30.03.1982
Sameinað þing: 71. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3348 í B-deild Alþingistíðinda. (2968)

149. mál, virkjunarframkvæmdir og orkunýting

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég tel rétt nú við framhald þessarar umr. að víkja að fáeinum atriðum sem snerta þá þáltill. sem mælt var fyrir fyrr í þessum mánuði um virkjunarframkvæmdir og orkunýtingu. Áður en ég vík að örfáum atriðum í máli þeirra hv. þm. sem þátt tóku í þessari umr. tel ég rétt að rifja það upp, að eftir að umr. þessi hófst var gengið frá samkomulagi milli Rafmagnsveitna ríkisins sem virkjunaraðila við Blöndu og fulltrúa fimm hreppsnefnda á virkjunarsvæðinu um virkjunartilhögun. Þar með var náð verulegum áfanga í þeirri viðleitni af hálfu stjórnvalda að tryggja framgang Blönduvirkjunar í anda þeirrar þáltill. sem hér er til umr., þ.e. að leitast við að ná sem víðtækustu samkomulagi um virkjunartilhögunina við heimamenn. Þeir aðilar, sem að þessu samkomulagi stóðu við virkjunaraðila, voru fulltrúar meiri hl. fimm hreppsnefnda af sex á svæðinu, eins og áður greinir, þ.e. hreppsnefnda Blönduóshrepps, Torfalækjarhrepps, Svínavatnshrepps, Seyluhrepps og Lýtingsstaðahrepps. Þetta samkomulag var staðfest fyrir hönd virkjunaraðila, Rafmagnsveitna ríkisins, af Kristjáni Jónssyni rafmagnsveitustjóra og af mér sem ráðh. með fyrirvara um samþykki ríkisstj.

Það hefur verið kynnt í meginatriðum í hverju þetta samkomulag er fólgið þó að fáeinar breytingar hafi verið gerðar frá þeim drögum sem kynnt voru hv. alþm. um það leyti sem umr. hófst um þetta mál, en ég tel rétt að víkja hér að niðurlagi í þessu samkomulagi, 16. tölusettum kafla í því sem varðar samningsaðild o.fl., en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Rafmagnsveitur ríkisins gera samning þennan með heimild ríkisstj. á grundvelli laga nr. 60/1981, um raforkuver. Er þeim heimilt að framselja öll réttindi og skyldur virkjunaraðila samkv. samningnum til Landsvirkjunar eða annars aðila sem falið yrði að reisa og reka Blönduvirkjun lögum samkvæmt. Samningsaðilar eru á einu máli um að bjóða Bólstaðarhlíðarhreppi fulla aðild að samningi þessum við hlið hreppanna fimm. Gerist hann aðili tilnefnir hann annan þeirra tveggja samráðsnefndarmanna, sem Lýtingsstaða- og Seyluhreppur eiga samkv. 2. gr., en þeir tilnefna hinn sameiginlega. Þótt Bólstaðarhlíðarhreppur gerist ekki aðili að samningi þessum eru þeir, sem að honum standa, sammála um að það eigi ekki að hafa áhrif á samninginn og stöðu þeirra samkv. honum. Samningur þessi miðast við að Blönduvirkjun verði næsta meiri háttar vatnsaflsvirkjun í landskerfinu, og fellur hann úr gildi að öðrum kosti.“

Síðan þessi samningur var undirritaður af aðilum með fyrirvara um samþykki ríkisstj. hefur mál þetta mikið verið til umræðu, sem ekki þarf að rifja upp, og hv. alþm. hafa orðið vitni að því, að þrátt fyrir þessa samningsgerð er engan veginn svo, að allir séu á einu máli um þá virkjunartilhögun sem þarna er gert ráð fyrir og samið hefur verið um milli aðila eftir langvarandi samningaviðræður sem ég gerði grein fyrir í framsögu minni um þetta mál. Inn í þessa umræðu að undanförnu hafa komið margir þættir sem varða þau atriði sem deilt hefur verið um frá byrjun, að umr. hófst um Blönduvirkjun og aths. tóku að koma fram varðandi virkjunartilhögunina, þ.e. landnýtingu og viðhorf sem henni tengjast, og aðilar, sem bera þau sjónarmið fyrir brjósti, hafa komið á framfæri sínum sjónarmiðum og aths. bæði við iðnrn. og hv. alþm. Ég tel að í þeim ábendingum, sem þar hafa fram komið, — ég skil mörg hver þau sjónarmið sem þar eru fram borin, mönnum þykir eftirsjá í landi, ekki síst í gróðurlendi, undir vatn og virkjanir, — hafi ekki komið fram nein ný atriði sem skipti neinu verulegu máli né breyti þeirri mynd sem fyrir hefur legið í þessum efnum og fram hefur verið dregin og var til umræðu milli aðila á meðan samningaumleitanir stóðu yfir. Þetta held ég að sé nauðsynlegt að fram komi af minni hálfu. Það sama gildir varðandi þau sjónarmið sem fram hafa komið frá Náttúruverndarráði og hafa verið kynnt hv. alþm„ en þar vísar ráðið til fyrri ályktunar og bendir á nokkur atriði til viðbótar. Þar er ekki efnislega um að ræða nein ný viðhorf, að mínu mati, frá því áliti sem Náttúruverndarráð lagði fram varðandi virkjunartilhögun Blöndu árið 1978. Það er nauðsynlegt að fram komi að fyrir Náttúruverndarráð hafa ekki verið lagðar neinar nýjar áætlanir um virkjunartilhögun. Sú umræða, sem fór fram á síðasta ári, fór ekki fram hjá Náttúruverndarráði, heldur gafst ráðinu kostur á að kynna sér hana og mættu að ósk ráðsins fulltrúar frá virkjunaraðila á fundum þess og gerðu þar grein fyrir þeirri umræðu sem fram færi varðandi hugsanlega aðra virkjunarkosti við Blöndu. Þar kom jafnframt fram að ekki lægju fyrir nemar nýjar tillögur um breytta virkjunartilhögun, og ráðið sá ekki ástæðu til á þeim tíma að gera aths. við málið eða bera fram nem ný sjónarmið þar að lútandi. Hitt kemur ekki á óvart og lá fyrir, að Náttúruverndarráð hlýtur að vera talsmaður þeirra aðila sem telja eftirsjá í lífríki, hverju nafni sem nefnist, þ. á m. gróðurlendi, og þær áherslur voru fram dregnar í ályktun ráðsins sem samþykkt var og staðfest raunar af Náttúruverndarþingi á árinu 1978 og var prentuð sem fskj. með frv. til l. um raforkuver á s.l. vori og lá þá fyrir.

Ég vil aðeins víkja að einu atriði, meginatriði í sambandi við þá umræðu sem fram hefur farið að undanförnu um virkjunartilhögun við Blöndu og varðar þá þáltill. sem hér er til umr., en það er sá misskilningur sem gætir, að kostur hafi verið gefinn af stjórnvalda hálfu á annarri virkjunartilhögun en virkjunartilhögun I, eins og hún hefur verið kölluð, eigi Blanda að verða næsta virkjun í landskerfinu. Þessi virkjunartilhögun gerir ráð fyrir 400 gígalítra miðlun að baki virkjuninni. Hagkvæmniútreikningar, sem setja Blöndu í fremstu röð þeirra þriggja virkjana sem hafa verið bornar saman hvað snertir hagkvæmni og kostnað miðað við uppbyggingu raforkukerfisins til aldamóta, byggjast á þessari grunnforsendu virkjunarinnar hvað snertir miðlunarlón. Inn í samkomulag við hreppsnefndir á virkjunarsvæði Blöndu hefur hins vegar verið byggt ákveðið tillit til landnýtingar- og landverndarsjónarmiða, eins og virkjunaraðili mat að fært væri, þ.e. að fylla ekki þetta miðlunarlón hraðar en þörf væri að mati virkjunaraðila og að fenginni reynslu af uppgræðslu lands, sem mun liggja fyrir þegar þar að kemur, sem er kannske meginatriðið í sambandi við tillitssemi við landnýtingarviðhorf og hvað snertir hlífð við gróðurlendi, að þegar kemur að efstu mörkum þessarar miðlunar, nálægt 478 metra hæð yfir sjó, líti menn á það og beri sig saman um það, hvort hægt sé að hliðra eitthvað til nálægt þessum efstu mörkum þannig að umtalsvert land sparaðist með því að draga eitthvað lítils háttar úr miðlun, en á móti kæmi þá minni skylda virkjunaraðila til uppgræðslu lands á móti. — Þetta eru atriði sem ég vildi að kæmu hér fram.

Í umræðum um þetta mál á liðinni tíð hefur það ítrekað komið fram, að önnur tilhögun við Blöndu með langtum minna miðlunarlóni, t.d. 220 gígalítra miðlunarlóni, væri ekki viðunandi staða fyrir orkuvinnsluiðnaðinn í landinu vegna þess að slík miðlun bæði drægi úr hagkvæmni viðkomandi virkjunar og skapaði óöryggi fyrir raforkukerfið og þá hlyti að koma upp önnur röð virkjana. Þetta kemur raunar skýrt fram, kom bæði skýrt fram í frv. til laga um raforkuver sem samþykkt var á Alþingi á s.l. vori, og þetta er einnig dregið fram í þeirri þáltill. sem hér liggur fyrir, þar sem ráð er gert fyrir virkjunartilhögun I. Á þeim grundvelli var umrætt samkomulag gert.

Herra forseti. Hér fyrr við umr. töluðu nokkrir, þ. á m. hv. 4. þm. Vestf. og hv. 2. þm. Reykn. Það var athyglisvert, að mér þótti, við þeirra mál sérstaklega að það var lítið vikið að þeirri þáltill. sem hér er til umr. Sérstaklega var það hv. 4 þm. Vestf. sem flutti hér langa og ítarlega ræðu. Ég ætla ekki að fara að bera hana saman að lengd við framsöguræðu mína, en hann tók sér drjúgum meiri tíma og ekki lasta ég það. Hitt er vert að rifja upp, að hann kom mjög lítið að efni fyrirliggjandi till., en ræddi orkumál vítt og breitt og tillögugerð stjórnarandstöðuhluta Sjálfstfl. þar að lútandi á fyrri þingum og sumpart á þessu þingi, og það væri nokkuð á sig lagt að fara að elta ólar við það sem þar kom fram. Það væri sannarlega efni í langt mál, ef ég ætlaði að svara eða gera aths. við margt af því sem kom fram í máli hv. þm., og ég ætla að spara mér það að þessu sinni. Það verður eflaust tilefni til þess í þessari umr. eða í umr. sem tengjast kannske meira því sem hv. þm. vék að í máli sínu, en hann talaði allmikið um orkunýtingu og hugmyndir síns flokks, eða þess hluta Sjálfstfl. sem hann mælir fyrir, þar að lútandi, skipulagsþátt orkumála og fjármögnun orkuframkvæmda. Um þetta allt saman mætti vissulega margt segja. En það, sem stóð upp úr í máli hv. þm., var það sem mjög oft hefur heyrst hér í þingsölum frá honum og þeim sem fylgja honum að máli, að það sé vonlaust fyrir okkur Íslendinga og ofætlun að ráðast í hagnýtingu orkulinda landsins af eigin rammleik, eins og gert hefur verið ráð fyrir af núv. ríkisstj. með uppbyggingu virkjana og orkunýtingu á vegum okkar Íslendinga sjálfra. Það kom alveg skýrt fram í máli hv. þm., að það væri ekki unnt að reisa hér þrjár virkjanir, sem aflað var heimilda fyrir í lögum um raforkuver á síðasta vori, á næstu 10–15 árum nema með mikilli þátttöku útlendinga og þá alveg sérstaklega í sambandi við þann iðnað sem til kæmi til þess að hagnýta orkuna frá þessum virkjunum. Þetta fór ekkert milli mála hjá hv. þm. og er heldur ekkert nýtt. En ég hef svo oft vikið að þessu, bæði á þessu þingi og fyrr á hv. Alþingi, þar sem ég hef lýst allt öðrum viðhorfum, andstæðum viðhorfum við málflutning hv. þm., að það væri að bera í bakkafullan lækinn að fara að endurtaka það í þessari umr.

Ég vil þó aðeins rifja það upp, að miðað við áætlanir um þá fjármögnun, sem þarna væri á ferðinni, er ekki meira í fang færst en svo að ekki er um að ræða hærra hlutfall af þjóðartekjum til þessara þátta, virkjana og orkunýtingar, ef ráðist væri í uppbyggingu með þeim hraða, en ríkisstj. hefur sett fram að ekki sé óeðlilegt á næstu 10–15 árum. Og það virðist gleymast hv. þm., sem eru með úrtölutóninn og mæla fyrir erlendri stóriðju í þessum efnum, að við höfum senn að baki stórátak í orkumálum okkar þar sem er að hagnýta innlenda orkugjafa í stað olíu í sambandi við húshitun. Fjárfesting í nýjum hitaveitum fer hraðminnkandi á næstu árum og eykur að sjálfsögðu það svigrúm sem við höfum til að taka myndarlega á í öðrum efnum í hagnýtingu orkulinda okkar.

Ég tel ekki, herra forseti, ástæðu til að víkja að þessu sinni að fleiri atriðum úr ræðu hv. 4. þm. Vestf. En ég vil aðeins koma að einu eða tveimur atriðum í máli hv. 2. þm. Reykn. sem hér talaði.

Hann gerði mikið úr því, að sú þáltill., sem hér lægi fyrir, boðaði engin ný tíðindi. Það má auðvitað orða með ýmsum hætti hvað menn telja tíðindi og hvað menn telja spor í rétta átt í sambandi við ákvarðanir í virkjunarmálum landsmanna og orkunýtingu, en það er eflaust afstæður mælikvarði. En einhvern tíma hefðu það þótt tíðindi í þessum efnum þegar Alþingi samþykkir heimildir fyrir hátt í 4000 gwst. af orku eða 4 terawattstundir af orku eða fyllilega tvöföldun á þeirri orku sem framleidd er í landinu og þegar til umr. er hér á hv. Alþingi till. borin fram af ríkisstj. um röðun þeirra framkvæmda sem um er að ræða. Þegar hv. 2. þm. Reykn. flutti sitt mál var að vísu ekki búið að ganga frá því samkomulagi við fimm hreppsnefndir á virkjunarsvæði Blöndu sem nú liggur fyrir, og það kann að hafa átt þátt í þeirri áherslu sem hann lagði á að þessi till. segði ekki ýkjamikið umfram það sem áður lá fyrir. En sú er von mín, að það samkomulag, sem þarna var gert, verði stefnumarkandi í sambandi við þá þáltill., sem hér liggur fyrir, og framhald mála. Ég vænti þess, að menn taki höndum saman um að ganga til verka í samræmi við fyrirliggjandi till. og saman náist um það. Þeir aðilar, sem að þessu samkomulagi stóðu við Rafmagnsveitur ríkisins og ég hef staðfest með fyrirvara um samþykki ríkisstj., hafa áreiðanlega íhugað sitt mál vel og sína hagsmuni áður en þeir settu nöfn sín undir umrætt samkomulag.

Hv. 2. þm. Reykn. vék einnig að því, hversu miklu betur við stæðum að vígi í sambandi við orkumál okkar ef samþykktar hefðu verið tillögur Alþfl„ sem fram voru bornar á síðasta Alþingi, og það sama kom reyndar fram með enn sterkari áherslu hjá hv. 4. þm. Vestf. Þá er rétt að rifja upp hvað í þessum tillöguflutningi fólst. Ég man ekki eftir því, að það hafi verið uppi tilraunir til röðunar á virkjunarframkvæmdum í tillögum stjórnarandstöðuhluta sjálfstæðismanna á síðasta þingi. Þar var gert ráð fyrir því, að mér skildist, að ráðast helst í allt í einu eða eftir hendinni. Það var ekki hnitmiðaðra en það, og þegar um var að ræða orkunýtingu voru ekki neinar tillögur um neina tiltekna orkunýtingu af okkar hálfu, enda er það í samræmi við þá stefnu sem hv. 4. þm. Vestf. hefur mælt fyrir, að við Íslendingar eigum ekki að vera að sinna þeim málum, heldur eigi það að vera útlendingar sem komi færandi hendi með iðnaðarmöguleika til að hagnýta orkulindir okkar. Ósköp svipað var þessu farið með tillögur hv. þm. Alþfl. á síðasta þingi. Þær voru mjög keimlíkar till. stjórnarandstöðuhluta sjálfstfl. og lausnarorðið í sambandi við orkunýtinguna hjá báðum þessum aðilum — gott ef þeir voru ekki flestir þar saman komnir, hv. þm. stjórnarandstöðunnar á Alþingi — var að kjósa nefnd eða nefndir til að fjalla um málin. Það var lausnarorðið. Það átti að setja á fót nefnd til athugunar mála, og þarf ekki að rifja upp hvaða einkunnir þessir hv. þm. velja nefndum sem að störfum eru á vegum hæstv. ríkisstj. fyrr eða síðar og þó að þær skili verkum og skili greinargerðum á Alþingi þykir að heldur léttvægt. En þeir töldu sem sagt, báðir þessir talsmenn hv. stjórnarandstöðu í fyrri hluta þessarar umr., að það hefði eitthvað annað verið uppi á teningnum ef farið hefði verið að þeirra tillögum um nefndarskipun, — skipun stóriðjunefnda, orkusölunefnda, að mati hv. þm. Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu a.m.k., og því miður gætti mjög svipaðrar áherslu hjá hv. þm. Alþfl., sem ég hef þó gert mér vonir um að vildu taka þessi mál með öðrum hætti og meira út frá hagsmunum og sjónarmiðum okkar Íslendinga. Það vona ég reyndar að verði nú niðurstaðan hjá hv. talsmönnum stjórnarandstöðunnar þegar þeir gaumgæfa þessi mál betur.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar að sinni.