25.11.1981
Efri deild: 15. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1062 í B-deild Alþingistíðinda. (846)

104. mál, sjómannalög

Flm. (Finnur Torfi Stefánsson):

Forseti. Á þskj. 107 hef ég leyft mér að flytja frv. til l. um breyt. á sjómannalögum, 18. gr. þeirra. Þetta frv. er sprottið af því tilefni, að á síðasta ári, nánar tiltekið með lögum nr. 49 frá 1980, voru gerðar breytingar á réttindum sjómanna til launagreiðslna í veikinda- og slysatilvikum. Með þeim lögum voru þessi réttindi aukin nokkuð og bætt. Síðan hefur komið í ljós að nokkur ágalli var á þessum lagaákvæðum. Frv. það, sem ég leyfi mér að flytja hér, er sett fram í þeim tilgangi að bæta úr þeim ágalla. Frv. lætur lítið yfir sér en skiptir töluvert miklu máli fyrir sjómenn.

Sú lagagrein, sem frv. er ætlað að breyta, er, eins og ég sagði áður, 18. gr., 4. mgr. Í þeirri mgr. er kveðið á um aukin réttindi sjómanna í veikinda- og slysatilfellum, sem ræðst af starfstíma þeirra. Eins og þau mál standa núna í gildandi lögum fá sjómenn í aukin veikindaréttindi eftir tveggja ára starfstíma einn mánuð til viðbótar því sem almennt gildir, en eftir fjögurra ára samfellda ráðningu hjá sama útgerðarmanni fá þeir tveggja mánaða viðbótartíma við það sem almennt gildir. Í gildandi lögum er það skilyrði, að sjómaðurinn hafi unnið hjá sama útgerðarmanni þennan tíma. Frv. því, sem ég legg hér fram, er ætlað að breyta þessu þannig að miðað verði við starfsreynslu sjómannsins, þ. e. hvað hann hefur starfað lengi samfellt við sjómennsku, en ekki gerð krafa um að sú reynsla þurfi að hafa fengist hjá sama útgerðarmanni.

Þau meginsjónarmið, sem liggja að baki þessum auknu veikindaréttindum, eru að sjálfsögðu þau, að reyndir sjómenn eru mikils virði og starfsreynsla þeirra kemur sér mjög vel fyrir útgerðarmenn, enda sækjast útgerðarmenn yfirleitt eftir því að fá reynda sjómenn. Mönnum hefur virst það sanngjarnt, að sjómenn fái aukin réttindi eftir því sem verðmæti starfa þeirra eykst. En eins og þetta stendur nú í lögum hefur það þær óheppilegu afleiðingar, að sjómaður, sem hættir hjá einni útgerð til þess að hefja störf hjá annarri, missir öll þessi veikindaréttindi. Ekki standa nein efnisrök til þessa missis. Mér liggur nánast við að halda að handvömm hafi ráðið því, að þetta er svo í lögum eins og það er nú. Það geta verið margar eðlilegar ástæður fyrir því, að sjómenn vilji skipta um útgerð. Þeir kunna vegna aldurs t. d. að hafa áhuga á að fá sér einhver auðveldari sjómennskustörf. Ýmsar aðrar eðlilegar ástæður geta legið til þess, að þeir vilji skipta um útgerð, og það er ekki sjáanleg nein ástæða til að þeir missi þessi veikindaréttindi fyrir það eitt.

Þá má líka geta þess, að eins og þessu er nú háttað situr útgerðarmaður eiginlega yfir höfðum skipverja ef hann kýs að beita þessari stöðu, því að hann getur með einfaldri uppsögn svipt sjómennina þarna mjög dýrmætum réttindum. Ég hef orðið þess var meðal þeirra mörgu kunningja sem ég á í sjómannastétt, að mönnum er þetta mikill þyrnir í augum, fyrst og fremst vegna þess að þeir sjá ekki neina skynsamlega ástæðu fyrir því, hvernig þessu er hagað í gildandi lögum.

Ég sé ekki ástæðu til að halda mjög langa framsöguræðu um málið vegna þess að það er í eðli sínu einfalt. Hér er einungis um það að ræða að menn missi ekki veikindaréttindi við að skipta um skipsrúm, að menn geti notið góðs af sinni starfsreynslu, hvort sem hún er fengin hjá einum útgerðarmanni eða fleirum, enda er sú starfsreynsla jafndýrmæt fyrir útgerðina hjá hverjum sem hún er fengin. Ég vona bara að frv. hljóti skjóta og málefnalega afgreiðslu og það verði sem fyrst að lögum.

Ég legg til að lokum að málinu verði vísað til samgn.