07.05.1982
Neðri deild: 88. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4896 í B-deild Alþingistíðinda. (4668)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hinn 16. mars s. l. lögðu nokkrir þm. undir forustu hv. þm. Árna Gunnarssonar fram beiðni hér á Alþingi til fjmrh. að hann flytji Alþingi skýrslu um mat á eignum Iscargo hf. sem Arnarflug hf. hefur fest kaup á. Eftir að þessi beiðni hafði komið fram ritaði fjmrn. Flugleiðum hf., en eins og kunnugt er er ríkissjóður stór eignaraðili að því félagi. Í þessu bréfi beindi fjmrn. þeim tilmælum til Flugleiða hf., að félagið færi þess á leit við stjórn Arnarflugs, að veittar yrðu nauðsynlegar upplýsingar sem gætu orðið efniviður í nefnda skýrslu. Þess var einnig getið, að í lok greinargerðar með beiðninni hefði þess verið óskað, að í skýrslunni kæmu fram upplýsingar um greiðsluþol Arnarflugs hf., og tekið var fram að fjmrn. treysti sér ekki til að leggja neinn dóm á greiðsluþol fyrirtækisins utan þess sem lesa mætti úr ársreikningum fyrirtækja og óskaði því að leitað yrði heimildar stjórnar Arnarflugs hf. um að greina mætti frá efnahags- og rekstrarreikningi ársins 1981 í téðri skýrslu.

Þetta bréf var sent til Flugleiða hf. 25. mars. Síðan barst fjmrn. bréf frá Flugleiðum hf. 31. mars þar sem greint var frá því, að umbeðin beiðni hefði verið framsend til stjórnar Arnarflugs hf. 15. apríl s. l. fær rn. síðan bréf frá Flugleiðum þar sem í fyrsta lagi var minnt á fyrri bréfaviðskipti og að Flugleiðir hf. hefðu óskað eftir því, að þetta mál yrði tekið fyrir á næsta reglulegum stjórnarfundi Arnarflugs hf. 5. apríl 1982. Í þessu bréfi er skýrt frá því, að stjórnarformaður Arnarflugs hafi ekki boðað stjórnarfund 5. apríl og þrátt fyrir ítrekuð tilmæli hafi stjórnarformaður Arnarflugs hf. ekki fengist til að boða stjórnarfund. En svo segir hér í bréfinu: „Strax og stjórnarfundur verður haldinn í stjórn Arnarflugs hf. munum við tilkynna fjmrn. um framgang málsins.“

Þetta var 15. apríl s. l. Með þessu bréfi fylgdi afrit af bréfi Flugleiða frá 31. mars 1981 til stjórnarformanns Arnarflugs hf.

Jafnhliða þessu fékk fjmrn. í hendur öll þau gögn málsins sem Flugleiðir höfðu dregið saman, en það voru að sjálfsögðu takmarkaðar upplýsingar og gátu alls ekki orðið grundvöllur að mati á eignum Iscargo hf. eða orðið svar við þeirri beiðni sem hér hafði verið lögð fram. Ég vil láta þess getið, að hv. þm. Árni Gunnarsson fékk öll þessi gögn í hendur strax eftir að þau bárust fjmrn.

Hinn 26. apríl s. l. fékk svo fjmrn. í hendur nýtt bréf frá Flugleiðum þar sem fylgir ljósrit af bréfi frá stjórn Arnarflugs til Flugleiða, en það bréf hafði verið sent þá nokkrum dögum áður eða 19. apríl. Í þessu bréfi kemur fram eftirfarandi, með leyfi forseta, en bréfið er undirritað af stjórnarformanni Arnarflugs hf., Hauki Björnssyni:

„Þótt ríkissjóður sé hluthafi í Flugleiðum hf. og Flugleiðir hf. eigi 40% hlutafjár í Arnarflugi hf. skapar það engin bein lagaleg eða hagsmunaleg tengsl milli ríkissjóðs og Arnarflugs hf. fremur en milli annarra einstakra hluthafa í Flugleiðum hf. og Arnarflugi hf. Hvorki ríkissjóður né aðrir hluthafar í Flugleiðum hf. eigi því rétt eða kröfu á hendur Arnarflugi hf. um að félagið veiti upplýsingar viðskiptalegs eðlis. Beiðni Árna Gunnarssonar og fleiri þm. Alþfl. um skýrslu frá fjmrh. um mat á eignum Iscargo hf., sem Arnarflug hf. hefur fest kaup á, er því byggð á misskilningi að þessu leyti.“

Enn fremur segir í þessu bréfi Arnarflugs til Flugleiða hf., með leyfi forseta:

„Einstakir hluthafar í Arnarflugi hf., þar á meðal Flugleiðir hf., geta hins vegar samkv. 74. gr. hlutafélaga, nr. 32/1978, á hluthafafundum í Arnarflugi hf. farið fram á upplýsingar um þau málefni sem skipta máli um mat á ársreikningi félagsins og stöðu þess að öðru leyti, og skulu slíkar upplýsingar þá veittar á fundinum eða í kjölfar hans ef slíkt má verða án tjóns fyrir félagið að mati félagsstjórnar. Upplýsingar þær, sem umrædd lagagrein fjallar um, eru ætlaðar hluthöfum í viðkomandi hlutafélagi, en ekki utanaðkomandi aðilum. Auk þessa réttar almennra hluthafa á hluthafafundum eiga einstakir stjórnarmenn í hlutafélögum, þ. á m. í Arnarflugi hf., að sjálfsögðu rétt á upplýsingum um öll viðskipti, samninga og greiðslustöðu viðkomandi hlutafélags, en það, sem rætt er og upplýst á stjórnarfundum, er þó trúnaðarmál.

Að því er varðar upplýsingar um greiðsluþol og ársreikninga Arnarflugs hf. skal athygli enn fremur vakin á 105. gr. hlutafélagalaganna, nr. 32/1978, þar sem segir að eigi síðar en mánuði eftir samþykkt ársreiknings skuli staðfest endurrit hans ásamt endurskoðunarskýrslu hafa borist til hlutafélagaskrár, og í 145. gr. 2. mgr. sömu laga segir að ráðh. (viðskrh.) sé heimilt að veita almennan aðgang að hlutafélagaskrá, þar með töldum reikningum hlutafélaga.“

Loks segir — með leyfi forseta — í lok þessa bréfs frá Arnarflugi hf.:

„Þrátt fyrir það, sem að ofan segir, lýsir stjórn Arnarflugs hf. sig reiðubúna til að senda rn. efnahags- og rekstrarreikning ársins 1981 ásamt skýrslu stjórnar jafnskjótt og aðalfundur félagsins, sem halda skal fyrir maílok, hefur afgreitt hann og jafnframt að heimila rn. að greina frá téðum gögnum í fyrirhugaðri skýrslu sinni.“

Ég hef hér gert grein fyrir þeim bréfaskiptum, sem fram hafa farið út af þessu máli, og nú seinast svari Arnarflugs við þeirri beiðni sem borin var fram í gegnum stjórn Flugleiða hf. vegna þessa máls. Ég þarf ekki að orðlengja það, að fyrirliggjandi gögn, sem aflað hefur verið, eru engan veginn nægur grundvöllur fyrir fjmrn. til þess að hægt sé að framkvæma mat á eignum Iscargo hf. sem Arnarflug festi kaup á, og ekki er heldur um það að ræða, að unnt sé að meta fjármálalega stöðu Arnarflugs hf. fyrr en reikningar þeir, sem nefndir voru, hafa borist. Ég treysti mér því ekki til að gera þessu máli frekari skil áður en Alþingi lýkur störfum sínum. En ég er að sjálfsögðu reiðubúinn að senda hv. þm. Árna Gunnarssyni og öðrum þm., sem þess kynnu að óska, þau gögn sem berast um þetta mál síðar, en af bréfi Arnarflugs hf. má ráða að varla verði von á viðbótargögnum í málinu fyrr en í næsta mánuði.