08.03.1983
Neðri deild: 55. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2699 í B-deild Alþingistíðinda. (2556)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Þessi umr. um frv. til stjórnskipunarlaga er nú að lokum komin og margt er búið að segja og kannske misjafnlega gáfulegt. Ég vildi, vegna þess að nú lýkur þessari umr. senn, aðeins ítreka þær skoðanir sem ég lét í ljós við 1. umr. málsins. Þó vil ég áður en ég geri það taka það fram að mér hefur fundist sem margar af þeim ræðum sem hér hafa verið fluttar hafi verið þess eðlis að þeim fylgi nokkur hætta á því að menn séu að reyna að reka fleyg á milli þéttbýlis og dreifbýlis í þessu landi og það er ákaflega hættuleg stefna og hættulegur leikur sem menn leika þar. Ef ræður af því tagi sem við höfum heyrt hér, annars vegar frá fulltrúum þéttbýlis og hins vegar fulltrúum dreifbýlis, eiga að ná fram og t. d. í lagaformi, þ. e. innihald þeirra kæmist í lagaform á einhvern hátt, þá óttast ég mjög um afdrif þessarar þjóðar.

Ég vil segja það og endurtaka, sem ég sagði við 1. umr., að ég harmaði það mjög þegar mér varð ljóst að hv. formenn flokkanna væru að skila — forseti, væri nokkur leið að fá hljóð, sérstaklega úr stóli forseta? Ég veit að mönnum er heitt í hamsi hér og hér hafa fallið mörg orð og þung, og sérstaklega á milli ákveðinna þm. ákveðins kjördæmis, en þeir geta bara beðið til kvöldsins. — Það sem ég var að segja var það, að þegar mér var ljóst að formenn flokkanna væru eingöngu að ræða kjördæmamálið og ætluðu sér eingöngu að skila frv. um kjördæmamálið varaði ég mjög við því og sagði strax að ég mundi ekki taka þátt í afgreiðslu þess máls einfaldlega vegna þess að ég teldi að þar með væri gengið frá mikilvægasta þættinum, þ. e. breytingunum á stjórnarskránni, sem var svo nauðsynlegt að koma fram.

Ég er þeirrar skoðunar, að menn hafi ofgert því hvaða réttindum fólk nær fram með þeim breytingum sem hér er lagt til að þingið samþykki. Ég er þeirrar skoðunar að það hefðu náðst fram miklu veigameiri og miklu fjölþættari réttindamál þjóðarinnar með því að gera breytingar á stjórnarskránni. Ég skal nefna nokkur dæmi máli mínu til stuðnings. Það eru málefni minnihlutahópa, sem hefðu þurft að ná fram í sambandi við breytingu á stjórnarskránni. Það er ákvæði um þjóðaratkvæði, sem ég tel stórt og mikilvægt jafnréttismál. Það eru ákvæði um að negla inn í stjórnarskrána orðin lýðræði, þingræði og jafnrétti. Það eru ákvæði um hvernig meiri hl. skal vera til þess að ríkisstj. geti starfað í landinu. Það eru ákvæði um þingrofsrétt. Það eru ákvæði um rétt til útgáfu á brbl. Það eru ákvæði um eina málstofu. Það eru ákvæði um sjálfstæði sveitarfélaga. Það eru ákvæði um eignarrétt á landi. Það eru ákvæði um sjálfstæði sveitarfélaga, sem ég hef líklega nefnt, og þannig mætti lengi telja.

Erindi mitt hingað upp var fyrst og fremst að segja í örfáum orðum það sem var kjarni í ræðu minni, sem ég flutti við 1. umr. og varð þess valdandi að ég treysti mér ekki til að taka þátt í afgreiðslu þessa máls einfaldlega vegna þess að það frv. sem hér liggur fyrir felur í sér tvennt: Að vísu nokkurn jöfnuð á milli flokka og nokkurn jöfnuð á atkvæðum manna hvar sem þeir búa á landinu, en engu að síður hefur verið sleppt því tækifæri sem gefst til þess að gera umtalsverðar breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins. Ég harma mjög að það skyldi ekki takast og ég tel að það hafi kannske verið fremur fyrir ósamlyndi manna að það ekki tókst en nokkuð annað. Þess vegna, eins og ég lýsti yfir í upphafi, get ég ekki staðið að afgreiðslu þessa máls. Það vildi ég að kæmi fram í þingtíðindum nú þegar þetta mál er að komast á lokastig.

Herra forseti. Ég hef ekki meira um þetta að segja.