15.02.1983
Neðri deild: 40. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1967 í B-deild Alþingistíðinda. (1726)

195. mál, viðmiðunarkerfi fyrir laun

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Áður en ég hef framsögu fyrir þessu frv. vil ég leyfa mér að tilkynna, að ríkisstj. hefur ákveðið samkv. tillögu forsrh. að kjördagur næstu alþingiskosninga verði eigi síðar en 23. apríl 1983.

Það frv. sem hér liggur fyrir er flutt af forsrh. í umboði ráðh. sjálfstæðismanna og framsóknarmanna. Ráðherrar Alþb. standa ekki að frv. og eru andvígir því. Það er rétt að segja hér nokkur orð um form þessa frv., sem hefur orðið nokkurt umræðuefni.

Í 25. gr. stjórnarskrár Íslands segir að forseti lýðveldisins geti látið leggja fyrir Alþingi frumvörp til laga og annarra samþykkta. Í greinargerð um túlkun á þessu ákvæði í þeirri kennslubók sem um langan aldur hefur verið notuð við lagadeild Háskóla Íslands, Stjórnskipun Íslands eftir Ólaf Jóhannesson, segir svo á bls. 259. með leyfi hæstv. forseta:

„Samkv. 25. gr. stjórnarskrár getur forseti lýðveldisins látið leggja fyrir Alþingi frv. til l. og annarra samþykkta. Það er ráðh., sem í reyndinni fer með þennan frumkvæðisrétt forseta, þó svo að fá skal formlegt samþykki forseta til framlagningar frumvarpa.“

Þetta á við hvort heldur ríkisstj. öll eða einstakir ráðherrar leggja frv. fram. Er frumkvæðisréttur stjórnarinnar að því leyti rýmri en einstakra þm. að hún getur jafnt lagt tillögur sínar fyrir hvora þingdeild sem er svo og Sþ.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er ekki ríkisstjfrv. í venjulegri merkingu þess að öll ríkisstj. standi að því. Það er frv. einstaks ráðh., forsrh., eins og skýlaus heimild er til og skýrt kemur fram í því riti sem ég hér vitnaði til. Ég vil að það komi hér alveg skýrt fram og á ekki að valda neinum misskilningi, að ríkisstj. stendur ekki öll að þessu frv., heldur sjö ráðh., en ráðh. Alþb. eru andvígir því og standa því ekki að frv.

Á undanförnum árum hafa miklar umr. átt sér stað um vísitölukerfið í sambandi við útreikning vísitalna, tengingu launa og annarra þjóðhagsstærða við vísitöluna. Í janúarmánuði 1982 ákvað ríkisstj. samhliða efnahagsaðgerðum að taka viðmiðunarkerfið til gagngerðrar endurskoðunar. Segir svo í skýrslu frá ríkisstj. í þeim mánuði:

Ríkisstj. mun nú þegar boða til viðræðna við samtök launafólks og aðra hagsmunaaðila atvinnulífsins um viðmiðunarkerfi, sem gæti komið í stað núverandi vísitölukerfis og tryggt kaupmátt og jöfnun lífskjara, en væri laust við höfuðókosti þess kerfis, sem nú gildir. M. a. verði reynt að finna leið til þess, að ráðstafanir til að jafna orkukostnað landsmanna valdi ekki aukinni verðbólgu.“

Í kjölfarið skipaði ríkisstj. þriggja manna nefnd til að annast viðræður við aðila vinnumarkaðarins og gera tillögur um nýtt viðmiðunarkerfi. Í nefndinni voru Þórður Friðjónsson formaður, Halldór Ásgrímsson og Þröstur Ólafsson. Bolli Þór Bollason, hagfræðingur hjá Þjóðhagsstofnun, hefur starfað með nefndinni.

Nefndin hóf störf í byrjun febr. 1982. Hún hélt fyrstu viðræðufundi með aðilum vinnumarkaðarins skömmu síðar. Síðar voru haldnir fjölmargir fundir með sömu aðilum. Í þessum viðræðum var farið yfir hugsanlega möguleika til að nálgast það markmið að finna nýtt viðmiðunarkerfi fyrir tengsl launa við verðlag, sem dregið gæti úr víxlhækkunum núverandi kerfis og jafnframt tryggt lífskjör. Það var vitað fyrir fram að verkefnið yrði á engan hátt auðvelt, enda var það staðfest fljótlega í viðræðunum. Margvísleg sjónarmið komu fram hjá viðræðuaðilum og varð fljótt ljóst að mikillar varfærni gætti hjá einstökum aðilum varðandi breytingar. Almennt var þó álitið að núverandi kerfi væri á ýmsan hátt gallað, en viðræðurnar voru þýðingarmikill vegvísir fyrir störf og tillögugerð nefndarinnar.

Í ágústmánuði s. l. voru ákveðnar hugmyndir lagðar af hálfu nefndarinnar fyrir hagsmunasamtökin. Þessar hugmyndir voru fólgnar í eftirfarandi fimm liðum, eins og kemur fram í grg. með þessu frv.:

1. Miðað verði við hinn nýja grundvöll vísitölu framfærslukostnaðar, sem byggður var á nýrri neyslukönnun.

2. Ný vísitala, lífskjaravísitala, yrði grunnur að nýju viðmiðunarkerfi fyrir laun. Þessi vísitala reiknast út frá vísitölu framfærslukostnaðar, auk þess sem tekið yrði tillit til breytinga á félagslegri þjónustu, útgjöldum til vegamála og tekjusköttum ríkisins á einstaklinga.

3. Búvörufrádráttur og meðferð áfengis- og tóbaksverðsbreytinga við útreikning verðbóta haldist óbreytt. Auk þess verði tekinn upp orkufrádráttur, þar sem breytingar á gjaldskrám raf- og hitaveitna verði dregnar frá hækkun eða lækkun framfærsluvísitölu við ákvörðun verðbóta.

4. Meðferð viðskiptakjara við útreikning verðbóta verði óbreytt.

5. Verðbætur greiðist á fjögurra eða sex mánaða fresti. Búvöruverð og fiskverð ákvarðist á sömu dagsetningum.

Í framhaldi af umræðum um ofangreind atriði ákvað ríkisstj. með efnahagsráðstöfunum í ágústmánuði að taka upp nýtt viðmiðunarkerfi með hliðsjón af framangreindum hugmyndum og skyldi það taka gildi við verðbótaútreikning eftir 1. des. 1982. Á þessum grundvelli starfaði nefndin síðan áfram. Hún lauk störfum 6. des. og skilaði niðurstöðum sínum til ríkisstj. Tveir nm., þeir Þórður Friðjónsson og Halldór Ásgrímsson. lögðu fram frv.-drög, sem byggð voru á þessum fyrrgreindu hugmyndum, sem samkomulag hafði náðst um þegar efnahagsráðstafanirnar voru gerðar í ágústmánuði. Einn nm., Þröstur Ólafsson, skilaði séráliti og er greint frá því í grg. frv. í hverju þau frávik voru fólgin.

Við frekari viðræður um þetta mál kom það upp varðandi 2. liðinn, að í stað hinnar svokölluðu lífskjaravísitölu skyldi tekin upp önnur aðferð í staðinn. Það er að breytingar á óbeinum sköttum og niðurgreiðslum skyldu ekki hafa áhrif á verðbótavísitölu.

4. febr. s. l., eftir miklar og langar viðræður milli stjórnaraðila um þetta vandasama mál, lagði ég fram tillögu til málamiðlunar í sex liðum. Eftir að það mál hafði verið kannað kom í ljós að Alþb. gæti ekki fallist á þann grundvöll eða þá málamiðlunartillögu. Eftir þá miklu vinnu sem lögð hefur verið í þetta stórmál núna í heilt ár og geysimiklu viðræður og tilraunir til samkomulags hlýt ég að játa að það voru mér mikil vonbrigði að ekki skyldi lánast að ná samstöðu milli stjórnaraðila. Hins vegar er svo mjög búið að kanna og ræða þetta mál og slík nauðsyn að reyna að afnema ýmsa agnúa hins sjálfvirka kerfis og vísitöluskrúfu, eins og ákveðið var að vinna að fyrir ári, að það var ekki unnt að láta svo búið standa og töldu ráðherrar sjálfstæðismanna og framsóknarmanna að leggja yrði málið fyrir Alþingi og fá þess úrskurð í því. Á ríkisstjórnarfundi í gær, 14. febr., lagði ég fram það frv. sem síðar um daginn var útbýtt á Alþingi og er flutt af forsrh. Ég lét þá í sambandi við það mál gera bókun, sem ég vil leyfa mér að lesa hér, með leyfi hæstv. forseta. Þessi bókun var gerð á ríkisstjórnarfundi í gærmorgun, sem hófst kl. 9 árdegis. Hún er á þessa leið:

„1. Frv. um nýtt viðmiðunarkerfi er samið og flutt í beinu framhaldi af yfirlýsingu ríkisstj. í jan. 1982 og ákvörðun hennar 21. ágúst um að tekið verði upp nýtt viðmiðunarkerfi fyrir laun með hliðsjón af hugmyndum viðræðunefndar um vísitölumál, þannig að verðbætur á laun verði greiddar samkv. nýju viðmiðunarkerfi eftir 1. des. 1982.

2. Frv. er mikilvægur þáttur í þeirri viðleitni til viðnáms gegn verðbólgu sem er eitt grundvallaratriði stjórnarsáttmálans og stríðir ekki á nokkurn hátt gegn honum. Frv. miðar að því að draga úr hraða verðbólgu og tryggja og treysta kjör launafólks og atvinnuvega.

3. Frv. verður ekki flutt sem ríkisstjórnarfrv., heldur flutt af forsrh. í umboði ráðh. sjálfstæðismanna og framsóknarmanna í ríkisstj.

Þetta var sú bókun sem ég lagði fram í gær á ríkisstjórnarfundi.

Með því frv., sem hér liggur fyrir, er leitast við að sníða nokkra ágalla af núgildandi vísitölukerfi. Sú kerfisbreyting, sem hér er gerð tillaga um, felur í sér annars vegar viðleitni í þá átt að draga úr víxlgangi launa og verðlags og hins vegar að auka svigrúm stjórnvalda til árangursríkrar hagstjórnar. Kerfisbreytingin er í meginatriðum fjórþætt:

1. Lagt er til að tekin verði upp viðmiðun við nýjan grundvöll framfærsluvísitölu. Með því ættu breytingar á framfærsluvísitölu, sem liggja til grundvallar breytingum á verðbótum, að gefa réttari mynd af raunverulegum breytingum á framfærslukostnaði heimilanna heldur en sá grundvöllur sem notaður hefur verið undanfarin 15 ár.

2. Lagt er til að gerð verði sú grundvallarbreyting á núgildandi verðbótatilhögun, að breytingar á óbeinum sköttum og niðurgreiðslum hafi ekki áhrif á greiðslu verðbóta á laun. Með þessu væri svigrúm hins opinbera til hagstjórnar aukið að mun frá því sem nú er.

3. Lagt er til að tekinn verði upp sérstakur orkufrádráttur. Þessi tillaga er í samræmi við þá áherslu sem lögð hefur verið á að ráðstafanir til jöfnunar orkukostnaðar og uppbyggingar í orkumálum örvi ekki víxlgang launa og verðlags.

4. Lagt er til að verðbætur greiðist á fjögurra mánaða fresti í stað þriggja. Með þessu verður dregið úr víxlgangi verðlags og launa og meira svigrúm gefst til að beita almennum hagstjórnartækjum á árangursríkan hátt.

Það er rétt að leggja áherslu á, að sú kerfisbreyting, sem hér er gerð tillaga um, felur ekki í sér takmarkanir á verðbótagreiðslum umfram það sem er að finna í núgildandi tilhögun. Þannig vegur orkufrádrátturinn í raun upp á móti minni búvörufrádrætti samkv. nýja framfærslugrundvellinum. Á móti lengingu verðbótatímabilsins kemur minni verðbólga og þar með minni kaupmáttarrýrnun milli útreikningsdaga vísitölunnar. Má ætla að kerfisbreytingin ein leiði til þess að verðbólgan frá upphafi til loka þessa árs verði a. m. k. 5 –6% lægri en að óbreyttu vísitölukerfi.

Í þessu sambandi er rétt að leggja á það áherslu, að með þessu frv. er í rauninni ekki verið að gera tillögur um skyndibreytingar, sem hafa mikil áhrif í bili, en hins vegar meir til frambúðar lagfæringar á þessu kerfi, afnám ýmissa agnúa. M. ö. o.: tilgangurinn er fyrst og fremst sá að draga úr víxlgenginu, sjálfvirkninni, án þess að það rýri á nokkurn hátt kjör eða kaupmátt fólksins í landinu, ætti þvert á móti að auka hann þegar frá líður.

Á kaupmátt og kjör launafólks í landinu eru oft og tíðum notaðir tveir kvarðar. Annars vegar kaupmáttur kauptaxta og hins vegar kaupmáttur ráðstöfunartekna. Það er auðvitað öllum mönnum ljóst fyrir langalöngu, að það er kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna sem fer miklu nær sanni um raunveruleg kjör fólksins í landinu heldur en kauptaxtarnir sér og einir, enda er það þannig, að oftast nær undanfarin ár hafa ekki aðeins stjórnvöld, heldur með fullu samþykki og samkomulagi við samtök launafólks fyrst og fremst miðað við kaupmátt ráðstöfunartekna, en ekki kauptaxta. Þetta lýsir sér m. a. í því, að ef menn vilja gera umbætur og tryggja kaupmátt fólksins í landinu, t. d. með skattbreytingum svo að maður nefni eitt dæmi, þá segir það auðvitað til sín í kaupmætti ráðstöfunartekna, en ekki í kaupmætti tímakaups.

Í annan stað er það ljóst, að ráðstafanir til að tryggja næga atvinnu í landinu koma ekki fram í kaupmætti taxtakaups, en hins vegar varðandi ráðstöfunartekjurnar. Og vissulega skiptir það nú ekki litlu máli, heldur kannske meginmáti fyrir launamenn að komið sé í veg fyrir atvinnuleysi, að svokallað atvinnustig minnki ekki um of, heldur að nægri atvinnu sé viðhaldið. Þannig má telja upp mörg önnur dæmi, svo sem vaxtamál og annað, sem eru verulegir þættir í útgjöldum launafólksins.

Nú er það löngum viðurkennt af verkalýðssamtökum, að verðbólgan sé mjög mikilvægur þáttur í afkomu fólksins, vaxandi verðbólga fari verst með launafólkið og einkum láglaunafólkið, minnkandi verðbólga sé út af fyrir sig kjarabót fyrir fólkið. Um þetta standa í rauninni engar deilur lengur, og kemur þetta m. a. fram í samþykktum á ráðstefnum verkalýðssamtaka á undanförnum árum. Ég vil nefna kjaramálaráðstefnu Alþýðusambands Íslands frá 1979 og samþykktir frá þingi Verkamannasambands Íslands frá 1981, þar sem sérstök áhersla er lögð á þessi sjónarmið. Þess vegna er það eitt út af fyrir sig, ef unnt er að koma í veg fyrir að vöxtur verðbólgu verði minni en ella, ég tala nú ekki um ef hægt er að vinna beinlínis að hjöðnun verðbólgu, þá er það út af fyrir sig kjarabót fyrir verkalýðinn og launþega. Þegar menn ræða því um áhrif þessa frv. á kaupmátt launamanna bið ég menn um að hafa þetta í huga, að það má ekki líta á kaupmátt kauptaxtanna eina því að þeir segja ekki fullkomna sögu af þessu, heldur þarf að líta á kaupmátt ráðstöfunartekna.

Ég vil í þessu sambandi minna á það, að þegar efnahagsráðstafanir voru gerðar um áramótin 1980/1981 var gerð um það áætlun í byrjun ársins eða snemma ársins 1981 af hálfu Þjóðhagsstofnunar hversu báðar þessar aðferðir við kaupmáttarútreikning kæmu út eða mundu koma á því ári. Eftir þessar efnahagsaðgerðir um áramótin er það mat Þjóðhagsstofnunar að kaupmáttur kauptaxta mundi á árinu rýrna um 2.3%. Þegar árið var á enda kom í ljós að rýrnunin hafði ekki orðið 2.3%, heldur 1%. Þetta er varðandi kaupmátt kauptaxtanna.

Varðandi kaupmátt ráðstöfunartekna var það spá Þjóðhagsstofnunar, eins og kemur fram í riti hennar Þjóðarbúskapnum í apríl 1981, að kaupmáttur ráðstöfunartekna mundi eftir þessar efnahagsaðgerðir verða svipaður á árinu 1981 og hann hafði verið á árinu 1980, ekki rýrnun, ekki aukning. Þegar árið var á enda kom í ljós að kaupmáttur ráðstöfunartekna hafði ekki staðið í stað, heldur hafði hann aukist um 4.3%. Og þegar menn nú spyrja: Hvernig stendur á því að kaupmáttur varð svona að töluverðu leyti á annan veg en þessi stofnun hafði gert ráð fyrir?, þá er svarið væntanlega fyrst og fremst það, að hjöðnun verðbólgunnar á árinu 1981 úr um 60 niður í um 40% hafði í þessum áætlunum verið vanmetin eða áhrif hennar.

Þegar við nú metum áhrif þessara ráðstafana, sem hér er lagt til að gerðar séu, vil ég í fyrsta lagi láta í ljós þá sannfæringu mína, að þessar breytingar mundu verða til mikilla bóta, — nokkurra bóta nú á þessu ári, en meiri í framtíðinni, — með því að draga úr sjálfvirkni og víxlgengi og þar með draga úr verðbólgu. Sú hjöðnun verðbólgu sem af þessu leiddi mundi því, eins og reynslan sýnir m. a. frá árinu 1981 og viðurkennt er af samtökum launþega, verða til þess að auka og treysta kaupmátt ráðstöfunartekna. Og ekki síst mundu þær verða til þess að örva atvinnulífið, draga úr þess örðugleikum, en það er auðvitað forsenda þess að afkoma launþega verði í sem bestu lagi.

Það er ennfremur sannfæring mín, að þessar ráðstafanir samkv. frv. muni á engan hátt draga úr kaupmætti ráðstöfunartekna heimilanna, heldur þegar frá líður verða til að treysta hann og auka.

Herra forseti. Ég læt þessi inngangsorð nægja með þessu frv. og vísa að öðru leyti til ítarlegrar grg. og fskj. með því. Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.