26.11.1981
Sameinað þing: 27. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1105 í B-deild Alþingistíðinda. (883)

11. mál, stóriðnaður á Norðurlandi

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Vegna flutnings þessarar þáltill., sem hér kom raunar fram á síðasta þingi, vil ég segja nokkur orð. Mætti raunar um það hafa allmörg orð ef fara ætti langt út í þau efni sem tillögunni tengjast, þ. e. eflingu atvinnulífs almennt í landinu og þýðingu þess að vanda staðsetningu stórfyrirtækja sem til álita kemur að reist verði hér á komandi árum.

Ég er hv. flm. fyllilega sammála um það, að við þurfum að vera vel á verði og kanna sem flesta möguleika til þess að renna traustum stoðum undir atvinnulíf í landinu, auka fjölbreytni þess, koma á nýjum vaxtarbroddum í stað þess sem brott fellur í tímans rás og vegna breyttra aðstæðna. Þetta á við um hefðbundið atvinnulíf, sjávarútveg og landbúnað, en ekki síður og kannske enn frekar um iðnað, þar sem breytingar eru hraðfara og þar sem mjög reynir á að saman sé stillt og menn átti sig á þeim breytingum sem verða í umheiminum í sambandi við iðnþróun, samkeppnisaðstöðu og nýja möguleika.

Einn þessara möguleika til nýrrar sóknar í atvinnulífi landsmanna á að vera fólginn í því að hagnýta dýrmætar orkulindir landsins til að renna nýjum og helst traustum stoðum undir atvinnulíf í landinu til viðbótar því, sem fyrir er, og gæta þess vel, að það falli að því atvinnulífi sem fyrir er og vænlegt getur talist, en verði ekki til þess að brjóta niður það sem við höfum reist og vel má dafna.

Ég tel að núv. ríkisstj. hafi gert sér þetta vel ljóst. Í málefnasamningi hennar er vikið að nauðsyn þess að efla hér nýjan iðnað, sem m. a. byggi á hráefnaauðlindum landsins og orkulindum undir íslensku forræði eða á vegum landsmanna sjálfra, eins og það mun orðað í stjórnarsáttmála.

Alþb., sem ég mæli fyrir, hefur lagt á það um langt skeið áherslu, að sérstaklega sé vandað til undirbúnings að stofnun meiri háttar iðnrekstrar í landinu, fyrirtækja sem talist geta stór á okkar mælikvarða, því að alltaf er það afstætt hvað telst stórt og hvað smátt. Í samþykktum Alþb. um orkumál og orkufrekan iðnað á árinu 1976 var vikið einmitt að þessum þáttum, jafnhliða því sem mörkuð var almenn stefna um forsendur til hagnýtingar orkulindanna og til uppbyggingar iðnaði í landinu og til að treysta hér almennan atvinnurekstur. Með hliðsjón af þeirri stefnumörkun hefur verið unnið í tíð núv. ríkisstj.

Iðnrn. setti 3. okt. 1980 á fót nefnd sem kölluð hefur verið staðarvalsnefnd. Samkv. skipunarbréfi er henni ætlað það hlutverk að kanna hvar helst komi til álita að reist verði iðjuver í tengslum við nýtingu á orku- og hráefnalindum landsins. Í þessu erindisbréfi er svo kveðið á að hlutverk nefndarinnar sé að kanna umrædda staði sem helst kæmu til álita ef reist yrðu iðjuver í tengslum við nýtingu á auðlindum landsins. Er þá átt bæði við hráefnaauðlindir og orkulindir, og vel má tengja það einnig þeim auðlindum sem í mannfólkinu sjálfu búa. Jafnframt er nefndinni ætlað, eins og segir í skipunarbréfi, að taka tillit til líklegra áhrifa sem slíkt fyrirtæki hefði á atvinnulega og efnahagslega þróun, samfélag, náttúru og umhverfi. Er nefndinni falið að greina, í hverju slík áhrif séu helst fólgin, og bera saman viðkomandi staði með hliðsjón af því. Síðar í erindisbréfinu segir:

„Haga ber könnuninni eftir föngum þannig að hún geti nýst við ákvarðanir um iðnaðarkosti og orkuver sem eru til umræðu. Nefndinni er ætlað að samræma störf þeirra stofnana, sem málið varðar, og tryggja að staðarval verði sem best undirbúið. Jafnframt sé unnið að þessum málum í eðlilegu samráði við sveitarfélög og samtök þeirra.“

Nefndin hefur nú starfað um rösklega eins árs skeið, og ég veit að ýmsir hafa heyrt af störfum hennar og orðið varir við hana, þ. á m. sveitarstjórnir og samtök þeirra sem nefndin hefur leitað til og haft allnáin samskipti við til gagnaöflunar í sambandi við þetta mikilvæga mál.

Þessari nefnd er ekki ætlað að velja tiltekna iðnaðarkosti fyrir ákveðna staði eða svæði á landinu, heldur öðru fremur að kanna almennar forsendur fyrir staðsetningu meiri háttar iðnaðar, umhverfislegar forsendur og félagslegar forsendur. Með hliðsjón af því eru í þessa nefnd skipaðir aðilar samkv. tilnefningu frá Náttúruverndarráði, frá heilbrmrn., sem fer með starfsleyfi fyrir verksmiðjurekstur í landinu, frá byggðadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins og frá Orkustofnun, sem um nokkurra ára bil hefur sinnt þessu verkefni að vissu marki, auk þess sem iðnrn. skipaði nefndinni formann, sem er Þorsteinn Vilhjálmsson eðlisfræðingur og kennari við Háskóla Íslands.

Ég get um þetta hér vegna þess að það tengist því efni sem þessi þáltill. fjallar um. Þessi starfsnefnd hefur haft samráð við sveitarfélög og samtök sveitarfélaga, m. a. á Norðurlandi eystra, til þess að átta sig á almennum forsendum í sambandi við hugsanlega staðsetningu meiri háttar iðnrekstrar í þeim landshluta. En í þessu sambandi er að sjálfsögðu nauðsynlegt að horfa til landsins alls. Þessi mál tengjast vissulega, eins og hv. 1, flm. þáltill. drap á, byggingu orkuvera og nýtingu orkunnar í landinu. En það eru margir fleiri þættir sem inn í þetta koma, og ég held að við séum að fá til þess sýn í auknum mæli, að við erum ekki eins bundnir af því og verið hefur í margra huga hvar reistar eru virkjanir í okkar landi. Við erum ekki eins bundnir af því, hvar við getum reist atvinnufyrirtæki í krafti slíkra virkjana, eins og áður var, meðan okkar raforkukerfi var ófullburða, í lélegra ástandi en nú er, og eigum við þó eftir þar verulega úr að bæta. Þvert á móti á að vera kleift — eftir því sem orkukerfi landsins verður öruggara og traustara — að reisa fyrirtæki, sem nýta umtalsverða orku, með vissum hætti óháð uppbyggingu raforkuveranna, þó að vissulega séu þar tengsl á milli og takmörk fyrir því hvað skynsamlegt er og hagkvæmt að flytja raforku um langan veg til meiri háttar notenda. Inn í þessa mynd kemur einnig jarðvarminn í landinu, hagnýting hans til iðnrekstrar og uppbyggingar atvinnulífs og aðrar auðlindir, þ. á m. hráefnaauðlindir í landinu.

Þess er að vænta, að nefnd sú, sem ég vék hér að og kölluð hefur verið staðarvalsnefnd, skili áfangaáliti innan ekki langs tíma. Hún hefur ætlað sér að ljúka sínum verkum eða a. m. k. komast langt með sitt verkefni á næsta ári þannig að fyrir liggi sem best úttekt á forsendum fyrir því, hvar álitlegt sé út frá mjög fjölþættu mati að setja niður meiri háttar atvinnurekstur, meiri háttar iðnrekstur í landinu.

Ég ætla ekki, herra forseti, að fara hér út í almenna umr. um stöðu þess atvinnulífs sem við búum nú við þó að margt mætti um hana segja. Ég vil aðeins leggja á það áherslu, að þegar rætt er um ný verkefni í okkar atvinnulífi verðum við að hafa sem gleggsta sýn yfir það sem fyrir er. Við þurfum að gæta þess að missa ekki sjónar af þróunarmöguleikum á því sviði, þ. á m. í okkar sjávarútvegi og okkar stóriðnaði sem byggir á úrvinnslu sjávarfangs. Ég veit að það hefur ekki farið fram hjá hv. fyrri flm. þáltill., að ýmsir í hans kjördæmi hafa af því nokkrar áhyggjur, hvernig fara mundi um það atvinnulíf, sem fyrir er, ef ráðist yrði í uppbyggingu stóriðnaðar á svæði eins og Eyjafjarðarsvæðinu, svo sem mjög hefur verið til umræðu. Það er full ástæða til að gefa gaum að slíkum viðvörunum, að taka slíkar áhyggjur alvarlega, vega þær og meta, áður en nokkur skref eru stigin sem ákvarðandi geti talist. Við þurfum þarna að líta til reynslu í nágrannalöndum okkar. Það hefur einmitt verið gert í þeirri vinnu sem nú fer fram. Menn geta fundið t. d. í Noregi mjög dapurleg dæmi um hvernig tekist hefur til þar sem sett hafa verið niður stórfyrirtæki, m. a. í orkufrekum iðnaði, í litlum samfélögum. Það hefur leitt til mjög einhæfrar atvinnuþróunar, ekki síst þegar fram í sækir og þegar kynslóðaskipti verða. Slíka þróun þurfa menn að hafa fyrir augum þegar um þessi mál er fjallað.

Ég vil að endingu leggja á það áherslu, að við höfum augun opin í sambandi við þróunarmöguleika á öllu atvinnusviðinu, jafnt í okkar hefðbundnu atvinnuvegum, í almennum iðnaði og í sambandi við stærri iðnrekstur, allt upp í stórrekstur, og fellum þetta saman út frá skynsamlegum viðhorfum og því meginsjónarmiði, að við Íslendingar ráðum með öruggum hætti ferðinni í þeim efnum og treystum þar með efnahagslegt sjálfstæði og lífskjör í landinu.