04.05.1982
Sameinað þing: 88. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4592 í B-deild Alþingistíðinda. (4347)

149. mál, virkjunarframkvæmdir og orkunýting

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs einungis til að fagna því víðtæka samkomulagi sem mér virðist að náðst hafi. Ef ég skil það rétt standa þrír þingflokkar að þessari bókun, sem væntanleg er. Ég veit ekki nákvæmlega um þann fjórða. Það væru þá 6 af 7 í nefndinni. Hér er um mjög viðkvæmt mál að ræða, eins og allir vita, og stórmál, og auðvitað væri langsamlega æskilegast að Alþingi gæti einróma afgreitt það. Síst skal ég stofna til nokkurra deilna eða segja nokkurt orð sem gæti ýft upp einhvern ófrið um málið. En kannske hefur það ekki verið rétt að taka málið á dagskrá alveg svona fljótt úr því að þessi bókun er ekki undirskrifuð. Ég leyfi mér nú að leggja til að forseti íhugi að fresta málinu um stund þannig að menn geti rætt saman og reynt að komast að sameiginlegri niðurstöðu. — (Fundarhlé.].