02.04.1982
Neðri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3578 í B-deild Alþingistíðinda. (3128)

266. mál, sykurverksmiðja í Hveragerði

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að bæta miklu við það sem ég sagði áðan, aðeins að taka það fram til að fyrirbyggja misskilning, ef hann væri h já mönnum, að iðnrn. ber þetta mál ekki fram með það í huga, að sett verði einhver verndarlöggjöf í sambandi við innflutning á sykri, og gerði þeim áhugaaðilum grein fyrir því sem hafa mjög eindregið óskað eftir að aflað yrði heimilda til stuðnings og þátttöku af ríkisins hálfu í þessu fyrirtæki, þó sem minnihlutaaðila eins og hér er gert ráð fyrir. Það er fyrst eftir að það lá fyrir, að áhugaaðilarnir, sem hafa lagt mikla vinnu í þetta mál, vildu eftir sem áður að þessara heimilda yrði aflað, að þetta frv. er flutt sem stjfrv. Það er alveg ljóst, að ef við færum að taka hér upp eða setja sérstaka löggjöf um þessi efni, þá, mundi því fylgja margháttaður vandi og fyrirhöfn og einnig hætta á að menn færu þá inn í niðurgreiðslu varðandi íslenskan iðnað, því að fyrirheit eru um að íslenskur iðnaður fái að njóta verðs á aðföngum sínum sem sambærilegt sé við heimsmarkaðsverð. Ég tel ekki skynsamlegt að bæta á þann vanda, sem við glímum þar við, eða þá stefnu, sem við höfum framfylgt og þurfum að

framfylgja sérstaklega þegar um er að ræða innflutt hráefni. Það háttar vissulega öðruvísi til þegar um er að ræða úrvinnslu úr innlendum afurðum, svo sem ull og skinnum, í sambandi við okkar eigin iðnað. — Þetta vildi ég að hér kæmi fram.