26.10.1982
Sameinað þing: 8. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í B-deild Alþingistíðinda. (112)

12. mál, veiðar í erlendri fiskveiðilandhelgi

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Mér þykir leitt að ég gat ekki verið við framsögu um þessa till., en vil þó segja örfá orð.

Ég vil upplýsa í fyrsta lagi, að þetta mál hefur dálítið verið kannað m.a. eftir að loðnubresturinn varð hér eða úr loðnuveiðum dró eins og menn þekkja. Þá ræddi ég þetta við Landbúnaðar- og matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna. Ég hafði bæði tækifæri til þess við komu forstjóra þeirrar stofnunar hingað til lands og einnig heimsótti ég þá stofnun og ræddi það þá mjög ítarlega. FAO hefur glöggar upplýsingar um slíka möguleika um heim allan, því stofnunin er starfandi að þessum málum. Í ljós kom, að þeir töldu vera móguleika á slíkri veiði í Indlandshafi fyrst og fremst, þar sem stór fiskstofn hefur verið uppgötvaður með aðstoð þessarar stofnunar. Ég kom síðan á viðræðum á milli fulltrúa stofnunarinnar og Landssambands ísl. útvegsmanna. Íslendingur, sem starfar á vegum stofnunarinnar, kom hingað heim og hitti Landssamband ísl. útvegsmanna eða forsvarsmenn þeirra, en út úr þessu kom ekki neitt. Það virtist enginn áhugi vera á þessu hjá íslenskum skipstjórnarmönnum. Ég óskaði einnig eftir því við utanrrn. að kanna þessa möguleika í Suður-Ameríku. Það var reyndar fyrr. Út úr því kom ekki heldur neitt.

Ég segi fyrir mitt leyti að ég tel sjálfsagt að skoða svona möguleika ef menn hafa áhuga á því, en hins vegar vil ég taka mjög undir það sem kom fram hjá hv. þm. Skúla Alexanderssyni hérna áðan. Ég held að flotinn okkar hér heima hafi næg verkefni. Ég get ekki tekið undir það, sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að það sé stærð flotans sem hefur takmarkað þorskveiðar út af Vestfjörðum. Það sem hefur takmarkað þorskveiðar þar hafa verið miklar skyndilokanir nú upp á síðkastið vegna þess að þorskur þar hefur verið mjög smár. Ég vek athygli á því, að sú verndunaraðgerð sem beitt hefur verið hér nú árum saman er eitt af því athyglisverðasta sem við höfum gert til að vernda smáþorskinn. Náðst hefur með þessu mjög góður árangur. Fyrir nokkrum árum t.d. 1976–1977, var um fjórðungur af veiddum þorski þriggja ára þorskur eða yngri, en nú er það talið vera um 5–6 af hundraði. Þorskurinn hefur haldið sig núna miklu meira á Austfjarðamiðum og þess vegna hefur að sjálfsögðu breyst hlutfallið á milli Vestfjarða og Austfjarða í þessu sambandi. Vestfjarðatogararnir hafa orðið, eins og allir þekkja, að sækja lengra en þeir þurftu undanfarin ár. En það hefur jafnframt valdið erfiðleikum út af Vestfjörðum nú að þar hefur orðið að loka vegna þess að þar hefur verið mikið af smáfiski. Að sjálfsögðu hefur það ekki aðeins bitnað á Vestfjarðaskipunum, heldur öllum skipum. Það mátti skilja á hv. þm. að þetta væri einhver sérstök lokun sem Vestfjarðaskip yrðu fyrir.

Mikið hefur verið talað um stærð flotans og veit ég ekki hvort ég á að fara að rifja þær umr. upp. Það er staðreynd, að þrátt fyrir þessa miklu stærð flotans mun okkur vanta líklega um 80 þús. tonn til að ná því sem fiskifræðingar enn, þrátt fyrir samdrátt í veiðum, telja að óhætt sé að taka og þjóðarbúið svo sannarlega þarf á að halda.

Ég hef hins vegar sagt, eins og kom fram hjá hv. þm., að ég tel þorskveiðiflotann orðinn nokkuð of stóran eftir að loðnuflotinn bættist við, en það er hins vegar einlæg von mín, og ég veit allra hér, að sá floti fái fljótlega verkefni við sitt hæfi. Ég get nú upplýst, að leiðangur Hafrannsóknastofnunar er nýkominn að landi eftir loðnumælingar. Í þessum leiðangri mældust nú um 265 þús. lestir af hrygningarloðnu, sem er veruleg aukning frá því í fyrra á sama tíma. Til upplýsinga skal ég geta þess, að árið 1980 mældust samtals af tveggja og þriggja ára loðnu, þ.e. loðnu sem er kynþroska, um 500 þús. lestir og eins og menn e.t.v. muna mældust hins vegar á sama tíma 1981 aðeins um 139 þús. lestir, en nú 265, svo þarna virðist nú vera einhver bati á ferðinni. Hins vegar skal tekið fram, að ég mun ekki gera á þessum grundvelli till. um neinar veiðar af þessum hrygningarstofni.

En það er ekki síður athyglisvert að eins árs loðna hefur mælst meiri nú en undanfarin ár. Árið 1980 mældust 171 þús. lestir af eins árs loðnu, en í fyrra aðeins 5 þús. lestir, en nú mældust um 160–300 þús. lestir. Því virðist vera meiri eins árs loðna á ferðinni a.m.k. en mælst hefur undanfarin ár. Að vísu taka fiskifræðingarnir fram, að erfitt er að byggja á mælingum á eins árs loðnu, en jafnframt hefur komið fram að aðstaða er að ýmsu leyti góð á svæðinu nú og því er e.t.v. ástæða til bjartsýni með loðnuveiðar annað haust. Ekki skal ég út af fyrir sig segja meira um það, en þau orð hef ég eftir fiskifræðingum. Ef það fer svo, að loðnuveiðar geta hafist að nýju fær loðnuflotinn að nýju verkefni við sitt hæfi.

Af því að hér var minnst nokkuð á kolmunnastofninn vil ég geta þess, að sjútvrn. hefur nú notað það fjármagn, sem það hefur, til að beina skipum á kolmunnaveiðar og reyndar gert það undanfarin ár. Í ljós kom við mjög ítarlega tilraun sem gerð var á s.l. ári á kolmunnaveiðum í bræðslu, að það er ekki arðbært. Styrkur reyndist þurfa að vera um það bil helmingur af aflaverðmæti til að slík veiði kæmi til greina. Hins vegar hefur verið unnið að rannsóknum og tilraunum með Norðmönnum og Færeyingum og ítarlegar upplýsingar fengist af tilraunum Færeyinga á því sviði. Þar hefur veiði aukist á kolmunna til manneldis í verksmiðjuskipum og niðurstaðan varð því sú, að þrjú íslensk skip verða útbúin til slíkra veiða. Eitt skipið, fyrsta skipið, Eldborgin, sigldi til veiða hygg ég s.l. sunnudag. Var þá búið að ganga frá því skipi með vélum til að vinna kolmunnann um borð. Mjög fróðlegt verður að fylgjast með þessari tilraun til kolmunnaveiða. Þótt það sé rétt, sem einnig kom fram hjá síðasta hv. ræðumanni, að fiskifræðingar óttast að veiðar á kolmunna séu að nálgast hámark er okkar hlutur þar langt fyrir neðan það sem okkur bæri í raun og veru miðað við göngu kolmunnans í gegnum íslenska fiskveiðilögsögu. Því er ákaflega mikilvægt að við höslum okkur völl í kolmunnaveiðum.

Hins vegar er fáviska að senda 30 skip á kolmunna, sem ég sá í einhverju dagblaðinu. Það er ekki minnsti grundvöllur til slíks eins og nú standa sakir með þær veiðar.

Ég vil jafnframt sérstaklega taka undir það, sem kom fram hjá hv. þm. Skúla Alexanderssyni, að það er gífurlega stórt verkefni fram undan að bæta meðferð á afla um borð í íslenskum fiskveiðiskipum. Ég get skýrt frá því, að nú um nokkra mánuði hefur verið unnið mjög ítarlega í þeim málum í framhaldi af vinnu sem fór fram á vegum fyrirrennara míns, hv. þm. Kjartans Jóhannssonar, og nál. sem þá var skilað. Ég geri ráð fyrir að frv. um breytingar á framleiðslueftirliti verði lagt fram á þingi innan tíðar og jafnframt verði endurskoðaðar reglur um meðferð á afla um borð í fiskiskipum, sem tvímælalaust munu leiða til þess — við skulum horfast í augu við það — að úr toppunum verður dregið. Varla er annað mögulegt, því það sýnir sig að í þessum gífurlegu toppum, bæði á togveiðum og netaveiðum, er farið illa með afla og áreiðanlega má rekja þær leiðu fréttir sem við höfum haft af lélegri framleiðslu til slíkra toppa að stórum hluta. Þó að dregið hafi úr afla á togdag, eins og kom fram hjá hv. þm., hygg ég að það út af fyrir sig sé ekki alvarlegt. Ég hygg að jafnvel kunni að reynast nauðsynlegt að setja á hömlur sem leiða til þess að eitthvað meira dragi úr afla á dag. Þetta mál verður til umr. með hagsmunaaðilum núna næstu dagana og vikurnar og eflaust berst það svo inn í sali hins háa Alþingis.

Ég hef sem sagt ekkert við það að athuga að veiðar erlendis séu kannaðar, en vildi upplýsa að það virðist vera mjög takmarkaður áhugi á slíkum veiðum. Ég hef einnig rætt við allmarga, bæði skipstjóra og útgerðarmenn, og mér hefur heyrst að þeir hafi tiltölulega lítinn áhuga á þessum möguleika. Einnig hefur komið fram í því sambandi að verð á fiski víða erlendis er töluvert lægra en hér og því takmarkaður áhugi af þeim ástæðum. Sjálfsagt er að kanna þetta, ef einhver hefði áhuga á slíku, en ég held að það leysi á engan máta vandamál íslenskrar útgerðar í dag.