21.04.1982
Efri deild: 68. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4037 í B-deild Alþingistíðinda. (3581)

286. mál, jöfnun hitunarkostnaðar

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil byrja á að taka undir það með 1. flm. þessa frv., sem hér er til umr., hv. 4. þm. Vestf., að brýna nauðsyn ber til að jafna það misrétti sem felst í mjög misjafnlega háum hitunarkostnaði í landinu. Það er ljóst að hitunarkostnaður er óvefengjanlega í ýmsum tilfellum a.m.k. fimmfaldur og í mörgum tilfellum sjálfsagt enn meiri. Úr þessu ástandi þarf að sjálfsögðu að bæta.

Svo háttar til, að við hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson höfum einmitt að'undanförnu, á undanförum vikum og mánuðum, unnið saman í nefnd sem hefur verið að fjalla um þetta mál. Sú nefnd var skipuð af viðskrh. 24. júlí s.l. og var henni falið það verkefni að endurskoða lög um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar, lög nr. 53 frá 1980. Við höfum unnið að þessu máli síðan í fyrrasumar, eins og hér kemur fram, og mér er það mikil ánægja að geta sagt frá því, að einmitt á þessum degi, í morgun, hélt nefndin sinn 20. fund og gekk á þeim fundi frá nefndaráliti til hæstv. viðskrh., þar sem hún hefur lokið störfum sínum, og skýrir í því áliti frá því sem hún hefur verið að fjalla um. Ég ætla ekki að gera það álit að umræðuefni hér. Ég tel að það sé ekki tímabært þar sem nefndin var að skila af sér í dag á sínum síðasta fundi og gögnin um það bil að berast í hendur hæstv. viðskrh. Ég vil hins vegar fara örfáum orðum um það sem hér er til umr., einmitt það misrétti, sem ríkir varðandi hitunarkostnað í landinu og þá nauðsyn að jafna hann og hvernig helst mætti að því standa.

Hættan við niðurgreiðslu á olíu, og ég tala ekki um ef á að ganga í að reyna að greiða einnig niður innlenda orkugjafa, er auðvitað sú, að dregið verði úr þeim hvata sem nauðsynlegur er til að við nýtum þá orkugjafa sem til eru í landinu. Við hljótum að reyna að ganga eins langt og kostur er í því að nýta innlenda orku. Eftir hækkun, sem varð á olíustyrkjum í des. s.l. samkv. tillögum þeirrar nefndar er ég gat um áðan var hitunarkostnaður með olíu greiddur niður um um það bil 1/3 eða líklega rúmlega það. Hitunarkostnaður með niðurgreiddri olíu. var þá talinn vera um 65%. Ef ég man rétt var meðalhitunarkostnaður með niðurgreiddri olíu á s.l. ári talinn vera 64.7 % að meðaltali af því að olíustyrkir voru látnir verka aftur fyrir sig. Sú hækkun, sem varð á olíustyrkjum í desember, var látin verka aftur fyrir sig fyrir allt s.l. ár samkv. tillögu nefndarinnar sem ég gat um áðan. Þá var orðið ljóst í störfum þessarar nefndar að svo nærri var komið verði á innlendum orkugjöfum, að vart væri hægt að ganga lengra á þessu sviði og ef ætti að reyna að jafna hitunarkostnað enn meir en gert yrði á þennan hátt þyrfti að koma til lækkun eða einhver breyting á verðlagningu innlendu orkugjafanna. Má þar auðvitað fyrst nefna dýrustu rafhitunartaxtana, frá Rafmagnsveitum ríkisins og frá Orkubúi Vestfjarða, og einnig nokkrar dýrar hitaveitur, sem annaðhvort hafa orðið fyrir áföllum í sínum virkjunarmálum eða eru svo nýjar að stofnkostnaður þeirra er svo hár, miðað við þann fjármagnskostnað sem við búum nú við, að taxti þeirra er yfir því marki sem við töldum að við yrðum að ná til þess að jöfnuður væri viðunandi í hitunarkosti.

Nú ber að geta þess líka, að ódýrustu hitaveitur eru með mjög lágan taxta. Munar þar að sjálfsögðu langsamlega mest um Hitaveitu Reykjavíkur. Eins og fram kom í máli hv. 5. þm. Vesturl., Eiðs Guðnasonar, er líka vitað að Hitaveita Reykjavíkur hefur sótt um allverulegar hækkanir á sínum gjaldskrám og er því ljóst að það verð þyrfti að hækka. Samanburður við þetta verð, sem er í raun of lágt, hefur að mínu áliti nokkuð brenglað mat landsmanna á hitunarkostnaði. Við berum okkur saman við þann lága hitunarkostnað, sem er hér í Reykjavík, sem sannarlega er of lágur, og þess vegna verður mismunurinn svo gríðarlega mikill sem ég ræddi um áðan.

Ýmsar hitaveitur, nýjar, stórar hitaveitur, eins og t.d. Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar, Hitaveita Akureyrar og Hitaveita Vestmannaeyja, eru með taxta sem liggur á bilinu 53–57% af óniðurgreiddri olíu. Þetta er hugsanlega það dýrasta sem við getum sætt okkur við að það kosti að kynda upp — um það bil 55–60% af kostnaði við að kynda með óniðurgreiddri olíu. Það er vart gerandi ráð fyrir að við greiðum niður hitunartaxta þessara nýju hitaveitna, vegna þess að þá getum við að sjálfsögðu spurt okkur út í hvað var verið að leggja. Var skynsamlegt að fara í þessar framkvæmdir ef þær voru svo dýrar að við gátum ekki boðið fólki upp á að hita upp hús sín með þeim töxtum sem þessar veitur urðu að sel ja orku sína á?

Nú liggur einnig fyrir að Rafmagnsveitur ríkisins hafa beðið um hækkun á sínum húshitunartaxta, þannig að e.t.v. er hægt að segja að nú þegar sé hann niðurgreiddur, ef nota má það orð, þó það sé e.t.v. ekki rétt, en alla vega telja forsvarsmenn Rafmagnsveitna ríkisins að þeirra taxti til húshitunar sé líklega 15–20% of lágur og þyrfti að hækka.

Þess vegna er ljóst af þessum upplýsingum, sem ég hef reynt að setja hér fram, að þarna er við mikið vandamál að glíma og allt annað en einfalt að snúa sér að því að greiða niður eða lækka verðið á þessum innlendu orkugjöfum, ef við ætlum að reyna að halda áfram á því sviði að nýta þá eins og framast er kostur.

Þessi stefna, að reyna að greiða niður hitunarkostnaðinn, og hættan við, að sú stefna dragi úr hvatanum til að nýta innlenda orkugjafa, hefur verið mikið rædd og líka að það dragi úr því að við reynum að spara orkuna í eins miklum mæli og mögulegt er. við höfum e.t.v. ekki hugað nóg að þeim þætti málanna, hugað nóg að því að gefa upplýsingar og veita aðstoð einstaklingum við að einangra hús sín, kenna þeim að nýta orkuna á réttan hátt með upplýsingum og veita því næga athygli, þegar við byggjum upp húsnæðið, að það sé byggt á þann hátt að orkusparnaðar sé gætt til hins ítrasta. Einnig hafa komið fram þær hugmyndir, að því fjármagni, sem varið hefur verið til olíustyrkja á undanförnum árum, hefði verið betur varið með því að setja það beint í ýmsa orkusparnaðarþætti. Ég hygg þó, að hér hafi verið um svo stóran vanda að ræða og svo brýnt að leysa fyrir þá einstaklinga, sem bjuggu og hafa búið við þetta misrétti, að ekki hafi verið komist h já því að beita þessari aðferð, þ.e. niðurgreiðslu olíunnar eða greiðslu olíustyrkja.

Við í þeirri nefnd, sem ég nefndi áðan, höfum látið reikna út fyrir okkur ýmsa kosti og skoða ýmsar leiðir til að ná fram einhverri jöfnun á hitunarkostnaði. Eins og ég sagði áðan ætla ég ekki að fara ítarlega út í álit nefndarinnar á þessu stigi vegna þess að það er vart tímabært. Ég vona að síðar gefist tími og tækifæri til þess. En varðandi það frv., sem hér er til umr„ er ekki því að neita, að ýmislegt, sem þar kemur fram, er einmitt þættir sem við höfum skoðað og athugað í störfum okkar og vinnu. Við höfum leitast við að finna eitthvert viðunandi hlutfall milli ódýrustu og dýrustu upphitunar, og við höfum leitast við að finna einhverja leið til að lækka þá innlenda hitunarkosti sem standa svo verulega upp úr að vart sé unandi við að hita upp húsnæði með. Þetta eru einmitt atriði sem koma fram í þessu frv. og eru að því leytinu til mjög í sambandi og ýmislegt sem fram hefur komið í þeim störfum sem við höfum unnið í nefndinni sem var að endurskoða lögin um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar. En við höfum athugað ýmsa fleiri kosti einnig og reynt að huga að því, hvaða leiðir væru hér skynsamlegastar.

Varðandi það, sem kemur fram í 1. gr. frv. um að verja skuli fjármagni til niðurgreiðslu af tekjum orkujöfnunargjalds, vil ég aðeins segja að þegar þetta orkujöfnunargjald var lagt á á sínum tíma var í aths. við það frv. þess getið, að ríkissjóður hefði auk þess að greiða olíustyrkina lagt fjárframlög til Rafmagnsveitna ríkisins og til ýmissa annarra verkefna sviði orkumála og væri ekki óeðlilegt. Segir, með leyfi forseta, í aths.þess frv.: „Þykir ekki óeðlilegt að það, sem eftir stendur af gjaldinu, renni í ríkissjóð til að styrkja stöðu hans til mótvægis við fyrrgreind framlög til orkumála.“

Nú hefur það komið fram, að á fjárlögum þessa árs munu tekjur af orkujöfnunargjaldi vera áætlaðar um 190 millj. kr. og til olíustyrkja er áætlað að verja um 30 millj. kr. Þarna er auðvitað mikið bil, en ég hygg að það megi benda á æðimargar aðrar fjárveitingar í fjárlögum sem gera ráð fyrir ýmiss konar orkujöfnun og fjárframlögum til ýmiss konar orkuöflunar sem þá jafnframt geta leitt til orkujöfnunar, án þess að ég hafi þær upplýsingar hér handbærar eða treysti mér til að tína þær til á þessari stundu. Ég vil benda á það og tel að það væri ekki óskynsamlegt að skoða þá leið til jöfnunar á orkukostum landsmanna, að lagt yrði á verðjöfnunargjald eða orkuskattur í einhverjum mæli. Við erum að vísu nú þegar með verðjöfnunargjald á raforku, en ég tel að það kæmi fyllilega til greina að leggja slíkt gjald á alla húshitunarkosti, hélst á alla orku. Ef orkuskattur væri lagður á alla orku er ljóst að það þyrfti tiltölulega litla upphæð, tiltölulega lága prósentu, til að ná tekjum sem mundu létta okkur þessa jöfnun. Slíkt gjald verkar líka í eðli sínu til jöfnunar sé það lagt á í krónutölu. Prósentuálagning slíks gjalds er að mínu áliti óeðlileg þar sem hún verkar í eðli sínu til þess að auka bilið, leggst þyngst á hæstu taxtana og dýrustu orkuna. Þess vegna ætti við álagningu slíkra gjalda að nota frekar krónutöluaðferð. Um þetta ætla ég ekki að fara fleiri orðum. Ég vil aðeins benda á þetta atriði, að mér finnast koma þarna til greina fleiri leiðir og ekki kannske síst sú að leggja einhvern skatt, hvort sem við köllum hann orkuskatt eða hvað, á alla orku í landinu til að jafna þennan mikla mismun og þeir, sem búa við ódýrastan kost í því sambandi, tækju þá þátt í að greiða niður eða hjálpa til við að lækka verð á dýrustu kostunum til þeirra sem búa við mest óréttlæti.

Í 2. gr. þessa frv. er fjallað um það m.a., hverjum eigi að greiða olíustyrki og í hvaða formi niðurgreiðsla á olíu skuli vera. Þar er m.a. talað um, eins og verið hefur, að þetta skuli greiðast til húsráðenda sem nota olíu til upphitunar íbúðarhúsnæðis. Þá er hér einnig talað um að greiða þetta vegna upphitunar atvinnuhúsnæðis, til skóla og annarra menningarstofnana, sjúkrahúsa og annarra heilbrigðisstofnana. Þá fer kannske að verða spurning: Er það þá ekki orðin öll olía til upphitunar sem gert er ráð fyrir að sé niðurgreidd í raun? Eins og lög eru nú er aðeins gert ráð fyrir að olía sé niðurgreidd til einstaklinga sem nota olíu til upphitunar íbúðarhúsnæðis, og einnig heimild til að greiða niður olíukostnað við skólahúsnæði, og hefur sú heimild verið notuð. Ég tel að ef menn treysta sér til að útvíkka þetta enn eigi þar næst að koma heilbrigðisstofnanir og dvalarstofnanir. Um atvinnuhúsnæði tel ég gegna nokkuð öðru máli, og þá er stigið stærra skref en verið hefur og munar verulega í kostnaði við olíuniðurgreiðslur.

Í 4. gr. frv. er nýmæli um að greiða niður verð á raforku til húshitunar. Ég hef áður rætt um að ég tel að þetta þurfi að athuga. Ef við ætlum að ná meiri jöfnun en þegar hefur verið náð þurfum við að athuga gaumgæfilega hvernig okkur tekst að greiða niður eða lækka verð á raforku til húshitunar. Þess vegna ítreka ég að það er margt í þessu frv. sem gengur mjög í þá átt sem fram hefur komið í nefndinni sem við hv. 4. þm. Vestf. höfum báðir átt sæti í. Þess vegna er kannske ekki óeðlilegt að það komi einmitt hér fram.

Ég ætla ekki að fara, herra forseti, öllu fleiri orðum um málið á þessu stigi. Ég get tekið undir það með hv. 1. flm., að þetta þarf að athuga vel. Hann sagði eitthvað á þá leið í lokin á ræðu sinni, að hann óskaði og vonaðist til þess, að frv. þetta fengi jákvæðar viðtökur. Ég vil taka undir með honum því að ég tel, að jöfnun á húshitunarkostnaði þurfi að fá jákvæðar undirtektir og viðtökur í þinginu, og vonast til að svo verði. Það er brýn nauðsyn á því, eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, að bæta úr því ófremdarástandi, sem nú ríkir á þessu sviði, og að það takist að ná viðunandi jöfnun á húshitunarkostnaði landsmanna.