21.04.1982
Efri deild: 68. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4041 í B-deild Alþingistíðinda. (3583)

286. mál, jöfnun hitunarkostnaðar

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Hitunarkostnaður íbúðarhúsnæðis og raunar alls húsnæðis er eitt þýðingarmesta mál sem um þarf að fjalla, vegna þess að kostnaðurinn er misjafn á landsmenn af utanaðkomandi ástæðum sem erfitt er að ráða við. Með hækkun fjármagnskostnaðar við framkvæmdir, m.a. orkuframkvæmdir, hefur enn aukist sá vandi í mörgum tilvikum sem um er að tefla í sambandi við upphitunarmálin og samanburð milli einstakra landshluta, einstakra héraða.

Þegar lögin um jöfnun hitunarkostnaðar, sem nú eru í gildi, voru sett lýsti ég því yfir, að fljótlega yrði nauðsynlegt að endurskoða þau lög. Ég minnist þess, að hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson spurðist einmitt fyrir um það hér á hv. Alþingi, hvenær væri að vænta endurskoðunar á lögunum. Ég hafði þegar áhuga á að reyna að mynda nokkuð breiða samvinnu um þessi mál á Alþingi og beitti mér þess vegna fyrir því, að sett var á fót nefnd sem allir stjórnaraðilar núv. hæstv. ríkisstj. eiga aðild að og allir þingflokkar. Eins og kunnugt er er hv. 5. þm. Norðurl. e. formaður þeirrar nefndar, en í nefndinni eru auk þess Eggert Haukdal alþm., Gunnar R. Pétursson rafvirki, Kjartan Ólafsson ritstjóri og hv. þm. Þorvaldur Garðar Kristjánsson. Þessi nefnd hefur unnið að þessum málum í allan vetur og raunar lengur og hefur raunar lokið störfum, að því er ég hygg. Ég er nú með í höndunum handrit af nái., en ég hef ekki haft tíma til að lesa það, þó ég hafi að sjálfsögðu fylgst með störfum nefndarinnar bæði fyrir tilstilli ritara hennar, Yngva Ólafssonar deildarstjóra í viðskrn., og formanns nefndarinnar, hv. þm. Guðmundar Bjarnasonar.

Þessi mál, eins og margrakið hefur verið varða þegar til lengri tíma er litið hreinlega búsetu manna, eru nokkurs ráðandi um hvernig búseta verður í landinu ef ekkert er að gert. Þó það sé að vísu skynsamlegt að setja sig niður þar sem er jarðhiti o.s.frv. eru þó allar landnytjar, auðlindir og annað slíkt, sem landið og s jórinn hafa upp á að bjóða, þess eðlis, að það er nauðsynlegt þegar af þeim ástæðum og auðvitað mörgum fleiri að byggja allt landið. Þess vegna verður að leita lausna á þessu máli sem eru þess eðlis að menn setji sig niður meira og minna um allt land. Það gera menn ekki nema það sé sæmilegur jöfnuður í þessum málum.

Það er ástæða til að benda á að vandinn, þegar litið er á málið sem heild, hefur minnkað talsvert verulega frá því sem var þegar fyrri olíukreppan skall á seint á árinu 1973. Ég hef stundum minnt á það, að þegar þá voru teknar ákvarðanir um að greiða olíustyrki til að jafna hitunarkostnaðinn að nokkru leyti voru þeir samtals 95 þús. eða allt að því, en eru nú líklega komnir niður í um 20 þús., að ég hygg. Þetta sýnir hversu mjög þessi vandi hefur minnkað og hversu auðveldar almannavaldinu á að veitast við hann að fást þar sem hann er miklu minni umfangs en hann var áður. Að vísu hefur komið til nýr vandi sem er þess eðlis að það er dýrt að byggja orkuver þegar þarf að taka gífurlega mikið lánsfé með — ég vil segja: okurvöxtum, eins og vextir eru orðnir á alþjóðlegum mörkuðum. Það þýðir að fyrsta sprettinn, meðan menn eru að greiða niður stofnkostnaðinn, verður orkuverð að vera nokkuð hátt og það skapar vanda þeirra sem búa við upphitun með raforku.

Það er alveg rétt hjá hv. 4. þm. Vestf„ að við vorum flm. að ágætu frv. hér á sinni tíð. En það verður að minnast þess alltaf í stjórnmálastarfi, að veröldin litur dálítið öðruvísi út af tröppum Alþingishússins í stjórnarandstöðu en af tröppum Stjórnarráðsins í ríkisstjórn, Þegar menn eru í ríkisstjórn þurfa menn að afla fjárins, en ef menn eru í stjórnarandstöðu er léttara að bera fram tillögur án þess að þurfa að afla fjár til að framkvæma þær. Þetta eru almenn sannindi, sem við allir viðurkennum, þó að ég vilji halda í heiðri því, að menn eigi að hafa sömu skoðanir hvort sem menn eru í stjórn eða stjórnarandstöðu.

Þessu frv., sem hér er lagt fram af hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni, Eiði Guðnasyni og Agli Jónssyni, hygg ég að væri langeðlilegast að vísa til ríkisstj., eiginlega til mín, á þessu stigi málsins. Ég hef alltaf litið svo á, að starf nefndarinnar, sem vinnur að endurskoðun laganna og stefnumörkun í þessum málum, ætti að vera grundvöllur að framtíðarstefnu í þessum málum. Ég held að framtíðarstefnan hljóti að verða sú, að menn greiði sama verð fyrir upphitun hvar sem menn eru búsettir í landinu. Mér er ljóst að það er sennilega ekki framkvæmanlegt eins og sakir standa, en það verður að vera framtíðarstefnan í þessum málum.

Ég tek eftir því, þó ég hafi ekki lesið nál., að nm. hafa orðið sammála um málið. Ég lýsi yfir ánægju yfir því, að það hefur tekist samstaða um meginstefnu í þessum málum. Meginstefnan í nál. sýnist mér vera sú, að munurinn milli ódýrustu og dýrustu upphitunar verði ekki meiri en þrefaldur.

Ég mun að sjálfsögðu taka þetta nál. til athugunar og er þeirrar skoðunar, að það eigi að byggja nýja löggjöf á þessu nái. Það er samkomulag um það milli nm. og ég treysti því og veit raunar að það samkomulag byggist áreiðanlega á umræðum í þingflokkunum, því að nm. eru fulltrúar sinna þingflokka og málin hafa áreiðanlega verið þrautrædd innan þingflokkanna. Ég fagna því, að mér sýnist vera þarna samstaða um meginstefnuna í þessu máli.