21.04.1982
Efri deild: 68. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4045 í B-deild Alþingistíðinda. (3586)

286. mál, jöfnun hitunarkostnaðar

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að þakka hæstv. ráðh. fyrir þá yfirlýsingu, að hann hefði áhuga á að flýta þessu máli, flýta því að sett sé ný löggjöf um jöfnun hitunarkostnaðar. En ég verð að segja að það slævir mikið mína ánægju og ég verð vissulega fyrir miklum vonbrigðum og ég jafnvel efast um alvöru þessarar yfirlýsingar ef hæstv. ráðh. kemur því ekki í verk að ljúka þessu máli á þessu þingi. Það er aðalatriðið fyrir mig að það verði sett ný löggjöf sem bæti ástandið frá því sem nú er.

Ég er þeirrar skoðunar, að það, sem gerst hefur með framlagningu þessa frv., sé mjög til að flýta málinu og aðstoða hæstv. ráðh. við að koma vilja sínum fram. Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan að gefnu tilefni, að í nál., sem við erum alltaf að tala um og vitna í, er ekki um að ræða ákveðna leið að markinu. Ég get sagt hæstv. ráðh. að hann finnur slíkt ekki þó hann lesi nál. Í nál. er engin leið, engin aðferð, sem hæstv. ráðh. hefur ekki þegar og lengi velt vöngum yfir. Það er aðeins þar að finna framreikning og útreikninga á aðferðum til hagræðis fyrir þá sem vilja taka einhverja þessara aðferða.

Ég vona að hæstv. ráðh. taki það ráð í þessu máli að ljúka því á þessu þingi og bæta þannig ástandið. Það er aukaatriði fyrir mig, hvort það er samþykkt á mínu frv. eða ekki, óbreyttu eða jafnvel breyttu. En ég held að það yrði auðveldasta leiðin fyrir hæstv. ráðh. að stuðla að samþykkt frv. sem hér er til umr. Það er líka, eins og margsannað er, í bestu samræmi við skoðanir ráðh. sjálfs, eins og þær hafa komið fram í þessum umr., eins og þær hafa komið fram á undanförnum misserum og eins og þær voru settar fram í frv. því sem hann var meðflm. minn að árið 1980.