20.04.1982
Sameinað þing: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4000 í B-deild Alþingistíðinda. (3550)

249. mál, aukaþing til að afgreiða nýja stjórnarskrá

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Í tilefni af þeim umr., sem hér hafa orðið um vinnubrögð við endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins, kemur mér í hug stórmerk blaðagrein sem nýlega birtist í málgagni hæstv. samgrh., dagblaðinu Tímanum, eftir hálærðan hagfræðing. um stjórnarskrármál. Umræddur hagfræðingur var dr. Magni Guðmundsson. Hann lagði út af því, að litlu máli skipti, svona efnahagslega séð, hver væri forsrh. svona venjulegrar verðbólguríkisstjórnar, hvort hann héti Gunnar eða Geir, slík i skipti ekki sköpum um hvernig okkur farnaðist hér í þessu landi. Hitt skipti hins vegar meginmáli, hver gegndi því virðulega embætti að vera í forsæti fyrir hinni merkustu nefnd sem nú starfar í íslenska stjórnkerfinu, sem er hæstv. stjórnarskrárnefnd. Af því tilefni er rétt að rifja upp að það má vel taka undir það með hagfræðingnum, að svo virðulegt sem embætti forsrh. er, þá er ekki síðra embætti hæstv. formanns stjórnarskrárnefndar. Um leið er rétt að minna þingheim á að sennilega er hæstv. forsrh. mesti sérfræðingur í heimi í stjórnarskrármálefnum því að enginn annar maður núlifandi meðal stjórnmálamanna hefur starfað jafnlengi og dyggilega að stjórnarskrármálum eða allt frá árinu 1946. Sem meðlimur þessarar virðulegu nefndar undir forsæti hans dettur mér ekki í hug að láta út úr mér nein gáleysisleg orð um, hversu með skuli fara, og ber mikla virðingu fyrir því, þegar hæstv. formaður stjórnarskrárnefndar lýsir því, hvað sé heppilegt og hvað sé óheppilegt í þeim vinnubrögðum. En ég vil fara örfáum orðum um starfshætti þessarar ágætu nefndar.

Ég tek undir það með hæstv. forsrh. og formanni stjórnarskrárnefndar, að samstarf í þeirri nefnd hefur verið harla gott. Ég tel að nefndin hafi unnið gott starf þegar hún tók fyrir í upphafi og skilaði á haustdögum 1980 tveimur skýrslum sem afhentar voru þingflokkunum til umfjöllunar. Eins og fram hefur komið var skýrslan tvískipt. Þar var annars vegar fjallað um kjördæmaskipan og kosningalög og svo í annan stað öll þau önnur atriði á verkefnaskrá nefndarinnar sem ástæða var til að fjalla um, en ekki fjölluðu um þessi raunverulega mjög svo hápólitísku málefni.

Nú má e.t.v. velta því fyrir sér, hvert starf þingflokkanna hafi verið í framhaldi af þessu. Á það er rétt að benda, að í þessum skýrslum stjórnarskrárnefndar er ekki að finna ákveðnar endanlegar tillögur. Þetta er starfsskrá, verkefnislýsing, fremur en endanlegar tillögur. Sér í lagi á þetta náttúrlega við þann þátt stjórnarskrármálsins sem pólitískt mun þykja viðkvæmastur, sem er endurskoðun kjördæmaskipunar. Það tengist óhjákvæmilega kosningalagaendurskoðun, þótt ekki sé það stjórnarskrármál.

Ég tek undir það með formanni stjórnarskrárnefndar, að ég sé út af fyrir sig ekkert því til fyrirstöðu, að nefndinni sem slíkri, ef hún verður vinnusöm þegar erli Alþingis lýkur og hv. formanni hennar gefst tóm til að einbeita sér þar að störfum í krafti sinnar yfirburðaþekkingar á þeim málefnum, geti vel miðað í þeim þætti málsins sem lýtur að hinni almennu endurskoðun stjórnarskrárinnar. Ég tek það fram í einlægni, að ekki hvarflar að mér að efa einlægan vilja og góðan ásetning formanns nefndarinnar að ljúka því verki. Hitt er annað mál, að nú hagar svo til að því er varðar endurskoðun kjördæmaskipunar, sem ég hef kallað hið pólitíska vandamál, að það mál er endanlega í höndum alþingismanna og verður ekki frá þeim tekið. Það er alveg ljóst, að frá því að stjórnarskrárnefnd skilaði sínum skýrslum, sinni verkefnislýsingu, til þingflokkanna hefur starf nefndarinnar ekki verið eins mikið, þótt alla daga sé það ánægjulegt, og það hefur að mestu leyti snúist fyrst og fremst um afmarkaða þætti og ekki hvað síst mannréttindamál. En málið er að nokkru leyti í kyrrstöðu vegna þess að fulltrúar í stjórnarskrárnefnd eru fulltrúar þingflokkanna og þeim er það ljóst, að hvaða tillögur sem kynnu að verða lagðar þar fram eða stjórnarskrárnefndarmenn sem slíkir gætu náð samkomulagi um, sem ekki nytu stuðnings og atfylgis þingflokkanna, kæmu fyrir lítið. Endanlega er þetta mál í höndum Alþingis, og þess vegna er það, að jafnhliða störfum stjórnárskrárnefndar hafa verið í gangi viðræður milli formanna stjórnmálaflokka. Það er ekkert launungarmál, að menn búast fyrst og fremst við að þetta mál, þessi tiltekni stóri pólitíski þáttur málsins, hljóti fyrst og fremst að verða útkljáður í viðræðum innan þingflokkanna og í samkomulagstilraunum milli forustumanna þingflokkanna innbyrðis. Það er ekki hvað síst út frá þessum forsendum sem ég tel eðlilegt, ef endurskoðun stjórnarskrárinnar að öðru leyti mætti heita vel á veg komin innan stjórnarskrárnefndar, að Alþingi gæfi sér samkvæmt mörgum fordæmum um endurskoðun stjórnarskrár með þessum hætti góðan tíma til að fjalla um hinn pólitíska þátt, sem er það sem till., sem hér er á dagskrá, gerir ráð fyrir.

Að því er varðar þær röksemdir sem hæstv. forsrh. og formaður stjórnarskrárnefndar hefur fært fram gegn þessari málsmeðferð, þær eru þrjár, þá hefur flm. þegar tekið þakksamlega lærðum ábendingum stjórnlagafræðingsins og formanns nefndarinnar um þau formsatriði, eins og hann kallaði sjálfur, að sjálfsagt sé að hnika til orðalagi og kveða svo á að þessi ályktun Alþingis sé í formi áskorunar til handhafa framkvæmdavalds, þ.e. forseta lýðveldisins og forsrh., um að þessi vinnubrögð skuli viðhöfð. Að því er varðar aðra mótbáruna, að samkv. 79. gr. stjórnarskrár skuli, eins og þar er sagt, rjúfa þing að lokinni afgreiðslu málsins, minnist ég þess í lærðum umræðum í stjórnarskrárnefnd, án þess að ég ætli mér þá dul að fara að kenna hæstv. forsrh. lög, að hafa numið það af hans vörum, að ýmis fordæmi væru fyrir því við endurskoðun stjórnarskrár, þ. á m. 1933–1934, að endurskoðun hafi farið fram og síðan hafi liðið langur tími, heilt þing, þar til kosningar fóru fram því til staðfestingar. Ég er ekki enn fullnuma í þeim fræðum ef þessi rök standast. (Gripið fram í: Það er alveg greinilegt.) En kjarni málsins er sá, að mínu mati, að það er ekkert sem hindrar stjórnarskrárnefnd í að vinna og skila sínum tillögum um þá þætti stjórnarskrármálsins sem varða aðra þætti en kjördæmaskipunina sjálfa. Það er ákvörðun sem er hápólitísk í eðli sínu, og hún verður ekki tekin af stjórnarskrárnefndarmönnum einum. Það er ákvörðunarefni þingflokka. Og út frá þeirri forsendu tel ég eðlilegt að þau vinnubrögð, sem hér hefur verið lýst, væru viðhöfð.