04.05.1982
Neðri deild: 82. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4620 í B-deild Alþingistíðinda. (4421)

111. mál, söluskattur

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það er ekki ætlun mín að ræða sérstaklega það mál sem hér er á dagskrá, ég er stuðningsmaður þess, en ræða hæstv. fjmrh. rak mig í ræðustólinn.

Það er athyglisvert að heyra hæstv. fjmrh. koma hér í ræðustól í hv. Nd. og segja að það mál, sem samþykkt var með öllum greiddum atkv. fyrr í kvöld, sé vitlausasta mál sem komið hafi til deildarinnar. (HBl: Vitlausara en dýralæknisfrv.) Jafnvel vitlausara en dýralæknisfrv., eins og hv. 7. landsk. þm. kallar hér fram í. Ég vil vekja athygli á þessum ummælum hæstv. ráðh., því að hér er gífurlegur áfellisdómur um hv. fjh.- og viðskn. Nd. og formann þeirrar nefndar, hvað þá um 1. flm. þessa frv., sem er skrifari þessarar hv. deildar og hefur barist fyrir þessu máli með oddi og egg, svo sem öllum hv. þm. er kunnugt. Slíkur dómur segir þó nokkra sögu um það sem hefur verið að gerast hér að undanförnu. Ég rifja það jafnframt upp, að hæstv. ráðh. kom hér í ræðustól við 2. umr. þess máls, þessa vitlausa máls sem hann kallar svo, og sagðist vera á móti málinu, enda hefði ekki verið haft samráð við hann um afgreiðslu þess.

Í öðru lagi sagði hæstv. ráðh. að erfitt væri að breyta skattkerfinu á þann veg að innheimta virðisaukaskatt í stað söluskatts þar sem innheimta yrði þá á fleiri höndum. Ég vil spyrja hæstv. ráðh. hve mikið ríkið greiði þeim sem reikna út söluskatt og standa skil á honum. Er það mikill kostnaðarauki fyrir ríkissjóð? Hefur ríkissjóður greitt þessum innheimtumönnum ríkissjóðs mikið fé? Ég hef ekki orðið var við það.

Í þriðja lagi vil ég minna hæstv. ráðh. á það, að í gær var samþykkt þáltill. hér á hv. Alþingi um iðnaðarstefnu sem allir stjórnmálaflokkar stóðu að, þ. á m. Alþb., flokkur hæstv. fjmrh., og í þeirri till. stendur skýrum stöfum að kannað skuli hvort taka beri upp virðisaukaskatt. Og þetta orðalag er sótt í stjórnarsáttmála núv. hæstv. ríkisstj. Ekki sá hæstv. ráðh. ástæðu til að breyta orðalagi þessarar þáltill., sem þó var borin undir atkv. að ég hygg í þingflokki Alþb. A. m. k. hafði fulltrúi Alþb. í hv. atvmn. umboð til þess að ganga frá málinu, og hæstv. iðnrh. sá sérstaka ástæðu til þess í umr. hér í gær að þakka hv. atvmn. fyrir þetta starf hennar. (Fjmrh.: Er þetta ekki ágætt orðalag?) Orðalagið væri ágætt, það er rétt hjá hæstv. ráðh., ef slík könnun ætti að fara fram. Auðvitað hlýtur að vera ætlast til þess, að hæstv. ríkisstj. láti slíka alvörukönnun fara fram, en láti ekki sitja við þau orð hæstv. fjmrh., sem hann ítrekaði hér áðan, að það væri ekki tímabært að breyta söluskatti í virðisaukaskatt á meðan ekki liggja fyrir haldbærari upplýsingar en hann hefur lýst hér á fundum hv. deildar tvívegis. Það eru undarleg vinnubrögð að hleypa í gegn og gera ekki athugasemdir við einstakar þáttill., sem fjalla um það að kanna þurfi ákveðin atriði, og koma svo upp í ræðustól örstuttu síðar og segja að þetta sé mál sem sé orðið úrelt.

Herra forseti. Ég vildi vekja athygli á þessi máli þótt það komi ekki beinlínis umræðuefninu við. Ég sá fulla ástæðu til þess að koma hér upp í ræðustól hv. deildar og undirstrika þessi ummæli hæstv. ráðh. um frv. sem hv. deild var að enda við að afgreiða með öllum greiddum atkv. í nafnakalli, að hann skuti láta þann áfellisdóm falla að þetta sé vitlausasta mál sem komið hafi fram á hv. Alþingi í vetur.