26.10.1982
Sameinað þing: 8. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í B-deild Alþingistíðinda. (108)

12. mál, veiðar í erlendri fiskveiðilandhelgi

Guðmundur Karlsson:

Herra forseti. Ég vil eindregið hvetja til þess að þessi til l. verði samþykkt og tel meira en tíma til kominn að hún kæmi hér fram.

Það segir í till. að athugað skuli um möguleika til veiða við strendur Norður-Ameríku og Vestur-Afríku. Ég tel að það sé fyllilega ástæða til að athuga um veiðimöguleika víðar en þarna. Það er ekki mjög langt síðan við Íslendingar stunduðum bæði loðnuveiðar og reyndar þorskveiðar líka í Barentshafi. Við stunduðum karfaveiðar við Nýfundnalandsstrendur. Það er ekki ýkjalangt síðan íslenskir útgerðarmenn gerðu út á síld við austurströnd Bandaríkjanna og þar reið á vaðið einn af frumkvöðlum íslenskrar útgerðar á síðustu áratugum, Einar Sigurðsson. Hans skip stunduðu þessar veiðar í 1–2 ár. Við skulum ekki gleyma því að við höfum stundað miklar úthafsveiðar á Grænlandshafi, við Bjarnarey. Við stunduðum lúðuveiðar við Grænland. Auðvitað er það staðreynd, að það sem skiptir mestu máli fyrir okkur væri að fá heimildir til kolmunnaveiða við Írland og eins rækju-, loðnu- og karfaveiða við miðlínu Grænlands. En ég geri ráð fyrir að þar verði um mjög vandasama samningagerð að ræða og þá mundum við vafalaust kalla yfir okkur bæði Þjóðverja og Englendinga með gagnkvæmar kröfur um veiðar hér á Íslandsmiðum, svoleiðis að þar ættum við kannske að fara okkur hægt. En ég vil líka benda á að Þjóðverjar hafa á undanförnum árum stundað veiðar með togurum sínum við austurströnd Suður-Ameríku og haft af því ágætan árangur.

Auðvitað þarf í sambandi við þetta að leita álits hagsmunaaðilanna, bæði Sjómannasambands Íslands og Landssambands ísl. útvegsmanna, en ég vil hvetja til þess að þessi till. fái verulega umfjöllun og verði samþykkt að henni lokinni.

Hérna má segja að sé um nokkra stefnumörkun að ræða. Við getum bent þarna á athafnasemi Japana og Sovétmanna. Athafnasemi Japana var engin tilviljun. Þetta var mál sem var gaumgæfilega undirbúið hjá þeim og unnið samkv. margra ára áætlun. Hin stóru fyrirtæki þeirra hafa hvert af öðru ráðist inn hjá þróunarþjóðunum, bæði í Afríku, Suður-Ameríku, við Karabíska hafið og alls staðar á Kyrrahafinu. Þeir hafa skipt heimshöfunum niður í ákveðin svæði og unnið þau skipulega. Þetta hefur verið mjög áhættusamt fyrirtæki hjá þeim. Sum þessara stóru fyrirtækja hafa beinlínis riðað til falls vegna hinnar miklu áhættu sem þau taka, en þau hafa talið hana þess virði. Eins er hitt, að við skulum hafa það í huga — eða a.m.k. hef ég séð þær upplýsingar — að þessi athafnasemi Japana hefur haft jafnmikil áhrif til jákvæðrar þróunar í þróunarlöndunum og öll starfsemi FAO. Þetta hefur því ekki svo lítið að segja. Eins hef ég hugmyndir um það, að frændur okkar Færeyingar hafi unnið töluvert að þessum málum á undanförnum árum. Það væri vel þess virði að kynna sér þeirra starfsemi.

En ég vil sem sagt hvetja til þess að þessi till. verði tekin til gaumgæfilegrar umfjöllunar í þeirri nefnd sem henni verður vísað til og við samþykkjum hana að henni lokinni. Ég tel hana mikils virði.