19.11.1981
Sameinað þing: 22. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 921 í B-deild Alþingistíðinda. (725)

49. mál, útgáfa nýs lagasafns

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég hygg að það sé eðlileg þróun, að Lagastofnun Háskóla Íslands hafi þetta verkefni með höndum, þó allur hafi sá ferill orðið flóknari og fjölbreytilegri en ætlað var. En erindi mitt hingað er að spyrja hæstv. ráðh. um það, sem oft hafa verið hugmyndir uppi um, hvort lagasafnið verði gefið út á lausum blöðum. Miklu auðveldara væri þá, þegar lögum hefur verið breytt — en fram kom hjá fyrirspyrjanda að upp undir 100 lög bætast við á hverju ári — að taka út það, sem þarf að breyta, og bæta inn því, sem hefur komið nýtt, án þess að spilla heildarverkinu.

Það er augljóst að þegar 10 ár líða milli útgáfu lagasafna, eins og hér er verið að lýsa, veldur það viða miklum óþægindum og miklu víðar en í þingnefndum á hinu háa Alþingi.

Mig langar að spyrja dómsmrh.: Hvað miðar þeim hugmyndum eða hefur eitthvað verið um það fjallað frekar að lagasafn verði gefið út á lausum blöðum til að auðvelda allt þetta starf? Það virðist sem smæð þjóðfélagsins valdi því, að lagasafn sé svo sjaldan gefið út sem raun ber vitni, en það veldur aftur miklum óþægindum. Spurning mín til hæstv. ráðh. er því þessi: Hvað miðar hugmyndum um lagasafn á lausum blöðum?