16.11.1981
Neðri deild: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í B-deild Alþingistíðinda. (560)

16. mál, verðlag

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Frv það, sem hér er til umræðu, fjallar um aðferðir í sambandi við gerð og ákvörðun verðtaxta ýmissar þjónustu. Ég ræddi við Verðlagsstofnun og verðlagsstjóra um þessi mál, þegar þetta frv. var flutt hér og ég hafði lesið það og kynnt mér það, og vil láta koma fram nokkur atriði sem mér finnst að eigi erindi inn í þessa umr. áður en frv. fer til meðferðar í þingnefnd. Sumt af því hefur raunar þegar komið fram í framsöguræðu fyrsta flm. frv.

Þetta frv. veitir verðlagsyfirvöldum í raun og veru ekki rýmri heimildir til eftirlits með gjaldskrám og verðtöxtum, sem settar eru einhliða af einstökum stéttum eða þjónustuaðilum, fyrirtækjum eða öðrum einkaaðilum, en þegar er að finna í 1. mgr. 2. gr. og 8. gr. núgildandi verðlagslaga. Þess vegna er e. t. v. óþarfi að setja nýja grein í lögin eins og frv. felur í sér. Að vísu er í frv. talað um sérstaki eftirlit með þessum aðilum og allnákvæmlega útskýrt, en sennilegt er að þetta gangi í berhögg við uppbyggingu laganna. Þá er ég að tala um lög um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahæti, en þau eru hugsuð sem rammalöggjöf með heimildum til að grípa inn í verðmyndunina eftir því sem verðlagsyfirvöld telja þörf á hverju sinni. Í frv., er verið að kveða á um bein verðlagsákvæði, en það samræmist vart þeirri þróun sem að hefur verið stefnt í verðlagskerfinu að undanförnu.

Þetta frv. beinist að þeim stéttum sem hafa menntun á hærra stigi, ef svo mætti að orði komast. Eftirlit með verðtöxtum þessara aðila hefur að undanförnu falist í því að fylgjast með breytingum á töxtunum, að þeir séu í samræmi við almennar kostnaðarhækkanir, en að öðru leyti hafa verðlagsyfirvöld lítil afskipti haft af þeim. Er það alveg rétt, sem kom fram í framsöguræðu fyrsta flm. frv., að taxtagrunnurinn hefur ekki verið kannaður. Er ástæðan sú, að verðlagsyfirvöld hafa ekki haft sérhæfðan mannafla til að sinna því verkefni.

Í frv. er réttilega bent á, að þarna hefur verið um vissa mismunun að ræða. Sumir þessara aðila hafa getað skammtað sér hærri laun en getur talist eðlilegt að mínu mati. En það hefur sýnt sig í nágrannalöndunum að lagfæring á þessum málum er ekki einföld viðureignar.

Það er skoðun Verðlagsstofnunar, að ef fjárveitingavaldið er reiðubúið til að auka fjárveitingar til Verðlagsstofnunar frá því, sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. fyrir næsta ár, yrði því fjármagni vel varið til að sinna eftirliti með þeim verðtöxtum sem frv. gerir ráð fyrir. Að mati stofnunarinnar þyrfti ekki mjög háa fjárhæð til að sinna verkefninu, miðað við að verðmyndun hjá einni stétt sé könnuð í einu. En Verðlagsstofnun treystir sér ekki til þess að fara út í jafnumfangsmiklar athuganir á flóknum töxtum og hér um ræðir nema henni verði gert kleift að kalla til sérfræðingaaðstoð í miklu ríkari mæli en hún hefur nú efni á. Ég er þeirrar skoðunar, að það þurfi að athuga um fjárveitingar sérstaklega í þessu skyni.

Verðlagsstofnun hefur í hyggju að hefja athugun á verðmyndun hjá tannlæknum og kanna jafnframt samkeppni í greininni. Enn fremur er nauðsyn á að athuga fleiri þætti þessara mála, svo sem skattamál. Er eðlilegt að Verðlagsstofnun hafi nána samvinnu við skattayfirvöld í sambandi við þau mál. Að lokinni þeirri athugun yrði svo að meta hvort og hvernig grípa skuli inn í þessi mál.

Ég taldi rétt að þessar athugasemdir kæmu fram hér við 1. umr. Ég er hv. flm. algerlega sammála um að verðtaxtar t. d. hjá tannlæknum eru óhóflega háir í sumum tilvikum. Ég skal ekki alhæfa þetta, ég treysti mér ekki til þess, það er sjálfsagt nokkuð misjafnt, en þeir eru óhæfilega háir og ástæða til að samfélagið láti athuga það í miklu ríkari mæli en gert hefur verið. Er þá einnig ástæða til að athuga með hverjum hætti almannatryggingar eiga að koma inn í þetta mál, eins og var hér til umr. um síðasta dagskrármál.

Ég er sammála flm. um þann tilgang sem felst í frv., en ég er ekki viss um að það sé ástæða til að leysa málið með þeim hætti að setja lagaákvæði í þessu efni, eins og frv. gerir ráð fyrir, heldur mætti freista þess að leysa málin með þeim hætti sem ég var að rekja hér áðan og getur falist í þeim lagaramma sem þegar er fyrir hendi. Það vantar fjármagn og það vantar sérfræðilega aðstoð. Ég er þeirrar skoðunar, að það komi fremur til greina að leysa þessi mál þannig en að lögfesta með þeim hætti sem frv. gerir ráð fyrir.