31.03.1982
Sameinað þing: 72. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3385 í B-deild Alþingistíðinda. (2978)

149. mál, virkjunarframkvæmdir og orkunýting

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það er nú nokkur tími liðinn frá því að þessar umr. hófust. Þær hófust að sjálfsögðu með framsögu hæstv. iðnrh. og að henni lokinni flutti ég ræðu sem hæstv. iðnrh. fór í gær mjög lofsamlegum orðum um að því leyti, að hann sagði að mín ræða hefði verið lengri en hans ræða, og ég segi lofsamlegum vegna þess að ég tel að hæstv. iðnrh. telji að langar ræður séu góðar.

Eftir að ég hafði haldið mína ræðu kvaddi sér hljóðs hv. 12. þm. Reykv. og vék nokkrum orðum að minni ræðu. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að tíunda það sérstaklega hér vegna þess að mér fannst sú ræða vera alveg sérstaklega málefnalaus. Hv. þm. taldi ástæðu til þess að viðhafa nokkur stóryði í tilefni af því, sem ég hafði sagt, og var þá með sleggjudóma t.d. um álverið í Straumsvík, fór nokkrum orðum um orkusölustefnu í stíl kommúnista, talaði um að ef farið væri að stefnu okkar sjálfstæðismanna í stóriðjumálum stefndum við í villimannaþjóðfélag, eins og mig minnir að hann hafi orðað það. Hann vék sérstaklega að Kanada sem við ættum að forðast að líkjast í þeim efnum sem varðar stóriðju, við ættum að forðast að líkjast þeim fátæklingum sem þar væru.

Hv. 12. þm. Reykv. fór nokkrum orðum til um það, hve kanadíska þjóðin væri grátt leikin í stóriðjumálunum vegna þess að þar væri um að ræða svo mikla þátttöku útlendinga í stóriðjuverum. Ef ég man rétt hefur hæstv. iðnrh. í þessum umr. vitnað til Kanada á nokkuð annan veg. Ef ég man rétt var hann einhvern tíma ekki alls fyrir löngu að leggja áherslu á það, að ekki væri mark takandi á því, þó að það væri hagstætt verð til stóriðju í Kanada. Vegna hvers? Vegna þess að Kanadamenn ættu sjálfir stóriðjuverin og væru að selja sjálfum sér.

En ég ætlaði aðeins að víkja örfáum orðum að ræðu hv. 12. þm. Reykv. áður en lengra er haldið, aðeins örfáum orðum til viðbótar. Hann lagði mikla áherslu á eignaraðild Íslendinga að stóriðjuverum. En hann gerði meira. Hann sagði að sú eignaraðild mætti ekki miðast við ríkið, það væri ekki ætlun hans að ríkið væri þar fyrst og fremst eignaraðili, heldur lá í orðum hans, ef hann sagði það ekki beinlínis, að það ættu að vera einstaklingar, það ætti að afla fjár hjá einstaklingum í landinu til þess að gerast eignaraðilar að stóriðju. Nei, það verð ég nú að segja, að mér fannst þetta og margt fleira af því, sem hv. 12. þm. Reykv. sagði í þessari ræðu sinni, ekki lýsa miklu raunsæi í þessum málum. Gildir þá einu þó að það kunni kannske að leynast meira í hinum kunnu peningasjóðum Sambands ísi. samvinnufélaga en ég hef þó gert ráð fyrir. Hv. þm. lagði áherslu á það, að hann væri samþykkur þeirri stefnu að það ætti að reisa allar þær virkjanir, sem þáltill. gerir ráð fyrir, á 12 árum. Og hvernig ætti að fara að því að fjármagna það? Því lýsti hann í þessum orðum sem ég hef þegar vikið að. Mér finnst öll þessi ræða hv. 12. þm. Reykv. þess eðlis, að ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um hana.

Þá vil ég víkja að ræðu hæstv. iðnrh. sem hann flutti hér í gær. Ég átti von á að hæstv. ráðh. sæi ástæðu til að koma málefnalega inn á a.m.k. einhver þau atriði sem ég gerði tíðrætt um í minni ræðu fyrr í þessum umr. En það verð ég að segja að hæstv. ráðh. gerði ekki mikla tilraun til slíks. Með tilliti til þess má kannske segja að ég hafi ekki mikla ástæðu til þess að bæta við það sem ég hef áður sagt í þessum umr. og þeim mun síður þar sem síðar hafa verið fluttar tvær ágætar ræður sem ég nefni sérstaklega og hafa gengið í svipaða átt og ég mælti. Á ég þá við ræðu hv. 6. þm. Reykv. og hv. 11. landsk. þm., en þeir töluðu í þessum umr. báðir í gær. Ég vil þó víkja nokkrum orðum að ræðu hæstv. iðnrh. hér í gær.

Það kenndi í inngangsorðum hans nokkurs yfirlætis um það, að það hefði verið fullkomlega ástæðulaust, lá í hans orðum, að ræða sumt af því sem ég var að ræða um í minni ræðu. Sérstaklega hafði hann orð á því, að það hefði ekki verið ástæða til að rifja upp ýmis atriði sem áður hefðu gerst í orkumálunum. Ég skil ósköp vel að hæstv. iðnrh. kæri sig ekki um slíka upprifjun. En hann verður að hafa það sem sannara reynist í þessum málum, hvort sem honum líkar betur eða verr.

Hæstv. iðnrh. sagði í hálfkæringi að ég hefði verið að tala um mál eins og skipulagsmál orkumálanna, orkunýtingu og fjármögnun á orkuframkvæmdum og annað slíkt sem hann nefndi. En hann vék ekki einu orði eða reyndi að tjá sig um þessi efni með tilliti til þess sem ég hafði sagt og lagt áherslu á í minni ræðu. Það hvarflaði ekki að hæstv. ráðh. að segja eitt orð frá eigin brjósti t.d. um skipulag orkumálanna. Þó er það svo, að það er staðreynd, að það skipulagsleysi, sem er í þessum efnum, hamlar stórlega öllum markvissum og skipulagsbundnum aðgerðum í orkumálum landsins. Þó er það staðreynd, að lög þau, sem ríkisstj. fékk samþykki um orkuver á síðasta þingi, og sú þáltill., sem við nú ræðum, eru ljósasti vottur um það, hvernig ástandið er í skipulagi orkumálanna. Ég benti á það í minni ræðu hver væri ástæðan fyrir þessu og ég ætla ekki að fara að rekja það mál hér frekar. En ástæðan er sú, að hæstv. iðnrh. og hæstv. forsrh. eru á algerlega öndverðum meiði í þessum efnum og hafa verið á undanförnum árum.

Hæstv. ráðh. sagði að ég hefði sagt að það væri algerlega vonlaust og ofætlun að ráðast af eigin rammleik í þrjár stórvirkjanir, sem um getur í þessari þáltill., á 10–15 árum nema með þátttöku útlendinga. Hér fer hæstv. iðnrh. algerlega með rangt mál. Ég tók einmitt fram að við yrðum að gera ráð fyrir því, að eignaraðildin að orkuverunum hlyti að vera algerlega í höndum Íslendinga. Ég tók þetta beint fram. Hæstv. ráðh. segir rangt til um þetta efni. En þetta er annað mál en eignaraðildin að stóriðjufyrirtækjunum og kem ég nánar að því.

Hæstv. ráðh. sagði í sinni ræðu í gær, og taldi sig geta skopast að því, að í frv. okkar sjálfstæðismanna á síðasta Alþingi um ný orkuver hafi ekki verið gerð tillaga um röðun virkjanaframkvæmda. Það er alveg rétt, það var ekki gerð till. um röðun virkjanaframkvæmda. Þegar umr. voru um þetta mál í Ed. á síðasta þingi, þar sem frv. var lagt fram, var raunar það eina, sem var bitastætt í aðfinnslum hæstv. iðnrh. gagnvart þessu frv., að ekki væri um röðun að ræða. En hvers vegna var ekki um röðun að ræða? Það var vegna þess að það lágu ekki fyrir neinar ákvarðanir eða slíkur undirbúningur undir stóriðjuframkvæmdir í landinu að hægt væri með vitrænum eða ábyrgum hætti að gera tillögur um röðun virkjanaframkvæmda. Í verki samþykkti svo hæstv. iðnrh. þetta sjónarmið á síðasta Alþingi. Hvernig gerði hann það? Hann gerði það með því, þegar stjórnarfrv. um orkuver var lagt fram og samþykki sem lög á síðasta Alþingi, að þá var þar ekkert kveðið á um röðun virkjanaframkvæmda. Hvers vegna var ekkert kveðið á um röðun virkjanaframkvæmda? Það var af þeirri sömu ástæðu sem við sjálfstæðismenn kváðum ekki á um röðun virkjanaframkvæmda. Það var ekkert raunhæft að byggja á í þeim efnum. En það er ekki ádeiluefni á okkur sjálfstæðismenn. Það er ádeiluefni á hæstv. iðnrh. og ríkisstj. Það var þeirra að gera eitthvað raunhæft í þessum efnum og skapa grundvöll ekki einungis fyrir þeim virkjunum, sem verið er að tala um, heldur fyrir röðun framkvæmda.

Hæstv. iðnrh. sagði í ræðu sinni í gær — og átti það, eftir því sem það var sett fram, að vera Sjálfstfl. til háðungar — að lausnarorð sjálfstæðismanna í stórvirkjunarmálunum hefði verið það að koma upp nefnd, koma upp stóriðjunefnd. Svona er hæstv. ráðh. lyntur og svo skilningsvana er hann á aðgerðir í þessum efnum, þegar við sjálfstæðismenn komum með till. um að unnið verði markvisst og skipulega að stóriðjumálum og verkefnið verði falið sérstakri þingkjörinni nefnd, að þá telur hæstv. ráðh. að hann hafi efni á því að gera lítið úr slíkri till. Ég hygg að það megi af þessu sjá hver staða hæstv. iðnrh. er í þessum efnum. Og hvenær er það sem hæstv iðnrh. telur sig færan um að gera tillögur um röðun virkjanaframkvæmda? Hann taldi sig ekki færan um það á síðasta þingi, eins og ég gat um, þó að hann vildi telja að við sjálfstæðismenn hefðum átt að gera það. Það er fyrst með framlagningu þeirrar þáltill., sem við hér ræðum, sem hæstv. iðnrh. gerir sínar till. Það er ekki fyrr. En það verð ég að segja, að hæstv. iðnrh. hefði eins getað gert þessar till. á síðasta þingi. Að vísu hefðu þær þá verið byggðar á sandi, en það er einmitt það sem þessar tillögur eru nú. Þær eru byggðar á sandi vegna þess að ekkert raunhæft liggur fyrir um orkunýtinguna til þess að skapa grundvöll fyrir þeim þrem stórvirkjunum sem við hér ræðum um, hvað þá röðun á framkvæmdum við að reisa þær.

Ég sagði áðan að hæstv. iðnrh. hefði í raun og veru ekki gert neina tilraun til þess að ræða efnislega um þau atriði sem ég gerði tíðrætt um í minni fyrri ræðu í þessum umr. Hæstv. iðnrh. gekk svo langt að hann svaraði ekki í sínu máli í gær beinum fsp. sem ég lagði fyrir hann og snerta mjög þá till. til þál. sem við erum hér að ræða. Hæstv. ráðh. getur ekki skotið sér undan því að tjá sig um þau efni sem vikið var að í þessum fyrirspurnum.

Með þessari þáltill., sem við nú ræðum, fylgja greinargerðir þriggja aðila: Orkustofnunar, Rafmagnsveitna ríkisins og Landsvirkjunar. Í minni fyrri ræðu ræddi ég sérstaklega álitsgerð eða greinargerð Landsvirkjunar. Mér þótti það vera þýðingarmest, m.a. með tilliti til þess, að gert er ráð fyrir að Landsvirkjun verði framkvæmdaraðili að þeim virkjunum sem við erum að ræða. Mér þótti sum atriði í greinargerð Landsvirkjunar vera þess eðlis, að þau þörfnuðust nánari skýringa, og ég tel að það sé hlutverk hæstv. iðnrh. að gefa þær skýringar sem óskað er eftir á fskj. málsins sem hann leggur fram.

Í niðurstöðum af skýrslu Landsvirkjunar segir að hagkvæmast virðist tvímælalaust vera að næstu aðgerðir í raforkuöflun landsmanna verði stíflugerð við Sultartanga, vatnaveitur til Þórisvatns, þ.e. Kvíslaveita, og stækkun Þórisvatnsmiðlunar. Eins og ég hef áður tekið fram hygg ég að enginn ágreiningur geti verið um þetta. Og það er komið að þessu efni í 1. tölul. þeirrar þáltill. sem við nú ræðum. En í skýrslu Landsvirkjunar segir að samhliða þessum aðgerðum eða í beinu framhaldi af þeim sé nauðsynlegt að auka uppsett afl á Þjórsársvæðinu. Hvað þýðir þetta? Skýrsla Landsvirkjunar gefur skýringu á því. Þar segir að stækkun Búrfellsvirkjunar virðist vera mun hagstæðari kostur en stækkun Sigölduvirkjunar og Hrauneyjafossvirkjunar sem gert er ráð fyrir í lögum um raforkuver frá síðasta ári, komi hér einkum til að stækkun Búrfellsvirkjunar bæti aflmisvægið, sem nú ríkir milli þessara virkjana, og gefi auk þess aukna orkuvinnslugetu, sem út af fyrir sig geti réttlætt þá fjárfestingu sem til þarf. Enn fremur segir í skýrslu Landsvirkjunar að þess megi og geta, að stækkun Búrfellvirkjunar kosti mjög ámóta upphæð og stækkanir Sigöldu- og Hrauneyjafossvirkjana sem ekki skila aukinni orkuvinnslu inn á hið samtengda landskerfi. Landsvirkjun leggur því eindregið til að aflað verði lagaheimildar fyrir stækkun Búrfellsvirkjunar að afli allt að 140 mw. Þetta segir í skýrslu Landsvirkjunar sem er fskj. með þessari þáltill.

Spurning mín var þessi og ég vil endurtaka hana hér. Ég spyr hæstv. iðnrh. hvort þetta þýði að Landsvirkjun leggi til að næsta stórvirkjun verði reist á Þjórsársvæðinu, að vísu ekki Sultartangavirkjun með allt að 130 mw. afli, heldur Búrfellsvirkjun með allt að 140 mw. afli. Þetta er sú spurning sem ég lagði áður fyrir hæstv. iðnrh., — spurningin sem hann vék sér undan að svara, spurningin sem ég endurtek hér nú.

En ég vík ekki strax frá skýrslu Landsvirkjunar. Í henni segir að þegar á heildina sé litið bendi athuganir fyrirtækisins til þess að Blönduvirkjun, þ.e. tilhögun I, sé hagkvæmasti virkjunarkosturinn sem næsta stórvirkjun fyrir landskerfið, ráði þar fyrst og fremst lægri framleiðslukostnaður auk góðrar staðsetningar í landskerfinu. Tekið er fram að Blönduvirkjun gæti hafið orkuframleiðslu í fyrsta lagi árið 1987. En í skýrslu Landsvirkjunar er bætt við að tímasetning virkjunarinnar að öðru leyti hljóti að ráðast af markaðsaðstæðum, eins og þar segir. Með tilvísun til þessa lagði ég ákveðna spurningu fyrr í umr. fyrir hæstv. iðnrh., — spurningu sem hann vék sér undan að svara í gær, spurningu sem ég ætla að endurtaka nú. Hún er á þá leið, hvað það þýði að tímasetning Blönduvirkjunar ráðist af markaðsaðstæðum. Hvað á Landsvirkjun við með þessu? Er það ætlun Landsvirkjunar, að ekki verði ráðist í Blönduvirkjun fyrr en séð sé fyrir orkunýtingu með stóriðju? Þetta er spurningin til hæstv. iðnrh.

Ég hef hér vikið í nokkrum orðum að ræðu hæstv. iðnrh. sem hann flutti í umr. í gær. Ég sagði í upphafi að það væri ekki rík ástæða til að svara mörgu í þessari ræðu sem vék að mínu máli áður, vegna þess hve fátækleg ræða hæstv. iðnrh. hefði verið í þeim efnum. En ég vil, áður en ég lýk máli mínu, víkja nokkrum almennum orðum að því sem ég tel höfuðatriði og þess vert að draga fram í stuttu máli í þessum umr.

Það, sem einkennt hefur umr. um orkumál á síðustu misserum, er það sjónarmið, að við Íslendingar eigum nú að leggja kapp á að hagnýta orkulindir landsins. Það er byggt á því sjónarmiði, að þar sé um þessar mundir eða geti verið vaxtarbroddurinn í íslenskri atvinnuþróun, hliðstætt því sem framfarir í sjávarútvegi voru í byrjun þessarar aldar. Með tilliti til þessa sjónarmiðs lögðum við sjálfstæðismenn fram á síðasta þingi frv. um ný orkuver þar sem gert var ráð fyrir öllum þeim þrem virkjunum sem þessi þáltill. fjallar um, auk stækkunar Hrauneyjafossvirkjunar. Með þessu vildum við marka þá stefnu, að það yrði gert stórátak í orkumálunum og meira en nokkru sinni fyrr. Þetta átak var svo mikið að samkv. till. okkar sjálfstæðismanna átti á 10 árum að tvöfalda uppsett afl í vatnsaflsvirkjunum landsins. Það var rúmlega 100% aukning. Okkar till. gerði ráð fyrir á að 10 árum yrðu reist orkuver sem væru að stærð samtals rúmlega 700 mw. og kæmu til viðbótar þeim 680 mw. sem búið var að virkja áður.

Gat nokkur verið á móti þessari stefnu? Það komu engar mótbárur gegn þessari stefnu í löngum og ítarlegum umr. um frv. okkar sjálfstæðismanna Ed. á síðasta þingi. Það hafa síðan ekki komið nein mótmæli eða andstaða gegn þessari stefnu, það vottar ekki fyrir því. Þvert á móti segjast allir vilja fylgja þessari stefnu — og hæstv. iðnrh. líka. Þess vegna hefði hann átt að stuðla að því, að frv. okkar sjálfstæðismanna á síðasta þingi hefði verið samþykkt vafningalaust. En hann gerði það ekki og skal ég ekki fara nánar út í aðlýsa þeim vinnubrögðum.

Kjarni málsins er sá, að hæstv. iðnrh. vill ekki vera minni en við sjálfstæðismenn í þessum efnum. Hann leggur til að þessar virkjanir verði allar reistar á álíka tíma og við leggjum til, hann vill ekki vera minni. Samkv. þessu erum við sammála um þetta. Ríkisstj. hefur gengið inn á þessa stefnu, sem við sjálfstæðismenn mörkuðum fyrst með frv.-flutningi okkar á síðasta þingi.

En böggull fylgir skammrifi. Það er ekki nægilegt að vilja þetta. Við verðum að vera með raunhæfar aðgerðir til þess að gera þetta mögulegt. Og það er ekkert smáátak sem við erum að ræða um hér. Við erum að ræða um þessar virkjanir, sem ég hef gert grein fyrir, og stóriðjuframkvæmdir til að skapa grundvöll fyrir orkunýtingu, nýtingu orkunnar frá þessum virkjunum. Það er alger nauðsyn að gera slíkt og út í lofið að tala um þessar nýju virkjanir að öðrum kosti, vegna þess að samkv. orkuspá þurfum við ekki þessar nýju virkjanir fyrr en kemur fram á næsta áratug, nema til komi nýjar þarfir fyrir orkunýtingu. Við erum ekki að virkja út í loftið, við virkjum aðeins ef við þurfum á því að halda. En hvað þýðir þetta, þrjár slíkar stórvirkjanir? Það þýðir að við þurfum að byggja nokkur stóriðjuver á þessum tíma — ekki eitt stóriðjuver, heldur nokkur stóriðjuver á stærð við álverið í Straumsvík, hvort sem það eru stóriðjuver til álvinnslu eða til annarrar vinnslu. Þetta er ekkert smáræðis átak.

Það er gert ráð fyrir því að kostnaður við að koma upp stóriðju til hagnýtingar orku frá vatnsaflsvirkjunum sé álíka mikill og kostnaðurinn við vatnsvirkjunina sem þarf til þess að þjóna viðkomandi stóriðju. Ef við byggðum stóriðjuver álíka stórt og álverið í Straumsvík og reistum vatnsvirkjun til þess að sjá slíku stóriðjuveri fyrir orku, þá er talið að kostnaðurinn af hvoru tveggja nemi álíka hárri upphæð og öllum erlendum skuldum Íslendinga í dag. Þetta er ein virkjun og þetta er eitt stóriðjuver. En samkv. till., sem við erum að ræða, leggur hæstv. iðnrh. og ríkisstj. til að það séu byggðar þrjár stórvirkjanir og þá þurfum við að fá nokkur stóriðjuver til þess að hagnýta þá orku. Þetta er viðfangsefni. Ég hef haldið því fram, að ef þetta tal ætti að vera raunhæft, þá væri ekki unnt fyrir okkur á þessum tíma að framkvæma þá stefnu sem hæstv. iðnrh. leggur hér til, það væri ekki framkvæmanlegt nema með mikilli þátttöku útlendinga til að byrja með í stóriðjuframkvæmdum. Ég hef haldið þessu fram. Þess vegna hef ég viljað meina að hæstv. iðnrh. legði raunverulega til meiri þátttöku útlendinga í stóriðjuframkvæmdum en nokkur annar eða til jafns við okkur sjálfstæðismenn. Ef hann er ekki að gera það er þessi tillöguflutningur hæstv. iðnrh., málatilbúnaður hans allur ekkert annað en loddaraleikur af verstu tegund — ekkert annað.

Ég vona að hæstv. iðnrh. skipi sér í raun um þá stefnu, sem við sjálfstæðismenn höfum markað, og geri þennan tillöguflutning sinn um þrjár stórvirkjanir á þessu tímabili að raunveruleika. Það verður ekki gert með öðrum hætti.

Hæstv. iðnrh. talar í þessu sambandi oft um íslenska atvinnustefnu. Þá vill hann halda því fram, að það eigi að þýða að ekkert komi til greina annað en að íslendingar einir leggi fram fjármagn til þeirra stóriðjuframkvæmda sem ég hef hér lýst. Ég tel mig hafa fært rök fyrir því, að það er óraunhæft. En ef við tölum um íslenska atvinnustefnu, þá er það svo, að ef farin er sú leið sem við sjálfstæðismenn höfum lagt til og markað frá upphafi stóriðju hér á landi, þá er möguleiki á því, eftir því sem aðstæður leyfa með tímanum, að Íslendingar eigi sem mest sjálfir í þessari stóriðju. Og ég legg áherslu á það, að að öðru jöfnu eigum við auðvitað að standa að slíku. En þeir menn, sem hafa mótað stóriðjustefnu okkar fram að þessu, mótað það sem raunhæft hefur verið gert í þessu efni, þeir hafa verið að skapa grundvöllinn fyrir því að við getum í raun og sannleika talað um og stefnt að sem mestri eignaraðild Íslendinga í þessum stórvirkjum.

Ég sagði áðan að hæstv. iðnrh. hefði ekki undirbúið þetta mál þannig að grundvöllur sé fyrir þeim virkjunum sem þáltill. gerir ráð fyrir, hvað þá að það sé raunhæfur grundvöllur fyrir röðun framkvæmda. En þetta mál er svo þýðingarmikið að þó að sú till., sem við ræðum, sé þessum annmörkum búin, þá þurfum við að leitast við að bæta hana í meðferð þingsins.

Ég vek athygli á að í þessari till. er ekkert talað um að hraða virkjunarframkvæmdum. Ég tel að það sé nauðsynlegt að fá inn í till., áður en hún verður afgreidd frá Alþingi, ákvæði um að undirbúningi að byggingu orkuveranna svo og framkvæmdum öllum skuli hraðað svo sem kostur er og að þau vinnubrögð skuli viðhöfð sem miða að því, að framkvæmdum verði lokið á 10 árum, samkv. heildaráætlun er gerð verði um byggingu allra virkjananna. Það vantar í þessa till. ákvæði um þetta efni.

Ég tel enn fremur að það þurfi að fá inn í till. ákvæði um að ríkisstj. skuli gera ráðstafanir til þess, að komið verði á fót iðnaði til nýtingar þeirrar orku sem unnin verður í orkuverunum umfram þörf hins almenna markaðar, og að tekið verði inn í till. ákvæði um að þessum aðgerðum verði hraðað svo sem verða má og þess gætt, að fullt samræmi verði á milli markaðsöflunar fyrir orku og byggingar virkjananna.

Ég vil mega vona það, að í svo mikilvægu máli sem hér er um að ræða verði gæfa Alþingis og ég vil segja þjóðarinnar það mikil þrátt fyrir allt, að okkur takist að gera þessa till. raunhæfa. Ég er ekki og hef ekki verið með ádeilur á þá röðun virkjanaframkvæmda sem hér er gert ráð fyrir. Ég geri ekki athugasemdir við hana. En ég geri þá athugasemd, að allt tal um byggingu virkjana og röðun virkjana er haldlaust og tilgangslaust nema við sköpum grundvöllinn fyrir þessum framkvæmdum.