24.11.1981
Sameinað þing: 24. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1000 í B-deild Alþingistíðinda. (801)

337. mál, nýjar kjarnorkueldflaugar í Evrópu

Fyrirspyrjandi (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Á undanförnum mánuðum hefur verið mikil umræða í Evrópu um áætlanir um staðsetningu nýrra kjarnorkueldflauga í Evrópu. Þessi umræða hefur snúist fyrst of fremst um þær tvær tegundir nýrra kjarnorkueldflauga, Pershing-2 og stýrieldflaugarnar, sem Atlantshafsbandalagið áformar að staðsetja í álfunni, og SS-20 eldflaugarnar sem Sovétríkin hafa verið að vinna að því að koma upp í Evrópu á undanförnum mánuðum og misserum. Þessi umræða hefur leitt til þess, að myndast hefur fjölmenn hreyfing, fjölmennasta hreyfing í sögu Evrópu frá stríðslokum, sem knýr á um að stjórnvöld Atlantshafsbandalagsins og Varsjárbandalagsins endurskoði ákvarðanir sínar um, þessar áætlanir.

Frá því að þessi fsp. var borin fram hefur það gerst, að forseti Bandaríkjanna og forseti Sovétríkjanna hafa báðir viðurkennt að hluta til þær röksemdir sem friðarhreyfingin í Evrópu hefur sett fram, þá gagnrýni sem hún hefur sett fram á þessi áform um gífurlega aukningu kjarnorkuvígbúnaðarins í Evrópu. Þær tillögur, sem Ronald Reagan setti fram fyrir nokkru, eru greinilega sprottnar af þrýstingi ráðamanna í Evrópu, enda viðurkennt af öllum helstu fréttaskýrendum erlendis að svo sé. Sá þrýstingur hefur fyrst og fremst skapast vegna þess, að það hefur gerst á undanförnum mánuðum, að hundruð þúsunda almennra borgara úr öllum stjórnmálaflokkum, úr öllum kirkjudeildum, ungir sem aldnir hafa tekið höndum saman til að knýja fram breytingu á þessari ákvörðun. Bresnev, forseti Sovétríkjanna, í gær, í dag og á morgun situr hann í Bonn með Helmut Schmidt í alvarlegustu viðræðum forustumanns frá Atlantshafsbandalagsríki og forustumanns Sovétríkjanna um þetta efni sem farið hafa fram um langan tíma, þar sem m. a. hefur komið fram að forseti Sovétríkjanna hefur lagt á borðið tillögur um að stöðva staðsetningu nýrra SS-20 eldflauga í Sovétríkjunum frá og með þeim degi við lok þessa mánaðar þegar viðræður um þessi efni hefjast milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna.

Við ræddum þessi mál nokkuð hér á Alþingi fyrir nokkrum dögum. Í þeim umr. kom ekki fram mér vitanlega hver hafi verið formleg afstaða Íslands innan Atlantshafsbandalagsins þegar ákvörðunin um nýjar kjarnorkueldflaugar var tekin. Hún var tekin þegar minnihlutastjórn Alþfl. sat hér að völdum í desembermánuði 1979. Ég tel nauðsynlegt, þar sem við erum aðilar að Atlantshafsbandalaginu, að fram komi opinberlega hvort fulltrúi Íslands hafi þá greitt þessari nýju kjarnorkueldflaugaáætlun atkvæði sitt.

Eins og ég sagði áðan er mér ekki kunnugt um að nokkru sinni hafi komið fram hér opinberlega hvernig Ísland hafi greitt atkvæði við þetta tækifæri. Það liggur hins vegar fyrir í flestum öðrum aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins hvernig fulltrúar þeirra ríkja greiddu atkvæði. Ég hef þess vegna á þskj. 53 borið fram þrjár spurningar til hæstv. utanrrh. varðandi þetta efni. Sú fyrsta fjallar um það, á hvern hátt fulltrúar Íslands hafi greitt atkvæði í des. 1979 á fundum Atlantshafsbandalagsins, hvort þeir hafi greitt atkvæði með því, að staðsetja nýjar kjarnorkueldflaugar í Evrópu, hvort þeir hafi greitt atkvæði á móti eða hvort þeir hafi setið hjá.

Í öðru lagi er spurt hvort utanrrh. sé reiðubúinn að ljá því stuðning, að ákvörðuninni um nýjar kjarnorkueldflaugar verði breytt eða áætlunin endurskoðuð til þess að skapa nægilegan tíma fyrir raunhæfar afvopnunarviðræður. Ég tel að í ljósi þeirra atburða, sem gerst hafa á síðustu dögum, og þeirra tilboða, sem komið hafa fram frá Reagan, forseta Bandaríkjanna, og Bresnev, forseta Sovétríkjanna, sé enn meiri ástæða en áður til þess að menn gefi sér góðan tíma til að ræða þessi mál, knúnir af þeim hundruðum þúsunda og milljónum sem hafa sótt fundi um þetta efni í hinni frjálsu Evrópu á undanförnum vikum og mánuðum, menn falli ekki frá þeim ásetningi að stuðla að því, að nægilegur tími gefist til að raunhæfar viðræður fari fram. Önnur spurningin fjallar um það, hvort hæstv. utanrrh. sé reiðubúinn að leggja því lið.

Í þriðja og síðasta lagi er spurt hver sé afstaða hæstv. utanrrh. til þeirrar gagnrýni sem friðarhreyfingin í Evrópu hefur sett fram á kjarnorkueldflaugaáætlun NATO. Það er spurt fyrst og fremst um kjarnorkueldflaugaáætlun NATO vegna þess að við erum aðilar að því bandalagi. Allar þessar spurningar miða að því að fá fram afstöðu okkar í þessum efnum, þótt fróðlegt væri einnig að fá fram afstöðu til þeirrar gagnrýni sem friðarhreyfingin hefur sett fram á SS-20 eldflaugarnar.

Herra forseti. Ég vil að lokum nefna að meðal þeirra gagnrýnisatriða, sem sett hafa verið fram, er það, að tæknilegt eðli Pershing-2 eldflauganna og stýrieldflauganna sérstaklega feli í sér að þær minnki allverulega umþóttunartímann. Þar með lækki kjarnorkuvopnaþröskuldurinn sem þarf að yfirstíga, ef menn ætla að stefna álfunni út í gereyðingarstríð. Þess vegna feli þessi nýju vopn í sér enn meiri hættu á því, að á skömmum tíma kunni menn að grípa til þeirra ráða að steypa Evrópu út í gereyðingu.