31.03.1982
Sameinað þing: 72. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3442 í B-deild Alþingistíðinda. (3001)

243. mál, steinullarverksmiðja í Þorlákshöfn

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Þar sem ég hef komið nokkuð að þessu máli steinullarverksmiðjunnar, undirbúningi þess fyrirtækis, tel ég viðeigandi að koma hér inn í umr. og rekja svolítið vissa þætti málsins sem snerta þá till. sem ég hef borið fram í ríkisstj. í sambandi við staðarval fyrir þessa verksmiðju sem aflað var heimildar fyrir með lögum nr. 61/, þar sem ríkisstj. var heimilað að taka þátt í stofnun hlutafélags, er reisi og reki steinullarverksmiðju, og leggja fram í því skyni allt að 40% af hlutafé þess, enda verði hlutafé félagsins minnst 30% af stofnkostnaði verksmiðjunnar, eins og segir í 1. gr. þeirra laga.

Sú fjárfesting, sem þarna er um að ræða, er á verðlagi 1. sept. 1981, miðað við verksmiðju með 6 þús. tonna afköstum, um 90 millj. kr. samtals og hlutafé þá um 27 millj. kr. Hlutur ríkissjóðs í slíkri verksmiðju væri á sama verðlagi um 11 millj. kr. En stærri verksmiðja, sem áætlanir hafa verið gerðar um einnig, var hvað fjárfestingu snerti á sama verðlagi 116 millj., hlutafé þá 35 millj. kr. og hlutur ríkissjóðs 14 millj. kr.

Það var að því vikið hér af hv. 1. flm. þessarar þáltill., að iðnrn. hefði haft forgöngu um mál þetta á vissu skeiði. Það má til sanns vegar færa, að iðnrn. tók að sér að athuga ákveðna þætti málsins í samvinnu við áhugaaðila og að beiðni þeirra og í fullu samráði við þá, að því er ég best vissi, og studdi að athugun þessa máls án þess að þar væri beitt hlutdrægni, a.m.k. að því leyti sem ég kom að þessu máli. Ég tel rétt hér og nú að vitna aðeins til framsöguræðu minnar fyrir lagafrv. um steinullarverksmiðju á s.l. vori í hv. Ed. Alþingis hinn 6. maí, en þá sagði ég, með leyfi hæstv. forseta, m.a.þetta:

„Ljóst er að áhugi er mikill hjá báðum aðilum, Steinullarfélaginu nyrðra og Jarðefnaiðnaði syðra, að beita sér fyrir byggingu steinullarverksmiðju. En mat þessara aðila á rekstrargrundvelli og markaði er með ólíkum hætti og hafa báðir aðilar kynnt sjónarmið sin allrækilega á opinberum vettvangi að undanförnu.“

Og síðar í sömu ræðu sagði ég:

„Það er vissulega nokkurt nýmæli, að fleiri en einn aðili keppi um iðnaðarkost af því tagi, sem hér um ræðir, og ætli sér að reiða fram verulegt fjármagn í því skyni. slíkur áhugi um iðnaðaruppbyggingu hlýtur að teljast jákvæður af hálfu samfélagsins, en reynslan verður að skera úr um hvor ber hærri hlut og finnur grundvöll fyrir slíku fyrirtæki. Ég tel ekki óeðlilegt að þeim aðila, sem hyggist byggja á útflutningi, gefist kostur á að láta reyna á markaðsöflun og teljist hún nægilega trygg að mati stjórnvalda verði notaðar heimildir til ríkisþátttöku í slíku fyrirtæki að því marki sem nauðsynlegt er talið innan ramma lagaheimilda. Um þessa málsmeðferð hafa hins vegar bindandi ákvarðanir verið teknar, og reynist útflutningur ófýsilegur er eðlilegt að framleiðsla fyrir innanlandsmarkað verði á döfinni.“

Með þessum orðum í framsögu fyrir nefndu lagafrv. taldi ég mig draga nokkurn stefnumarkandi ramma í sambandi við það, hvernig á málum yrði tekið varðandi þessa tvo keppinauta, að svo miklu leyti sem á aðild ríkisins reyndi að því máli.

Eftir samþykkt nefndra laga var báðum áhugaaðillum ritað erindi þar sem óskað var eftir að þeir legðu hugmyndir sínar fyrir iðnrn., helst innan þriggja mánaða frá því að lögin voru endanlega samþykki og staðfest. Þeir undirbjuggu sín mál hvor á sínum vettvangi og sendu inn sínar tillögur, og þær voru fengnar til athugunar þeim mönnum sem að þessu máli hafa komið um langt árabil. Það eru nærfellt 8 ár, held ég megi telja, síðan tekið var að athuga möguleika á steinullarframleiðslu í einhverjum verulegum mæli hérlendis. Vilhjálmur Lúðvíksson efnaverkfræðingur og Hörður Jónsson verkfræðingur og framkvæmdastjóri hjá Iðntæknistofnun hafa allan þennan tíma haft afskipti af athugunum á steinullarframleiðslu og verið helstu ráðgjafar iðnrn. í þessu máli, og rn. fékk þá áframhaldandi til að lita á áform áhugaaðilanna. Þeir töldu að eins og þau lágu fyrir síðsumars væru þau ekki nægjanlega skýr þannig að hægt væri að taka ákvörðun, og því var óskað frekari upplýsinga og gagna frá aðilum og þeim settur frestur til að skila þeim. Eftir að nefndir sérfræðingar höfðu yfir málin farið skiluðu þeir iðnrn. umsögn 17. des. 1981. Ég tel vegna umræðna hér nauðsynlegt að rekja nokkuð aðalefnisatriðin í þessari umsögn, því að hún er undirstöðugagn í sambandi við þetta mál, eins og á því hefur verið tekið af hálfu iðnrn. Þar segir í upphafi varðandi steinullarverksmiðju:

„Vísað er til bréfs undirritaðra til rn., dags. 13. okt. 1981, og skýrslu, sem fylgdi: „Umsögn um tillögur Steinullarfélagsins hf. og Jarðefnaiðnaðar hf.,“ dags., í okt. 1981. Meginniðurstöður voru þær, að ekki væri tímabært að taka ákvörðun um fjárfestingu í steinullarverksmiðju samkv. tillögum félaganna eins og þær lágu þá fyrir, og lagt til að þeim yrði gefinn frestur til að skýra betur mál sín:

1. Steinullarfélagið hf. skyldi skýra betur og fá staðfest tilboð í þá verksmiðju, er þeir hygðust reisa til að framleiða fyrir innlendan markað einvörðungu. (Áætlanir félagsins miðuðust einvörðungu við innlendan markað og var skilað ítarlegum upplýsingum um markaðsáform í því sambandi.)

2. Jarðefnaiðnaður hf. skyldi skilgreina betur markaðsáform sín á erlendum markaði og viðskiptasambönd, þannig að ljósara yrði hvaða skyldur kaupendur tækju á sig, hvaða þyngdar- og gæðaflokka hver þeirra vildi selja og hvaða þróun í sölu á einstökum gæðaflokkum þeir teldu raunhæfa. (Áætlanir Jarðefnaiðnaðar hf. miðuðust einvörðungu við stóra verksmiðju og verulegan hluta framleiðslunnar til útflutnings.)“

Síðar í þessari umsögn segir nánar varðandi áform þessara aðila og þá fyrst varðandi Steinullarfélagið hf.: „Það leggur nú fram kostnaðaráætlanir sem byggðar eru á tilboði í 6 þús. tonn á ári (miðað við þrjár vaktir, fimm daga viku), bræðsluofn frá Elkem og verðhugmynd frá fyrirtækinu Wooding International, svo og tilboði Jungers Verkstad AB í framleiðslulínu. Að mati Steinullarfélagsins er fjárfestingarkostnaður svipaður (78.3–82.1 millj. kr.) og reiknað var með í smærri verksmiðju áður (80 millj. kr.), — ívið lægri ef verðhugmyndir Wooding International eru notaðar.“

Varðandi áform Jarðefnaiðnaðar segir í sömu greinargerð:

„Jarðefnaiðnaður leggur nú fram tvær rekstraráætlanir, annars vegar fyrir 6 þús. tonna verksmiðju og hins vegar fyrir 14 400 tonna verksmiðju. Hefur Jarðefnaiðnaður lækkað áætlaða sölu sína á heimamarkaði verulega frá því sem var í fyrri tillögu til samræmis við markaðsáætlun Steinullarfélagsins sem við höfum metið raunhæfa. Áætlun um útflutning gæti hugsanlega staðist fyrir minni verksmiðjuna, en veruleg óvissa er um möguleika á að selja alla framleiðslu stærri verksmiðjunnar, svo sem áður er getið.

Þar sem val á tækni og áætlun um fjárfestingarkostnað eru nú allvel skilgreind og innlendir markaðsmöguleikar einnig, þykir rétt að bera saman arðsemi og afkomumöguleika 6 þús. tonna verksmiðju og 14 400 tonna verksmiðju miðað við mismunandi hlutdeild útflutnings.

Meginniðurstöður eru þær, að lítil verksmiðja, án útflutnings, getur gefið viðunandi arðsemi (11.05%), en arðsemin batnar nokkuð (12.15%) ef tekst að flytja út allt að 3 þús. tonn á ári. Sýnir sá kostur mesta arðsemi af þeim sem hér eru sýndir.

Stærri verksmiðja, sem flytur út allt að 5 þús. tonn, gefur heldur minni arðsemi (10.9%) en fullnýtt minni verksmiðja (12.15%). Ef erlendur markaður bregst alveg verður arðsemin nokkru minni (9.30% ) en í litilli verksmiðju við sömu aðstæður, en virðist þó ekki alveg óviðunandi.“

Og síðar, ég bið hv. þm. að taka eftir: „Heildarniðurstaða okkar er sú, að lítil verksmiðja gefi besta arðsemi og öryggi að því er markaðsmál varðar. Hins vegar virðist stærri verksmiðja, sem miðuð er við framleiðslu fyrir erlendan markað í meira mæli, ekki bjóða upp á aukna arðsemi, en fjárfestingarkostnaður er 28.8% hærri. Framlegð af útflutningsframleiðslunni er raunar mjög lítil eins og fram kemur í töflu 2 (sem fylgdi þessari greinargerð). Stærri verksmiðjan er þó ekki óraunhæf að því er arðsemi varðar, en að teknu tilliti til erfiðari rekstrarskilyrða fyrir stóra verksmiðju með litla nýtingu á afkastagetu er að okkar mati rétt að velja minni verksmiðjuna en hagnýta útflutningsmöguleika eftir föngum.

Framlögð gögn frá báðum aðilum sýna nú að hagkvæmast sé að nota ljósbogaofn við bræðslu og spunahjól við trefjaframleiðsluna. Forsendur eru fyrir því að leita samkeppnistilboða samkv. útboðslýsingu sem gerð yrði á vegum framkvæmdaaðila. Gæti þetta lækkað fjárfestingarkostnað eitthvað.

Um staðsetningu slíkrar verksmiðju vísum við til skýrslu steinullarnefndar frá mars 1981, en þar segir að hreint hagkvæmnimat gæti bent til staðsetningar á Reykjavíkursvæðinu, þar næst í Þorlákshöfn en síst til Sauðárkróks. Munurinn er þó óverulegur, sérstaklega ef miðað er við innlendan markað einvörðungu. Flutningaöryggi og hagræði við afgreiðslur, sérstaklega til útflutnings, gæti þó bent á sömu röð.

Byggðasjónarmið og aðrir valkostir um ný atvinnutækifæri á viðkomandi svæðum gætu bent á öfuga röð. Sú staðhæfing er að sjálfsögðu umdeilanleg.“

Loks segir í skýrslu steinullarnefndar, að — það er tilvitnun í skýrslu frá mars 1981 — „arðsemisrök og byggðaleg sjónarmið mæli ekki afgerandi með öðrum staðnum frekar en hinum.“

Og í niðurlagi þessarar greinargerðar segir að lokum: „Ekkert hefur komið fram sem breytir þessum niðurstöðum steinullarnefndar, og teljum við því ekki efnislegar forsendur mæla með einum stað fremur en öðrum.“

Þetta voru, herra forseti, niðurlagsorð úr þessari greinargerð þeirra manna sem lengst og mest hafa athugað þessi mál um 8 ára skeið, þ. á m. hið umdeilda staðarval fyrir steinullarverksmiðju. Því er mjög fjarri lagi sá málflutningur sem fram hefur komið og heyrðist hér við upphaf þessarar umr., að það væri verið að ganga gegn ljósum rökum sem mæltu frekar með því, að þessi verksmiðja væri sett niður á Suðurlandi heldur en nyrðra. Ég bið hv. þm. og þá, sem þannig hafa mælt, að taka eftir þessum orðum mínum. Ég er ekki þar með að segja að þeirra orð séu ómerk. Ég skil afar vel þau sjónarmið sem þeir mæla fyrir fyrir sitt landsvæði og fyrir hagsmuni þess. Það er ofureðlilegt.

Ég vil, herra forseti, rifja það upp sem ég greindi frá áðan og kom að í minni framsöguræðu í fyrravor þegar ég mælti fyrir lagafrv., að forsendurnar, matið á möguleikum til útflutnings stærri verksmiðju annars vegar yrði tekið til athugunar og á það látið reyna fyrst, en væri það ekki talið nægilega tryggt, slík markaðsöflun að mati stjórnvalda, þá yrði athugaður framleiðslukostur miðað við innanlandsmarkað sem grundvöll.

Ég tel rétt, herra forseti, í þessu sambandi að geta þess, að upplýsingar liggja fyrir um það, að aðeins um 50% af framleiðslugetu steinullarverksmiðja í Vestur-Evrópu sé nú nýtt, og umsagnir bærra sérfræðinga, ekki innlendra heldur einnig erlendra, benda til þess, að ekki séu líkur á að verð breytist til hækkunar á þeim markaðssvæðum sem Jarðefnaiðnaður hefur haft í huga og til athugunar í sambandi við hugsanlegan útflutning, heldur jafnvel frekar hið gagnstæða.

Varðandi byggðaleg sjónarmið eru þau vissulega áhorfsmál og geta talist umdeilanleg. Á það fellst ég vissulega. Ég vil aðeins vitna í því sambandi til skýrslu steinullarnefndarinnar, þess þáttar sem unninn var af byggðadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins um þetta og er í skýrslunni frá mars 1981, þar sem segir um þetta efni, þannig að það liggi hér fyrir:

„Nefndinni var falið auk athugunar á áhrifum staðsetningar á stofn- og rekstrarkostnað verksmiðjunnar að gera grein fyrir samanburði hinna tveggja staðsetningarkosta út frá þjóðhagslegum viðhorfum, mannafla og áhrifum á byggðaþróun.

Það er álit nefndarinnar, byggt á niðurstöðum kafla 6.6., sem unninn var af Bjarna Einarssyni framkvæmdastjóra byggðadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins, að tvö atriði, er varða áhrif á byggðaþróun, séu staðsetningu á Sauðárkróki í vil: Staðbundin áhrif til aukningar atvinnu verði þar meiri og staðsetning þar stuðli að verulega bættri nýtingu strandferðaskipa og stuðli þar að auki að hagkvæmni í flutningakerfi landsins. Hins vegar er rétt að benda á að bæði á Suðurlandi og á Norðurlandi vestra er mikil nauðsyn á nýjum atvinnutækifærum, sérstaklega í iðnaði.

Í þessu nefndaráliti er einungis fjallað um einn iðnþróunarmöguleika, steinullarverksmiðju, og er því eðlilegt að endanlegt mat ríkisvaldsins á staðsetningu hennar taki mið af því, hvor staðurinn eigi auðveldara með að finna annan kost jafngóðan innan svipaðs tíma.“

Herra forseti. Ég tel rétt að bæta hér nokkru við um þann þátt sem þarna var að vikið og hv. síðasti ræðumaður gerði að sérstöku umtalsefni og reynt hefur verið að gera tortryggilegan í umræðum um þetta mál, þ.e. áhrifin á flutningakerfi landsins og þátt Skipaútgerðar ríkisins og tilboð af hálfu fyrirtækisins í væntanlega flutninga á steinull frá Sauðárkróki. Ég hef undir höndum greinargerð eða bréf sem minnisblað til mín frá Skipaútgerðinni, skrifað 24. mars, þar sem segir — með leyfi hæstv. forseta — m.a. þetta:

„Flutningsgjaldið fyrir steinullina væri á núverandi verðlagi 37.70 kr. á hvern rúmmetra til Reykjavíkur, en 47.10 kr. til annarra hafna. Nákvæmur samanburður við kísilgúrflutningana“ — ég vil skjóta því hér að, að Skipaútgerðin annast flutning á kísilgúr frá Húsavík til Reykjavíkur samkv. tilboði og annast það í samvinnu við Hafskip sem flytur kísilgúr út, — „nákvæmur samanburður við kísilgúrflutningana er erfiður þar sem þeir eru teknir á þunga, en þetta verð er þó talsvert hærra. Við lítum ekki svo á að gjaldskrá útgerðarinnar sé ætluð flutningum sem þessum, heldur tilfallandi flutningum og minni háttar samningum. Umrætt gjald er 35.3% til 44.1% af taxta gjaldskrárinnar.“ Ég vil skjóta því hér inn, að ég heyrði nefnt eitthvað um 10% eða svo í umr. hér áðan. „Í þessu verði er engin þjónusta innifalin sem upp- og útskipunargjöldum er ætlað að koma fyrir. Við teljum okkur því aðeins bundna af þessu verði að samið verði við okkur um flutningana án undangengins almenns útboðs.

Það, sem liggur að baki þessari verðhugmynd, er eftirfarandi: Hér er um að ræða tiltölulega mikið magn vöru sem þolir ekki hátt flutningsgjald og því tilgangslaust að bjóða samkv. almennri gjaldskrá. Flutningar þessir krefjast ekki aukinnar flutningsgetu þar sem um er að ræða aukna nýtingu tómarýmis. Einnig eru af okkar hálfu gerðar kröfur um að möguleiki sé á jöfnun flutninga með birgðasöfnun. Einu verulegu kröfurnar, sem flutningar þessir gera, eru tíðari viðkomur á Sauðárkróki í Norðurlandsferðum.“

Greinargerð, sem fylgdi með þessu minnisblaði frá Skipaútgerðinni, er dags. 2. mars 1981. Þar segir frekar um þetta. Ég tel rétt að vitna aðeins til hennar, þar segir m.a.:

„Það er ekki áhugamál Skipaútgerðar ríkisins að hlutast til í deilu Sunnlendinga og Norðlendinga um staðsetningu steinullarverksmiðju. Rekstraráætlanir útgerðarinnar eru ekki miðaðar við þessa flutninga, og staðsetning í Þorlákshöfn og flutningur þaðan með bílum breytir því ekki gerðum áætlunum né áætlaðri arðsemi. Það er hins vegar ein af höfuðröksemdum fyrir eflingu strandferðaþjónustunnar að ódýr og vel skipulögð flutningaþjónusta geti stóraukið möguleika á iðnþróun í þeim landshlutum sem Ríkisskip þjónar, þ.e. Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi. Það eru því miklar líkur á að fleiri mál eigi eftir að koma upp, þar sem iðnþróunarmöguleikar opnast í þessum landshlutum vegna ódýrrar flutningaþjónustu. Þeir möguleikar gætu þá að sjálfsögðu orðið í samkeppni við höfuðborgarsvæðið eða nágrannabyggðir þess.“

M.ö.o.: hár flutningskostnaður verður þá ekki hindrun þess, að landkostir nýtist að verðleikum. Í niðurlagi þessarar greinargerðar Skipaútgerðar ríkisins segir að lokum:

„Greinargerð Jarðefnaiðnar er mjög villandi um þátt Ríkisskips í staðarvali steinullarverksmiðju. Útilokað er annað en fulltrúi Jarðefnaiðnaðar, sem setið hefur fundi með fulltrúum Ríkisskips, viti betur en fram kemur í greinargerðinni“ — og þar er vitnað til umsagnar frá Jarðefnaiðnaði um þátt Ríkisskips.

„Verðhugmynd Ríkisskips er sett fram í fullu samræmi við ríkjandi viðskiptavenjur. Þótt ekki sé gert ráð fyrir steinullarflutningum í áætlunum útgerðarinnar mundi tilkoma þeirra bæta afkomu hennar verulega. Hér er því engan veginn um óraunhæft „dumping“ tilboð að ræða. Verðhugmynd Ríkisskips er fram komin löngu áður en kunnugt varð um deilu þá sem nú stendur yfir um staðsetningu verksmiðjunnar.

Fyrir liggur að líklegasti útflytjandi sé Eimskip. Eimskip er einnig með strandferðaþjónustu við stærstu hafnir á Vestfjörðum og Norðurlandi og hefur undanfarið boðið þjónustu sína fyrir allt að 40% lægri kostnað en Ríkisskip. Það verður því að teljast líklegt að Eimskip muni bjóða á móti Ríkisskip í flutninga þessa verði verksmiðjan á Sauðárkróki.“ — Þetta var úr greinargerð Skipaútgerðarinnar frá 2. mars 1981.

Herra forseti. Ég hef hér rakið helstu forsendur í sambandi við þá tillögu sem ég flutti í ríkisstj. hinn 18. mars 1982 varðandi staðsetningu steinullarverksmiðju. En ég vil leyfa mér að rifja þá tillögu hér upp. Hún er þannig:

„Með tilvísan til laga nr. 61/1981 samþykkir ríkisstj. fyrir sitt leyti að steinullarverksmiðja rísi á Sauðárkróki á vegum Steinullarfélagsins hf. í samræmi við meginhugmyndir sem félagið hefur lagt fram um stærð og markað. Jafnframt samþykkir ríkisstj. að endurgreiða Jarðefnaiðnaði hf. sannanlega útlagðan kostnað vegna undirbúnings að stofnun steinullarverksmiðju í Þorlákshöfn, allt að 600 þús. kr., enda verði það fjármagn notað til að koma sem fyrst fótum undir iðnfyrirtæki á vegum félagsins.“

Þessi upphæð, 600 þús. kr. í undirbúningskostnað sem þarna kemur fram, miðar við upplýsingar sem ég fékk hinn 12. febr. s.l. frá Jarðefnaiðnaði hf. um kostnað þeirra við undirbúningsvinnu vegna steinullarverksmiðju í Þorlákshöfn. Ég taldi eðlilegt, miðað við þróun þessa máls og vegna þess að bæði byggðarlögin hafa mikla þörf fyrir að bætt sé staða atvinnulífs hjá þeim, að ríkisvaldið bætti þeim aðilanum, sem ekki fengi umrædda verksmiðju, aðstöðu sína með því að endurgreiða honum þann kostnað sem lagt hefur verið í. Það er auðvitað matsatriði hvort eðlilegt sé að standa þannig að máli, en í þessu tilfelli, vegna þess að mál þetta hefur þróast með nokkuð óvenjulegum hætti, samkeppni af þessu tagi um þetta stórt iðnfyrirtæki er, má ég segja, einsdæmi hérlendis, taldi ég eðlilegt og forsvaranlegt að gera það að tillögu minni, að þessi undirbúningskostnaður yrði endurgreiddur.

Mér var það að sjálfsögðu ljóst, að þessari tillögu af minni hálfu yrði ekki tekið með neinni gleði af þeim aðilum sem eru talsmenn Suðurlands, eðlilegir málsvarar Suðurlands og þeirra hagsmuna sem þeir þurfa að líta til fyrir sína umbjóðendur. Það þarf hins vegar ekki að rifja það upp, að mjög var á eftir því kallað, ekki síst af Jarðefnaiðnaði hf., að lyktir kæmu í mál þetta, enda var búið að draga fram þau efnisatriði sem eðlilegt var að lægju fyrir áður en tillaga sem þessi kæmi fram. Vissulega var það ætlan mín með þeirri ítarlegu athugun, sem fram fór að losna við það að höggva þyrfti með pólitískum hætti eða réttara sagt pólitískri tillögu sem byggðist ekki á skýrum efnislegum rökum varðandi arðsemimismun eftir því hvor staðurinn yrði valinn. Ég hafði frekar gert ráð fyrir að athuganir mundu leiða slíkt í ljós. En eins og skýrt hefur komið fram hér og í greinargerð þeirra manna sem gerst mega vita um þetta og lengst hafa að þessu unnið, þá var þeirra niðurstaða sú, að hvorki arðsemirök né byggðarleg sjónarmið mæli afgerandi með öðrum staðnum frekar en hinum.

Ég vil svo að endingu, herra forseti, aðeins bæta því við, að ég vænti þess sannarlega að sá hnekkir, sem talsmenn Suðurlands og Jarðefnaiðnaðar hf. telja eðlilega að þeir verði fyrir með því að þessi iðnaður, steinullarframleiðsla, rísi á Norðurlandi, verði ekki varanlegur fyrir hagsmuni þess félags né þeirra byggðarlaga sem í hlut eiga, heldur verði þeim kleift að koma fyrr en seinna fótum undir arðvænlegan iðnað á sínum vegum. Ég tel að það sé ekki óeðlilegt mat, sem ég hef túlkað, að möguleikar Suðurlands á sviði jarðefnaiðnaðar og margháttaðs iðnaðar séu fjölbreyttari en gerist í byggðum Skagafjarðar. Þetta er að sjálfsögðu umdeilanleg staðhæfing, staðhæfing sem telst til álitamála, en þetta er mín skoðun og einn þáttur af mörgum sem ég hef fram borið og réðu því hvaða tillögu ég hef fram borið í þessu máli.

Ég tel ekki ástæðu til að lengja þetta mál frekar af minni hálfu, en ég ítreka það, að það er sannarlega þörf fyrir atvinnuuppbyggingu og fjölbreyttara atvinnulíf á Suðurlandi, byggt á þeim auðlindum sem þar eru til staðar, þeirri framleiðslu sem þar fellur til. Þar sýnist manni vissulega, þegar grannt er skoðað, að margt hafi dregist til höfuðborgarsvæðisins sem með eðlilegum hætti hefði átt að geta þróast og dafnað í heimabyggðum.