25.03.1982
Sameinað þing: 69. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3288 í B-deild Alþingistíðinda. (2911)

201. mál, málefni El Salvador

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég þakka þann stuðning sem hefur komið fram við þessa till. í máli tveggja síðustu hv. þm. Ég verð hins vegar að segja það, að ræða hv. þm. Péturs Sigurðssonar olli mér verulegum vonbrigðum. Mér sýndist í henni gæta mikillar tilhneigingar til að drepa allri umr. á dreif.

Það var að sjálfsögðu fróðlegt að fá sögulegt yfirlit yfir jarðaskiptingu í öllum heiminum og hvernig það hefði verið á undanförnum hundruðum ára og svolítið um næringarfræði í leiðinni. Ég hafði ekki lagt það á mig að setja það í framsöguræðu mína fyrir þessari till. og taldi það ekki skýra málin neitt verulega að því er það varðar sem hér er til umr.

Ég get ekki heldur skilið þau ummæli hv. þm. Péturs Sigurðssonar að agnúast út í þá menn í EI Salvador sem hafa á undanförnum árum verið að berjast gegn þeirri kúgun sem hann þó lýsti öðrum þræði að hefði verið mikil, gegn þeirri fátækt sem hann þó lýsti öðrum þræði að hefði verið yfirþyrmandi, — menn sem höfðu barist með orðum einum um langa hríð, en upp skorið enn frekari ofsóknir, fangelsi, morð og dauða. Þessir menn, eins og t.d. Miguel Ungo, höfðu barist með þessum hætti, höfðu tekið þátt í ríkisstjórn með þessum aðilum í þeirri góðu von að þeir mundu geta komið sjónarmiðum sínum fram — ekki bara komið þeim á framfæri, heldur líka komið þeim fram. En þeir uppskáru, eins og ég sagði, einungis meiri kúgun. Það er við þessar aðstæður sem þeir hafa séð sig neydda til að grípa til vopna.

Það kom fram í framsöguræðu minni, að hverjum þeim sem skoðaði sögu atburðanna í El Salvador á undanförnum árum ætti að vera ljóst hverjir það væru, sem hefðu verið kúgaðir og pyntaðir, og hverjir það væru, sem hefðu verið ráðandi stétt og hefðu ástundað morð og kúgun um langa hríð.

Ég vil spyrja hv. þm. Pétur Sigurðsson og samflokksmenn hans í sambandi við þær kosningar sem þarna eru fram undan og hann gerði að nokkru umtalsefni og sagði að væri deilumál hvernig ætti á að taka, — ég vil spyrja hann og hans flokksmenn: Telja þeir að það geti verið lýðræðislegar kosningar við þær aðstæður sem ríkja í landinu, þegar vinstri menn og miðjumenn eru ekki í framboði, þegar þeir eiga yfir höfði sér morð á sjálfum sér og sínum fjölskyldum ef þeir láta á sér kræla? Telur hann að slíkar kosningar séu í rauninni nokkuð annað er farsi? Ég held að allir Íslendingar hljóti að sjá að svo sé.

Ég trúi því ekki heldur, þó að það virtist litið fara fyrir því í ræðu hv. þm., að hann láti þær hörmungar sér í léttu rúmi liggja sem ganga yfir þessa þjóð. Ég trúi því ekki öðru en að hv. þm. Pétur Sigurðsson og samflokksmenn hans sjái að þarna stefnir í algjört öngþveiti og kosningar við þessar aðstæður muni síst verða til að breyta málum til hins betra.

Mér finnst líka að hv. þm. Pétur Sigurðsson og félagar hans í Sjálfstfl. ættu að sjá, eins og margir stjórnmálaleiðtogar í Evrópu hafa séð, að afstaða ríkisstjórnar Ronalds Reagans í þessu máli stefnir einingu Vesturlanda í hættu, og mér finnst að hv. þm. Pétur Sigurðsson og samflokksmenn hans ættu að sjá að það er mikill fjöldi Bandaríkjamanna sem gagnrýnir harðlega stefnu ríkisstjórnar Ronalds Reagans og talar fyrir sömu stefnu og ég hef talað hér fyrir núna, vegna þess að þeir hafa skilið að bandaríska ríkisstjórnin er að stefna áliti og stöðu þjóðar sinnar í mikla hættu.

Ég harma að hv. þm. Pétur Sigurðsson skyldi taka svo til orða, að ef vinstri öflin næðu yfirhöndinni færi í EI Salvador með svipuðum hætti og hjá Pol Pot. Ég tel þetta fráleitt, og ég vil vænta þess, að í framhaldi þessara umr., eftir að þetta mál kemur úr nefnd, komi fram jákvæðari afstaða gagnvart því máli sem hér er flutt.

Ég trúi ekki öðru en að hv. þm. Pétur Sigurðsson sé reiðubúinn að lýsa samúð sinni með þessari þjóð í þeim hörmungum sem yfir hana hafa dunið, að hann sé reiðubúinn að lýsa því yfir að Ísland eigi að stuðla að pólitískri lausn þessa vanda, og ég trúi ekki öðru en að hann sé reiðubúinn að láta það koma fram, að við stuðlum að því að Bandaríkin láti af afskiptum sínum í þessum heimshluta. Öðrum þræði fannst mér eins og hv. þm. vildi gjarnan segja þetta þó hann ætti erfitt með það.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umr. Hún hefur verið fróðleg. Eins og ég gat um í upphafi vænti ég þess, að þetta mál fái góða meðferð í utanrmn., og hef lagt á það áherslu, að það gæti náðst samstaða um till. af þessu tagi eða sem víðtækust samstaða. Auðvitað geta menn haft vilja til að hafa áherslurnar með ýmsum hætti. Ég gat um að þessi till. hefði verið samin með tilliti til þess, að um hana gæti tekist sem víðtækust samstaða.

En að lokum einungis þetta: Það er mikilvægt að okkar rödd heyrist í þessu máli. Afstaða okkar skiptir máli og þess vegna tel ég og legg á það ríka áherslu, að utanrmn. eigi að taka þessa ályktun til skjótrar afgreiðslu þannig að hún geti komið til endanlegrar meðferðar í þinginu.