04.05.1982
Sameinað þing: 88. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4594 í B-deild Alþingistíðinda. (4351)

149. mál, virkjunarframkvæmdir og orkunýting

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég mælti í þessum umr. fyrir brtt. okkar hv. 3. þm. Vestf. á þskj. 877. Ég hef oft mælt fyrir brtt. eða komið í þennan ræðustól, en ég minnist þess naumast að ég hafi í annan tíma verið meira undrandi á viðbrögðum manna en í þessum umr. varðandi þessa brtt. Og ekki bætti hv. 5. þm. Vestf. úr í því efni. Ef hv. 5. þm. Vestf. hefur vit á að njóta stuðnings til góðra verka í atvmn. ætti hann að reyna að sýna tilburði til þess að svo megi verða víðar.

Ég sagði: Ég hef sjaldan eða aldrei orðið meira undrandi. Menn komu hér með ýmsar fullyrðingar og upphrópanir. T. d. hneykslaðist hv. 3. þm. Austurl. á því, að það væri verið að dragá inn í þingið umr. um stóriðjumál, eins og hann orðaði það. Hv. 4. þm. Suðurl. talaði um að vegna tímaskorts hefði ekki verið hægt að sinna þessum málum. Þeir höfðu þó tíma til að taka það út úr till. ríkisstj. sem varðaði þetta mál. Hv. 4. þm. Suðurl. sagði að brtt. væri slæm fyrir samstöðu í málinu, og hv, þm. smurði betur á í fullyrðingum sínum. Hann sagði að við, sem stöndum að brtt., værum að veitast að samkomulagi sem náðst hefði. Þetta eru ekki litlar fullyrðingar. Ég spyr þessa hv. þm. sem eru með þetta á vörunum: Hvar hafa þeir verið á undanförnum mánuðum op misserum þegar þessi mál hafa verið rædd á Alþingi Íslendinga? Hvar hafa þeir verið þegar hefur verið rætt um virkjanamálin og stóriðjumálin í því sambandi? Vita þeir ekki um hvað var rætt í öllum umr. um virkjanamálin, hvort sem það var um frv. okkar sjálfstæðismanna um ný orkuver, sem við bárum fram á Alþingi á síðasta þingi, eða um frv. sem samþykkt var sem lög um raforkuver frá ríkisstj. á síðasta þingi. Um hvað voru menn að ræða dögum saman, vikum saman, mánuðum saman um þessi mál sem eru aðalmál þingsins? Voru menn að ræða um þessi mál á þeim grundvelli að það væri ágreiningur um að það ætti að gera stórátak í virkjunarmálunum? Nei.

Við sjálfstæðismenn bárum fram tillögu um stórátak í virkjunarmálunum sem þýddi að tvöfalda uppsett afl í vatnsvirkjunum landsins. Ríkisstj. kom með annað frv. nokkrum mánuðum síðar sem gekk út á það nákvæmlega sama. Það var enginn ágreiningur um þetta. Um hvað var ágreiningur, um hvað vorum við að tala? Við vorum að tala um orkunýtingarþáttinn. Við vorum að tala um hvernig ætti að skapa grundvöll fyrir þessu mikla átaki í virkjunarmálunum, hvernig ætti að skapa grundvöll fyrir þeirri hagnýtingu orkutinda landsins sem þetta þýddi. Það var þetta sem við vorum að ræða um. Svo koma menn hér og þykjast vera undrandi og hneykslaðir á því, að þessi mál ber á góma í umr. og tillögugerð varðandi virkjunarmálin. Ég vil bara minna þessa herra á það, að þessi mál voru í augum stjórnarandstöðunnar svo þýðingarmikil á síðasta þingi að stjórnarandstaðan gerði tilraun til að bæta frv. um raforkuver með því að bera fram margháttaðar brtt. til að tengja þessar framkvæmdir orkunýtingunni. Þessar brtt. voru felldar. Hvað þýddi það? Það þýddi að öll stjórnarandstaðan greiddi atkv. á móti lögum um raforkuver, sem þáltill., sem við erum nú að ræða, byggist á. Svo koma menn eins og álfar út úr hól og þykjast undrandi á því, að það sé eitthvert framhald af því sem gerst hefur í þessum málum. Það er furðulegt.

Ég held að ég eyði ekki fleiri orðum að þeim hv. 3. þm. Austurl. og 4. þm. Suðurl. og raunar 5. þm. Vestf. en ég hef þegar gert. Þess gerist ekki þörf. En hlutur iðnrh. hver er hann? Maður skyldi halda að hann hefði þó vitað hvað hefur farið fram í þessum málum á undanförnum mánuðum og misserum. Maður skyldi halda að hann vissi um hvað hann hefði verið að tala í umr. um orkumálin. Það vill svo til að ég hef líka verið mikið í þeim umr. og við höfum mjög skiptar skoðanir um þessi efni. Um hvað vorum við að deila? Við vorum að deila um stóriðju. Við vorum að deila um það sem menn segja núna að megi ekki minnast á. Við létum sem við værum sammála í virkjunarmálunum, og við létum líka sem við værum sammála um að við vildum báðir stóriðju. En hæstv. ráðh. hafði sínar skoðanir og sína stefnu um hvernig það ætti að framkvæma, ég hafði mína.

Nú þykist hæstv. ráðh. undrandi á því, að við hv. 3. þm. Vestf. berum fram brtt. sem felur í sér að tengja orkunýtinguna við byggingu raforkuveranna. Og hæstv. ráðh. — hvað á maður að kalla það, verðum við ekki að kalla það óskammfeilni — telur sér til inntekta í umr. áðan að í till. ríkisstj. er ein grein um stóriðjumálin. Hann harmar að atvmn. skuli hafa tekið þessa grein út, en í sömu andránni telur hann það ádeiluefni á okkur flm. þessarar brtt., að við komum inn á þetta sama efni, orkunýtinguna. Hvers konar umræður eru þetta? Ég bið menn að athuga hvað hér er að gerast.

Hæstv. ráðh. taldi sig hafa eitthvert skjól í því að benda á till. til þál. um iðnaðarstefnu sem hefði verið samþykkt í gær, — till. sem tiltekur ýmis atriði í 28 liðum varðandi iðnað, en í einum lið er minnst á stóriðju. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisvaldið stuðli að uppbyggingu fjármagnsfreks nýiðnaðar, m. a. orkufreks iðnaðar, er hagnýti innlenda orku og hráefni.“ (Iðnrh.: Lesa betur markmiðin með till.) Já, ég skal lesa betur. Ég ætlaði að hlífa hæstv. ráðh. við því, því ég veit hvaðan það er ætlað. „Leitað verði eftir samvinnu við erlenda aðila um einstaka þætti, eftir því sem nauðsynlegt og hagkvæmt er talið á hverjum tíma. Slíkur iðnaður taki mið af æskilegri atvinnu- og byggðaþróun og umhverfisvernd.“

Telur nú hv. þingheimur að það sé nægilega að gert í orkunýtingarmálunum með þessu innskoti í þessa till.? Við í stjórnarandstöðunni höfum lagt það mikla áherslu á þetta, að i okkar frv. um virkjanir var beinlínis tekið fram að ekki væri heimilt að hefja framkvæmdir við Austfjarðavirkjun nema búið væri að sjá fyrir orkunýtingunni með stóriðju. Við gerðum þetta til að tryggja sem best og búa sem best að framgangi þess máls, að það yrði um raunverulega Austurlandsvirkjun að ræða.

Ég ætla ekki að gerast langorður varðandi hæstv. iðnrh. sérstaklega. Ég held að ég sé búinn að sýna fram á hvílík fjarstæða það er sem lýsir sér í ummælum hans um brtt. okkar 3. þm. Vestf.

Hæstv. ráðh. var eitthvað að tala um að það ætti að draga brtt. til baka, draga það til baka sem frammi liggur um orkunýtinguna. Hvað er þetta sem menn eru að tala um að draga til baka? Við skulum koma beint að því. Hvað segir í brtt. um þetta? Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. skal gera ráðstafanir til þess, að komið verði á fót stóriðju til nýtingar þeirrar orku sem unnin verður í orkuverunum umfram þörf hins atmenna markaðar.“

Eru menn á móti þessu? Vilja menn virkja ef ekki er þörf á orkunni? Er svo komið? Vilja menn þá virkja? Ég óska eftir svari við þessari spurningu. Í framhaldi af þessu segir:

„Aðgerðum þessum skal hraðað svo sem verða má og þess gætt, að fullt samræmi verði á milli markaðsöflunar fyrir orku og virkjanaframkvæmda.“

Vilja menn ekki hafa samræmi þarna á milli? Hvað hefur komið yfir hv. alþm. sem eru að amast við þessu? Í öllum umr. um þessi mál hafa allir fram til þessa látið svo sem þeir væru sammála um þetta, við ættum ekki að virkja, nema við hefðum þörf fyrir orku, og ættum að gæta þess að hafa samræmi milli virkjanaframkvæmda og orkunýtingar. Er erfitt fyrir menn að samþykkja þetta sem grundvallarreglu? Ég óska svars við þessum spurningum? Hvað er það sem menn hafa á móti þessu?

Í raun og veru er ekki um neitt annað að ræða en þetta vegna þess að það eru ekki gerðar tillögur um breytingar á neinu því sem er í till. atvmn. Það er gert ráð fyrir að allt, sem kemur frá atvmn., standi, en þetta komi til viðbótar. Það er lágmarkskrafa að þeir, sem leggja svo mikið upp úr orkunýtingunni að þeir greiddu atkvæði á síðasta þingi gegn lögum um raforkuver vegna þess að ekki var nógu vel umbúið varðandi orkunýtinguna, það er lágmarkskrafa til ríkisstj. og hæstv. iðnrh. að hann gefi skýringu á því, hvers vegna þeir eru á móti þessu. Ég tala nú ekki um það á sama tíma sem afstaða þeirra er þessi þykjast þeir vera áfram um að ná samstöðu á Alþingi um þessi mál. Og mín síðasta spurning er: Hvers vegna er ekki hægt að ná samstöðu um orðun á orkunýtingunni samkv. því sem segir í þessari brtt.?