09.11.1981
Neðri deild: 10. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í B-deild Alþingistíðinda. (421)

Umræður utan dagskrár

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. svör hans við orðum mínum áðan, en ég vil bæta því við það sem hann sagði hér, að ekkert hefði komið í ljós sem sýndi að þessir aðilar þyrftu að sækja um leyfi til hins íslenska samgrn., að í þeim flutningum, sem hér um ræðir, eru allir aðilar sammála um að farmskjöl séu ekki algild staðfesting á því hvað flutt sé.

Svo vil ég ítreka það sem ég sagði áðan, að samgrn. beiti sér fyrir því vegna 92. gr. loftferðalaganna að skilgreint verði hvað eru vopn og hvað eru ekki vopn í flutningum íslenskra flugvéla, því að æfingaskot til hins háa Gaddafis í Líbýu tel ég að kunni að vera eitthvað annað en æfingaskot.

Ég er líka sannfærður um að það er álitshnekkir fyrir íslensk flugfélög og íslenska aðila að flytja varning til Líbýu. Þetta er fremur sóðalegt athæfi og á ekki að tíðkast. Þess vegna vil ég ítreka það sem hv. þm. Benedikt Gröndal sagði, að æskilegast væri að þessir flutningar yrðu stöðvaðir með öllu.