03.05.1982
Sameinað þing: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4517 í B-deild Alþingistíðinda. (4278)

308. mál, iðnaðarstefna

Frsm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Þessi till. hv. atvmn. Sþ. er að langmestu leyti og nánast í öllum atriðum byggð á tveimur fyrirliggjandi þáltill. um iðnaðarstefnu, annars vegar 84. máli Alþingis, sem er till. 19 sjálfstæðismanna, og hins vegar 140. máli Alþingis, sem er þáttill. hæstv. ríkisstj.

Hæstv. iðnrh. lagði fyrst fram till. til þál. um iðnaðarstefnu skömmu fyrir þinglok 1979, en hún kom þá ekki til umr. Hún var aftur lögð fram óbreytt haustið 1979, en var þá eigi heldur útrædd vegna stjórnarslita og þingrofs. Eftir stjórnarskiptin 1980 ákvað hæstv. iðnrh., sem þá hafði tekið sæti í nýrri ríkisstj., að bíða með flutning till. til hausts og var hún lögð fram lítils háttar breytt haustið 1980. Þá þegar fluttu 5 þm. Sjálfstfl. brtt. og til atvmn. bárust umsagnir nokkurra aðila ásamt hugmyndum um breytingar. Snemma á þessu þingi fluttu 19 þm. Sjálfstfl. síðan till. til þál., sem var að grunni til sama efnis og þáltill. hæstv. iðnrh. Síðar kom fram till. hæstv. ríkisstj. í fjórða skiptið og hafði þá tekið lítils háttar breytingum frá því að hún var lögð fram á síðasta þingi.

Eins og fram kemur í grg. hafa nm. í atvmn. víða teygt sig til samkomulags og gætir þess nokkuð í orðalagi ályktunartillögunnar. Í framsöguræðu minni mun ég gera grein fyrir einstökum liðum till., nefna nokkur atriði, sem komu fram í umsögnum, og benda sérstaklega á þau atriði sem ég tel vera mikilvægust í tillögugreininni.

Fjórar umsagnir bárust nefndinni. Í fyrsta lagi frá Fjórðungssambandi Norðlendinga, í öðru lagi frá iðnaðardeild SÍS, í þriðja lagi Félagi ísl. iðnrekenda og í fjórða lagi Landssambandi iðnaðarmanna.

Frá Fjórðungssambandi Norðlendinga kom umsögn, dags. 22. febr. 1982, þar sem segir m.a. að tillögurnar, sem þá var leitað umsagnar um, séu mjög svipaðar. En um orkufreka iðnaðinn segir þetta, með leyfi forseta:

„Það, sem ber á milli í tölul. 5, er að í till. sjálfstæðismanna er rætt um að leitað verði eftir samvinnu við erlenda aðila eftir því sem nauðsynlegt er og hagkvæmast þykir. Hér er ekki annað en verið að viðurkenna þá þróun sem þegar er hafin. Svo virðist að ekki séu tök á því að koma upp meiri háttar iðn á Íslandi nema í einhverju samráði við erlenda aðila.“

Síðar í umsögn þessa sama aðila er rætt um III. kafla þáltill. frá sjálfstæðismönnum og segir svo, með leyfi forseta:

„Sérstakur kafli er í tillögu sjálfstæðismanna er nefnist: Framkvæmd. Telja verður að slíkur kafli sé nauðsynlegur til að tryggja framkvæmd þeirrar stefnu sem till. stefnir að. Í þessum kafla þurfa að vera skýlaus ákvæði um að Alþingi leggi fyrir ríkisstj. að undirbúa tillögur um lagasetningu og aðrar aðgerðir til að tryggja framgang þeirrar iðnaðarstefnu sem ályktun þessi mætir fyrir um að skuli lagðar fyrir Alþingi. Eins og gefur að skilja er gagnslaust að leggja vinnu í það að afgreiða ályktun til Alþingis um iðnaðarstefnu nema á eftir fylgi þær aðgerðir sem staðfesti þá iðnaðarstefnu sem í till. felst. Þetta er þungamiðja þessa máls.“

Fleira les ég ekki úr þessari umsögn frá Fjórðungssambandi Norðlendinga, sem er undirrituð af Áskeli Einarssyni. En í öðrum atriðum er fjallað um efnisatriði beggja tillagnanna og sagt fyrst og fremst frá því að þær séu svipaðar, sem kom reyndar engum á óvart.

Umsögn kom frá Sambandi ísl. samvinnufélaga, iðnaðardeild Sambandsins, undirrituð af Hirti Eiríkssyni framkvæmdastjóra. Þetta er örstutt umsögn sem ég leyfi mér að kynna hér með því að lesa hana, með leyfi forseta:

„Iðnaðardeild Sambandsins gerir ekki greinarmun á þeim tveim tillögum sem fram eru komnar til þingsályktunar um iðnaðarstefnu. Þær eru í meginatriðum samhljóða. Hins vegar leggjum við mikla áherslu á það, að Alþingi gangi frá samþykkt að slíkri stefnumótun hið fyrsta. Það er spurning hvort það komi nægjanlega skýrt fram, að tryggja verði rekstrargrundvöll iðnaðar óháð skilyrðum annarra atvinnuvega. Hér er átt við að verðhækkanir, t.d. á sjávarafurðum, valdi ekki afkomubresti hjá iðnaði, eins og átt hefur sér stað m.a. á s.l. ári. Það verður að leysa sambúðarvandamál atvinnuveganna. Telja verður að grein II.2“ — það er um gengismálin — „sé varla nógu skýr varðandi þetta atriði, þar sem hér er um að ræða einn aðatvanda útflutnings- og samkeppnisiðnaðar.

Annað atriði, sem iðnaðardeildin vill benda á, er nauðsyn þess, að verðlagning á innlendum hráefnum sé í samræmi við markaðsverð. Hér er átt við að það má ekki reyna að leysa verðbólguvandann með óraunhæfu hráefnisverði.“

Hér lýkur tilvitnun í umsögn Sambands ísl. samvinnufélaga. Það, sem síðast var lesið, á við um verð á hráefnum þess iðnaðar sem iðnaðardeild Sambandsins hefur stundað að undanförnu og þá fyrst og fremst ullar- og skinnaiðnaðinum.

Félag ísl, iðnrekenda sendi nefndinni umsögn sem er dags. 3. mars 1982. Í þeirri umsögn er sagt frá því, að það séu tæplega þrjú ár síðan iðnrh. lagði fyrst fram till. um iðnaðarstefnu og að vorið 1981 hafi Félag ísl. iðnrekenda sent umsögn um till. og í upphafi þeirrar umsagnar hafi félagið komið fram almennum sjónarmiðum félagsins, sem það vilt enn ítreka, svohljóðandi, sem ég leyfi mér að lesa, með leyfi forseta:

„Félag ísl. iðnrekenda telur afar mikilvægt að á hverjum tíma sé til iðnaðarstefna sem felur í sér yfirlýsingu stjórnvalda um hver eigi að vera þáttur iðnaðarins í atvinnulífi þjóðarinnar og hvernig þeim markmiðum verði náð. Till. til þál. um iðnaðarstefnu, sem fyrst var lögð fyrir Alþingi vorið 1979 og enn er til meðferðar, er fyrsta tilraun á þessu sviði og er þess vegna fagnaðarefni. Félag ísl. iðnrekenda leggur áherslu á, að Alþingi afgreiði þál. um iðnaðarstefnu á yfirstandandi þingi. Iðnaðarstefna verður ekki sett í eitt skipti fyrir öll. Hún er háð breytilegum aðstæðum og verður því að endurnýjast í ljósi þess og hvernig miðar með framkvæmd hennar.“

Hér lýkur tilvitnun í upphaflega umsögn félagsins sem félagið taldi ástæðu til að ítreka við hv. atvmn. Sþ. Þá segir í áframhaldi, að FÍI fagni tillöguflutningnum og hafi verið gengið í báðum tillögunum til móts við ýmsar tillögur og sjónarmið félagsins. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Tillaga 19 þm. Sjálfstfl., 84. mál, gengur þó enn lengra í átt til sjónarmiða Félags ísl. iðnrekenda, og mælir félagið með því, að sú tillaga verði samþykkt með eftirfarandi breytingum.“

Hér lýkur tilvitnun, en taldar eru upp þrjár brtt.

Í fyrsta lagi lögðu þeir til, fulltrúar Félags ísl. iðnrekenda, að samræmd yrði skattlagning iðnverkafólks og sjómanna, en nefndin féllst ekki á að orða það bókstaflega í sjálfri tillgr.

Í öðru lagi vildi Félag ísl. iðnrekenda taka skýrt fram, að lánasjóðum iðnaðarins yrði heimilt að efna til sjálfstæðrar lántöku innanlands og utan, en nefndin gat ekki heldur fatlist á þau sjónarmið og taldi nægilega sterkt að orði kveðið í sjálfri tillgr., en þær voru samhljóða um þetta atriði að mestu leyti, tillögurnar, sem komu fram, annars vegar till. ríkisstj. og hins vegar frá 19 sjálfstæðismönnum.

Í þriðja lagi var um að ræða smábreytingu sem ekki skipti miklu máli og ég hirði ekki um að nefna hér frekar, enda var þar um að ræða nánast orðalagsbreytingu.

Landssamband iðnaðarmanna sendi inn ítarlega umsögn um þetta mál, þar sem fjallað er um ýmis merk atriði sem snerta iðnað og skilgreiningu á iðnaði. Þar segir að Landssamband iðnaðarmanna hafi löngum lagt ríka áherslu á nauðsyn þess, að iðnaðarstefna væri víðtæk og tæki til alls iðnaðar og allra hugsanlegra iðnþróunarkosta. Ómissandi forsenda þessa væri, að iðnaðinum yrðu sköpuð starfsskilyrði til jafns við aðra atvinnuvegi, og jafnframt, að ekki væri mismunað í starfsaðstöðu innan iðnaðarins sjálfs. Þeir benda síðan á að oft hafi umbætur verið takmarkaðar við svonefndan útflutnings- og samkeppnisiðnað, en skilgreining hugtaksins „samkeppnisiðnaður“ hafi, a.m.k. í framkvæmd, ávallt verið þröng og í ýmsum tilvikum hreinlega órökræn. Í framhaldi af þessu er fjallað í umsögninni um byggingarstarfsemina í þessu sambandi og minnt á stöðu hennar og hvernig hún er skilgreind sem byggingarstarfsemi, en ekki sem iðnaður. Þetta mál er öllum þingheimi kunnugt frá því að umr. fóru fram hér fyrr í vetur um launaskattslækkun, sem var till. hv. þm. Guðmundur G. Þórarinssonar, brtt. við till. ríkisstj. Það skal tekið fram, að í þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir, er gengið til móts við þessi sjónarmið og mun ég síðar víkja að því.

Í umsögn Landssambands iðnaðarmanna er til staðfestingar viðhorfum, sem hér hefur verið lýst, bent á að þau hljóta viðurkenningu í einu og öllu í nýútkominni skýrslu starfsskilyrðanefndar sem starfaði undir forustu dr. Jóhannesar Nordals. Þeir rifja það upp, að dr. Jóhannes Nordal, formaður nefndarinnar, hafi á sínum tíma fyrr í vetur flutt merka ræðu á ársþingi Félags ísl. iðnrekenda og skýrt þar sín sjónarmið, og birta síðan nokkurn kafla ræðu formanns starfsskilyrðanefndar. Þar á meðal vitna þeir til eftirfarandi ummæla dr. Jóhannesar, sem ég leyfi mér að fara hér með, ef hæstv. forseti leyfir:

„T.d. greiðir þessi iðnaður“ — ég skýt því hér inn, að þar er átt við byggingar- og þjónustuiðnað „enn veruleg aðflutningsgjöld af aðföngum sínum og engin endurgreiðsla uppsafnaðs söluskatts á sér stað. Að þessu leyti er staða þjónustuiðnaðarins svipuð og byggingariðnaðarins, en til hans náði athugun starfsskilyrðanefndar ekki nema að litlu leyti.“

Þess skal getið strax, að til móts við þessi sjónarmið er gengið því áð í till, sem liggur fyrir, er gert ráð fyrir að, kannað verði virðisaukaskattskerfið, eins og þar segir, sem kæmi þá í stað endurgreiðslu uppsafnaðs söluskatts, og jafnframt er sterkt til orða tekið um niðurfellingu aðflutningsgjalda af aðföngum til iðnaðar.

Áfram skal vitnað til umsagnar Landssambands iðnaðarmanna, þar sem reifuð er ræða dr. Jóhannesar Nordals, sem hafði minnt á að starfsskilyrði allra atvinnuvega væru nátengd innbyrðis. M.a. er vitnað til eftirfarandi ummæla dr. Jóhannesar Nordals, sem ég leyfi mér að tilfæra hér:

„Sú kenning, að eðlilegt sé að flokka atvinnuvegina annars vegar í þá, sem framleiði, en hins vegar hina, sem aðeins veiti þjónustu og séu þar af leiðandi nokkurs konar afætur sem megi skattleggja eftir vild, er byggð á algerum misskilningi á eðli nútímaefnahagsstarfsemi.“

Og síðar segir dr. Jóhannes Nordal í þessari ræðu: „Líklega eru engin verkefni brýnni á þessu sviði en heildarendurskoðun tollskrár og annarra aðflutningsgjalda í því skyni að stórlækka eða afnema aðflutningsgjöld á tölvubúnaði og margs konar öðrum tækjum sem eru forsenda alhliða tækniframfara í öllum greinum íslenskrar atvinnustarfsemi.“

Þá segir í umsögn Landssambands iðnaðarmanna, með leyfi forseta: „Í tillögu þm. Sjálfstfl. er á vissan hátt fylgt sjónarmiðum Landssambandsins sem lýst var hér að framan, þar sem í 14. lið þeirrar till., um leiðir að markmiðum, er kveðið á um að aðflutningsgjöld skuli felld niður af aðföngum þess iðnaðar og byggingariðnaðar sem á í beinni eða óbeinni samkeppni innanlands sem erlendis.“

Ég vil undirstrika að einmitt þetta orðalag er nú notað í þeirri þáttill. sem liggur hér fyrir til umr. og síðar til samþykktar.

Í lok umsagnarinnar, sem er æðilöng og ítarleg, segir, með leyfi forseta:

„Landssamband iðnaðarmanna telur það rétt, sem felst í þessari till. þm. Sjálfstfl., að Alþingi ákveði hverjir skuli tilnefna fulltrúa í þá mikilvægu nefnd sem hér um ræðir.“ — Ég skýt því hér inn að hér er átt við þá framkvæmdanefnd, sem nú er gert ráð fyrir að verði tilnefnd af ýmsum aðilum í III. kafla fyrirliggjandi þáltill. — og áfram með lesturinn: „Einnig álítur Landssambandið skynsamlegt að viðskrn. og fjmrn. eigi fulltrúa í nefndinni, enda snerta flest hagsmunamál iðnaðarins ráðuneyti þessi. Slíkt samstarf fagráðuneyta í málefnum iðnaðarins hefur gefist vel annars staðar á Norðurlöndum.“ Ýmislegt fleira kemur fram í þessari umsögn Landssambands iðnaðarmanna sem er vel unnin og gefur margar ágætar ábendingar, en tímans vegna tel ég ekki ástæðu til að ræða það frekar hér. Mun ég þá næst snúa mér að einstökum liðum tillögunnar.

Þáltill. hv. atvmn. er í þremur köflum, merktum I, II og III. I. kafli fjallar um markmið, II. kaflinn um leiðir og sá III. um framkvæmd. Í formála I. kafla er tekið upp orðalag eins og það kom fyrir í till. hæstv. ríkisstj., en þar segir orðrétt: „ályktar Alþingi að stuðla beri að framkvæmd iðnaðarstefnu sem hafi eftirfarandi markmið.“

Af þessu orðalagi sést að hér er um að ræða stefnuyfirlýsingu Alþingis, en ekki áskorun til ríkisstj., eins og oftast er gert í þáltill.

Í þeim tillögum, sem atvmn. hafði til meðferðar, kom fram nokkur munur á 1. gr. I. kafla, en þar lögðu sjálfstæðismenn áherslu á að iðnþróun ætti að byggja á grundvelli fríverslunar og athafnafrelsis. Nefndin féllst á að gera breytingar á tillögu ríkisstj. þannig að nú er sagt að tekið skuli tillit til fríverslunar þegar mótuð er stefna í málefnum iðnaðarins. Hér er um að ræða mikilvægt atriði, sem tryggir að ekki sé efnt til aðgerða til að vernda íslenskan iðnað með verndartollum og öðru því sem brýtur í bága við fríverslunarsamninga Íslands og annarra EFTA-ríkja annars vegar og samninga Íslands og Efnahagsbandalagsins hins vegar.

7. liður I. kafla er orðréttur eins og hann var í till. hæstv. ríkisstj., en þessi liður var ekki í till. sjálfstæðismanna.

Í II. kafla er fjallað um leiðir. Í 1. lið II. kafla er tekið upp orðalag stjórnarsáttmála núv. hæstv. ríkisstj. um virðisaukaskatt. Hann var að finna í till. sjálfstæðismanna, en ekki till. hæstv. ríkisstj. þótt einkennilegt megi virðast. Í þessum lið er tekið á svokölluðum starfsskilyrðamálum sem talsvert hafa verið til umr. hér á Alþingi og annars staðar að undanförnu. Full ástæða er til að vekja athygli á því, að tillgr. gerir ráð fyrir að álagning opinberra gjalda verði samræmd og iðnfyrirtæki fái sambærilegan aðgang að rekstrar- og framleiðslulánum og fyrirtæki í öðrum atvinnugreinum.

Í 2. lið II. kafla er minnst á gengisákvarðanir og sú stefna mörkuð að taka beri tillit til samkeppnisaðstöðu iðnaðarins við gengisákvarðanir. Hér er eins og í 1. lið verið að fjatla um jöfnun starfsskilyrða atvinnuveganna og kannske mikilvægasta þátt þess máls.

Í 3. lið er bent á að nauðsynlegt geti verið fyrir lánasjóði iðnaðarins að taka lán, og ber að skoða þessa yfirlýsingu með hliðsjón af frv. sem nú er til meðferðar á Alþingi um Iðnlánasjóð. Þá er sérstaklega tekið fram að arðsemi fjárfestingar eigi að sitja í fyrirrúmi þegar fjárfestingarlán eru veitt.

4. og 5. liður II. kafla eru auðskiljanlegir. En í 6. lið er komið að því aðalágreiningsefni, sem hvað harðast var deilt um í nefndinni þegar þessi fyrirliggjandi till. var samin. Allir nm. eru sammála um að stuðla beri að uppbyggingu fjármagnsfreks nýiðnaðar, m.a. orkufreks iðnaðar eða stóriðju, sem hagnýti innlenda orku og hráefni. Öll nefndin er sammála um að starfsemi slíks iðnaðar eigi að lúta íslenskum lögum, en skiptar skoðanir eru um hvað felist í hugtakinu „íslenskt forræði“. Jafnframt ber að taka það fram, að nm. voru ekki heldur einhuga um í hve miklum mæti ætti að leita eftir samvinnu við erlenda aðila á sviði orkufreks iðnaðar. Í mínum huga er það íslenskt forræði eða það sem stundum er kallað „virk íslensk yfirráð“, ef við getum fengið erlenda aðila til að gera við okkur hagkvæma orkusölusamninga sem tryggja okkur arðsemi okkar hluta fjárfestingarinnar hvað sem á bjátar. Íslenskt forræði felst í því, að við getum gert samninga við erlenda samstarfsaðila sem tryggja íslenska lögsögu, íslenskt eftirlit og aðstöðu Íslendinga til að afla sér þeirrar tækni og markaðsþekkingar sem til þarf. Brátt kemur vonandi að því, að við getum axtað ábyrgð og áhættu af stóriðju þegar við teljum það henta okkur, en fyrst þurfum við að byggja upp fjárhagslegt bolmagn sem nauðsynlegt er. Samkvæmt þessum skilningi, sem ég hef nú gert grein fyrir og er fyrst og fremst skilningur minn, en ekki nefndarinnar allrar, felst það ekki í hugtakinu „forræði“, að Íslendingar séu meirihlutaeigendur í stóriðjufyrirtækjum.

Í 8. lið II. kafla, sem var eins í tillögum sjálfstæðismanna og till. ríkisstj., er fjallað um meiri hreyfanleika á eignaraðild ríkisins að ýmsum iðnfyrirtækjum. Hugmyndin er m.a. sótt til skýrslu samstarfsnefndar um iðnþróun, en sú skýrsla var á sínum tíma fskj. með þáttill. hæstv. iðnrh. Ég vek sérstaklega athygli á síðasta málsliðnum þar sem segir að almenningi skuli gefast kostur á að gerast beinn eignaraðili að iðnfyrirtækjum, og er þar að sjálfsögðu m.a. átt við þau fyrirtæki sem nú eru í eigu ríkisins.

Varðandi 9. liðinn skal það tekið fram, að þegar hafa verið sett lög á Alþingi um iðnráðgjafa og iðngarðar samkv. 10. lið hafa verið til umr. á þingi og gerð um þá þál.

Í 11. lið er rætt um útflutningsfyrirtæki. Þar hefur orðið sú breyting á, að nefndin leggur til að kannaðir verði möguleikar á verðjöfnunarsjóðum í því skyni að örva útflutningsviðleitni fyrirtækja. Hér er ekki tekið af skarið, hvort þeir verðjöfnunarsjóðir eigi að vera með svipuðu sniði og Verðjöfnunarsjóður fiskvinnslunnar eða hvort hér verði sjóðir í eign einstakra útflutningsgreina eða einstakra útflutningsfyrirtækja.

12. liður er eins og hann var í báðum tillögunum, en 13. liður, um iðnhönnun og listiðn, er tekinn upp úr tillögum sjálfstæðismanna.

Þá vil ég vekja sérstaka athygli á 14. lið, um niðurfellingu aðflutningsgjalda af aðföngum til iðnaðar. Í þessum lið segir nú skorinort að fella skuli niður aðflutningsgjöld af aðföngum jafnt til þess iðnaðar, sem á í beinni, og hins vegar hins, sem á í óbeinni samkeppni innanlands sem á erlendum mörkuðum. Ég undirstrika þetta sérstaklega þar sem fjmrn. hefur ekki fengist til að leggja fram frv. til breytinga á tollskrá er varðar þetta atriði sérstaklega. En telja verður að verði þessi tillaga samþykkt skuli tekið tillit til þessara viðhorfa við þá heildarendurskoðun sem nú fer fram á tottskrárlögum að sögn hæstv. fjmrh.

Í 15. lið segir að iðnaður á heimamarkaði skuli fá aðstöðu til verðlagningar hliðstætt því sem gerist um innfluttar samkeppnisvörur. Hér er m.ö.o. átt við að nokkuð frjáls verðlagning skuli ríkja á framleiðsluvörum íslensks iðnaðar og er það að vonum mikilvæg yfirlýsing.

16. liður er eins orðaður og hann var í ályktunartillögunum sem fyrir lágu í nefndinni. Ekki verður annað séð en gera þurfi breytingar á tekju- og eignarskattstögum til þess að hægt sé að ná fram efni greinarinnar, en hún fjallar um fjárfestingu iðnfyrirtækja.

17. gr. var talsvert ólík í þeim tillögum sem fyrir lágu í nefndinni, og farin var sú leið að taka aðeins þau efnisatriði úr greinunum sem allir nefndarmenn gátu sætt sig við.

Um 18., 19., 20. og 21. gr. varð fullt samkomulag. Þær þarf ekki að skýra og þær eru í samræmi við báðar þáltill. sem fyrir lágu.

Þá kem ég að III. kafla, um framkvæmd. Fyrstu tvær mgr, voru í báðum þáltill. sem nefndin hafði til umfjöllunar, en í 3. mgr. er lagt til, eins og í till. sjálfstæðismanna, að sett verði á stofn samstarfsnefnd um framkvæmd iðnaðarstefnu. Auk fulltrúa iðnrn. og félagasamtaka iðnaðarins ásamt Sambandi ísl. samvinnufélaga, en það fyrirtæki stundar umfangsmikinn iðnrekstur, er lagt til að einn fulltrúi frá viðskrn. og annar frá fjmrn. verði tilnefndir af viðkomandi ráðherrum í þessa framkvæmdanefnd. Með slíkri tilhögun gefst kostur á því í nefndarstarfinu að ræða sameiginleg vandamál ráðuneytanna þriggja við framkvæmd iðnaðarstefnu, en eins og kunnugt er fara viðskrn. og fjmrn. með mjög mikilvæga þætti sem snerta iðnaðinn, eins og t.d. viðskiptasamninga Íslands við önnur ríki og tolla- og skattamál, og vitna ég þar til ummæla sem komu fram í umsögn Landssambands iðnaðarmanna og ég gat um fyrr í ræðu minni.

Vissulega hefði, herra forseti, verið ástæða til að fjalla ítarlegar um einstaka liði þáltill., en því miður gefst ekki tækifæri til þess hér og nú þar sem ætlunin er að ljúka þingi von bráðar, jafnvel á næstu dögum. Verður því þetta stutta yfirlit að duga, enda fóru nokkrar umr. fram um till. ráðh. og till. sjálfstæðismanna þegar þær voru til umr. í Sþ. fyrr í vetur og í þeim komu fram viðhorf framsögumanna.

Að lokum vil ég víkja nokkrum orðum að starfsskilyrðum iðnaðar.

Mikið hefur verið rætt um jöfnun starfsskilyrða atvinnugreina, og fyrirliggjandi þáltill. tekur mikið mið af þeim umræðum. Talsmenn iðnaðarins hafa um árabil haldið því fram, að starfsskilyrði greinarinnar séu lakari en annarra atvinnugreina. Af því tilefni samþykkti núv. hæstv. ríkisstj. hinn 30. mars 1980 eða fyrir rúmum tveimur árum að setja á stofn nefnd til að gera samanburðarathugun á starfsskilyrðum iðnaðar, sjávarútvegs og landbúnaðar og var við það miðað að nefndin skilaði áliti fyrir 1. júlí sama ár. Nefndin var hins vegar ekki skipuð fyrr en í sept. 1980 og hún skilaði af sér snemma á þessu ári, 1982. Í upphafi árs 1981 sendi hæstv. ríkisstj. frá sér efnahagsáætlun þar sem enn var ítrekað að hraða þyrfti samanburði á starfsskilyrðum höfuðatvinnuveganna og þau samræmd. Í yfirlýsingu hæstv. ríkisstj. sagði með leyfi forseta:

„Tryggt verði að starfsskilyrði iðnaðarins verði ekki lakari en annarra atvinnugreina.“

Í vetur hefur verið starfandi embættismannanefnd undir forustu Þórðar Friðjónssonar hagfræðings og er henni ætlað að sem ja lagafrv. og vinna áfram að þessum málum. Fyrir einum og hálfum mánuði óskuðu 10 þm. Sjálfstfl. eftir því, að hæstv. forsrh. legði fram skýrslu um framkvæmd jöfnunar á starfsskilyrðum atvinnuveganna. Sú skýrsla verður lögð fram á Alþingi alveg á næstunni, að sögn hæstv. forsrh.

Hér gefst ekki tími til að ræða ítarlega um starfsskilyrði atvinnuveganna, en í þeim umr., sem farið hafa fram um þetta mál, hefur komið í ljós að langveigamestu þættirnir til jöfnunar á starfsskilyrðum eru raunhæf gengisskráning, beiting verðjöfnunarsjóða og frjáls verðmyndun. Á öllum þessum málum er tæpt í fyrirliggjandi þáltill., sem hér er til umr., þótt hún taki ekki nákvæmlega mið af skýrslu starfsskilyrðanefndar. Það er ljóst, að munur á skattlagningu milli atvinnugreina er kominn til af því, að ríkisstjórnir, ekki eingöngu sú sem nú situr, heldur þær sem á undan henni voru, hafa talið óhjákvæmilegt að breyta skattareglum í baráttu sinni við verðbólguna. Sjómannafrádráttur, fiskimannafrádráttur og niðurfelling launaskatts í sjávarútvegi eru aðgerðir sem áttu að koma í veg fyrir hærrafiskverð á sínum tíma. Öllum er ljóst að skattívilnanir þessar verða ekki teknar aftur án þess að eitthvað komi í staðinn. Til þess að koma málinu í eðlilegt horf þarf að gerbreyta skattkerfinu, lækka skatta almennt og hverfa frá ríkisumsvifastefnunni. Eitt af stærstu framfaramálum á þessu sviði er auðvitað afnám aðflutningsgjalda, sem lagt er til í till., en slíkt afnám er auðvitað forsenda eðlilegrar samkeppni íslenskrar framleiðslu og innfluttrar.

Eins og fram hefur komið í sameiginlegri till, sjálfstæðismanna og Alþfl.-manna í allshn. virðist áhugi vera vaxandi á því, að beinir skattar einstaklinga, bæði tekju- og eignarskattar, renni til sveitarfélaga, en ekki ríkisins. Verði sú stefna ofan á og sveitarfélögunum verði heimilt að leggja á einstaklinga innan rúmra marka skiptir sú óánægja, sem nú er uppi vegna skattfríðinda einstakra hópa, minna máli en ella.

Eins og ég sagði áðan gefst ekki tækifæri til að gera úttekt á starfsskilyrðamálum að þessu sinni, enda er enn von til þess, að skýrsla hæstv. forsrh. verði til umr. á þessu þingi, þótt þær vonir dvíni að sjálfsögðu með tímanum.

Eitt þeirra mála, sem iðnaðurinn hefur lagt mikla áherslu á, er að hann fái jafnan aðgang að rekstrar- og fjárfestingarlánum miðað við aðrar atvinnugreinar. Í þessu sambandi fer ekki hjá því að lýsa ábyrgð á hendur ríkisvaldinu, sem hefur með yfirboði á ávöxtunarkjörum sogað til sín fjármagn úr bankakerfinu, sem annars hefði orðið atvinnuvegunum til ráðstöfunar. Það hlýtur að vera sameiginlegt markmið allra atvinnugreina að snúa þessari þróun við og stuðla að skilningi á því, að það eru atvinnuvegirnir, atvinnufyrirtækin í landinu, sem mynda undirstöðuna undir alla aðra starfsemi í þjóðfélaginu. Án arðbærra fyrirtækja væri tilgangslaust að halda úti stofnunum á sviði heilbrigðis-, félags-, mennta- og menningarmála. Án arðbærra fyrirtækja tekst okkur ekki að halda uppi sambærilegum lífskjörum við aðrar þjóðir. Það er þess vegna mjög brýnt mál, að stjórnvöld dragi ekki til sín það fjármagn sem atvinnufyrirtækin þurfa á að halda til að byggja upp arðbæran rekstur sem einn er fær um að bæta lífskjörin í landinu.

Starfsskilyrðanefndinni var einungis falið að gera samanburð á starfsskilyrðum þriggja höfuðatvinnuveganna. Formaður nefndarinnar, dr. Jóhannes Nordal, hefur hins vegar sagt á opinberum vettvangi að nauðsynlegasta úrlausnarefnið sé að skapa öllum atvinnurekstri eðlileg starfsskilyrði, í þeim efnum sé ekki hægt að skilja hafrana frá sauðunum, svo nátengd er starfsemi allra fyrirtækja, þótt sum starfi að framleiðslu og önnur að þjónustu sem er framleiðslufyrirtækjunum nauðsynleg. Það má því segja að langveigamesta iðnþróunarmálið sé að fá viðurkenningu stjórnvalda á því, að lagfæra verði rekstrargrundvöll atvinnufyrirtækjanna. Slíkt verður ekki gert með því að drepa atvinnureksturinn í dróma og slátra þannig mjólkurkúnni. Hún verður ekki bæði mjólkuð og étin í senn.

Herra forseti. Það er brýn nauðsyn að þetta mál nái fram að ganga. Hér er um að ræða stefnuyfirlýsingu sem hlýtur að verða iðnaðinum mikil lyftistöng, en iðnaðurinn hefur stundum verið kallaður vaxtarbroddur íslensks atvinnulífs.

Við í hv. atvmn. erum sammála um efnisatriði og um till. alla og teljum að ekki þurfi að vísa þessari þáltill. aftur til nefndar nema ríkar ástæður komi upp, eins og t.d. flutningur brtt., sem ekki hafa þó séð dagsins ljós. Ég legg áherslu á að bæði nú í vetur og eins í fyrravetur var reynt til þrautar að ná samkomulagi á milli allra flokka í þessu máli. Það hefur tekist. Það hefur tekist vegna þess að allir aðilar, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, hafa teygt sínar skoðanir til hins ýtrasta.

Ég vil að lokum nota tækifærið til að þakka hæstv. iðnrh. fyrir ágætt samstarf hvað það varðar og þeim öðrum, sem nálægt þessu máli hafa komið, og vænti þess, að þessi þáltill. verði samþykkt á yfirstandandi þingi, áður en því verður slitið.