16.04.1982
Neðri deild: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3851 í B-deild Alþingistíðinda. (3326)

107. mál, almannatryggingar

Frsm. minni hl. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég tala fyrir minnihlutaáliti því sem kemur fram á þskj. 483. Við skrifuðum undir þetta nál. fulltrúar þingflokks Sjálfstfl., ég ásamt hv. 1. þm. Vestf., Matthíasi Bjarnasyni. Pálmi Jónsson, hæstv. landbrh., skrifar hins vegar undir meirihlutaálit stuðningsmanna ríkisstj.

Nú má það í sjálfu sér merkilegt heita, að bæði skuli þessi hæstv. ráðh. og aðrir stuðningsmenn ríkisstj„ sem skrifa undir meirihlutaálitið, ekki hafa það mikla trú á sinni eigin ríkisstjórn að henni sé treystandi til að gera nauðsynlegar og skynsamlegar breytingar á því kerfi sem við búum við varðandi daggjöld sjúkrahúsa og annarra heilbrigðisstofnana, eins og allir viðurkenna og nú síðast hv. frsm. meiri hl., hv. þm. Guðrún Helgadóttir, þörf á, hafandi jafnframt í huga að það, sem lagt er til með frv. því sem við ræðum nú, mun ekki leysa nokkurn vanda.

Sá vandi, sem við er að glíma hjá þeim heilbrigðisstofnunum, sem undir daggjaldakerfi falla, er fyrst og fremst sá, að það vantar fjármagn til að standa undir rekstri þeirra og koma á móti þeirri óðaverðbólgu sem hæstv. ríkisstj. hefur ekki enn tekist að ná niður í það sem hún lofaði þjóðinni þegar hún tók við völdum.

Við tökum það skýrt fram í nál. okkar, að meginhluti þeirra erfiðleika, sem við er að glíma, stafi af þeirri óðaverðbólgu sem ríki í þjóðfélaginu og ásamt ýmsum öðrum aðgerðum ríkisvaldsins, þ. á m. samningum sem ríkisvaldið hefur gengið á undan að móta og semja um, hafi aukið rekstrarkostnað þessara stofnana án þess að nokkurt samráð hafi veríð haft við þær. Við þekkjum það vel, að á því tímabili, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur verið við völd, hafa verið samþykktir mjög þungbærir kjarasamningar fyrir allan rekstur heilbrigðisstofnana við einstakar stéttir sem falla undir þá starfsemi sem unnin er innan heilbrigðiskerfisins, samningar sem viðkomandi stofnanir hafa í raun ekkert fengið að taka þátt í, en verið alfarið ráðið í fjmrn. Alþingi Íslendinga hefur t.d. aldrei fengið nein skýr svör frá því hv. rn. um hver virkni svokallaðra læknasamninga hafi verið fyrir umræddar stofnanir.

Það væri satt að segja æskilegt að hæstv. fjmrh. eða hæstv. heilbrn. gæfi þessari hv. deild, sem málið er nú til umr. í, upplýsingar um hækkanir, sem urðu hjá sjúkrahúsum og öðrum heilbrigðisstofnunum vegna þessara einu sérstöku samninga, og þá væru að sjálfsögðu gefnar upplýsingar um hækkanir í prósentum og krónum á mánaðarlaun, á gæsluvaktakaup, á laun vegna fræðslustarfsemi, vegna bifreiðahlunninda, vegna breytinga á lífeyrissjóðsútgjöldum og um hvort samið hafi verið um lengingu eða styttingu vinnudags, sem auðvitað hefur í för með sér aukin útgjöld fyrir stofnanirnar. Þetta hefur auðvitað gífurlega mikið að segja fyrir rekstur þessara stofnana, og ég endurtek, að æskilegt væri að viðkomandi hæstv. ráðh. gæfu þinginu upplýsingar um hve mikill aukinn kostnaður hafi verið þarna á ferðinni. Ég mun koma nánar að þessu þegar ég ræði um daggjaldakerfið, en hjá okkur fulltrúum minni hlutans í nefndinni kemur mjög skýrt fram það sem ég hef þegar sagt, að meginhluti þessara erfiðleika stafi af óðaverðbólgunni í þjóðfélaginu og svo til viðbótar og í framhaldi af því af vanmætti ríkisstj. til að standa við fjárhagslegar skuldbindingar, sem daggjaldakerfið leggur á ríkissjóð, og vanhæfni ekki aðeins kerfisins, heldur einnig ríkisstj. og viðkomandi ráðh. til að leysa þau mál sem á og þarf að leysa á nútímalegan hátt.

Til að gera sér nokkra grein fyrir fjárhagsvanda þessara stofnana mun ég nú, með leyfi hæstv. forseta, vitna til viðtala sem eitt dagblaðið í Reykjavík átti við stjórnendur sjúkrahúsa og annarra heilbrigðisstofnana sem undir daggjaldakerfi falla. Þessi viðtöl birtust seint í fyrra mánuði um það leyti sem þetta frv., sem við ræðum nú, var til umfjöllunar hjá hv. heilbr.- og trn.

Ég tel nauðsynlegt, vegna þess sem á eftir mun fara í sambandi við þetta mál, að í þingtíðindum verði hægt að sjá það sem um þetta hefur verið sagt af þeim aðilum sem mesta og besta þekkingu hafa á þessari starfsemi og þeim vandamálum sem rekstur þessarar starfsemi býr við. Hér breytir í raun engu um þótt um síðustu mánaðamót eða skömmu eftir síðustu mánaðamót hafi verið komið nokkuð á móti ríkjandi fjárhagsvanda eða að hluta.

Kristinn Guðmundsson forstjóri Sjúkrahúss Ísafjarðar sagði í sínu viðtali, með leyfi forseta:

„Við litum dimmt til framtíðarinnar ef fella á niður daggjöld og kannske tæplega greiða okkur hallann, en það eru lagaþættir um það, að hann á að greiðast upp á fimm til átta fyrstu mánuðum. En ég veit nú ekki nema það takist enn þá. Við höfum ekki endanlegt uppgjör fyrir hallann á síðasta ári, en útlit er fyrir að hann fari ekki yfir 5%, þannig að ástandið er víða verra.“

Kristinn skýrði enn fremur frá því, að sjúkrahúsið á Ísafirði hefði fengið 40% af þeirri upphæð sem beðið hefði verið um til tækjakaupa og viðhalds. Í niðurlagi síns viðtals sagði Kristinn, með leyfi forseta:

„Það þýðir kannske ekkert að vera að berja sér og það má segja að við skrimtum enn þá. Þegar ríkisspítalarnir eru í vandræðum, þá loka þeir bara heilu deildunum, en það getum við ekki. Auðvitað er hægt að koma út með sæmilega afkomu þegar sagt er stopp þegar ástandið krefst þess. Við bíðum og sjáum til,“ sagði hann að lokum.

Eyjólfur Pálsson forstjóri Sjúkrahúss Vestmannaeyja sagði, með leyfi forseta: „Það liggur á borðinu, að ef ekki verða breytingar hér á, þá hlýtur innan skamms að koma til hreinnar stöðvunar. Það gildir það sama um okkur og velflesta, að staðan er mjög slæm. Til viðbótar þessum almenna fjárhagsvanda stöndum við einnig frammi fyrir því að vera með stærra sjúkrahús en markaðurinn gerir kröfur til. Hallinn hjá okkur um áramótin var um 2 millj. kr.,“ sagði hann.

Hann sagði í viðtalinu enn fremur að bæjarsjóður Vestmannaeyja hefði að hluta til aðstoðað við reksturinn, en það væri sama með þann sjóð og aðra bæjarsjóði að hann hefði nóg með sitt. Hann sagði í viðtalinu að það væri sitt mat að sjúkrahúsin ættu að reka mál sín á sameiginlegum vettvangi, þ.e. á vettvangi Landssambands sjúkrahúsa. Hann benti á að ef um samdrátt yrði að ræða þyrfti að minnka þjónustuna við hvern og einn. Og hann lauk viðtali sínu með því að segja:

„Við höfum óskað eftir því við hið háa ráðuneyti að það tjái sig um hvaða þjónustuskerðing eigi að fara fram. Á þessu stigi bíðum við átekta og væntum ákveðnari svara heilbrigðisyfirvalda við þeim tillögum sem samþykktar voru á fundi sem Landssambandið hélt fyrri hluta þessa mánaðar, en á þeim fundi var einmitt hæstv. heilbrmrh. og fleiri yfirmenn í heilbrigðiskerfinu.“

Stefán Þorleifsson forstjóri Sjúkrahússins á Neskaupstað sagði m.a., með leyfi forseta:

„Ég held að ekkert sjúkrahús sé til á daggjaldakerfi sem bruðli þannig með fé að aukin útgjöld séu til annars en að bæta þjónustuna. Landspítali og aðrir ríkisspítalar eru ekki búnir að sanna okkur að það hafi verið sparað í þeim rekstri. Ég óttast að við afnám daggjaldakerfis og við upptöku fastra fjárveitinga verði frumkvæði um rekstur stofnana og þjónustuhlutverk tekið úr höndum heimamanna og það kalli á meiri miðstýringu. Til að þessar þjónustustofnanir þróist til heilla fyrir fólkið álít ég nauðsynlegt að frumkvæðið verði í höndum heimamanna.“

Hann sagði enn fremur að staðan hjá þeim væri vart verri en verið hefði, skuldabyrðin um áramót hefði numið um 70%, eins og hann sagði. Um leiðir til lausnar á þessu vandamáli sagði Stefán Þorleifsson frá Neskaupstað m.a. þetta, með leyfi forseta:

„Ég held nú að í raun og veru sé ekki um aðrar leiðir að ræða en aukna fjárveitingu eða draga saman þjónustu. Ég tel að það sé einungis um það að ræða að fá aukna fjárveitingu. Þá er ég ekki að halda því fram, að ekki sé hægt að draga eitthvað úr, en ég held að það muni einungis koma fram í auknum kostnaði síðar. Kostnaður við mannahald er nú einu sinni um 70% af kostnaði og svo koma liðir eins og lyf, matvæli og annað slíkt. Vextir eru einnig orðnir stór liður. Það mætti eflaust breyta greiðsluformi til stofnana, koma á fyrirframgreiðslu frá tryggingum. Það mundi draga úr vaxtakostnaði. En allt, sem viðkemur viðhaldi og tækjakaupum, segir til sín síðar. Ef það yrði gert í ríkum mæli mundu þessar stofnanir eingöngu drabbast niður. Það ætti að vera sómi hvers þjóðfélags að láta stofnanir sem þessar líta vel út og þróast í framfaraátt. Við getum aldrei haft annað markmið. Ég vil leggja áherslu á að við getum aldrei metið það til fjár sem aukin heilsugæsla og aukin þjónusta við sjúka gefa í aðra hönd.“

Ólafur Örn Arnarson yfirlæknir á Landakotsspítala sagði m.a., með leyfi forseta:

„Við siglum hreinlega í strand með daggjaldaákvörðunina frá í janúar að baki. Ástandið er afleitt fjárhagslega og búið að vera lengi, en með þessari ákvörðun siglir hreinlega í strand. Okkar daggjald hér lækkaði í krónutölu um 23 kr. þrátt fyrir mikinn hallarekstur og dýrtíðarhækkanir, svo það segir sig sjálft hvert stefnir. Meðaltalshalli allra þessara stofnana á s.l. ári er 12.5%, en við hér á Landakotsspítala erum með 16% halla, svo útlitið er svart.“

Ólafur hélt áfram og sagði að spítalanum væri haldið gangandi „upp á krít“ og engir reikningar greiddir upp. Sum fyrirtæki hefðu þegar sett stopp á spítalann og neitað að afgreiða vörur til hans nema gegn staðgreiðslu. Þá hlæðu skuldirnar utan á sig með vöxtum og vaxtavöxtum og taldi Ólafur málið vera komið í einn vítahring sem erfitt væri að sjá út úr. Hann var spurður hvort gripið yrði til einhverra aðgerða, fækkunar á sjúklingum eða lokunar deilda. „Nei,“ svaraði hann. Og með leyfi forseta hélt hann áfram:

„Við getum ekki fækkað sjúklingum. Við erum á neyðarvakt og erum með sjúklinga á öllum göngum. Við verðum að taka við fólkinu meðan einhver þarf að komast inn, svo við getum ekkert gert. Við höldum áfram þar til lánardrottnarnir segja stopp. En eitthvað verður til bragðs að taka og við vonumst eftir viðbrögðum frá hinu opinbera,“ sagði Ólafur Örn að lokum.

Forstjóri Sjúkrahúss Húsavíkur, Ólafur Erlendsson, sagði, með leyfi forseta:

„Ástandið er ekki gott hér. Við erum óhressir sérstaklega með niðurskurðinn til tækjakaupa og viðhalds. Daggjaldið til þess þáttar var skorið niður úr 43 kr. í 24 kr. hjá okkur eða um nálægt helming. En staðan í heild er sú, að okkur vantaði tæp 6% upp á að endar næðu saman um áramótin þannig að við drögum á eftir okkur skuldahala.

Í sambandi við þær fullyrðingar, að ekki væri til meira fé til að reka heilbrigðisþjónustuna en veitt var til hennar á síðasta ári og það megi ekki fara fram úr því, benti hann enn fremur á, að ef til samdráttar þyrfti að koma yrði að sameinast um að gera ráðstafanir á því sviði og það væri ekki hægt fyrir hvern og einn í sínu horni að gera slíkar ráðstafanir. Og hann sagði í lokin: „Við bíðum nú eftir heildarskipunum frá yfirmönnum heilbrigðismála um hvað gera skuli.“

Haukur Benediktsson, forstjóri Borgarspítalans og formaður Landssambands sjúkrahúsa, hafði þetta að segja um ástandið á Borgarspítalanum, með leyfi forseta:

„Ég geri ráð fyrir að þurfa að borga 5.7 millj. í vexti á árinu. Það er sama upphæð og þarf til að greiða árslaun 40 manns í heilbrigðiskerfinu. Á sama tíma er verið að þrátta um hvort bæta eigi við einum manni í vinnu. Það er engin leið að standa undir þessu lengur. Þetta er allt fjármagnað með lánum og þó borgarsjóður sé ábyrgur fyrir þessu og verði að greiða launin, þá hafa þeir tilkynnt okkur að það sé enginn grundvöllur fyrir því áfram“ sagði hann.

Hann sagði enn fremur að á fundi, sem Landssamband sjúkrahúsa gekkst fyrir fyrir skömmu og áður hefur verið vitnað til, hafi verið óskað eftir upplýsingum ráðuneytisins um hvernig ætlast væri til að brugðist yrði við 12.5% heildarhallarekstri þessara stofnana á síðasta ári. Þeir hefðu ekki búist við að svör mundu berast samdægurs, en enn biði Landssambandið eftir svörum.

Hann sagði enn fremur að það væri út af fyrir sig rétt, að það væri ágreiningur um þennan halla, þ.e. hvort hann sé vegna útþenslu eða vanmats á verðbólgunni, og trúlega mætti segja að það væri hvort tveggja. Og hann hélt áfram, með leyfi forseta:

„Það, sem skiptir meginmáli, er hvort þarna er þá um að ræða óleyfilega og óeðlilega útþenslu á rekstri eða vanmat á dýrtíðinni. Það er viðurkennt af rn. að það þurfi að endurskoða vísitölu daggjaldanefndar til að reikna út ýmsa kostnaðarliði. Ef til samdráttar á að koma til að minnka þennan halla er auðvitað hægt að segja upp fólki. En við viljum fá ákvarðanir um slíkt frá réttum aðilum. Við bíðum því svara þar að lútandi og reiknum með að menn ætli að setjast niður og kryfja málið til mergjar.“

Hann var spurður að því í lokin, hve lengi hann teldi að sjúkrastofnanirnar gætu haldið starfseminni gangandi á þennan hátt, og svaraði:

„Svo lengi sem menn vildu lána peninga. Þetta er rekið meira og minna á lánum og vanskilum,“ sagði hann, „hér á Borgarspítalanum, og það er einungis spurning um

hversu lengi menn komast upp með slíkt. En auðvitað er engin framtíð í því.“

Gunnar Sigurbjörnsson aðstoðarforstjóri Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri hafði þetta að segja, með leyfi forseta:

„Skuldahalinn frá því í fyrra var upp á 11.5 millj. kr. Við höfum hér stystan meðallegutíma á landinu og það hefur mikil áhrif til hækkunar rekstrarkostnaðar. Það er mjög erfitt að reka þetta með slíkum skuldahala. Þetta vindur upp á sig og við erum sífellt að reyna að ná í halann frá síðasta ári. Með vöxtum og vaxtavöxtum hleður þetta utan á sig. Við erum komnir með langan skuldahala í flestum viðskiptafyrirtækjum okkar.“

Og um leiðir til lausnar vandanum sagði Gunnar m.a., með leyfi forseta:

„Við erum að reyna að undirbúa okkur á allan hátt. Við verðum að vera tilbúin að minnka þjónustuna ef við fáum ekki aukið fé. Það má auðvitað lengja meðallegutímann og vera ekki með neina starfsemi um helgar. En auðvitað bitnar þetta á einhverju. Biðlistar lengjast og fleira mætti til taka. Og þá komum við að spurningunni: Hvað borgar sig fyrir þjóðfélagið? Það er nú svo með okkar þjónustu að við höfum kostnaðarhliðina fyrirliggjandi, en við getum aldrei reiknað það sem við skilum af okkur, þ.e. teknahliðina, í peningum.“

Gunnar Sigurbjörnsson sagði enn fremur að sjúkrahúsið á Akureyri hefði fengið eins og aðrir 1% hækkun á daggjöldum í janúar. En það hefði verið reiknað út fyrir nokkru að til að geta staðið undir rekstrinum og jafnað skuldahalann þyrfti 25% hækkun að koma til. Og hann sagði að lokum:

„Heilsugæsluþjónustan á Íslandi er mjög góð og með því besta sem gerist meðal nágrannaþjóðanna. Ég þekki það af eigin reynslu. Auðvitað vilja allir halda góðri heilbrigðisþjónustu, en þá er einnig spurningin: Hvað viljum við leggja á okkur? Einhvers staðar frá verða peningarnir að koma.“

Að síðustu, herra forseti, ætla ég að vitna í viðtal við einn af forstjórum sjálfseignarstofnunar. Það er viðtal sem var haft við Björn Ástmundsson forstjóra Reykjalundar. Hann byrjaði á að segja frá því í viðtali sínu, að það hefðu ekki verið gerðar nemar sérstakar rekstrarlegar breytingar, og taldi að um reikningslega skekkju væri að ræða hvað varðar daggjöldin. Síðan sagði hann, með leyfi forseta:

„Við erum komnir í þá stöðu gagnvart bönkunum að ég held að það verði ekki lengra komist. Við þurfum sennilega að fækka um 15 manns til að ná saman endum. Skuldir um áramótin í lífeyrissjóði, vegna þinggjalda o.fl. voru um 1.8 – 2 millj. kr. Þar er ekki meðtalið það sem hefur verið tekið úr eigin sjóðum og eðlileg rekstrarlán.“

Hann var einn af mörgum, sem vitnaði í fund þann, sem Landssamband sjúkrahúsanna hélt nýverið, og skýrði frá því, að þar hefði verið leitað eftir svörum hæstv. heilbrmrh. Og hann sagði, með leyfi forseta:

„Ráðuneytið hefur haldið því fram, að það hafi greitt allar kostnaðarhækkanir sem orðið hafa, en að þessi halli sé myndaður fyrir ákvarðanir og aðgerðir stjórnenda sjúkrahúsanna og sé okkar mál, það sé okkar hlutverk að snauta heim og lagfæra stöðuna. Ég tel að þarna sé um að ræða reikningslega villu, a.m.k. hvað varðar Reykjalund, og á von á að við fáum lagfæringu þar á, “ sagði forstjórinn einnig.

Hann var einn af mörgum sem minntist á þá furðulegu vísitölu sem daggjaldanefnd notar og ríkisstj. virðist fara enn eftir. Og hann benti á það, sem bæði ég og aðrir þekkja úr viðskiptum sjálfseignarstofnana við daggjaldanefnd, að þessar stofnanir hafa margoft bent daggjaldanefnd á eitt og annað og komið með ábendingar og tillögur til úrbóta sem hefðu getað orðið nefndinni til hjálpar og reyndar ríkissjóði einnig ef eftir hefði verið farið, að ekki sé talað um stöðu viðkomandi stofnana.

Í viðtalinu við forstjóra Reykjalundar gerði hann að lokum daggjaldakerfið í heild sérstaklega að umræðuefni og sagði að sér hefði virst sú umræða furðuleg sem hefði verið undanfari þess frv., sem við erum að ræða hér í hv. deild, um að taka fleiri stofnanir inn á fjárlög. Hann benti sérstaklega á að það hefði komið til tals um Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri að taka það inn á fjárlög. Og forstjórinn á Reykjalundi sagði — með leyfi forseta — á þessa leið:

„Mér er daggjaldakerfið ekkert heilagt, en það er ekki búið að benda á neitt annað sem yrði betra. Þetta kerfi má lagfæra ef áhugi er á því. Það að taka sjúkrahúsin á föst fjárlög hangir ekkert saman við lækningu á peningastreyminu til stofnananna. Hér er að mínu mati fyrst og fremst fólgin hugmynd um miðstýringu á stjórnum sjúkrahúsanna, og það held ég að sé í takt við þau stjórnvöld sem nú sitja. Markmiðið er ríkisrekstur. Maður gæti haldið að þessi meðferð á daggjaldakerfinu sé ekki bein tilviljun,“ sagði þessi forstjóri að lokum.

Ég hef, herra forseti, talið af ásettu ráði rétt að birta álit þessara forstjóra sjúkrahúsa og sjúkrastofnana víðs vegar að af landinu til að sýna hv. þm fram á að það frv., sem hér liggur fyrir og við erum að ræða, er ekki sú allsherjarlausn vandamála sem sumir vilja láta í veðri vaka. Og ef þeir hinir, sem telja að einhver lausn sé fundin, efast um orð þessara manna leyfi ég mér að draga hér fram í þessar umræður enn eitt viðtalið, sem Morgunblaðið átti 4. mars við sjálfan framkvæmdastjóra ríkisspítalanna, sem hér var vitnað til áðan af frsm. meiri hl. nefndarinnar, Davíð Á. Gunnarsson, en í fyrirsögn þessa viðtals segir, með leyfi forseta:

„Rekstrarskuldir ríkisspítalanna 12 millj. kr.“ Og síðan heldur hann áfram í þessu viðtali og segir: „eða sem nemur 1.2 milljörðum gkr., og þar af eru skuldir tveggja mánaða og eldri um 6 millj. kr.“

Síðan er haft orðrétt eftir Davíð Á. Gunnarssyni framkvæmdastjóra ríkisspítalanna, með leyfi forseta: „Staðan er þannig, að við erum í skuld hjá öllum okkar viðskiptaaðilum, og það segir sig sjálft, að þetta er óskaplega erfiður og slítandi rekstur.“

Í þessari sömu frétt er vitnað til þess sem ég hef hér áður verið að rekja, en það eru fjárhagserfiðleikar annarra sjúkrahúsa og sjálfseignarstofnana og spítala í eigu sveitarfélaga. En í þessu viðtali er haft eftir Davíð að staða ríkisspítalanna sé síst betri, svo það er ekki daggjaldakerfið sem þarna á sök á. „Ríkisspítalarnir eru á föstum fjárlögum, en hinar stofnanirnar fá daggjöld.“

Framkvæmdastjóri ríkisspítalanna kemur með aðalskýringuna á þessari erfiðu rekstraraðstöðu ríkisspítalanna, sem hann segir réttilega vera verðbólguna og föst fjárlög væru ekki bætt nógu hratt til að ná hraða hennar. Síðan segir hann orðrétt, með leyfi forseta:

„Allt frá árinu 1978 hefur verið gífurlega mikið aðhald í öllum rekstri og við höfum reynt að spara eins og við höfum framast getað. Það hefur tekist á sumum sviðum, en á öðrum hefur ríkissjóður ætlast til þess að við værum fljótari til en við höfum ráðið við. Útkoman er sú, að við sitjum uppi með þennan vandá og það munar a.m.k. 2–3% á því, sem okkur er áætlað, og því sem við sjáum nokkurn minnsta flöt á að lifa við,“ sagði framkvæmdastjóri ríkisspítalanna að lokum.

Ef það er rétt, og það vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. heilbrmrh. nú um, að daggjaldanefnd hafi gert þá tillögu til ríkisstj. að það væri nóg að hækka daggjöld um það sem næmi u.þ.b. 1% frá því sem var seint á liðnu ári, hafandi það fyrir framan sig, sem hefur komið fram í þessum viðtölum við forstöðumenn og stjórnendur þessara stofnana, að hallinn væri frá 3–6 og upp í 18–19% eða að meðaltali 12.5%, þá verður að álíta að daggjaldanefnd sé ekki starfi sínu vaxin. Hins vegar virðist það fara nokkuð milli mála, hvort daggjaldanefnd hafi gert þessa tillögu eða hvort þessi tillaga hafi orðið til hjá hæstv. ríkisstj. og hún hafi verið með þessu að koma á móti eigin draumaóskum um niðurtalningu, sem hefur ekki staðist og stenst ekki frekar en annað af því sem ríkisstj. hefur lofað í sambandi við verðbólguþróun hér í landi. (Félmrh.: Vill hv. þm. greina nánar frá því, hvaða tillögu hann á við, hvenær hún er dagsett.) Ég hef einhvers staðar séð það svart á hvítu hvenær talið er að þessi tillaga hafi komið fram, hæstv. ráðh. En spurning mín er honum ljós og hann á að geta svarað með jái eða neii, hvort daggjaldanefnd hafi gert þessa tillögu til hans og hans rn. um hækkun upp á 1.1% um áramót. Síðan getur hann talað um það frekar í stólnum á eftir og svarað þeim spurningum. (Félmrh.: Þm. getur ekki svarað minni spurningu?) Ég get gert það ef óskað er frekar, en ég mundi hins vegar þá vera að brjóta trúnað sem ég tel mig vera bundinn, og þess vegna vil ég frekar að hæstv. ráðh. skýri frá þessu sjálfur. (Gripið fram í.) Ég er ekki orðlaus í þessu máli, hæstv. ráðh., og bendi áfram á að það er ekki nóg að hafa nóg af orðum — og þá vitna ég enn til þess sem ég var að vitna til um loforð ríkisstj. ekki aðeins á þessum sviðum, heldur á öllu verðbólgusviðinu, sem þið hafið ekkert ráðið við og munuð ekkert ráða við. Þið hafið vafið tungu um höfuð ykkar í loforðaglamri um niðurtalningu í 40%, niðurtalningu í 35%. Þið hafíð lofað að við yrðum komnir á verðbólgustig nágrannaþjóðanna eftir tveggja ára stjórnarferil — og hvar stöndum við nú? Óðaverðbólga fram undan, óðaverðbólga að baki og óðaverðbólga í dag. Það er ekki í samræmi við það sem þið lofuðuð, hæstv. ráðherrar, í stjórnarsáttmála ykkar.

Sé aftur snúið að máli málanna, en ekki verið að svara tungulipurð hæstv. ráðherra, þá veit ég að hv. þm. spyrja: Er þá engin bót að því að bæta við fjárlagakerfið eða m.ö.o. að gera þá breytingu sem lagt er til með þessu frv.? Ég hef þegar og við í minni hl. heilbr.- og trn. látið álit okkar í ljós um það í nál. Ég skal viðurkenna að það yrði ekki til skaða og það mundi ekki valda neinu tjóni þó að eitt sjúkrahús til viðbótar hefði verið tekið beint inn á fjárlög á sama hátt og gert hefur verið við ríkisspítalana og að þetta sjúkrahús yrði t.d. Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. En til þess að það verði hægt fyrir fjvn. og okkur hér á Alþingi að gera okkur grein fyrir því, hvort það sé til bóta eða ekki, finnst mér að þurfi að setja eitt skilyrði áður en það yrði gert. Það er að á milli þessara stofnana, ríkisspítala og væntanlegra sjúkrahúsa, sem fara undir þetta kerfi inn á fjárlög, og allra annarra stofnana, sem búa við daggjaldakerfið, sé sambærilegt bókhald og uppsetning bókhalds hjá öllum þessum stofnunum svo að það megi lesa úr því og gera samanburð á milli, hvort við séum á réttri leið með þeim breytingum sem teknar eru upp, og að sjálfsögðu líka til að geta gert samanburð á einstökum þáttum í rekstri þessara stofnana. En við fetum okkur auðvitað ekki áfram með tilviljunarkenndum aðgerðum hverju sinni, eins og oft og tíðum virðist eiga sér stað í sambandi við þessi mál. Ef þetta er ekki gert er þetta frv. hreinlega upp í vindinn og ekkert nema pappírsgagn.

Í frv., sem við erum að ræða, er ekki talað um eitt sjúkrahús, eins og við höfum oft heyrt talað um á göngum Alþingishússins og reyndar kom fram í viðræðum okkar í heilbr.- og trn., Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Hér á, að því er virðist, að vera á valdi ríkisstjórnar á hverjum tíma að kippa sjúkrahúsum inn í fjárlög eða út, ef þeim þóknast, allt eftir því hvernig stendur í bólið hjá viðkomandi ráðh. hverju sinni. Það eru engin ákvæði um það. (Gripið fram í: Samkvæmt fjárlögum hverju sinni, hv. þm.) Já, við vitum nú hvernig meiri hl. fjvn. starfar þegar sterkir ráðherrar eiga í hlut, eins og hæstv. heilbrmrh. er, og hafa gott vald á sínu liði. Við vitum hvernig hann stjórnar því af skörungsskap og höfðingsskap eins og honum og félaga Lenín hefur einum verið í lófa lagið síðustu áratugina.

Það vita að sjálfsögðu allir að vitneskjan um þennan mikla rekstrarhalla hjá sjúkrahúsunum hefur ekki verið neitt einkamál og lokast inni hjá daggjaldanefnd, heldur hefur hæstv. ráðh. verið fullkunnugt um þennan halla. Það kom einmitt skýrt fram á þessum fundi, sem haldinn var á vegum Landssambands sjúkrahúsa og stjórn þeirra samtaka sá ástæðu til að boða og ég hef vitnað til áður.

Það hefur komið fram í þeim tilvitnunum, sem ég hef hér lesið og bent á, hvað er að gerast og hvernig ástandið er á sjúkrahúsunum, ekki aðeins hér á höfuðborgarsvæðinu, heldur um allt land. Ég vitnaði til forstjóra sjúkrahúsa um allt land. Ég geri hins vegar ekki ráð fyrir að allir hv. þm. geri sér grein fyrir því, að hér á höfuðborgarsvæðinu hefur ríkt neyðarástand á fleiri sviðum en í hjúkrunarmálum aldraðra. það hefur nefnilega líka verið í sjúkrahúsmálum okkar. Álagið á bráðavöktum stóru sjúkrahúsanna er orðið svo mikið að þau anna því mjög illa. Það aukast stöðugt yfirlagnir á deildum og veikir sjúklingar bíða á skoðunarherbergjum, baðherbergjum og göngum bara til þess að hægt sé að taka á móti þeim. Ég geri mér grein fyrir því, að ég held að þeir, sem hafa kynnt sér þessi mál, geri sér grein fyrir því, að þetta stafar líka og kannske einna helst af því, að það er skortur á hjúkrunarrými fyrir langlegusjúklinga, sem vonandi mun rætast úr á næstu misserum, og þess vegna hrannast slíkir sjúklingar upp á sjúkrahúsunum. En það lengjast sífellt biðlistar fólks sem þarf að komast til skurðaðgerða og rannsókna, sem oft er mikil nauðsyn á. Þetta veldur að sjálfsögðu miklu álagi á starfsfólk þessara stofnana, og það hefur ekki bætt úr hvernig staðið hefur verið að launamálum hjúkrunarliðs sem hefur orðið til að auka á þennan vanda.

Ég hef bent á það í því viðtali, sem ég vitnaði til og átt var við framkvæmdastjóra ríkisspítalanna, að þótt talið væri, að ríkisspítalarnir losnuðu úr öllum vandræðum við að komast inn á fjárlög, var svo ekki. Hins vegar virðist vera miklu betra fyrir ríkisspítalana að fá neyðarhjálp en aðrar stofnanir sem búa við daggjaldakerfið.

Það hefur komið fram í greinaskrifum manna um þessi mál að undanförnu og réttilega bent þar á að það er daggjaldanefnd með sína yfirverðlagsnefnd — ríkisstj. — sem ákvarðar tekjur til sjúkrahúsanna með daggjöldunum. En útgjöldin verða að sjálfsögðu til við hinn daglega rekstur og þegar er ljóst af því, sem hér hefur verið sagt, að þessir liðir standast ekki á. Þá virðist ekki vera nema tvennt sem veldur. Annaðhvort eru tekjurnar of lágar eða útgjöldin of há, sem má vissulega stundum rekja til þess, að reksturinn sé slæmur. En það eru fleiri en ég sem þekkja það af persónulegri reynslu, og það eru fleiri en ég sem hafa staðið í slíkum rekstri, sem eru orðnir fullir tortryggni á störf daggjaldanefndar. Sú tortryggni mín hefur komið áður fram og hana hef ég látið í ljós bæði við viðkomandi ráðh. á þeim tíma og eins opinberlega.

Það er daggjaldanefnd sem á að ákvarða daggjöld í samræmi við eðlilegan rekstrarkostnað. Þessi eðlilegi rekstrarkostnaður kemur fram og er til athugunar hjá daggjaldanefnd eftir að sjúkrahúsin hafa sent inn reikninga sína og áætlanir. En það er engu líkara en nefndin taki ekkert tillit til þess sem kemur frá þessum stofnunum þótt þar sé oft og tíðum notaður mikill mannafli og langur tími til að koma miklu magni upplýsinga frá sér til daggjaldanefndar.

Það þarf í sjálfu sér ekki að undra þótt svona fari hjá daggjaldanefnd. Ég hef sjálfur hér á Alþingi ítrekað borið blak af störfum þessarar nefndar vegna þess að nefndin hefur aldrei fengið þau starfsskilyrði sem henni eru nauðsynleg. Hvort það er vegna þess, að yfirmenn hennar í viðkomandi ríkisstjórnum hafi einhverjar duldar óskir um að með því að virða daggjaldanefnd að vettugi og störf hennar muni fyrr eða síðar takast að koma öllu kerfinu undir miðstýringu ráðh., skal ég láta ósagt um, en að það skuli geta hent slíka opinbera nefnd, sem skipuð er samkv. lögum og vinna á samkvæmt þeim, að hún vinni eftir svokallaðri vísitölu sjúkrahúskostnaðar, sem var reiknuð og fundin út á fjórum árum að vísu eða frá árunum 1964–1968, og tekin í notkun á árinu 1968, er næsta óskiljanlegt, hafandi í huga að grundvelli þessarar vísitölu hefur ekki verið breytt síðan nema að mjög litlu leyti.

Þá endurtek ég það sem ég sagði áðan, að of há útgjöld þessara sjúkrastofnana, sem svo aftur skapar rekstrarhalla, þurfa ekki að stafa af því, að reksturinn sé slæmur hjá viðkomandi stofnunum. Þetta getur stafað af því, að það hafi átt sér stað rekstrarbreyting á árunum 1980 og 1981 hjá viðkomandi stofnun. Þær breytingar þurfa ekki að vera miklar, en stafa í mörgum tilfellum af nýjum kjarasamningum, en í kjölfar þeirra verður oft um fjölgun starfsfólks að ræða, sem stjórnendur viðkomandi stofnana ráða alls ekki við, enda þessir samningar í flestum tilfellum í höndum fjmrn„ eins og ég hef þegar bent á og vitnaði til samninganna við lækna sem eins dæmis. Ég bendi enn á að þessar stofnanir hafa ekki neitt um það að segja hvernig niðurstöður þessara samninga hafa orðið, og sama má reyndar segja um ýmiss konar félagsmálapakka, bæði góða og slæma, sem hafa haft mikil áhrif á þennan rekstur, eins og ég hef reyndar þegar komið að. Það er einn af hæstv. ráðh. ríkisstj., sjálfur hæstv. fjmrh., sem hefur í sambandi við þessi mál staðið í sömu sporum og Þorsteinn Pálsson framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins stendur ella.

Önnur ástæða þessa rekstrarhalla er að sjálfsögðu sú, að vísitölugrundvöllurinn er orðinn úreltur. Ég hef bent á það líka. Þessi breyting hefur verið gífurlega mikil á síðustu árum, m.a. vegna verðbólgunnar.

Við getum þá komið að þeirri spurningu, sem við vorum rétt að byrja að hreyfa í hv. nefnd þegar ekki mátti vera að því að ræða það lengur, af hverju þessi vísitölugrundvöllur sjúkrahúskostnaðar mælir hækkanir á verðlagi ranglega. Ég veit að hæstv. heilbrmrh. veit þetta vel. Hann hlýtur að vera búinn að kynna sér málið. Það er ekki svo sjaldan sem hann hlýtur að vera búinn að fá í hendur frá daggjaldanefnd og öðrum upplýsingar, skoðanir, ályktanir og tillögur um breytingar, bæði frá sjálfseignastofnunum og að sjálfsögðu frá ýmsum sjúkrahúsum, á þessum grundvelli.

Það fyrsta, sem veldur þessu, er að vísitölugrundvöllurinn er ekki endurnýjaður nógu oft. Það verður aldrei nógu oft bent á það. Þetta þýðir að hann mælir ekki rétt vægi einstakra rekstrarliða, sem hafa breyst í rás tímans, eins og vægi launa. Það vægi hefur vaxið mjög á undanförnum árum vegna styttingar vinnutíma og ýmiss konar hlunnindi, sem hefur verið samið um á þessum árum, og hefur sumt af því tæplega komist inn í þá útreikninga, svo sem þarft og skylt er.

Í öðru lagi er þessi vísitölugrundvöllur allt of einfaldur, tekið tillit til allt og fárra rekstrarþátta sjúkrastofnana í honum. Við í minni hl. heilbr.- og trn. bendum á þetta í okkar nál., og við bendum m.a. þar á þá gerbreytingu sem hefur orðið við tilkomu dagvistarstofnana, göngudeilda og fleiri nýjunga í rekstri heilbrigðisstofnana.

En þriðja atriðið, sem ég vil benda á og ég tel vega hvað þyngst til álösunar á störf daggjaldanefndar eða ríkisstj„ sem í raun er yfirverðgæslustofnun þessara mála, er að það skuli einungis notaður einn vísitölugrundvöllur fyrir allar þessar stofnanir, allar sjúkrahúsastofnanir landsins. Það er auðvitað öllum ljóst, að það er mjög ólík samsetning rekstrarliða á sjúkrahúsi, þar sem t.d. vægi hárra launa er verulegt, og hjúkrunarheimila, þar sem vægi hárra launa er miklu minna, en vægi hinna lágu launa mjög verulegt. Á þetta hefur margoft verið bent og þarf enginn yfirmaður heilbrigðismála að auglýsa eftir tillögum um úrbætur á þessu sviði. Þær tillögur hafa legið fyrir hjá viðkomandi ráðh. og rn. árum saman. Þetta hefur komið til daggjaldanefndar jafnframt að sjálfsögðu í því tillöguformi að daggjaldanefnd setti upp fleiri reiknilíkön en þetta eina úrelta líkan sem hún virðist hafa notað frá því á árinu 1968.

Það þarf ekki að undirstrika að í þessum viðtölum, sem ég vitnaði til, leiðir það af sjálfu sér, að ef hallarekstur á annað borð verður hjá einni sjúkrastofnun leiðir það til enn frekari hallarekstrar vegna vaxandi vaxtabyrða og óhagkvæmari innkaupa. Þetta er gamla sagan um öll fyrirtæki. En ég hef bent á það hér mjög skýrt með viðtalinu við framkvæmdastjóra ríkisspítalanna, að fráhvarf frá daggjaldakerfinu til svonefnds fjárlagakerfis leysir engan rekstrar- eða fjárhagsvanda sjúkrastofnana — nema þá, eins og virðist vera komin fram ósk um frá heilbrigðisyfirvöldum, að gera það á kostnað gæða og magns í heilbrigðisþjónustunni.

Við segjum í okkar nál. og teljum, að daggjaldakerfið eins og það er eigi að leggja niður, en taka upp nýtt greiðsluform til sjúkrahúsa og annarra heilbrigðisstofnana, sem m.a. byggist á því að greiða hverja þá þjónustu, sem þar er innt af hendi, í stað þess; að miða greiðslu við nýtingu rúma. Ég geri mér grein fyrir að þetta muni að sjálfsögðu taka einhvern tíma, en það má vissulega betrumbæta daggjaldakerfið tiltölulega fljótt þannig að það gæti hagsmuna beggja aðila betur en það gerir. Það á að gera á meðan það er skoðað nákvæmlega og þá í samráði við þá sem best þekkja til hvernig og að hverju eigi að stefna í þessum málum. Ég tek það fram, að ég hef í sjálfu sér ekki á móti því, að til þess að eðlilegur samanburður fáist verði einu sjúkrahúsi, Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, bætt við inn á fjárlagakerfið, eins og ríkisspítalarnir hafa verið settir, og þá með tilliti til þess, sem ég hef þegar sagt, að samræmt verði bókhald allra eða sem flestra heilbrigðisstofnana svo að eðlilegur samanburður fáist.

Ég bendi enn á að það megi endurbæta daggjaldakerfið, og það á að gera strax. Ég tel t.d. sjálfsagt að breytt verði um stjórnun daggjaldakerfisins. Það er óeðlilegt að þar skuli aldrei komast að til ákvarðanatöku fulltrúar þeirra sem standa fyrir rekstri svokallaðra sjálfseignarstofnana. Samkv. 46. gr. almannatryggingalaganna skipa eftirtaldir aðilar einn aðila í nefndina: fjmrh., Tryggingastofnun ríkisins, Samband ísl. sveitarfélaga, Landssamband sjúkrahúsa og heilbr.- og trmrh. Tryggingastofnunin á fulltrúa og er undir stjórn heilbr.og trmrh., sem skipar einn, og einn fulltrúi er frá fjmrh. Þessir þrír aðilar mynda meiri hluta sem fulltrúar ríkisvaldsins. Þetta segi ég og undirstrika vegna þess að ég er einn af þeim sem telja að sjálfsögðu ekkert vit í því, að einn eða annar aðili fái sjálfsafgreiðslurétt úr sjóðum almennings. Ég tel hins vegar að í vissum tilfellum, og þá er það í framhaldi af öðrum breytingum sem þurfa að koma til, ætti t.d. fulltrúi Landssambands sjúkrahúsa eða Sambands ísl. sveitarfélaga að víkja úr nefndinni þegar fjallað er um annarra mál en þeirra sem þá varða. Við þekkjum þetta úr annarri löggjöf og hefur reynst vel þar. Þetta mætti gera til skiptis eftir því hverjir eiga í hlut, en þetta fylgir auðvitað í kjölfar þeirrar eðlilegu ráðstöfunar að fjölga reiknilíkönum sem daggjaldanefnd dregur lærdóm af.

Til viðbótar þessu þarf að sjálfsögðu að endurskoða vísitölugrundvöllinn á nokkurra ára fresti og hafa í huga að þeim þurfi jafnvel að fækka aftur að fenginni reynslu. Það hefur komið fram hjá þeim stjórnendum, sem ég hef vitnað til, að þeir telja ekki að ríkisvaldið vanti upplýsingar í sambandi við rekstur sjúkrahúsanna, en þeir telja hins vegar að ríkisvaldið skilji ekki upplýsingarnar sem það fær, — og er verst að hæstv. ráðh. er farinn úr salnum.

Ég hef bent á það annars staðar, að ég tel að þetta skipulag daggjaldanefndar geti byggst á sama grundvelli og í dag og jafnvel þurfi ekki að bæta við starfsfólki á hennar vegum þótt mjög sé brýnt og nauðsynlegt að vinna þau verk sem hér hefur verið getið um. Það er vel hægt að koma því þannig fyrir að fyrirtæki, sem eru sérhæfð til slíks, sjái um að vinna úr upplýsingum, sem frá sjúkrastofnunum koma, og kanna sérstaka þætti í rekstri þeirra og bókhaldi. Það eru til sérhæfð rekstrarfyrirtæki sem geta unnið slíka vinnu. En það er sjálfsagt að daggjaldanefnd hafi nú þegar liði á að skipa sem getur unnið slík störf sjálfstætt og þá ekki aðeins við stofnanir, sem búa við daggjaldakerfi, heldur einnig við þær stofnanir, sem starfa eftir fjárlagakerfinu, og sé þannig hinn sérfræðilegi aðili sem ráðleggur fjárveitingavaldinu hvað gera skuli hverju sinni.

Það má með réttu segja að ekkert fjárhagslegt sjálfstæði sé til hjá þeim stofnunum sem hér hefur verið rætt um. En það er enginn vafi á að að þeim verður enn þrengt í miðstýringarátt ef fjárlagakerfið verður tekið upp því þá mun ýmiss konar ákvarðanataka, sem hefur verið í höndum sjúkrastofnananna sjálfra, flytjast til heilbrmrn. og fjmrn., til þeirra pólitísku aðila sem þar starfa í nafni hinna pólitísku ráðherra á hverjum tíma. Má ætla að það sé einmitt vilji núverandi stjórnvalda og má sjá það á mörgum sviðum.

Ég kem þá að einu atriði sem hefur valdið nokkurri deilu, en til að fyrirbyggja allan misskilning vil ég taka það fram, að mín skoðun er sú, að það séu ákveðnir þættir, sem nú falla undir daggjaldafyrirkomulagið hjá öllum stofnunum, sem eigi að setja undir fjárlög. Ég á þar við sumt af tækjakaupum og máske meiri háttar viðhald líka. En þá tel ég ekki að það eigi að fara niður í smáar upphæðir, heldur miðast við ákveðna lágmarksupphæð og það, sem þar sé fyrir neðan, falli undir rekstrarkostnað, sem sagt að upphæðir, sem eru fyrir ofan ákveðið mark, verði settar á fjárlög, en minni upphæðir verði hluti hins almenna rekstrarkostnaðar.

Það kom fram hjá nefndinni einnig, og á það hefur ekki verið minnst hér enn þá, að ég og fleiri teljum skilyrðislaust að viðkomandi sveitarfélög eigi að halda áfram sinni eignaraðild og meðábyrgð í stjórn viðkomandi sjúkrahúsa. En ef við höldum okkur við þá stefnu verðum við auðvitað að gera okkur grein fyrir því, að til þess að svo geti orðið þarf að flytja fjármuni frá ríki til sveitarfélaganna á annan hátt en hæstv. ríkisstj. stefnir nú að með þeim dúsufrv. sem hér eru flutt nær daglega. Ég held að sameiginleg ábyrgð ríkisvaldsins og sveitarfélaganna sé mjög nauðsynleg í sambandi við stjórnun þessara sjúkrahúsa, sem eru víðs vegar um landið.

Herra forseti. Ég fer nú að stytta mál mitt, en ég vil samt að lokum benda á að þm. ættu að hafa það í huga, að launakostnaður á þessum stofnunum er nú um 70% af rekstrarkostnaði. En mig langar í lokin að vitna í viðtal sem átt var við yfirlækni Landakotsspítala, Ólaf Örn Arnarson, en hann sagði í niðurlagi viðtalsins á þessa leið, með leyfi forseta:

„Árið 1980 var rekstrarhalli Landakotsspítala 13.3% af nettógjöldum. Á því ári var verðbólga 59%. Vísitala sjúkrahúskostnaðar hækkaði það ár um 50.5%. Hvernig í ósköpunum fær staðist að verðbólgan hafi verið allt önnur á sjúkrahúsum landsins en annars staðar í þjóðfélaginu veit ég að enginn heilvita maður fær skilið. Landakotsspítali sendi á sínum tíma til daggjaldanefndar rekstraráætlun fyrir árið 1980. Þar var gert ráð fyrir lítils háttar aukningu í rekstri í fullu samráði við heilbrmrn. Þegar reikningar ársins voru gerðir upp kom í ljós að það vantaði 0.7% upp á að áætlanir stæðust. Það eina, sem fór úr skorðum, voru tekjur þær sem daggjaldanefnd ákvarðaði. Þær ákvarðanir virðast hafa verið byggðar á þessari furðulegu vísitölu, sem ekki er í neinu samræmi við veruleikann. Heilbrmrh. hefur raunar staðfest álit hagsýslustjóra um vísitöluna með þeim ummælum að hún sé allt of mikil einföldun á rekstrarkostnaði eins og hún nú er. Hann dregur hins vegar rangar ályktanir þegar hann telur að halli stafi af rekstrarbreytingum sem ekki hafi hlotið samþykki yfirvalda. Aðgerðir stjórnvalda hljóta að leiða til þess, að verulegur samdráttur verður í rekstri flestra sjúkrahúsa landsins. Það er ekki hægt að skera niður kostnað án þess að það komi einhvers staðar niður.

Svo vill til, að nefnd skipuð af heilbrm.- og fjmrh. hefur verið falið að kanna starfsmannahald sjúkrahúsa. Þessi nefnd hefur kynnt sér rekstur nokkurra sjúkrahúsa, þ. á m. Landakotsspítala. Meginniðurstaða nefndarinnar er sú, að hún gerir engar athugasemdir við fjölda starfsfólks eins og hann er í dag. Hvernig er mögulegt að lækka kostnað um 10–15% án þess að fækka starfsfólki og þar með draga úr þjónustu? Niðurstaða mín er sú,“ segir yfirlæknirinn að lokum, „að daggjaldanefnd hafi algerlega brugðist í starfi sínu. Hún leggur til grundvallar ákvörðunum, sem snerta mikilvægasta þátt þjóðlífsins, kolvitlausa vísitölu, sem kemur ekkert nálægt raunveruleikanum, og stjórnvöld taka síðan ákvarðanir sem byggðar eru á þessum vitlausa grunni, svo ekki er von til að vel fari. Heilbrmrh. sagði á framangreindum fundi Landssambands sjúkrahúsa, að íslenska heilbrigðiskerfið þyldi fyllilega samanburð við heilbrigðiskerfi nágrannalanda okkar. Ég er ekki viss um að þessi fullyrðing fái staðist eftir að ráðh. og félagar hans hafa farið höndum um það, ef svo fer sem horfir.“

Þetta voru orð yfirlæknis Landakotsspítala sem ég var hér að vitna til. Síðasta hækkun á daggjöldum varð í byr]un apríl, en með þeirri hækkun, sem var að meðaltali rúm 13%, mun með tilliti til þeirra hækkana, sem urðu almennt 1. apríl, koma með um 5% meðaltalshækkun á þeim grunni sem gilti á s.l. ári á móti 12.5% meðaltalshalla, þannig að við sjáum að þrátt fyrir þá hækkun, sem ríkisstj. hefur leyft frá síðustu mánaðamótum, heldur enn þá áfram að stefna í sömu ófæruna.

Ég held að það hefði verið gott ef hæstv. heilbrmrh. hefði ekki verið eins og fló á skinni þegar verið er að tala um þessi mál og vitna í orð sérlærðra manna á þessum sviðum sem hafa sagt honum til syndanna og ég flyt hér inn í þingtíðindi fyrir hv. þm. Hann ætti að taka til athugunar það sem við leggjum til, minni hl. heilbr.- og trn.. að þessu frv. verði vísað til ríkisstj. Ef sú till. nær ekki fram að ganga munum við flytja brtt. við frv. fyrir 3. umr., m.a. þess efnis, að það verði einn ákveðinn spítali, Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, sem lögin eigi við ef frv. verður samþykkt.