06.05.1982
Sameinað þing: 89. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4806 í B-deild Alþingistíðinda. (4606)

149. mál, virkjunarframkvæmdir og orkunýting

Páll Pétursson:

Herra forseti. Við erum hér á nokkrum vegamótum. Afgreiðslu vandasamra átakamála er að ljúka hér á Alþingi. Við landverndarmenn fyrir norðan komum hins vegar til með að fylgjast nákvæmlega — mjög nákvæmlega — með virkjun Blöndu. Ég treysti því að samskipti okkar við Landsvirkjun verði góð og okkur verði sýnd kurteisi, lipurð og samkomulagsvilji, og við hlökkum til þeirra umskipta sem í því felast, að Landsvirkjun taki við samningagerð og framkvæmdum við Blöndu sem virkjunaraðili, og væntum hins besta af þeirri breytingu og siðmannlegra samskipta Landsvirkjunar við Húnaþing og Húnvetninga og Skagfirðinga.

Ég tel að niðurstaða atvmn. að athuguðum bókunum nm., ályktun ríkisstj. og þingflokks Framsfl. leiði til farsællar niðurstöðu, þeirrar að við Blöndu rísi skynsamleg virkjun. Því er slegið föstu að mínum dómi, að miðlunarrými verði 220 gígalítrar í upphafi. Ég kann atvmn. þakkir fyrir viturlegt orðalag og alþm. mörgum fyrir góðvild í garð landsins og skilning á því, að það beri að umgangast það með virðingu.

Ég vona svo að Húnvetningar beri gæfu til að bregðast við með þeim hætti, að virkjunarumsvifin ríði ekki öðru atvinnulífi í héraðinu að fullu, og ég segi já við þessari brtt.