14.10.1981
Neðri deild: 3. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í B-deild Alþingistíðinda. (31)

2. mál, Listskreytingasjóður ríkisins

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. — Það er í fyrsta lagi út af síðustu orðunum, að starfsmenn mínir í ráðuneytinu hafa leyfi til að undrast þegar þeim sýnist án þess að spyrja mig um leyfi.

Ég vil þakka þeim hv. þm. sem hafa rætt þetta mál. Ég veit að báðir þeir hv. þm., sem þetta ræddu, eru miklir áhugamenn um þessi mál og hafa sýnt það á undanförnum árum, og ég vænti mér vissulega góðs samstarfs við þá um framgang þessa málefnis. Og eins og ég sagði flyt ég þetta frv. engan vegin þannig að ég telji ekki að þar megi ýmsu breyta. Aðalatriðið er að Alþingi verði á eitt sátt um það, hvernig þessum málum skuli fyrir komið. Og ég legg enn áherslu á það, að þau ákvæði, sem eru nú í skólalöggjöfinni um þetta, eru ákaflega ófullkomin og erfitt að vinna eftir þeim.

En það, sem ég vildi sérstaklega minnast á, er ábending hv. þm. Halldórs Blöndals um það, að ekki sé enn búið að skipa nefndina sem átti að kanna starfsskilyrði myndlistarmanna. Ég get upplýst hv. þm. um það, að ég hef gert margar tilraunir til þess að fá tilnefningar frá tilnefningaraðilum í þessu sambandi, en þær tilnefningar hafa ekki borist mér enn þá. Hef ég þó haft nokkurn eftirrekstur í því bæði fyrr og síðar, eftir að þetta mál var samþykkt hér á þinginu.