26.10.1982
Sameinað þing: 8. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í B-deild Alþingistíðinda. (115)

12. mál, veiðar í erlendri fiskveiðilandhelgi

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég bið afsökunar á því að koma hér svona fljótt aftur upp. Um leið og ég endurtek að ég sé svo sannarlega ekkert athugavert við það að skoða það sem felst í þessari till. vil ég hins vegar lýsa því yfir, að ég er ákaflega ósammála því sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni. Satt að segja, því meira sem ég velti fyrir mér þessum reiknikúnstum, að stærð fiskveiðiflotans sé stærsta efnahagsvandamál íslensku þjóðarinnar, því minni skynsemi sé ég í þeim. Þegar menn jafnvel leyfa sér að deila í aflann með tonnatölu flotans, og fá þá meiri afla að sjálfsögðu per tonn eftir því sem tonnatala flotans verður minni, nær slíkt ekki nokkurri átt. En svona virðast mér í raun og veru dæmin gerð.

Að sjálfsögðu eykst ekki afli á þau skip sem eftir eru í sama hlutfalli og skipunum fækkar, því fer víðs fjarri. M.a. kemur það greinilega fram í því reiknimódeli sem verið er að vinna að og hv. þm. lét hefja vinnu við á sínum tíma. Ég vil halda því fram, að vandamálið sé of dýr skip. Það er miklu frekar það. Það er of mikið fjármagn í þessum nýju skipum.

Eitt mitt fyrsta verk, þegar ég tók við þessu starfi, var að breyta ákvörðun fyrirrennara míns og heimila endurnýjun á togaranum Guðbjörgu á Ísafirði. Það skip hefur borið að landi ómældan auð í íslenski þjóðarbú, gífurlegan auð, og þó að það sé eflaust að mati sumra syndsamlegt að hafa leyft þá endurnýjun í nokkuð stærra skipi tel ég það eitt af mínum betri verkum.

Ég hef nýlega skoðað verðsamanburð á Ottó Þorlákssyni og Guðbjörgu, ítarlegan samanburð sem Fiskveiðasjóður gerir. Þar kemur fram, að mati Fiskveiðasjóðs, að Ottó kosti 44% meira en Guðbjörg. Það munar um þann bagga. Ég hef svo sannarlega ekki á móti því að byggja skipin hér heima, vildi gjarnan hafa þau öll byggð hér heima, en það er ófært á meðan íslenskum skipasmíðastöðvum er ekki gert kleift að keppa við þær erlendu, m.a. vegna gífurlegs fjármagnskostnaðar, vaxtakostnaðar o.s.frv., sem hvílir á þeirri fjármögnun sem íslenskar skipasmíðastöðvar hafa aðgang að. Þarna held ég að sé langsamlega stærsti vandinn.

Ég hef áður getið þess, að aðeins h já þeim 15 togurum, sem skoðaðir voru sérstaklega og byggðir á árunum 1977–1980, kemur í ljós að fjármagnskostnaður umfram meðaltalið er 75 millj. kr. á ári að núvirði. Ef þetta er dregið frá batnar afkoma minni togaranna í heild um 4 prósentustig. Það munar hvorki meira né minna um þetta.

Einnig kemur í ljós að sú fjármögnun, sem íslenskar skipasmíðastöðvar hafa haft aðgang að, sem er í dollurum, bar á síðasta ári raunvexti, sem voru 23% fyrir ofan verðbólgu, 23% raunvextir. Það er alveg ljóst að engin útgerð fær borið slíkt. Það getur verið að Reykjavíkurborg geti greitt tapið af Ottó Þorlákssyni, sem er gífurlegt með slíkan fjármagnskostnað, en mörg minni sveitarfélög og minni staðir geta það alls ekki.

Ég vil þess vegna leyfa mér að halda því fram að þarna sé vandamálið, en alls ekki í of stórum flota, stórum flota sem þarf að fara vel með fiskinn og reyndar að ná meiri afla en við náum í dag.