05.11.1981
Sameinað þing: 13. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í B-deild Alþingistíðinda. (346)

39. mál, sjálfvirkur sími

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 39 hef ég leyft mér að flytja svohljóðandi fsp. til hæstv. samgrh.:

„Hvað liður áætlun um lagningu sjálfvirks síma samkv. 1. gr. laga nr. 32 26. maí 1981.“

Samkvæmt 1. gr. umræddra laga skal póst- og símamálastjóri gera áætlun um framkvæmdaröð og fjárhagsáætlun varðandi lagningu sjálfvirks síma í sveitir landsins á næstu fimm árum, í samræmi við þá lagasetningu sem hv. 1. þm. Vesturl. kom hér einmitt inn á áðan og ég skal ekki rekja frekar, en var fyrst og fremst í þá átt að flýta fyrir og gera mögulega hraða símvæðingu úti á landsbyggðinni.

Fsp. þessi er borin fram vegna fjölda spurninga úr hinum ýmsu sveitum, þar sem menn hafa enn þá ekki sjálfvirkan síma, hvenær röðin muni koma að þeim. Það er ljóst, að því fyrr sem það liggur fyrir, hvernig framkvæmdaröð er áætluð, því betra, þó að auðvitað verði ekki allir ánægðir með það — ekki þeir sem eru aftarlega eða aftastir á áætlunartímabilinu. En við skulum þá vona að hinir bæti það upp með sinni ánægju.

Ég vil aðeins koma því að, að mér þykir nokkuð sjálfsagt að þm. viðkomandi kjördæma fái nokkurt ráðrúm til að athuga áætlunina þegar hún kemur fram, ef vera kynni að þeir vildu þar nokkrar tilfærslur. M. a. þess vegna er þessi fsp. nú flutt.