31.03.1982
Sameinað þing: 72. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3474 í B-deild Alþingistíðinda. (3012)

243. mál, steinullarverksmiðja í Þorlákshöfn

Flm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða margt sem hér hefur komið fram. Hér var sagt að þessi till. væri óþörf. En ég held það hafi komið mjög góður rökstuðningur fyrir flutningi hennar í máli hæstv. iðnrh. Hann sagði að í tillögum sérfræðinganna hefðu ekki komið fram efnisleg rök sem mæltu með einum staðnum fremur en öðrum. Um það virðast vera skiptar skoðanir, hvort það eru efnisleg rök, að arðsemin sé betri á öðrum staðnum en hinum. Við Sunnlendingar teljum að það og fleira, sem þar er sett fram séu efnisleg rök, en við skulum láta það liggja á milli hluta. Hver hefur sitt álit á því. En vegna þess að þarna voru að mati iðnrh. ekki efnisleg rök þurfti að taka pólitíska ákvörðun í málinu. Ég tel alveg nauðsynlegt að það sé Alþingi sem tekur slíka pólitíska ákvörðun, en ekki ríkisstj., þar sem ákvörðun mundi þá fara eftir — við skulum segja þeirri tilviljun, hvað margir ráðherrar væru úr einstöku kjördæmi og hvaða kjördæmi hefði enga ráðherra.

En það, sem er þó kannske enn þá þyngra á metunum, er það sem ég var að minnast á, að þarna tel ég verið að marka vissa iðnaðarstefnu sem nauðsynlegt er að Alþingi taki ákvörðun um. Þarna er tækifæri til að nýta innlent hráefni sem kostar íslenska verksmiðju aðeins 1/19 af því sem keppinautar okkar á Norðurlöndum verða að greiða fyrir þetta hráefni. Ef á að taka ákvörðun um að þennan kost skuli ekki nýta um ófyrirsjáanlega framtíð til þess að koma íslenskri orku í verð, þá tel ég að þarna sé um svo örlagaríka ákvörðun að ræða að það sé alveg nauðsynlegt að það sé Alþingi allt sem móti þá iðnaðarstefnu.