt að breyta orðalagi tillögunnar þannig að þeir utanaðkomandi aðilar, sem sök eiga, verði allir teknir undir sama hatt, en við förum ekki hér á Alþingi Íslendinga að flokka niður í hópa sökudólga þegar við vitum ekki meira um vandamálin í El Salvador en flestir hér gera.