02.03.1983
Neðri deild: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2446 í B-deild Alþingistíðinda. (2221)

111. mál, Tónskáldasjóður Íslands

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Þetta mál kom fyrir þingið síðla, ef ég man rétt, á síðasta þingi og var þá flutt af sömu flutningsmönnum. Þá sagði ég nokkur orð um þetta frv. og hafði ekki annað en allt jákvætt um það að segja og geri það enn.

Hér hefur það borið nokkuð á góma í ræðu hv. frsm. menntmn. að listamannalaunin kunni að vera úrelt. Ég er frsm. alveg sammála um að svo sé, og ég held að það sé mjög mikil nauðsyn einmitt að taka þau mál til athugunar, vegna þess að listamannalaunin, eins og þau eru nú og hafa reyndar verið, hafa verið stórlega gagnrýnd af úthlutunarnefnd nú nýlega. Það er hverju orði sannara að þau geta varla átt langa lífdaga úr þessu. Ef ég man rétt kom ég einmitt inn á þetta atriði, þegar umr. fóru fram um þetta mál í fyrra, að það væri full ástæða til að taka til endurskoðunar laun listamanna og hvernig listamenn hljóta styrki eða laun af opinberu fé. Ég held sem sagt að það sé kominn tími til þess að það verði gert. Þetta frv. og ýmis fleiri, sem fram hafa komið, stefna í þá átt að slík endurskoðun eigi sér stað. En vafalaust mun eðlilegt að þessi mál verði endurskoðuð skipulega, og að því mun ég einmitt hyggja og ekki síst eftir að hafa fengið þá miklu gagnrýni á úthlutun listamannalauna frá nefnd þeirri, sem Alþingi hefur kosið til þeirra hluta, nú alveg nýlega.