17.11.1981
Sameinað þing: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 833 í B-deild Alþingistíðinda. (618)

331. mál, gróði bankakerfisins

Finnur Torfi Stefánsson:

Herra forseti. Ég held að við fáum því aðeins fullt gagn af þessari fsp. að við reynum að tengja hana aðeins betur þeirri umræðu sem átt hefur sér stað undanfarna daga og vikur um efnahagsmál.

Þjóðviljinn hefur haldið því fram, að í Seðlabankanum sé að finna hagnað sem sé fenginn frá atvinnulífinu, sem unnt sé að taka og færa til baka. Seðlabankinn hefur hins vegar sagt sem svo, að þetta sé aðeins uppreikningur á gjaldeyrisvarasjóðnum og hvort menn vilji skerða gjaldeyrisvarasjóðinn sé spurning um viðskiptaöryggi. Seðlabankinn hefur enn fremur bent á það, að allar tilraunir til að taka hlut af gjaldeyrisvarasjóði eða svokölluðum hagnaði og demba honum út í atvinnulífið sé ekkert annað en aukning á peningamagni í umferð, sem muni hafa þensluáhrif og auka verðbólguna í landinu. Nú vitum við öll vel að ríkisstj. hefur verið að reyna að ná tökum á verðbólguþróuninni og beitt einkum fyrir sig þeim úrræðum að halda niðri kaupgjaldi í landinu. Það sýnir að það er trú og skoðun þessarar ríkisstj. að kaupið sé meginorsök verðbólgunnar. Allir vita hins vegar að það eru margir aðrir þættir sem hér skipta miklu máli. Þar má m. a. nefna stjórn fjárfestingarmála, hversu mikið er fjárfest, og enn fremur stjórn peningamála, hversu mikið fé er haft í umferð í atvinnulífinu. Þess vegna finnst mér tilefni til þess, einkum í ljósi nýgerðra kjarasamninga, sem verkalýðshreyfingin virðist hafa gert með mikilli ábyrgðartilfinningu og mikilli hófsemi að spyrja: Finnst hæstv. viðskrh. tilefni til þess að fara að leysa í skyndi tímabundinn vanda atvinnuveganna með því að grípa til verðbólguhvetjandi aðgerða eins og að auka peningamagn í umferð, og finnst honum koma til greina að hætta viðskiptaöryggi þjóðarinnar með því að ganga á gjaldeyrisvarasjóðinn?