02.04.1982
Neðri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3559 í B-deild Alþingistíðinda. (3110)

90. mál, Hæstiréttur Íslands

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Mánudaginn 16. nóv. s.l. var frv. til l. um breytingu á lögum nr. 75 frá 21. júní 1973, um Hæstarétt Íslands, fylgt úr hlaði í hv. Ed. Það er nú nýkomið til Nd. Ég verð að leyfa mér að fara um þetta frv. nokkrum orðum.

Eins og kunnugt er segir í ríkisstjórnarsáttmálanum eitthvað á þá leið, að unnið skuli að umbótum í dómsmálum og stuðlað að hraðari meðferð dómsmála með því m.a. að einfalda meðferð minni háttar mála. Ég tel að nokkuð hafi áunnist í þessum málum m.a. á liðnu þingi, sem samþykkti nokkur frumvörp, sem horfa í þessa átt. En þá er komið að því, að Hæstiréttur ræður ekki við að anna öllum þeim málum, sem þangað berast, á skömmum tíma.

Fjöldi mála, sem skotið er til Hæstaréttar, hefur verið þessi síðustu árin: Árið 1974 223, 1975 185, 1976 244, 1977 240 og 1980 250. Dæmd mál þessi sömu ár voru sem hér segir: 1974 127, 1975 141, 1976 141, 1977 159 og 1980 168. Gefur því auga leið að með ári hverju fjölgar þeim málum sem bíða dóms, og má segja að stefni í algert óefni ef ekki verður gripið til einhverra ráða.

Það er enn fremur deginum ljósara að skjót afgreiðsla dómsmála er höfuðnauðsyn í hverju réttarríki, en jafnframt verður að gæta hins fyllsta réttaröryggis. Ber því mikla nauðsyn til að bæta starfsaðstöðu Hæstaréttar til þess að hann geti með skjótum og öruggum hætti leyst úr þeim mikla málafjölda sem þangað berst. Þær leiðir, sem helst koma til greina til að stuðla að skjótari úrlausn mála fyrir Hæstarétti, eru þessar — ég leyfi mér að rifja þær upp því að það er ekki alveg einsýnt að ein ákveðin leið sé leiða best, heldur þarf að velja á milli eins og oft er:

1. Hækkun áfrýjunarfjárhæðar í einkamálum. Þessa leið verður að fara varlega og þó að áfrýjunarfjárhæð væri hækkuð leysir það ekki mikinn vanda.

2. Fela mætti Hæstarétti vald til að ákveða hvort áfrýja megi máli eða ekki. Slíkar reglur eru í gildi sums staðar á Norðurlöndum, en telja verður þó að fara verði með mikilli gát í því að takmarka rétt borgaranna til að skjóta málum sínum til æðri dóms til endurskoðunar. Það eru mannréttindi sem varasamt er að skerða til muna.

3. Þá er hægt að hugsa sér millidómstig sem yrði áfrýjunardómstóll í minni háttar málum. Á undanförnum árum hefur nokkrum sinnum verið lagt fyrir Alþingi frv. til l. um lögréttu, en ekki fengið afgreiðslu. Í því frv. er gert ráð fyrir millidómstigi milli héraðsdóms og Hæstaréttar sem yrði að jafnaði endanlegur áfrýjunardómstóll í þeim málum, þ. á m. kærumálum, sem héraðsdómur dæmdi á fyrsta dómstigi, en fyrsta dómstig í öllum stærri málum. Þeim málum mætti síðan áfrýja til Hæstaréttar. Með stofnun slíks dómstóls verður að vænta þess, að miklu álagi yrði létt af Hæstarétti og þörf fjölgunar hinna reglulegu dómara þar yrði tæpast nauðsynleg fyrst um sinn. Einhvern veginn þyrfti þó að leysa úr þeim vanda sem steðjar nú að vegna hins mikla fjölda óafgreiddra mála.

4. Mjög mikil nauðsyn er á að Hæstiréttur fái að ráða sérfróða menn dóminum til aðstoðar, eins og tíðkast annars staðar á Norðurlöndum. Úr því er nokkuð bætt með þessu frv.

5. Fjölgun reglulegra dómara í Hæstarétti. Árið 1973 var hæstaréttardómurum fjölgað úr 5 í 6 og úr 6 í 7 1979. Vissulega kæmi mjög til álita að fjölga dómendum í 10–11, en þá gæti rétturinn starfað í tveimur 5 dómara deildum. Það er þó tæpast tímabært meðan ekki er ráðið hver örlög lögréttufrv. fær. Hins vegar væri ugglaust rétt að fjölga dómurum strax í 8, en þá gæti dómurinn starfað í tveim deildum í senn sem þriggja manna dómur, er dæmdi kærumál og minni háttar áfrýjunarmál, og 5 manna dómur, er dæmdi meiri háttar mál. Reynt hefur verið, eftir því sem hægt hefur verið talið, að dæma sem flest mál af þrem dómurum eftir að það var heimilað með lögum nr. 43 frá 1973.

6. Sú leið, sem einna helst kæmi til greina til að hraða úrlausn þeirra mála sem nú bíða dóms fyrir Hæstarétti, væri líklega að lögleiða heimild til að setja 3–4 eða 2–3 varadómara um stuttan tíma í einu til að reyna að ljúka þessum málum eða a.m.k. fækka þeim. Gæti þetta orðið með þeim hætti, að slíkir varadómarar yrðu settir um þriggja eða fjögurra mánaða skeið á ári. Dómurinn mundi þá starfa í tveim deildum þann tíma og hinir föstu dómarar yrðu í meiri hluta í báðum deildum. Svipað fyrirkomulag og þetta hefur tíðkast um nokkurn tíma í Finnlandi og var einnig í gildi í Noregi um skeið eftir stríðið. Þetta fyrirkomulag er að ýmsu leyti gallað. T.d. hafa settir hæstaréttardómarar ekki sama starfsöryggi og hinir skipuðu og þeir eru ekki jafnóháðir framkvæmdavaldinu og hinir skipuðu vegna þess að þeir þurfa aftur að hverfa að fyrri störfum eða öðrum störfum er setningu lýkur. Nokkrir annmarkar eru á því, að Hæstiréttur starfi í tveim deildum, a.m.k. til langframa. T.d. kynni þá að verða meiri hætta á ósamræmi í dóminum en ella. Samt sem áður verður að telja að þetta sé eina færa leiðin til að leysa úr þeim vanda sem Hæstarétti er nú á höndum. Þess ber að geta og er skylt að geta, að talsverð reynsla er hér á landi af setningu hæstaréttardómara, bæði í einstökum málum og um tiltekinn tíma, jafnvel svo árum skiptir. Sýnir sú reynsla að hinir settu dómarar hafa rækt starf sitt með miklum ágætum.

Ég hef nú rifjað upp fyrir hv. alþm. þær leiðir, sem helst koma til greina til að ráða fram úr þeim vanda sem hér er um að tefla. Sú leið, sem er valin í frv., er nánast 6. leiðin sem ég nefndi. Hún gerir ráð fyrir að fjölga hinum reglulegu dómendum Hæstaréttar úr 7 í 8, eins og 1. gr. frv. ber með sér. Þá gerir hún enn fremur ráð fyrir að heimila Hæstarétti að ráða ritara og aðra sérfróða aðstoðarmenn og annað starfslið til að létta undir við störf eða flýta fyrir störfum í Hæstarétti. Loks er í frv. ákvæði til bráðabirgða þess efnis, að árin 1982 og 1983 geti dómsmrh. samkv. tillögu Hæstaréttar sett 2–3 dómara úr hópi þeirra manna, sem greindir eru í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 75/1973, til viðbótar hinum reglulegu dómurum allt að sex mánuði hvort ár.

Ég held að ég hafi þessi orð ekki miklu fleiri. Ég bendi á að frv. hefur fengið ítarlega umfjöllun í Ed., var þar lengi í allshn. og allshn. kallaði á sinn fund ýmsa fróða menn til að spyrja þá spjörunum úr um frv. þetta. En það kemur frá Ed. nær alveg óbreytt frá því það var lagt fyrir deildina hinn 16. nóv. s.l.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, en vænti þess aðeins, að þetta mál hljóti hraða og örugga meðferð og afgreiðslu í þessari hv. þd. Leyfi ég mér að leggja til að því verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. allshn.