05.05.1982
Efri deild: 87. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4757 í B-deild Alþingistíðinda. (4568)

279. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að þessu sinni að hafa mörg orð um það frv. sem hér er til umr. Til þess gefst miklu betra tækifæri síðar, þegar málið kemur frá hv. iðnn. þessarar deildar, en þá er auðvitað nauðsynlegt og sjálfsagt að hér fari fram ítarleg umr. um málið. Einkanlega verður þá t. d. fróðlegt að gera samanburð á málflutningi hv. talsmanna Alþb. frá því að járnblendiverksmiðjan á Grundartanga var hér til meðferðar á Alþingi fyrir fáeinum árum. Sá samanburður mun leiða ýmislegt athyglisvert í ljós að ég hygg. Ég mun sem sagt geyma mér að mestu að ræða þetta mál efnislega þar til 2. umr. fer fram.

En það voru örfá atriði, einkanlega kannske fáeinar spurningar sem mig langaði til að beina til hæstv. iðnrh., sem urðu þess valdandi að ég kvaddi mér nú hljóðs. Mér þótti það ekki rétt til orða tekið þegar hæstv. ráðh. viðhafði þau orð, að það væri ekki ástæða til að mæla jafnítarlega fyrir þessu frv. í þessari hv. deild og gert hefði verið í Nd. Ég held að það sé nákvæmlega jafnrík ástæða til að gera ítarlega grein fyrir málum hér eins og þar — ekki síður.

Um þau vinnubrögð, sem okkur er ætlað að viðhafa í þessu máli, vildi ég fara nokkrum orðum. Hæstv. ráðh. sagði í dag að hann vonaðist til að málið fengi þinglega meðferð í þessari deild. Þá voru, að því er ég best veit, uppi áætlanir um það af hálfu hæstv. ríkisstj. að þessu þingi lyki um miðjan dag á morgun. Á þeim tíma hefði ekki verið hægt að láta þetta mál fá þinglega meðferð samkv. þeim vinnureglum sem tíðkast á hinu virðulega Alþingi. Þar að auki finnst mér að hv. þm. hafi látið teygja sig fulllangt í því að afgreiða mál athugunarlítið, ef ekki næstum því athugunarlaust þessa síðustu daga þingsins. Ég minni á það þegar einn hv. þm. mælti fyrir þáltill., sem var hálf önnur lína, í Sþ. eitt kvöldið nú í vikunni og kvað svo að orði, að nefndin mælti með samþykkt till. með þessum hætti þar sem ekki hefði gefist neinn tími til að athuga málið. Svona vinnubrögð eru auðvitað til háðungar fyrir þingið. Nú höfum við, ætla ég, álíka langa þingreynslu, hæstv. iðnrh. og ég. Hins vegar átti hann því að fagna, ef svo má til orða taka, að gerast ráðh. um leið og hann settist á þing. Þar af leiðandi hefur hæstv. iðnrh. misst af þeirri reynslu að starfa í þingnefndum. Þess vegna verð ég að segja það með fullri virðingu fyrir hæstv. iðnrh., og raunar á það við um fleiri ráðh. einnig, að mér finnst þeir fulltilætlunarsamir um að nefndir þingsins afgreiði mál á skömmum tíma. Ég hygg að það sé einfaldlega vegna þess, að af eigin reynslu þekkja þeir lítt eða ekki til starfa þingnefnda. Ég hygg raunar að það sé mjög óheppilegt fyrir þingmenn að verða ráðherrar um leið og þeir eru kjörnir til þingsetu. En um það má auðvitað deila.

Mér finnst ekki hægt að ætlast til að þessi hv. deild afgreiði þetta stórmál á svo skömmum tíma sem kröfur eru nú um gerðar. Til þess hlýtur að þurfa meiri tíma. Það er beinlínis óvirðing við þm. og við Alþingi að ætlast til þess að stórmál á borð við frv. það, sem hér um ræðir, sé hespað af á skömmum tíma. Alþingi liggur oft undir því að vera kallað afgreiðslustofnun. Ef þetta frv. verður afgreitt með þeim hætti sem ríkisstj. óskar eftir, þá er það sannmæli að Alþingi sé afgreiðslustofnun. Þess vegna má það ekki gerast. Þess vegna verður þessi hv. deild og sú hv. nefnd, sem fær þetta mál til umr., að fá eðlilegan tíma til að fjalla um málið. Það hefur verið mikið af því gumað, hversu vel þetta mál væri undirbúið. En frá því að hæstv. iðnrh. lagði frv. fram um páskaleytið, að ég hygg, hefur það tekið mjög miklum breytingum. Það hefur tekið mjög miklum breytingum sem sumar hverjar eru vissulega til bóta. Mér sýnist það bera vott um að málið hafi kannske ekki verið allt of vel grundað þegar það var fram lagt. Það er allt annað frv., sem við erum hér nú að ræða, en það sem hæstv. ráðh. lagði fram. Þess vegna fullyrði ég að þetta mál var langt frá því að vera jafnvel undirbúið og fullyrt hefur verið hvað eftir annað. Í öðru lagi hef ég lítillega kynnt mér þær umsagnir sem borist hafa hv. iðnn. Nd. Þar eru mörg spurningarmerki. Þar er margur efi látinn í ljós. Það er bent á margt sem óljóst er og ekki talið nægilega vel undirbúið. Ég ætla ekki við þessa umr. málsins að fjalla nánar um það. Ég mun hins vegar gera það þegar málið kemur til 2. umr.

Eins og ég sagði áðan ætla ég ekki að tala hér langt mál að þessu sinni. En eitt eða tvö atriði langaði mig að spyrja hæstv. iðnrh. um.

Ég minnist þess, að þegar járnblendiverksmiðjan á Grundartanga var hér til umr. var mengunarhættan frá henni mjög ríkur þáttur í ræðum allra flokksbræðra hæstv. iðnrh. Ég man að hv. þáv. þm. Jónas Árnason talaði um eiturgufurnar sem þessi verksmiðja ætti eftir að spúa yfir íbúa héraðsins. Hann fór um það töluvert litskrúðugum orðum. Nú er það svo að vel hefur tekist til með mengunarvarnir að Grundartanga, en þeir, sem séð hafa þegar hleypa verður reyknum fram hjá hreinsitækjunum, sem kemur fyrir vegna bilana — þó blessunarlega sjaldan, geta staðfest að það er næsta óhugnanleg sjón, að ekki sé sterkar til orða tekið. Því velkist ég nokkuð í vafa um það, hvaða ástæður eru að baki þeirri ákvörðun að velja þessari fyrirhuguðu verksmiðju endilega stað á Reyðarfirði þar sem er oft logn. Ég hygg að reynsla ýmissa grannþjóða okkar, sérstaklega kannske Norðmanna, af að staðsetja slíkar verksmiðjur inni í þröngum fjörðum sé ekki góð. Nú skal ég játa það, að ég hef ekki lesið enn þá öll þau gögn sem fram hafa verið lögð í þessu máli. Það vantar ekki að lagt hafi verið fram mikið af gögnum, en það er ekki þar með sagt að undirbúningurinn hafi verið vandaður — engan veginn. Og ég hef ekki séð þær sterku röksemdir sem hljóta að liggja að baki þeirri ákvörðun að setja þessa verksmiðju á Reyðarfjörð. Það hefur, hygg ég, komið fram í umræðum, að stofnkostnaður er meiri þar en á ýmsum öðrum stöðum sem mætti hugsa sér. Verksmiðjan væri hagkvæmari annars staðar, mundi skila meiri arði. Þar að auki sé ég að í þeim gögnum, sem lögð voru fyrir hv. iðnn. Nd., er tilskrif frá Heilbrigðiseftirliti ríkisins þar sem segir svo, með leyfi forseta:

„Við val og staðsetningu verksmiðja og iðjuvera er mikilvægt að fyrir liggi athuganir sem sýni að staðsetning sér forsvaranleg út frá mengunar- og heilbrigðissjónarmiði. Enn fremur er mikilvægt að fylgst sé með hugsanlegum mengunaráhrifum frá verksmiðjurekstrinum eftir að starfsemi er hafin.

Varðandi staðarval á Reyðarfirði fyrir kísilmálmverksmiðju hafa ekki farið fram nauðsynlegar forrannsóknir til að ganga úr skugga um að staðsetning hennar megi teljast forsvaranleg. Atkvæði 2. málsgr. 10. gr. frv. um mengunarvarnir virðast því litlum tilgangi þjóna þar sem staðsetning verksmiðjunnar hefur verið ákveðin án þess að áður hafi verið gengið úr skugga um að hún væri forsvaranleg út frá mengunar- og heilbrigðissjónarmiði.“

Ef þetta er ekki að fara aftan að hlutunum, þá veit ég ekki hvað það er, vegna þess að ég sé ekki betur en að fyrst hafi verið ákveðið að verksmiðjan ætti að vera á Reyðarfirði og síðan skuli rannsakað. Auðvitað hefði átt að fara aðra leið. Það hefði átt að framkvæma rannsóknirnar fyrst, og það kannske á fleiri en einum stað, og ákveða síðan staðarval verksmiðjunnar. (TÁ: Þetta er svo augljóst fyrir austan.) Já, það er eins og ég sagði áðan — ég held að hæstv. ráðh. hafi ekki verið kominn í salinn — að á Reyðarfirði er oft logn og kannske oftar en víða annars staðar á landinu. Og það er ekki það ákjósanlegasta þegar um er að ræða verksmiðjur sem valda mengun. Auk þess eru sjálfsagt ýmsir aðrir staðir sem gætu verið hagkvæmari, m. a. með tilliti til hafnarmannvirkja, vatnsveitu og annarra hluta. Ég veit auðvitað að hv. þm. Austurlands- sérstaklega þó þeir sem eru ráðherrar — hafa ríka tilhneigingu til að sjá mikla kosti við þetta staðarval, og ég lái þeim það svo sem ekkert. Hér virðast allir horfa fyrst og fremst á eigin kjördæmi og sjá ekki út fyrir Enni og inn fyrir Höfða, eins og sagt var um einn ágætan þingmann. En ég held að þegar um er að ræða fjárfestingu af þessu tagi þurfi menn að hafa svolítið önnur sjónarmið í huga en kjördæmissjónarmiðin ein. Þau hafa vissulega sitt vægi og sitt gildi, ekki neita ég því. En á því, sem ég hef sagt hér um umhverfismálaþáttinn, vildi ég gjarnan fá að heyra álit hæstv. iðnrh. Nú veit ég að hann er manna mestur áhugamaður um náttúruvernd og hefur unnið mjög ötullega að þeim málum, og hann á virðingu mína fyrir það. Þess vegna koma mér þessi vinnubrögð enn þá meira á óvart, vegna þess að ekki hefur að minni hyggju verið staðið að þessum þætti málsins eins og ákjósanlegt hefði verið. Og ég vil nú vera svo velviljaður að telja að það stafi ekki af viljaskorti hæstv. ráðh., heldur af því að svo brýna nauðsyn er talið bera til að hraða þessu öllu að menn hafa hreinlega ekki gefið sér tíma til að sinna þessum nauðsynlega þætti málsins. En ég held að í þessum efnum sé flas ekki til fagnaðar frekar en endranær. Og enn hnígur þetta að því að málið hefur ekki verið nægilega vel undirbúið. Ég vil sem sagt gjarnan fá að heyra þau sterku rök sem hníga að því, að Reyðarfjörður var valinn umfram aðra staði.

Það er eitt og annað sem mætti gera hér að umtalsefni líka. Ég sé að í frv. er gert ráð fyrir að selja kristfjárjörð eða jarðir. Ég hygg að hv. þm. Einari Olgeirssyni hefði á sinni tíð ekki líkað það vel. Hann flutti langar ræður af því tilefni á Alþingi í eina tíð, þegar var verið að ráðstafa eignum Jesú Krists, eins og hann orðaði það. Þennan þátt málsins ætla ég þó ekki að ræða hér. En af því að komið var hér að öðru máli og beint spurningum til hæstv. ráðh., sem hann sjálfsagt svarar hér á eftir, — það var varðandi eitt og annað í sambandi við Kröflu, — þá vildi ég bæta þar einni spurningu við. Frá því var skýrt nýlega í næsta yfirborðslegu viðtali, sem flutt var í Ríkisútvarpinu, að bora ætti þrjár holur við Kröflu í sumar. Þá vildi ég spyrja í fyrsta lagi: Hvað er áætlað að þær framkvæmdir kosti? Í öðru lagi: Hvað þurfa þessar holur að skila mikilli orku til að borga þann kostnað — við skulum segja á fimm árum? Ég ætlast ekki til að hæstv. ráðh. svari þessu núna. En ég hygg að meðalaldur þeirra hola, sem boraðar hafa verið við Kröflu, hafi ekki alltaf verið mjög margir mánuðir. Það væri sömuleiðis fróðlegt að fá að heyra það rifjað upp, hversu margar holur þarna hafa verið boraðar, hversu miklu þær skili hver um sig og hve margar þeirra séu ónýtar. En ég er ekki að ætlast til að því sé svarað núna. Ég geri mér grein fyrir því, að um það þarf að afla upplýsinga.

Ég ætla þá ekki við þessa umræðu málsins, herra forseti, að fara um það fleiri orðum því að ég veit að til þess gefst miklu betri tími þá daga sem málið verður til umfjöllunar í þessari hv. deild.