17.11.1981
Sameinað þing: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 827 í B-deild Alþingistíðinda. (616)

331. mál, gróði bankakerfisins

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það má til sannsvegar færa að fyrirspyrjandi sé hv. 4. þm. Suðurl., en fyrir nokkru þurfti ég að bregða mér frá um stundarsakir til að sinna alþjóðamálum á snærum utanríkisþjónustunnar og í fjarveru minni sinnti varamaður minn, Baldur Óskarsson, þingstörfum. Meðal annarra ávaxta af þeim störfum er fsp. sem hann hefur leyft sér að flytja og beinir má(i sínu til hæstv. viðskrh. Þetta mál hans mun ég flytja. (Gripið fram í.) Hv. þm. er órólegur því að það komst upp að hann hafði ekki fengið að sofa í flugmóðurskipinu.

Herra forseti. Það er nú nokkuð um liðið síðan þessi fsp. var lögð fram og ýmislegt af því, sem þar er spurt um, hefur þegar verið upplýst í umr. á Alþingi og annars staðar í fjölmiðlum. Engu að síður er mikilvægt að fá svör við þeim spurningum sem hér eru lagðar fram. Það kemur m. a. til af því, að fram hefur komið að útflutningsatvinnuvegirnir eigi nú við rekstrarerfiðleika að etja og því skýtur nokkuð skökku við að heyra í umr. hér á Alþingi og annars staðar í þjóðlífinu að á sama tíma raki banka- og sjóðakerfið saman miklum gróða og þá einkum Seðlabanki Íslands. Nú er það ekki hlutverk bankanna að stunda gróðarekstur, heldur eiga þeir að vera tæki til að þjóna landsmönnum og atvinnulífinu og standa undir heilbrigðum rekstri atvinnuvega landsmanna.

Í bankakerfinu hér á landi hefur Seðlabankinn sérstöðu, en hann er þjónustutæki ríkisstj. á hverjum tíma varðandi efnahagsstefnu og stjórn peningamála. Seðlabankinn á ekki sjálfur að taka þátt í beinum rekstri og auðvitað enn þá fráleitara að hann sé að safna gróða á kostnað atvinnuveganna og kostnað þeirra vinnulauna sem því fólki ber sem framleiðsluna skapar. Þessi fsp. um gróða bankanna er hér borin fram til að hæstv. bankamálaráðh. upplýsi hvernig þessu er í raun og veru varið. Þetta mál er mjög þýðingarmikið fyrir afkomu atvinnuveganna og um leið þróun kaupgjaldsmála í landinu.

Nú háttar svo til að Seðlabankinn er orðinn æðifyrirferðarmikill í þjóðlífinu og miklu fyrirferðarmeiri en hliðstæðir bankar í öðrum löndum. Seðlabankinn hefur t. a. m. leyfi til að binda verulegt fé innlánsstofnana og hefur bindiskyldan numið 28% af innlánsaukningu banka og sparisjóða. Nýlega var svo þessi bindiskylda aukin um 5% til viðbótar, en þannig er um hnútana búið varðandi þessa viðbót að hún er lögð á allt innlánsfé bankanna þannig að þessi binding er því umtalsvert meiri en lánað er til endurkaupa út á framleiðsluna.

Það, sem er undarlegt varðandi Seðlabankann, er að hann annast alla sína endurskoðun sjálfur. Allir aðrir bankar og sparisjóðir hafa endurskoðendur og lúta auk þess lögum um bankaeftirlit, en bankaeftirlitið er ein deild í Seðlabankanum. Þar er um strangt eftirlit að ræða varðandi innlánsstofnanir, eins og er auðvitað sjálfsagt mál, en aftur á móti er ekkert eftirlit með Seðlabankanum sjálfum af utanaðkomandi aðila, hvorki Alþingi né óháðum endurskoðunaraðila, enda beinlínis ráð fyrir því gert í lögum um Seðlabankann að hann endurskoði sjálfan sig. Þetta er auðvitað óviðunandi, ekki síst vegna þess að Seðlabankinn hefur sterka tilhneigingu til að draga til sín fjármagn og vald og vill vera dómari í eigin málum.

Á tímum tíðra gengisbreytinga, hvort heldur er um að ræða gengisfall eða gengissig, þekkjum við það vel, að ýmsir aðilar, jafnt í atvinnurekstri sem annars staðar, verða fyrir miklum fjárhagslegum skakkaföllum af völdum gengistaps. Á sama hátt fá þeir, sem eiga mikinn gjaldeyri, hagnað. Það á auðvitað einnig við um Seðlabankann, enda hefur hann bæði nú og fyrr fallist á að skila hluta af slíkum hagnaði. Einmitt af þessum sökum verður að fara fram mjög ítarleg, hlutlaus og fagleg rannsókn á því, hver þessi hagnaður Seðlabankans er og hver rekstrarhagnaður bankans er að öðru leyti.

Nú hef ég fengið að sjá hluta af gögnum sem stór útflutningssamtök í landinu hafa tekið saman um afkomu Seðlabankans og ríkisbankanna, en þessi gögn eru unnin af endurskoðanda og mönnum sem vel þekkja til bankarekstrar. Niðurstöður þessara rannsókna eru allar byggðar á reikningum Seðlabankans sjálfs. Það má því ætla að þar komi ekki öll kurl til grafar, en það, sem kemur í ljós, er býsna athyglisvert. Hagnaður ríkisbankanna einna 1980 var samkv. þessum gögnum 30.2 milljarðar gkr. og af þessari upphæð var hagnaður Seðlabankans 22.9 milljarðar gkr. Hagnaður, miðað við að halda við eigin fé í 54.9% verðbólgu, væri 12.3 milljarðar gkr. Nemur því hagnaður ríkisbankanna 1980 17.9 milljörðum gkr. umfram verðbólgustig.

Það eru ekki margir í rekstri sem geta státað af slíkum tölum. Forsvarsmenn frystihúsanna telja að þau séu rekin með 9% halla. Miðað við áætlanir Þjóðhagsstofnunar um útflutning freðfisks nema þessi 9% milli 16 og 18 milljörðum gkr. eða upphæð sem er langt innan þeirra marka sem gróði Seðlabankans var s. l. ár. Það er því eðlileg krafa að bankinn skili aftur til útflutningsframleiðslunnar óeðlilegum umframgróða. Þessi gróðasöfnun bankakerfisins á m. a. þátt í þeim erfiðleikum, sem framleiðsluatvinnuvegirnir eiga nú við að stríða, og kemur um leið í veg fyrir réttlátar launagreiðslur til verkafólks og sjómanna. (Forseti hringir.) Herra forseti. Ég fer alveg að ljúka máli mínu. Það væri synd að sleppa afganginum.

Í umr. um efnahagsmál á Alþingi síðustu daga hefur sjútvrh. upplýst að eigið féð Seðlabankans hafi þróast þannig á undanförnum árum: Í árslok 1977 var eigið fé Seðlabankans án fasteigna 2.6 milljarðar kr. Árin 1978, 1979 og 1980 voru þessar tölur 6.2 milljarðar, 13.2 milljarðar og 36.4 milljarðar — hafa þrefaldast á því ári. Í sept. er eiginfjárstaða Seðlabankans komin upp í 70 milljarða gkr. Svo gífurleg hefur aukning á eigin fé þessarar stofnunar orðið samkv. hennar eigin bókhaldi.

Í umr. á Alþingi hefur upplýstst að Seðlabankar í nágrannalöndum okkar greiða til baka til ríkissjóðs og atvinnuveganna óeðlilegan gróða sinn, enda er hlutverk seðlabankanna ekki að safna gróða. Þannig upplýsti hæstv. sjútvrh. Steingrímur Hermannsson á dögunum að seðlabankinn í Svíþjóð hefði greitt í ríkissjóð 650 milljarða kr. af hagnaði sínum. Í ljósi þess, að nettó-gjaldeyriseign landsmanna er nú 31. okt. orðin 1673 millj. kr., er ekki óeðlilegt að spurt sé með hliðsjón af aðstæðum í atvinnu- og efnahagslífi okkar hvaða leiðir séu til að nýta gróða bankanna í þágu íslenskra atvinnuvega og hvaða leiðir ríkisstj. ætli að fara í þeim efnum.

Fsp. til hæstv. ráðh. hljóðar svo:

„1. Hver var rekstrarhagnaður Seðlabankans og viðskiptabankanna á s. l. ári sundurliðað eftir bönkum?

2. Hvernig breyttist eiginfjárstaða bankanna árið 1980?

3. Hvernig hefur endurmatsreikningur Seðlabankans þróast s. l. 5 ár til þessa dags?“

4. Hvaða leiðir eru færar til að nýta gróða bankanna í þágu atvinnuvega landsmanna og hvaða áætlanir hefur ríkisstj. uppi um það?“