01.03.1983
Sameinað þing: 59. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2378 í B-deild Alþingistíðinda. (2128)

Um þingsköp

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Þetta er einhver furðulegasta ræða sem ég hef heyrt hér á hinu háa Alþingi. Fyrst vil ég leiðrétta hv. þm. Vilmund Gylfason um það, að ég hafi kosið hann til trúnaðarstarfa í þær þingnefndir sem hér er um að ræða. Það get ég ekki. Ég sit í Ed., hann situr í Nd. Ég skil ekki hvers konar útúrsnúningur og undansláttur þetta er. Ég kom hér til að lýsa mínum persónulegu skoðunum og lýsti þeim hér með þeim hætti að hann virðist hafa tekið þá ákvörðun að segja sig úr þessum nefndum. En að ég hafi kosið hann til þessara trúnaðarstarfa, það er út í hött. (Gripið fram í.) Þetta eru bara útúrsnúningar. hv. þm. Ég vil bara ítreka það hér að sú ræða sem hér var flutt áðan hlýtur að verða geymd í þingsögunni sem ein sú furðulegasta sem hér hefur verið haldin. En allt sem sagt hefur verið um löglegheitin og siðleysið stendur.