01.04.1982
Efri deild: 62. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3482 í B-deild Alþingistíðinda. (3032)

259. mál, Iðnlánasjóður

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum um Iðnlánasjóð, en það er flutt að höfðu samráði við Félag ísl. iðnrekenda og Landssamband iðnaðarmanna.

Lög um Iðnlánasjóð eru að stofni til frá árinu 1935, en núgildandi lög eru frá árinu 1967. Þá fór fram heildarendurskoðun á lögum um sjóðinn. Síðan hafa verið gerðar fimm sinnum breytingar á þeim lögum. Árið 1971 var bætt við ákvæði um erlendar lántökur sjóðsins og vaxtakjör. Árið 1973 var sú breyting gerð að hækka iðnlánasjóðsgjald úr 0.4% í 0.5% og að árlegt framlag ríkissjóðs yrði 50 millj. gkr. eða 500 þús. nýkr. á árinu. Árið 1974 var gerð smávegis orðalagsbreyting á lögum sjóðsins er snerti undanþágu varðandi mjólkurbú og kjöt- og fiskiðnaðarfyrirtæki að því er tók til greiðslu á iðnlánasjóðsgjaldi. Á árinu 1977 var með breytingum á lögum sjóðsins breytt ákvæði í lögum um lánadeild veiðarfæraiðnaðar. Einnig var sjóðnum veitt heimild til að lána til framkvæmda er auka hollustu og öryggi og bæta starfsumhverfi á vinnustöðum. Árið 1979 var síðan stofnuð lánadeild iðngarða við sjóðinn.

Frv. það, sem hér er lagt fram og ég mæli fyrir, felur í sér þrjár meginbreytingar frá gildandi lögum. Í fyrsta lagi er lagt til að iðnlánasjóðsgjald verði lækkað sem nemur 90%, þ.e. úr 0.5% af aðstöðugjaldsstofni í 0.05%. Í öðru lagi er lagt til að lánstími og lánshlutfall verði rýmkað verulega, þannig að hámarkslánstími verði 25 ár í stað 15 ára samkv. gildandi lögum og að hæsta leyfilegt lánshlutfall hækki úr 60% í 70%. Í þriðja lagi er lagt til að ákvæði í núgildandi lögum Iðnlánasjóðs um sérstaka veiðarfæradeild verði fellt niður, en sú deild byggðist á sínum tíma á sérstöku gjaldi sem innheimt var af innfluttum veiðarfærum. Sú gjaldtaka var felld niður fyrir nokkrum árum.

Lagt er til að lækkun iðnlánasjóðsgjaldsins komi til framkvæmda á næsta ári, þ.e. á árinu 1983, og þá á aðstöðugjaldsstofn ársins 1982.

Lækkun iðnlánasjóðsgjaldsins mun bæta rekstrarskilyrði iðnfyrirtækja. Hækkun lánshlutfalls og lengri lánstími eru einnig atriði sem bæta munu hag iðnaðarins.

Iðnlánasjóður var sá fjárfestingarlánasjóður sem hvað fyrst tók upp verðtryggingu á útlánum sínum. Með þeirri aðgerð og fleirum hefur tekist að varðveita höfuðstól sjóðsins þannig að í lok seinasta árs nam eigið fé hans 137 millj. kr.

Það er samdóma álit iðnrn. og samtaka iðnaðarins að við þessar aðstæður sé unnt og rétt að starfrækja Iðnlánasjóð sem gegnumstreymissjóð, eins og það er kallað, þ.e. að sjóðurinn sinni sínu hlutverki með lántökum. Ríkisstj. hefur fallist á þetta sjónarmið og þetta frv. er hér flutt sem stjórnarfrv.

Iðnlánasjóður hefur vaxið verulega undanfarin ár og er mikilvægt að sjóðurinn eflist enn frekar þar sem hann gegnir afar þýðingarmiklu hlutverki fyrir þróun íslensks iðnaðar. Á síðasta ári, 1981, lánaði sjóðurinn um 94 millj. kr. og gat annað milli 61 og 62% af lánseftirspurn. Eftirspurn eftir lánum úr sjóðnum hefur farið mjög hratt vaxandi á fyrstu mánuðum þessa árs og er það vissulega góðs viti um fjárfestingaráform og framkvæmdir í iðnaði í landinu. Lækkun iðnlánasjóðsgjaldsins og minnkandi framlag ríkissjóðs, en það er einungis 500 þús. kr. í ár, skerðir vissulega tekjur sjóðsins nokkuð. Það er því afar brýnt að tryggja sjóðnum aðgang að lánsfé. Þarf að hafa það atriði vel í huga við gerð fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar fyrir árið 1983, þannig að þær breytingar sem hér er lagt til að gerðar verði skerði ekki möguleika sjóðsins til að rækja hlutverk sitt.

Með þeirri stefnumótun varðandi skipulag og starfsemi Iðnlánasjóðs, sem hér er lögð til, tel ég að öðrum fjárfestingarlánasjóðum sé gefið gott fordæmi. Bæði Stofnlánadeild landbúnaðarins og Fiskveiðasjóður hafa um langan tíma notið verulegra framlaga úr ríkissjóði, en Iðnlánasjóður hefur fengið þar langtum minna. Það er stefna stjórnar Iðnlánasjóðs, og iðnrn. hefur verið henni fylgjandi, að rétt sé að afnema nú nánast alveg framlög bæði ríkissjóðs og iðnaðarins til sjóðsins. Ég vil í þessu sambandi benda hv. þm., sem vildu kynna sér samanburð á stöðu sjóða atvinnuveganna, á töflu sem er að finna í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstj. fyrir árið 1982, töflu númer 14, þar sem sýnd er eigin fjármögnun atvinnuvegasjóðanna. Ætla ég þó ekki að fara að efna til neins metings á milli. Þar eru sögulegar forsendur sem liggja að baki, og nú hafa verið teknar upp breytingar sem varða verðtryggingu á fjármagni allra þessara at-vinnuvegasjóða.

Þetta yfirlit í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun segir okkur þá sögu, að kjör á lánum til atvinnuveganna hafa verið mjög misjöfn á liðnum árum þó að nú sé orðinn þar jöfnuður á. Eigin fjármögnum Iðnlánasjóðs er samkvæmt fjárfestingar-og lánsfjáráætlun 1982 áætluð 43 millj. kr.

Herra forseti. Með væntanlegri lögfestingu þessa frv. verður stigið skref til að bæta starfsskilyrði iðnaðarins. Ég vona að fleiri þættir geti fylgt í kjölfarið fyrr en seinna. Þótt nú styttist starfstími yfirstandandi þings vænti ég að frv. þetta geti fengið hér þinglega meðferð og hljóti góðar viðtökur og verði lögfest fyrir þinglok. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. iðnn.