17.11.1981
Sameinað þing: 21. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í B-deild Alþingistíðinda. (670)

88. mál, kalrannsóknir

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég vil aðeins lýsa yfir fullum stuðningi við þessa till. Það vandamál, sem hér er tekið á, er eitt af mestu vandamálum íslensks landbúnaðar og full ástæða til að veita tilraunum til úrbóta betra brautargengi en verið hefur. Aukin rannsóknarstarfsemi, sem þýddi þá fyrirbyggjandi aðgerðir, er vissulega af hinu góða.

Ég vil hins vegar koma því að hér, að þrátt fyrir allt sem um rannsóknir er rætt, talað og kannað og rannsakað enn frekar, þá mega menn ekki gleyma því, að þetta vandamál snýr auðvitað fyrst og fremst að bændum sjálfum. Ég veit satt að segja ekki hversu vel bændum eru kynntar niðurstöður af þeim rannsóknum, sem þegar hafa farið fram í þessu efni, og hversu vel þeir eru í raun og veru sér þess meðvitandi, hvað unnt er þó að gera í ljósi þeirra rannsókna sem þegar hafa farið fram. Mér segja t. d. þeir bændur á Egilsstöðum, sem búa allra manna best á Austurlandi og líklega á landinu — eða nálægt því, þeir segja mér óhikað að í mörgum tilfellum sé unnt með þeirri þekkingu, sem búið er yfir í dag, að koma í veg fyrir kal. Það er aðeins því að kenna, að bændum séu ekki veittar nægilegar upplýsingar og rannsóknarstofnanir hafi ekki komið þessu nægilega frá sér í mörgum tilfellum, að kalskemmdir verða svo stórkostlegar sem raun ber vitni. Í sumum tilfellum sé þó ógerlegt við þær að ráða. Ég held þess vegna að ég ítreki það hér, að í kjölfar þeirra rannsókna eða þess átaks, sem hér er gert ráð fyrir, þarf að koma rækileg kynning meðal bænda á öllu því sem þær rannsóknir leiða í ljós að geti verið til hagræðis og hagsbóta fyrir bændur þannig að þeir verði fyrir sem allra minnstu tjóni af kali.